Mjög skiptar skoðanir eru um það meðal þingmanna hvort eðlilegt sé að stunda nám meðfram þingstörfum eða ekki. Þetta kemur fram í svörum við fyrirspurn sem Kjarninn sendi á alla alþingismenn um það hvort þeir stundi nám meðfram þingstörfum og hvort þeim þykja nám og þingstörf fara vel saman. 44 þingmenn hafa svarað fyrirspurninni.
Af þessum 44 þingmönnum eru þrír í námi, þau Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins, Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar og Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingarinnar. Silja er í fjarnámi við Háskólann á Bifröst þar sem hún stundar nám á meistarastigi í alþjóðaviðskiptum, „sem rímar einstaklega vel við störf mín á Alþingi þar sem ég á sæti í utanríkismálanefnd. Námið er skipulagt fyrir fólk í fullu starfi, það er því mjög sveigjanlegt og hentar vel með þingstörfum sem og öðrum störfum,“ segir Silja Dögg. Hún segir námið vera hennar eina áhugamál, og nauðsynlegt sé að eiga áhugamál til að hvíla hugann á pólitíkinni.
Róbert er einnig í fjarnámi, sem hann segir að sé líklega um 20% nám. Hann skráði sig í kúrsa í náttúru- og umhverfisfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í haust, eftir að hann lét af þingflokksformennsku fyrir Bjarta framtíð. „Kúrsarnir sem um ræðir tengjast með beinum hætti störfum mínum sem þingmaður. Í umhverfisnefnd, Þingvallanefnd og stjórnarskrárnefnd hefur nám í siðfræði náttúrunnar og landnýtingu dýpkað skilning minn á viðfangsefninu. Ég hef litið á þetta sem hluta af minni vinnu og þetta hefur gagnast mér þar.“ Hann segir að hann hafi enn sem komið er aðeins lokið einu prófi, enda hafi frítími hans ekki boðið upp á meira. Hann segist eiga erfitt með að ímynda sér að nokkur vinnuveitandi geri annað en að fagna því að starfsmenn reyni að gera sig betri í starfi.
Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingarinnar er í MBA námi við Háskólann í Reykjavík og hyggst ljúka því í vor. Hún segir skipulag námsins henta ágætlega með þingstörfum, þar sem kennt sé aðra hverja helgi og annir séu í styttra lagi. „Þannig er skólinn t.d. yfirleitt búinn þegar desember- og vorhasarinn hefst með tilheyrandi þingfundum um kvöld og helgar. Í þau skipti sem árekstur hefur orðið hefur vinnan gengið fyrir og það mætt skilningi í náminu. Svo læri ég á kvöldin og áður en haninn galar á morgnana! Nýti sumsé drjúgan hluta frítíma míns í að auðga andann og sé ekki eftir því.“
Elsa Lára hætti vegna álags og Karl lauk meistaranámi meðfram þingstörfum
Elsa Lára Arnardóttir þingmaður Framsóknarflokksins var í námi í eina önn samhliða þingstörfum, „en hætti því því mér fannst þetta of mikið álag samhliða vinnunni.“ Hún var að læra stjórnun og forystu í fjarnámi frá Háskólanum á Bifröst. Hún segir að hennar mati fari þingstörf og nám ekki vel saman, „þess vegna hætti ég.“
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins lauk meistaranámi í lögfræði í vor meðfram þingstörfum. Hann telur að þingmönnum geti verið það hollt að stunda nám samhliða þingstörfum.
Karl Garðarson þingmaður Framsóknarflokksins er ekki í námi núna en lauk hins vegar ML gráðu í lögfræði um mitt síðasta ár frá Háskólanum í Reykjavík. „Slíkt nám fór vel saman við þingstörfin, þar sem síðasta hálfa árið var ég fyrst og fremst í ritgerðasmíð. Lögfræðin nýtist þingmönnum afar vel, enda er lagasetning hlutverk okkar.“
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins var einmitt leiðbeinandi Karls í meistararitgerðarskrifum hans. Brynjar er ekki í námi en er stundakennari við Háskóla Íslands. Hann segir að þingstörf og nám geti farið vel saman og sé í raun æskilegt að stundað sé nám með vinnu ef því verði viðkomið, þótt takmörk séu fyrir því. „Mér sýnist að þeir þingmenn sem hafa stundað nám með þingstarfinu hafi staðið vel við sínar skyldur sem þingmenn og ekkert síður en aðrir,“ segir hann.
Þingstörf sólarhringsstarf ef vel á að vera
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir það meira en fullt starf að sinna þingstörfunum „eins og ég reyni að gera sem best.“ „Ég stunda ekkert nám með þingmennskunni enda er mér ómögulegt að skilja hvernig það er gerlegt,“ segir Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar. Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata tekur í sama streng og segir „þingstörf hafa alltaf verið síðan ég fór á þing meira en 100% vinna.“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG segist telja þingstörfin taka allan hennar tíma og Willum Þór Þórsson þingmaður Framsóknarflokksins segist ekki geta ímyndað sér að þingstörf og nám fari vel saman „án þess að það komi niður á öðru hvoru námi eða starfi.“ Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir þingmennskuna nánast sólarhringsstarf ef vel á að vera og í sama streng tekur Kristján Möller flokksbróðir hennar, sem segir þingstörf fullt starf „og stundum meira en það.“
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir samflokkskona Sigríðar og Kristjáns segist vita af eigin reynslu að það sé erfitt að stunda nám með annarri vinnu. Sérstaklega hljóti svo að vera með þingstörf, sem séu mjög tímafrek og krefjandi. „Ég hef þó engar athugasemdir við það að fólk stundi nám með þingstörfum, ef það treystir sér til, og svo framarlega sem það sinnir sinni vinnu eins og til er ætlast.“
Enginn hneykslast á líkamsrækt eða fjölskyldulífi
Í sama streng taka fleiri þingmenn, sem telja ekkert athugavert við að stunda nám eins og önnur áhugamál.
Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar framtíðar segist hafa haft meistaranám sitt í hagfræði „á pásu“ síðan hann var kjörinn á þing. Hins vegar geti nám og þingstörf farið vel saman ef fólk er skipulagt. „Ég held að það sé mjög af hinu góða ef þingmenn sækja sér fróðleik og menntun samhliða þingstörfum, svo lengi sem það bitnar ekki á þingstörfunum. Held raunar að nám geti fremur bætt þau.“
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG segir að þingmennska hafi reynst honum fullt starf. „En með því er ég ekki að fordæma að aðrir þingmenn noti lausar stundir, ef þeir finna þær einhverjar, til að auka við menntun sína.“
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata segist leggja eins mikla stund á óformlegt nám og hann geti þótt hann sé ekki í neinu formlegu námi. „Þingstörf fara almennt illa með öllu,“ segir hann um það hvort nám og þingstörf fari saman. Þó megi haga formlegu og óformlegu námi með mjög sveigjanlegum hætti og því sé ekkert því til fyrirstöðu að fólk stundi nám meðfram þingstörfum. „Enginn virðist hneykslast á því að þingmenn geti stundað líkamsrækt, áhugamál eða fjölskyldulíf meðfram þingstörfum og því átta ég mig ekki alveg á því hvers vegna fólk er hneykslað yfir námi meðfram þingstörfum, sérstaklega vegna þess að nám er ekki tímasóun heldur þekkingaröflun sem ég hefði haldið að myndi hjálpa til við þingstörfin heldur en hitt. Það eru mörg vandamál á Alþingi, en það að þingmenn eyði of miklum tíma í að leita sér þekkingar er ekki eitt af þeim.“