Nauðasamningar Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafa allir verið samþykktir og afgreiddir af kröfuhöfum og dómstólum. Stöðugleikaframlögin sem slitabú þeirra hafa samþykkt að greiða, og nema samtals um 350 milljörðum króna, eru tilbúin og bíða þess að vera færð rikissjóði, en slík greiðsla er forsenda þess að kröfuhafar búanna geti fengið greitt.
Það er einungis eitt vandamál til staðar. Félagið sem á að taka við stöðugleikaframlögunum er ekki tilbúið og nauðsynlegar breytingar á lögum til að heimila stofnun þess hafa ekki verið kláraðar. Því er greiðsla stöðugleikaframlaga á bið.
Félag í eigu Seðlabankans á að taka á móti greiðslum
Þann 11. desember síðastliðinn lagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Sú breyting sem verið er að gera er í raun ekki flókin. Með henni er Seðlabanka Íslands gert kleift að stofna félag sem tekur við stöðugleikaframlögum föllnu bankanna. Um er að ræða viðbótarbreytingu á lögum við breytingar sem gerðar voru sumarið 2015, í kjölfar þess að stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun hafta.
Nokkrum dögum áður en þingi var slitið í desember síðastliðnum, þegar slitabúin voru hvert af öðru að gera sig tilbúin til að greiða stöðugleikaframlögin, var lagt fram frumvarp sem hefur þann tilgang að skýra með ítarlegri hætti heimildir og skyldur þeirra sem að ferlinu koma frá því að stöðugleikaframlögin eru mótttekin og þar til að þau eru seld eða þeim ráðstafað með öðrum hætti.
Samkvæmt því á félag í eigu Seðlabankans að verða falið að „annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum, í stað þess að ráðherra sé heimilt að fela „sérhæfðum aðila sem starfar í umboði bankans“ verkefnin.“
Umsagnaraðilar þurfa að skila fyrir 18. janúar
Ekki tókst að afgreiða breytingartillöguna fyrir lok síðasta þings en hún var tekin til fyrstu umræðu 18. desember og rædd í 50 mínútur. Í kjölfar þess gekk málið til efnahags- og viðskiptanefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir um það 6. janúar síðastliðinn. Þeir sem vilja skila inn umsögn um breytinguna hafa þangað til 18. janúar til að skila henni inn. Eftir að efnahags- og viðskiptanefnd fer yfir þær umsagnir mun hún afgreiða málið til annarrar og þriðju umræðu í þinginu. Það ætti samkvæmt öllum formlegum ferlum að taka nokkra daga hið minnsta.
Því er enn nokkur bið á því að slitabú föllnu bankanna geti innt stöðugleikaframlögin sem þau hafa samþykkt að greiða, og eru með tilbúin til útgreiðslu, af hendi. Þegar þessu ferli er lokið munu slitabúin geta greitt kröfuhöfum sínum út hlutdeildarskirteini og reiðufé og breyst í venjuleg eignarhaldsfélög, líkt og nauðasamningar þeirra gera ráð fyrir.
Lítið reiðufé, mikið af eignum
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga, sem birt var í kjölfar þess að fjárlögin voru afgreidd út úr nefndinni til samþykktar nokkrum dögum fyrir síðustu jól, kemur fram að ríkið muni tekjufæra samtals 348,3 milljarða króna vegna stöðugleikaframlaganna. Þar munar langmest um 95 prósent hlut í Íslandsbanka sem metinn er á 184,7 milljarða króna. Samkvæmt því verðmati er búist við að Íslandsbanki, að meðtöldum þeim fimm prósent hlut sem ríkið heldur þegar á, seljist fyrir meira en sem nemur eigin fé hans, en það er um 193 milljarðar króna.
Önnur stærsta eignin sem ríkinu verður afhend er 84 milljarða króna skuldabréf frá slitabúi Kaupþings með veði í Arion banka. Það greiðist væntanlega ekki fyrr en bankinn hefur verið seldur en nýir stjórnendur Kaupþings munu fá allt að þrjú ár til að gera það.
Svo þarf náttúrulega að taka tillit til þess að slitabúin greiða ekki lengur bankaskatt, og það mun lækka tekjur ríkisins um 17 milljarða króna. Auk þess verður ríkið af vaxtatekjum af víkjandi lánum en fær á móti auknar arðgreiðslur frá Íslandsbanka og vaxtatekjur af skuldabréfinu frá Kaupþingi. Allt í allt lækkar þetta stöðugleikaframlögin um 9,4 milljarða króna. Þau verða því samtals 338,9 milljarðar króna. Af þeirri upphæð mun 41,8 milljarðar króna berast í greiðslum þegar ofangreitt félag, sem á að taka við stöðugleikaframlögunum, verður loks til. Þ.e. beinhörðum peningum. Afgangurinn er í formi eigna.