Um 70.900 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í desember síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 17.100 fleiri en í desember 2014.
Aukningin nemur 31,9 prósent milli ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ferðamálastofu.
Fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll var því um 1.262.000 á árinu 2015. Gera má ráð fyrr að tölurnar nái til um 97 prósent ferðamanna sem hingað komu, samkvæmt tilkynningunni. Ótaldir eru þeir sem komu um aðra millilandaflugvelli, farþegar Norrænu og skemmtiferðaskipa, en heildaruppgjör fyrir árið mun liggja fyrir síðar í mánuðinum.
Þegar einstaka mánuðir eru skoðaðir sét, að mesta fjölgunin er utan sumarmánaða. Mesta fjölgunin milli ára var í október, en 49,3 prósent fleiri ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í þeim mánuði í fyrra en árið á undan.
Heilt yfir var fjölgunin eftirfarandi, skipt niður á mánuði:
• 34,5% í janúar
• 34,4% í febrúar
• 26,8% í mars
• 20,9% í apríl
• 36,4% í maí
• 24,2% í júní
• 25,0% í júlí
• 23,4% í ágúst
• 39,4% í september
• 49,3% í október
• 34,1% í nóvember
• 31,9% í desember
Bretar og Bandaríkjamenn 51,5% ferðamanna
Um 76 prósent ferðamanna í desember síðastliðnum voru af tíu þjóðernum, að því er segir í fréttatilkynningunni. Bretar voru langfjölmennastir eða 34,3% af heildarfjölda og næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn (17,2%). Þar á eftir fylgdu Kínverjar (6,8%), Pólverjar (3,8%), Þjóðverjar (2,9%), Japanir (2,5%), Danir (2,3%), Frakkar (2,3%), Norðmenn (2,0%) og Kanadamenn (2,0%).
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum mest milli ára í desember en 6.700 fleiri Bretar komu í desember í ár en í fyrra, um 5.400 fleiri Bandaríkjamenn og um 1.900 fleiri Kínverjar. Þessar þrjár þjóðir báru uppi 81,9% aukningu ferðamanna í desember.
Fjöldi ferðamanna í desember á tímabilinu 2002-2015
Ferðamönnum í desember hefur fjölgað verulega frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli árið 2002 og þá einkum síðastliðin fjögur ár. Þannig hefur heildarfjöldi ferðamanna í desembermánuði meira en þrefaldast frá árinu 2011 og munar þá mestu um aukningu Breta sem hafa meira en fimmfaldast, N-Ameríkana sem hafa meira en fjórfaldast og þeirra sem flokkast undir ,,önnur þjóðerni“ sem hafa nærri fjórfaldast. Ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu hafa á sama tíma tvöfaldast en Norðurlandabúum hefur einungis fjölgað lítilsháttar.
Tæplega 1,3 milljón á árinu
Á árinu 2015 fóru tæplega 1,3 milljónir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll eða um 292.700 fleiri en á árinu 2014. Um er að ræða 30,2% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum nema Norðurlöndunum sem hafa staðið í stað. Aukningin hefur verið 51,6% frá N-Ameríku, 33,5% frá Bretlandi, 19,6% frá Mið- og S-Evrópu og 41,7% frá öðrum löndum sem ekki eru talin sérstaklega og flokkast undir ,,annað“.
Ferðir Íslendinga utan
Um 32.900 Íslendingar fóru utan í desember síðastliðnum eða um 4.800 fleiri en í desember árið 2014. Á árinu 2015 fóru um 450.300 Íslendingar utan eða um 50.300 fleiri en á árinu 2014. Aðeins einu sinni áður hafa ferðir Íslendinga utan verið fleiri á einu ári en það var árið 2007.