Þegar stjórnendur Borgunar seldu tæplega 2,8 prósent hlut í Borgun í ágúst 2015 var miðað við að heildarvirði félagsins væri ellefu milljarðar króna. Það er 57 prósent hærra heildarvirði en miðað var við þegar Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun í nóvember 2014, rúmum átta mánuðum áður. Þetta hefur forsvarsmaður Eignarhaldsfélagsins Borgunar, sem keypti hlut stjórnendanna í fyrirtækinu í ágúst, staðfest við Kjarnann. Engin fyrirvari var gerður í kaupsamningnum um viðbótargreiðslur vegna valréttar Borgunar vegna mögulegrar sölu Visa Europe til Visa Inc.
Mikil virðisaukning á örfáum mánuðum
Þegar Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun, seint í nóvember 2014, var kaupverðið 2,2 milljarðar króna. Í viðskiptunum var því miðað við að heildarvirði Borgunar væri sjö milljarðar króna. Kaupandinn var Eignarhaldsfélagið Borgun, sem var og er stýrt af Magnúsi Magnússyni, sem er skráður með lögheimili á Möltu. Þeir sem stóðu að félaginu ásamt Magnúsi voru helstu stjórnendur Borgunar og ýmsir fjársterkir meðfjárfestar sem fengnir voru með í viðskiptin. Það var Magnús sem nálgaðist Landsbankann með þá hugmynd að kaupa hlut bankans í Borgun.
Síðan hafa átt sér stað ýmis viðskipti með þennan eignarhlut. Tólf stjórnendur Borgunar sem tóku þátt í kaupunum á hlut Landsbankans eiga nú hlut sinn í gegnum félag sem heitir BPS ehf., og hafa raunar átt hann í gegnum það félag frá því seint á árinu 2014. BPS á nú fimm prósent hlut í Borgun en Eignarhaldsfélagið Borgun, sem samanstendur af meðfjárfestum þeirra, sem keypti hlut Landsbankans, á 29,38 prósent hlut.
Eignarhaldsfélagið Borgun keypti 36 prósent af eign BPS í ágúst síðastliðnum. Um er að ræða tæplega 2,8 prósenta hlut í Borgun. Kaupverðið var trúnaðarmál en Kjarninn hefur nú fengið upplýsingar um að í viðskiptunum hafi verið miðað við að heildarvirði Borgunar hefði verið ellefu milljarðar króna. Það er fjórum milljörðum krónum meira en heildarvirði Borgunar var metið á þegar Landsbankinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu um átta mánuðum áður. Þetta staðfestir Magnús Magnússon, sem fer fyrir Eignarhaldsfélaginu Borgun, í tölvupósti til Kjarnans.
Virði Borgunar hækkaði því um 57 prósent frá nóvember 2014, þegar ríkisbankinn Landsbankinn seldi hlut sinn í fyrirtækinu, og fram í ágúst 2015, þegar BPS ehf. seldi tæplega 2,8 prósent af hlut sínum.
Tóku mið af síðasta viðskiptaverði
Því fékk BPS, félag stjórnenda Borgunar, rúmlega 300 milljónir króna fyrir þann hlut sem félagið seldi í ágúst. Það er um meira en 100 milljónum krónum meira en félagið greiddi fyrir þann tæplega 2,8 prósent hlut í nóvember 2014.
Magnús segir að viðskiptin hafi tekið mið af síðasta viðskiptaverði með bréf félagsins. Það er því ljóst að frekari viðskipti áttu sér stað með hluti í Borgun fyrir ágúst 2015, á gengi sem var mun hærra en það sem Landsbankinn seldi á í nóvember 2014. Engin fyrirvari var gerður um hlutdeild í mögulegum hagnaði vegna sölu á Visa Europe í þessum viðskiptum. Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar og einn eigenda BPS, segir að það hafi ekki verið gert vegna þess að þeim hafi ekki dottið í hug að valréttur vegna sölunnar væri nokkurs virði á þeim tíma. Þessi hækkun á virði Borgunar er því ekki beintengd við valréttinn, heldur er um viðbótarvirðisaukningu að ræða.
Í dag er þessi valréttur sannkallaður happadrættisvinningur sem mun skila Borgun milljörðum króna. Borgun býst við því að fá 33,9 milljónir evra, um 4,8 milljarða króna, í peningum þegar Visa Inc. greiðir fyrir Visa Europe. Auk þess fær Borgun, líkt og aðrir leyfishafar innan Visa Europe, afhent forgangshlutabréf í Visa Inc. að verðmæti 11,6 milljónir evra, eða um 1,7 milljarðar króna. Til viðbótar mun Visa Inc. greiða leyfishöfum afkomutengda greiðslu árið 2020 sem mun taka mið af afkomu starfsemi Visa í Evrópu á næstu fjórum árum, en hlutdeild Borgunar af þeirri fjárhæð mun ráðast af viðskiptaumsvifum Borgunar sem hlutfall af heildarviðskiptaumsvifum allra seljenda hlutabréfanna á þessum 4 árum.
Því er ljóst að Borgun mun fá um 6,5 milljarða króna auk afkomutengdar greiðslu árið 2020 vegna sölu Visa Europe.
Virði hluta þeirra sem keyptu orðið gríðarlegt
Líkt og áður sagði á BPS, félag stjórnendanna, enn fimm prósent hlut í Borgun. Eignarhaldsfélagið Borgun á 29,38 prósent hlut. Samkvæmt virðismati sem KPMG vann fyrir stjórn Borgunar, og Morgunblaðið greindi frá fyrr í þessum mánuði, er virði fyrirtækisins nú áætlað 19 til 26 milljarðar króna. Hlutur Eignarhaldsfélagsins Borgunar er því metinn á allt að 7,6 milljarða króna og hlutur BPS, félags stjórnendanna, er metinn á allt að 1,3 milljarða króna.
Stjórnendurnir, sem keyptu sinn tæplega 7,8 prósent hlut á um 540 milljónir króna í nóvember 2014, og seldu 36 prósent hans á rúmlega 300 milljónir króna í ágúst 2015, hafa upplifað hreina virðisaukningu á fjárfestingu sinni upp á allt að rúman einn milljarð króna á fjórtán mánuðum.
BPS skuldaði 327 milljónir króna í lok árs 2014. Ljóst er að salan í ágúst hefur farið langleiðina með að greiða upp það skuldabréf ef vilji var til.