Meirihluti kjósenda Pírata, eða 67%, myndu sennilega eða örugglega greiða atkvæði með aðild Íslands að Evrópusambandinu ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið nú. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland.
Mestur stuðningur við aðild er hjá kjósendum Samfylkingarinnar, þar sem 92% segjast myndu sennilega eða örugglega greiða atkvæði með aðild að ESB. Píratar koma þar á eftir með 67%, og 63% kjósenda Bjartrar framtíðar. 35% stuðningsmanna Vinstri Grænna myndu greiða atkvæði með aðild að ESB.
22% kjósenda Framsóknarflokksins myndu greiða atkvæði með aðild að ESB, en minnsti stuðningurinn við aðild er meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, 10%.
Fleiri vilja taka upp viðræður á ný
Eins og Kjarninn greindi frá í morgun segjast tæplega 60% aðspurðra í könnuninni myndu sennilega eða örugglega greiða atkvæði gegn aðild að Evrópusambandinu ef kosið yrði í dag. Engu að síður segjast fleiri vera hlynntir því að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði teknar upp á nýjan leik en eru því andvígir.
45,4 prósent aðspurðra segjast vera fylgjandi því að aðildarviðræður við ESB verði teknar upp á ný, en 40,3% segjast vera á móti því að það verði gert. 14,3% segjast hvorki mótfallin né fylgjandi því að viðræður verði teknar upp á nýjan leik.
Fæstir sjálfstæðismenn vilja viðræður á ný
Þegar stuðningur við upptöku viðræðna á nýjan leik kemur í ljós að 90% stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru fylgjandi því að aðildarviðræður við ESB verði hafnar á ný. 81% kjósenda Bjartrar framtíðar eru fylgjandi aðildarviðræðum og 66% kjósenda Pírata. 55% Vinstri grænna vilja að viðræður verði teknar upp á ný, og 25% kjósenda Framsóknarflokksins. Aðeins 12% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja að aðildarviðræður verði teknar upp á ný.
Af þeim sem myndu kjósa annan flokk en þá sem nú eiga sæti á þingi myndu 39% vilja að viðræður við ESB yrðu teknar upp á ný. 37% þeirra sem ætla að skila auðu eða kjósa ekki eru hlynntir því að viðræður verði teknar upp á ný.
Athygli vekur að 17 prósent þeirra sem segjast sennilega myndu kjósa á móti aðild að ESB vilja samt að aðildarviðræðurnar verði teknar upp á nýjan leik. 33% í þessum hópi eru hvorki fylgjandi né andvíg því að taka viðræðurnar upp á ný.
Könnunin var sem fyrr segir gerð af Gallup fyrir Já Ísland. 888 manns svöruðu könnuninni, þar af tóku 812 afstöðu til spurningarinnar um það að taka upp aðildarviðræður á nýjan leik. Vikmörkin í spurningunni eru á bilinu 2,1 til 3,4 prósent.