Margir jókerar í forsetakaplinum
Þingmenn, rithöfundur, fyrrverandi verkefnastjóri í Stjórnarráðinu og yfirmaður hjá einum stærsta fjölmiðli landsins halda öllu opnu um forsetaframboð. Þingforseti og Stuðmaður blása á sögusagnir. Kosningabarátta almennings er hafin á samfélagsmiðlum.
Forsetatíðin er að ganga í garð. Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti á nýjársdag að hann ætli ekki að bjóða sig fram í fjögur ár til viðbótar hefur töluverður fjöldi nýrra frambjóðenda sprottið fram á sjónarsviðið.
Það er samt hálft ár í kosningar. Þær fara fram 25. júní næstkomandi, eins og lög gera ráð fyrir. Nú þegar hafa nokkrir tilkynnt um framboð: Þorgrímur Þráinsson rithöfundur, Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur, Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Friðar 2000, Hildur Þórðardóttir þjóðfræðingur, Ari Jósepsson skemmtikraftur og Sturla Jónsson bílstjóri.
Vilja skapa spennu í kring um sig
Jón Gnarr, dagskrárstjóri 365 og fyrrverandi borgarstjóri, sagði í samtali við Kjarnann í vikunni, að hann ætli að tilkynna hvort hann ætli í framboð í einum af miðlum 365 á föstudaginn næstkomandi. Myllumerkið #bestastaðir er komið í umferð á Twitter.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur verið orðaður við framboð, en hann hefur ekki viljað svara hvort hann sé að íhuga það.
Þá gekk sá orðrómur inni á Alþingi að Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hafi mögulega áhuga á því að verða annars konar forseti, það er forseti Íslands. Einar þvertekur þó fyrir það í samtali við Kjarnann. Það sama gerir Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður og Miðborgarstjóri, sem hefur einnig verið orðaður við embættið.
Mikið hefur verið rætt um þau Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, og Andra Snæ Magnason rithöfund í tengslum við embættið. Katrín er einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir og Andri Snær hefur látið mikið til sín taka í þjóðmálaumræðu, einkum á sviði umhverfismála. Hvorugt vill útiloka framboð.
Stefán Jón Hafstein segist í samtali við Kjarnann enn vera að hugsa málið. Hann vill sjá hvort hugmyndir hans um embættið fái undirtektir áður en hann ákveður sig.
Þá hafa þau Hrannar Pétursson, fyrrverandi verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu og upplýsingafulltrúi Vodafone, og Halla Tómasdóttir, athafnakona og einn stofnenda Auðar Capital, bæði lýst því yfir að þau séu sterklega að íhuga að bjóða sig fram til forseta. Hrannar vildi ekki staðfesta framboð í samtali við Kjarnann, en býst við því að hann taki ákvörðun bráðlega. Halla Tómasdóttir hefur ekki látið ná í sig.
Kosningabarátta þeirra óviljugu
Samfélagsmiðlarnir hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja. Samkvæmt lauslegri samantekt Kjarnans er að finna að minnsta kosti 20 Facebook-síður þar sem skorað er á ýmsa þjóðþekkta, og nokkra minna þekkta, einstaklinga til að bjóða sig fram á Bessastaði 2016.
Stuðningssíða Jóns Gnarr er með langflesta fylgjendur, yfir 6.120, en þetta er líka langelsta framboðssíðan á Facebook og hefur verið uppi síðan í maí 2014, í rúmt eitt og hálft ár. Áskorunarsíða helguð Ólafi Ragnari, Hvetjum Ólaf Ragnar til að gefa kost á sér til forsetakjörs 2016, er með næst-flesta fylgjendur, tæpa 2.000. Framboðssíða Höllu Tómasdóttur þar sem skorað er á hana, er í þriðja sæti, með rúm 1.350 like. Leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir er líka með fjölmenna stuðningssíðu, en rúmlega 1.150 hafa líkað við hana.
Meðal annarra framboðssíðna á Facebook, misfjölmennar þó, má nefna stuðningssíður Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra (tæp 1.000 like), sem ber titilinn Kónginn á Bessastaði, og Jóns Þórs Ólafssonar, fyrrverandi þingmanns Pírata (tæp 480 like), Guðrúnar Hafsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Kjörís (um 400 like), Þóru Arnórsdóttur, ristjóra Kastljóssins og fyrrverandi forsetaframbjóðanda (tæpir 340 fylgjendur), Ómars Ragnarssonar fjölmiðlamanns (um 180 like), Páls Óskars Hjálmtýssonar tónlistarmanns (um 170 like), Ómars Valdimarssonar, fyrrverandi blaðamanns, (um 110 like), en hann var að íhuga framboð síðasta sumar, Margrétar Friðriksdóttur, frumkvöðlafræðings og stuðningskonu PEGIDA á Íslandi, (um 105 fylgjendur), Hafliða Breiðfjörð, framkvæmdastjóra Fótbolta.net, (um 60 fylgjendur) og Eddu Andrésdóttur, fjölmiðlakonu (um 30 fylgjendur).
Ég drekki mér í mógröf
Fleiri síður en formlega stuðningssíðan hafa sprottið upp í kring um Ólaf Ragnar, misvinsamlegar. Fylgjendur þeirra fjölmennustu, Ólafur Ragnar Grímsson - forseti til 2016 (1.150 like) og Við viljum að Ólafur Ragnar verði áfram forseti (um 800 meðlimir) vilja að hann láti af embætti, þó að titill þeirra síðarnefndu gefi annað til kynna. Lýsingin á þeirri síðu er: „Hann á þennan hóp ekki skilið”.
Mótvægið við þann hóp er væntanlega stuðningshópurinn Við viljum að Ólafur Ragnar verði áfram forseti (um 240 meðlimir) með slagorðið „Hann á þennan hóp skilið”. Svo er einn sem ber hinn látlausa titil „Ég drekki mér í mógröf ef Ólafur Ragnar verður aftur forseti" (um 120 meðlimir). Svo er umræðusíðan Hlutverk forseta (430 meðlimir) þar sem almennar hugleiðingar um embættið eru viðraðar á mismálefnalegan hátt.
Og nú er bara að halla sér aftur og njóta, eða hundsa, ölduganginn sem á eftir að skella á íslensku þjóðinni næsta hálfa árið eða svo. Vigdís Finnbogadóttir tilkynnti sitt framboð í byrjun febrúar 1980 og síðasta kosningabarátta Ólafs Ragnars fór ekki á fullt síðast fyrr en í mars. Nægur er tíminn.