Skíðatímabilið er í hámarki í Evrópu um þessar mundir og fólk út um allan heim flykkist á skíði, dvelur á skíðahótelum og nýtur lífsins til fulls á fjöllum. Skíðabransinn í Evrópu veltir milljörðum evra árlega en það getur brugðið til beggja vona því þetta er áhættusöm ferðamennska sem er bæði háð veðri og vindum og sviptingum í efnahagslífinu. Það eru miklir hagsmunir í húfi, störf og fjármunir, og því hefur hið opinbera eins og sveitarfélög gert æði margt til þess að halda uppi og hlífa þessari atvinnustarfsemi.
Austurríki, Frakkland, Sviss og Ítalía eru helstu áfangastaðir skíðafólks í Evrópu. Háklassa hótel og veitingastaðir, heilsulindir, spilavíti og ýmiskonar þjónusta hefur verið byggð upp í kringum vinsæl skíðasvæði. Þessi starfsemi skilar gríðarmiklum tekjum fyrir viðkomandi ríki og sveitarfélög þegar vel til tekst, en það eru mörg ljón í veginum, sérstaklega veðurfarið. Skíðabransinn er 100% háður veðrinu. Enda er gjarnan viðkvæðið hjá fólki sem býr og starfar í kringum Alpana og vinsælustu skíðasvæðin:
„Á þessum slóðum er snjór verðmæti.“
Skíðabransinn í Frakklandi
Frakkland er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heiminum og eitt af því sem dregur fólk þangað er skíði. Vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Frakklandi, á eftir París, eru skíðasvæðin í kringum fjöllin stóru. Milljónir ferðamanna heimsækja Alpana, Júrafjöllin og Pýreneafjöllin ár hvert og náði Frakkland þeim ágæta árangri á síðasta ári að skjótast fram úr Bandaríkjunum sem vinsælasti áfangastaður skíðaferðamanna. Skíðabransinn einn og sér skilar um tveimur milljörðum evra þráðbeint í franska þjóðarbúið árlega eða um 300 milljörðum króna.
Um 8% Frakka stunda skíði reglulega og um 120.000 manns starfa við skíðaferðamennsku. Skíðabransinn er sagður hafa mikið vægi í frönsku þjóðlífi og tókst meira að segja að færa til vetrarfrí grunnskólabarna til þess að aðlaga það betur að skíðavertíðinni. Á þessum árstíma eru fluttar sérstakar skíða-veðurfréttir í sjónvarpsfréttatímum ríkisstöðvanna. Allt er gert til þess að reka fólk á skíði.
Gróðurhúsaáhrifin hafa sett mark sitt á skíðaferðamennsku um allan heim en þrátt fyrir efnahagskreppu og hlýnandi veðurfar hefur skíðabransinn í Frakklandi verið að eflast, öfugt við önnur lönd. Árangur í skíðaferðamennsku er talinn í skíðadögum – eða hversu margir einstaklingar skíða daglega. Skíðadagar í Frakklandi töldust 57,9 milljón á síðasta tímabili, sem er aukning um 4,9% á ári. Í Bandaríkjunum voru skíðadagar um 56,9 milljónir á síðasta ári. Austurríki er síðan í þriðja sæti yfir vinsælustu skíðalönd heims.
Frakkland þykir bjóða upp á meira spennandi ferðir, betri hótel, og betri mat. Frakkar hafa í marga áratugi mjög meðvitað byggt upp þessa ferðamennsku og hafa því mikla reynslu á þessu sviði. Það sem virðist ráða vinsældum er að hafa hótelin nálægt brekkunum, en það sem ræður auðvitað mestu eru prísarnir. Ódýrast er að skíða í Frakklandi, en þjóðin á nú í miklu verðstríði við ýmis Austur-Evrópulönd sem eru farin að ryðjast inn á markaðinn með betri verð.
Gróðurhúsaáhrif
Ein helsta ógnin er hlýnun. Jólavertíðin fór um þúfur enn eitt árið í Ölpunum í Frakklandi, Sviss og Ítalíu vegna þess að veðrið í desember var alltof hlýtt, sól og enginn snjór. Tjónið veltur á milljónum evra. Það eru um 600 skíðasvæði í Ölpunum og um 10.000 skíðalyftur. Þetta eru gríðarmiklar fjárfestingar sem skila litlu þegar meðalhitinn er um 10-15 gráður, eins og í desember síðastliðinn, sem er óvenju mikill hiti. Hlýnun á þessu svæði hefur verið þrisvar sinnum meiri en annars staðar í heiminum sem hefur haft afar slæmar afleiðingar fyrir marga skíðabændur. Af þessum sökum hafa skíðasvæðin og lyfturnar sífellt verið að færast ofar í brekkurnar. Það getur reynst áhættusamt vegna snjóflóða, grjóthruns og hvassviðris.
Jöklarnir í Ölpunum hafa hopað hratt undanfarin ár vegna hlýnandi veðurfars sem hefur haft umtalsverð áhrif á vetraríþróttir og skíðabransann í Evrópu. Mörg fyrirtæki hafa farið illa vegna þessara veðurbreytinga. Þrátt fyrir að áhugi og eftirspurn sé sífellt að aukast, þá fer enginn á skíði ef enginn er snjórinn.
Hlýnandi veðurfar hefur til að mynda haft þau áhrif að snjóflóð eru tíðari. Þetta hefur einnig haft mikil áhrif á ásýnd og hæð Mont Blanc; jökultindurinn hefur lækkað, gljúfur hafa opnast og grjóthrun aukist umtalsvert hin síðari ár. Oft er minnt á þá staðreynd að fjallið er einn hættulegasti staður Evrópu og með þessum sífelldu breytingum getur hann orðið enn hættulegri.
Mont Blanc er einn vinsælasti ferðamannastaður heims. Flestir kjósa að skoða fjallið úr fjarlægð, margir fara á skíðum um brekkur þess og um 20.000 manns reyna við tindinn ár hvert. Hægt er að fara með fjallakláfi nær alla leið og rölta síðan upp síðustu þúsund metrana. Mont Blanc er ekki talið „erfitt“ í fjallgöngufræðunum (þótt vissulega sé hægt að finna mjög erfiðar leiðir); flestir sem eru í sæmilegu formi ættu að geta klifið fjallið, en það er einmitt það sem gerir það svo hættulegt. Það er nefnilega oft vanmetið og þar af leiðandi lúmskt. Fjölmargt óvant fjallafólk leggur leið sína á fjallið og þess vegna eru slysin svona tíð.
Frá 1990 til 2011 létust 74 manns á fjallinu og alls 256 slys voru skráð á þessum tíma. Á hverju ári deyr einhver á Mont Blanc. Það er mikið að gera hjá björgunarsveitum allt árið um kring, sér í lagi á þessum árstíma, sem er aðalferðamannatíminn.
Snjórinn bæði gefur og tekur.