Launakjör bæði Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og Sigurbjörns Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Lyfju, munu falla undir kjararáð í nánustu framtíð, samkvæmt upplýsingum innan úr stjórnsýslunni. Þrotabú Glitnir var eigandi beggja fyrirtækjanna en hefur nú afhent ríkinu þau. Vilji er til að selja þau bæði en þangað til þurfa æðstu stjórnendur fyrirtækjanna að lúta sömu reglum og aðrir stjórnendur fyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu ríkisins. Fyrir Birnu þýðir það að laun hennar munu lækka mikið.
Þegar launakjör Birnu og Sigurbjörn færast undir kjararáð mun ráðið taka ákvörðun um hver laun þeirra eiga að verða, og miða þá við að hvorugt verði með hærri grunnlaun en forsætisráðherra Íslands. Þær breytingar sem verða á kjörum þeirra munu hins vegar ekki taka gildi fyrr en að loknum þeim uppsagnarfresti sem viðkomandi stjórnendur hafa samið um við stjórnir þeirra fyrirtækja sem þeir stýra. Því gæti verið nokkur bið á því að launakjör forstjóra Íslandsbanka og framkvæmdastjóra Lyfju muni verða ákvörðuð af kjararáði. Ef ríkinu tekst að selja bæði fyrirtækin hratt gæti vel verið að það muni aldrei verða.
Enginn má vera hærri en forsætisráðherra
Lögum um kjararáð var breytt í ágúst 2009. Þá ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, í kjölfar hrunsins og þeirra aðhaldsaðgerða sem ríkissjóður þurfti að grípa til, að kjararáð myndi einnig „ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.“
Samkvæmt lögunum á kjararáð að gæta þess að „ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.“
Laun forsætisráðherra eru 1.391 þúsund krónur á mánuði í kjölfar úrskurðar kjararáðs í nóvember í fyrra.
Steinþór lengi barist fyrir hærri launum
Einn þeirra stjórnenda sem þurft hefur að sætta sig við laun sem eru í grunninn lægri en laun forsætisráðherra er Steinþór Pálsson, bankastjóri ríkisbankans Landsbanka. Bæði Steinþór og bankaráð Landsbankans hafa ítrekað óskað eftir því að laun hans verði hækkuð sökum þess að Landsbankinn sé svo stór banki og ábyrgð bankastjórans svo mikil að annað sé ekki tilhlýðilegt. Bankaráð hefur meðal annars sent bréf til kjararáðs þar sem stóð að Steinþór hefði náð „framúrskarandi árangri í stjórnun og rekstri bankans.“ Hann vinni á bilinu 100-120 klukkustundir á mánuði til viðbótar við hefðbundna dagvinnu. Auk þess hefur bankaráðið krafist þess að kjararáð ákveði sérstaka leiðréttingu á launum Steinþórs frá og með 1. júní 2010. Landsbankinn hefur lagt til hliðar fé til að greiða Steinþóri fyrir slíka afturvirka hækkun ef ske kynni að til hennar myndi koma. Af því hefur ekki orðið.
Kjararáð hefur hins vegar hækkað laun Steinþórs mikið á undanförnum árum, og samtals um 36 prósent frá miðju ári 2014. Hann fær nú töluvert hærri heildarlaun en forsætisráðherra þó að grunnlaun hans séu enn lægri. Grunnlaun Steinþórs eru 1.056.291 króna á mánuði. Þegar yfirvinna og álag hefur verið talið með eru laun hans hins vegar um 1.950 þúsund krónur á mánuði. Auk þess hefur hann fengið hlutabréfatengdar greiðslur til viðbótar þeim launum sem ákvörðuð hafa verið af kjararáði.
Höskuldur mun stinga af í launum
Íslandsbanki hefur ekki birt ársreikning sinn fyrir árið 2015 og því liggja ekki fyrir opinberar upplýsingar um laun Birnu Einarsdóttur í fyrra. Á árinu 2014 var hún hins vegar með 3,2 milljónir króna á mánuði auk þess sem hún fékk 4,8 milljónir króna í bónusgreiðslur. Því er ljóst að laun hennar munu skerðast umtalsvert þegar ákvörðun um laun Birnu færist frá stjórn Íslandsbanka til Kjararáðs. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, er með mun hærri laun en báðir kollegar hans í hinum tveimur stóru bönkunum. Hann var með 4,3 milljónir króna á mánuði á árinu 2014. Auk þess hefur verið tekið upp kaupaukakerfi í Arion banka sem skilar Höskuldi umtalsverðri viðbót. Ríkið á einungis 13 prósent hlut í Arion banka og það sem upp á vantar verður ekki afhent ríkinu sem hluti af stöðugleikaframlagi þrotabús Kaupþings. Höskuldur þarf því ekki að óttast umtalsverða launalækkun á næstunni.
Sú áhugaverða staða er nú uppi að Lyfja, stærsta apótekakeðja landsins sem rekur 30 apótek um land allt, er komin að fullu í eigu íslenska ríkisins eftir að eignarhlutur þrotabús Glitnis í fyrirtækinu var afhentur sem hluti af stöðugleikaframlagi þess. Það þýðir að Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju, mun einnig þurfa að lúta ákvörðun kjararáðs þegar kemur að launum hans. Í ársreikningi Lyfju fyrir árið 2014 kemur fram að tveir framkvæmdastjórar í samstæðunni og stjórn móðurfélags hennar hafi samtals verið 53 milljónir króna á því ári. Ekki er tilgreint sérstaklega hvað Sigurbjörn er með í laun.
Ríkissjóður hefur verið úrskurðaður hæfur
Það liggur ekki alveg fyrir hvenær launakjör ofangreindra stjórnenda færast undir kjararáð. Í fjárlögum ársins 2016 var samþykkt að Íslandsbanki myndi verða framseldur til Bankasýslu ríkisins. Það hefur enn ekki gerst þótt að hlutur þrotabús Glitnis í bankanum hafi verið afhentur stjórnvöldum. Sá hlutur er sem stendur vistaður í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á meðan að Samkeppniseftirlitið tekur afstöðu til tilkynningar sem því hefur borist vegna færslu bankans til Bankasýslunnar.
Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar þegar komist að þeirri niðurstöðu að Ríkissjóður Íslands, og Bankasýsla ríkisins, séu hæf til að eiga virkan eignarhlut í Íslandsbanka og fjármálafyrirtækjum í hans eigu. Sú ákvörðun var birt síðastliðinn fimmtudag.