Tæplega níu þúsund börn á Íslandi líða efnislegan skort þegar kemur að húsnæðinu sem þau búa í. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar UNICEF á Íslandi, en rannsóknin var kynnt í morgun.
Staðan á húsnæðismarkaði hefur mikil áhrif á velferð barna, og UNICEF segir stöðu leigjenda hér á landi vera sérstakt áhyggjuefni. Mikil munur er á stöðunni eftir því hvort börnin búi í leiguhúsnæði foreldra eða í eigin húsnæði foreldra. Næstum eitt af hverjum fimm börnum, eða 19% barna á leigumarkaði, liðu skort samkvæmt nýjustu tölum, sem eru frá árinu 2014, sem er þrefalt meira en árið 2009. Ef foreldrarnir eiga húsnæðið er hlutfall barna sem líða skort í húsnæðismálum 6,2%. Ef foreldrarnir leigja eru börnin jafnframt líklegri til að líða skort á öllum öðrum sviðum sem mæld eru.
Þröngbýli hefur aukist verulega og er algengasta ástæða þess að börn búa við skort þegar kemur að húsnæði. Einnig er algengt að ekki komi næg dagsbirta inn um glugga húsnæðisins.
Heildarskortur barna meira en tvöfaldast
Börn teljast líða skort ef þau skortir tvennt eða fleira af því sem spurt er um í lífskjararannsókn Evrópusambandsins, sem Hagstofa Íslands hefur umsjón með hér á landi. Tvær kannanir hafa verið gerðar á lífskjörum barna, árið 2009 og árið 2014. Greining UNICEF á þessum tölum leiðir það í ljós að 9,1% barna liðu skort árið 2014, sem er meira en tvöfalt fleiri börn en liðu skort árið 2009. 9,1% samsvarar um 6.000 börnum.
Á sama tímabili hefur hlutfall þeirra barna sem líða verulegan skort hefur þrefaldast á sama tíma, og er nú 2,4%, eða sem samsvarar tæplega 1.600 börnum. Börn sem líða verulegan skort skortir allavega þrjú atriði á listanum.
Þau sjö svið sem skoðuð eru í lífskjararannsókninni eru næring, klæðnaður, menntun, upplýsingar, húsnæði, afþreying og félagslíf.
Árið 2009 skorti 77,1% barna á Íslandi ekki neitt, en árið 2014 hafði sú tala lækkað niður í 60,6%. Þegar skoðað er hversu mikið börn á Íslandi skortir kemur í ljós að dæmi eru um að börn hér á landi líði skort í öllum sjö flokkunum sem spurt er um. Það eru 0,2% barna, eða sem samsvarar 147 börnum.
Utan húsnæðis liðu börn helst skort hvað varðar félagslíf. Talið er að um 3.400 börn hér á landi búi við slíkan skort, oftast vegna þess að þau geta ekki boðið vinum sínum heim til að borða eða leika við. Litlu færri börn líða skort á sviði klæðnaðar, en oftast er það vegna þess að þau eiga ekki tvenn pör af skóm sem passa á þau. Þá líða 3.200 börn á Íslandi skort á sviði afþreyingar, vegna þess að þau eiga ekki leiktæki, leikföng eða íþróttabúnað, eða bækur sem henta aldri þeirra.
Staða foreldranna skiptir öllu máli
Nýjar greiningaraðferðir hjá UNICEF gera þeim nú kleift að taka inn bakgrunnsbreytur og skoða gögnin út frá þeim. Í ljós kemur að mikill munur er á stöðu barnanna eftir menntun foreldra. Börn foreldra með grunnmenntun eru líklegri til að líða skort á öllum sviðum en börn háskólamenntaðra. 18,2 prósent barna foreldra með grunnmenntun liðu skort, 12 prósent þeirra sem áttu foreldra með framhalds- og starfsmenntun og sex prósent þeirra sem áttu foreldra með háskólamenntun.
Börn foreldra í lægsta tekjufimmtungnum eru líka nær alltaf líklegri til að líða skort en börn þeirra sem eru í hæsta tekjubilinu. UNICEF segir koma í ljós þegar rýnt sé í niðurstöðurnar með tilliti til samfélagshópa að staða ungra barnafjölskyldna á Íslandi sé slæm. „Staða barna sem eiga unga foreldra er erfið og það sama má segja um pör með eitt barn. Hvað gerir að verkum að börn foreldra með eitt barn og foreldra sem eru yngri en 30 ára mælast talsvert líklegri til að líða skort en önnur börn? Af hverju eykst hlutfall þeirra barna sem líða skort í þessum hópi umfram aðra hópa á milli 2009 og 2014?“ Þessa hluti þurfi að kanna nánar.
Algengast er að börn líði skort ef þau eiga foreldra sem vinna minna en 50% vinnu og niður í enga vinnu, þar með talið börn þeirra sem eru atvinnulausir. Meira en fjórðungur þessara barna líður skort. Næst þar á eftir koma börn foreldra sem eru yngri en 30 ára og svo börn foreldra sem eru á leigumarkaði.
Vilja frekari rannsóknir
UNICEF segir að margar af niðurstöðunum af rannsókninni valdi áhyggjum. Aukinn skortur á félagslífi og afþreyingu sé hættumerki og raunveruleg hætta á að hluti barna sé og verði félagslega einangraður. Drengir mælast frekar með skort heldur en stúlkur, sérstaklega hvað varðar félagslíf. „Er drengjum hættara við félagslegri einangrun? Hvers vegna? Til að svara þessum spurningum - og öðrum sem vakna - þarf að ráðast í ítarlegri rannsóknir.“
Brýnt sé jafnframt að gögnum um þessi mál sé markvisst safnað og þau gerð aðgengileg.
UNICEF tekur þó líka sérstaklega fram að rannsóknin segi ekki alla söguna, þrátt fyrir að skýrslan sé full af upplýsingum og tölulegum staðreyndum. Ekkert er fjallað um upplifun barnanna sjálfra á skortinum, og ekkert um þörf fyrir kærleika, góða umönnun og stuðning frá foreldrum eða forsjáraðilum. „Þeir þættir skipta einnig sköpum fyrir þroska og velferð barna.“