Ráðgátur rifjaðar upp

Gillian Anderson barðist af hörku við feðraveldið og David Duchovny fannst erfitt að verða Mulder aftur. CIA ýtir fram raunverulegum X-skrám og handritshöfundur viðurkennir ást við fyrstu sýn. X Files eru byrjaðar aftur.

Sunna Valgerðardóttir|29. janúar 2016

The X-Files hóf göngu sína á ný í Bandaríkjunum á sunnudag, eftir rúmlega 13 ára hlé. Þættirnir verða sex talsins og segja, eins og áður, sögu alríkislögreglufulltrúanna Fox Mulder (David Duchovny) og Dana Scully (Gillian Anderson) þar sem þau kljást við erfiðar geimverur, yfirnáttúruleg fyrirbæri og spillt stjórnvöld. 

Ráðgátur, eins og þættirnir voru kallaðir á íslensku, voru einir vinsælustu sjónvarpsþættir heims á tíunda áratug síðustu aldar. Fyrsti þátturinn fór í loftið á sjónvarpsstöðinni Fox þann 10. september 1993 og skaut þeim Duchovny, þá 33 ára, Anderson, 24 ára, á ógnarhraða upp á stjörnuhimininn. Á næstu 15 árum voru framleiddar 9 þáttaseríur af X Files og tvær bíómyndir, The X-Files (1998) og The X Files: I Want to Believe (2008).  

Fjölmargar stórstjörnur stigu sín fyrstu skref fyrir framan myndavélarnar í þáttunum, eins og Aaron Paul úr Breaking Bad, Lucy Liu, Michael Buble, Felicity Huffman og Giovanni Ribisi. 

CIA hoppar á X Files vagninn

Markaðssetningin í kring um X Files þegar þættirnir hófu fyrst göngu sína snerist mikið um að þeir væru byggðir á sönnum atburðum. Sem er að vissu leyti rétt, það er sá hluti að Leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA) hefur vissulega yfir að ráða mjög mörgum skjalageymslum og kjöllurum, fullum af leynilegum skýrslum, svokölluðum X Files. 

CIA ákvað hins vegar í síðustu viku að opna fyrir hluta þessara skýrslna, nokkrum dögun áður en þættirnir fóru í loftið á ný. Á heimasíðu leyniþjónustunnar var birt frétt undir fyrirsögninni: Skoðaðu „X-skýrslurnar" okkar (e. Take a Peek Into our „X Files"). Skjölunum er skipt í tvo flokka, undir heitunum: „Topp 5 skýrslurnar sem Mulder þráir að komast í" og „Topp 5 skýrslurnar sem Scully þráir að komast í." Skýrslurnar virðast allar snúast um fljúgandi furðuhluti og tilvist geimvera. Almannatenglar CIA eru greinilega að vinna fyrir kaupinu sínu.

Feðraveldið í Hollywood

Það varð uppi fótur og fit í fjölmiðlaheiminum þegar Chris Carter, framleiðandi og höfundur X-Files, tilkynnti í fyrra að ákveðið hefði verið að framleiða sex þætti til viðbótar eftir meira en áratugar hlé. Hvorki Duchovny né Anderson höfðu setið auðum höndum síðan þættirnir hættu í framleiðslu og höfðu bæði leikið í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta, m.a. Californication og The Fall. 

Anderson var upphaflega treg til þess að taka þátt í verkefninu og leist ekki vel á hugmyndina, en lét til leiðast. Hún sagðist við Guardian vonast til þess að aðdáendur þáttanna „verði ekki fyrir vonbrigðum þegar þeir sjá Mulder og Scully með göngugrindur.” 

Og eins og Hollywood er von og vísa, þá voru henni boðin helmingi lægri laun fyrir þættina sex heldur en Duchovny - aftur. Hún fékk helmingi lægri laun en hann þegar þau byrjuðu að gera þættina 1993 og framleiðendurnir reyndu að bjóða henni sömu kjör aftur: Miklu lægri laun heldur en karlinn, meðleikari hennar. 

Anderson var borgað mun minna en Duchovny í fyrstu þáttaröðunum og var látin standa aftar en hann fyrir framan myndavélina, en ekki við hliðina á honum. Eftir nokkur ár af þessu lét hún ekki bjóða sér það lengur og mótmælti mismununinni þar til laun hennar voru hækkuð og vægi Scully aukið. 

Og nú, eftir langar viðræður við framleiðendurna, voru laun hennar hækkuð fyrir nýju seríuna. Samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla fengu Mulder og Scully að lokum jafn mikið borgað fyrir þættina sex. 

Mulder elskaði Scully frá fyrstu stundu

Duchovny segir í viðtali við The Collider að það hafi reynst honum erfitt að koma aftur á settið eftir svona langt hlé. 

„Mulder má hvorki stama né hika. Hann er með allt á hreinu, þekkir allar staðreyndir, er snöggur og öruggur. Það er ekki auðvelt, sérstaklega ekki á fyrsta degi á setti,” segir hann. 

Fjórir af nýju þáttunum verða sjálfstæðar sögur en tveir fjalla um það sem hefur verið rauði þráðurinn í hinum seríunum - söguna um hið stóra allsherjarsamsæri bandarísku ríkisstjórnarinnar (e. Mythology Episodes) sem lýtur að því að fela sannleikann um tilvist geimvera og þeirra fyrirætlanir á jörðu. 

Eins og oft vill gerast þegar karl og kona eru í aðalhlutverki þáttasería, koma upp vangaveltur um ástarsamband á milli þeirra. Það virðist vera erfitt fyrir áhorfendur að sætta sig við að fólk af gagnstæðu kyni geti unnið svo mikið og náið saman án þess að ástin blossi og Mulder og Scully eru þar engin undantekning. Chris Carter, höfundur X Files, segir við The Daily Beast að Mulder hafi orðið ástfanginn af Scully um leið og hann sá hana fyrst. Ást við fyrstu sýn - eiginlega á báða bóga. En þegar þau hittast aftur eftir áratuga aðskilnað, er neistinn slokknaður.    

Gagnrýnendur ekki hrifnir

Nýjasti X Files þátturinn fékk þó dræmar viðtökur hjá gagnrýnendum vestanhafs. Hollywood Reporter sagði hann klaufalegan, gagnrýnandi Entertainment Weekly varð fyrir vonbrigðum, þó að hann væri mikill aðdáandi gömlu þáttanna og Telegraph sagði samsæriskenningarnar ekki eins framandi og áður í ljósi breyttra tíma með tilkomu netsins. 

Ráðgátur voru fyrst sýndar á RÚV þegar þeir hófu göngu sína hér á landi en síðar keypti Stöð 2 sýningaréttinn. X Files verða því sýndir á Stöð 2 og hefjast á sunnudagskvöld.  

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Valgerðardóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar