Tilkynning hins skrautlega en afar
umdeilda leiðtoga Téténíu þótti nokkuð óvænt. Sérstaklega í ljósi þess að
Kadyrov hefur stjórnað Téténíu með harðri hendi sem sannkallaður stríðsherra í
um áratug og ekkert fararsnið verið á honum fram til þessa. Núna tel ég að
finna þurfi nýjan leiðtoga. Tímarnir eru breyttir bæði frá efnahagslegum og
samfélagslegum sjónarhóli. Ég tel mig hafa sinnt minni skyldu,” sagði Kadyrov
meðal annars í viðtali sem TASS-fréttastofan birti
í lok febrúar.
Hermaður Pútíns
Ramzan Kadyrov skaust fram á sjónarsvið rússneskra stjórnmála með miklum látum eftir að faðir hans Akhmad Kadyrov, þáverandi forseti Téténíu, var ráðinn af dögum árið 2004. Kadyrov yngri var í kjölfarið skipaður aðstoðar-forsætisráðherra Téténíu en hann var afar fljótur að vinna sig upp metorðastigann - með dyggum stuðningi Vladimírs Pútín Rússlandsforseta.
Kadyrov var nýorðinn þrítugur þegar hann var formlega skipaður forseti Téténíu, snemma árs 2007. Kadyrov var raunar handvalinn af Pútín, líkt og faðir hans á undan honum, til þess að „hreinsa til” í Téténíu. Rússnesk stjórnvöld höfðu þá staðið í langri og blóðugri hernaðaríhlutun á svæðinu en talið er að á bilinu 150-160 þúsund manns hafi látið lífið í stríðsátökunum í Téténíu. Kadyrov fékk því í senn bæði lausan tauminn og gríðarlega fjármuni frá rússneskum stjórnvöldum til þess að berjast gegn aðskilnaðarsinnum og öðrum uppreisnarmönnum og koma á endurbótum í Téténíu.
Kadyrov hefur heldur aldrei farið leynt með hvaðan vald hans sé komið og kallar sig ítrekað „hermann Pútíns” í viðtölum við fjölmiðla. Ekki eru þó allir sáttir með hvernig Kadyrov hefur beitt valdi sínu í Téténíu. Kadyrov hefur raunar verið harkalega gagnrýndur í gegnum alla stjórnartíð sína en segja má að sú gagnrýni beinist óumflýjanlega einnig gegn manninum sem veitti honum brautargengi í upphafi - Vladimír Pútín.
Ásakanir um aðild að ódæðisverkum
Blaðamenn og baráttufólk fyrir mannréttindum úr ýmsum áttum eru á meðal helstu gagnrýnenda Kadyrovs. Leiðtogi Téténíu hefur þannig ítrekað verið ásakaður um beina aðild að fjölda ódæðisverka, bæði í Téténíu og víðar í Rússlandi. Sú staðreynd að margir af þessum helstu gagnrýnendum Kadyrovs hafa síðar verið drepnir vekur óneitanlega grunsemdir um að ásakanirnar hafi oft verið á rökum reistar.Blaðakonan Anna Polítkovskaja hjá rússneska dagblaðinu Novaya Gazeta var eitt af hinum meintu fórnarlömbum Kadyrovs. Polítkovskaja var skotin til bana í lyftu í íbúðarblokk sinni 9. október árið 2006 en fimm karlmenn frá Téténíu voru dæmdir fyrir morðið, tæpum átta árum síðar. Polítkovskaja fylgdist náið með stöðu mála í Téténíu á árunum 1999-2006 og birti margar harðorðar greinar í garð Kadyrov-feðga. Dimítrí Muratov, ritstjóri Novaya Gazeta, lét hafa eftir sér í kjölfar morðsins á Polítkovskaju að hún hafi verið að vinna að grein um pyntingar, aftökur og önnur illvirki hinnar svokölluðu “Kadyrovtsy” hersveitar í Téténíu, þegar hún hafi verið myrt.
Kadyrovtsy hersveitin, einnig þekkt undir nafninu „Kadyrovites”, samanstóð af sérsveitarhermönnum hliðhollum Kadyrov-feðgum, sem mynduðu svo síðar einkaher Ramzan Kadyrovs. Hersveitin tók á sig mynd á tímum Fyrra Téténíu stríðsins á árunum 1994-1996 þegar Kadyrov-feðgarnir voru á bandi aðskilnaðarsinna og börðust gegn Rússum. Í upphafi Seinna Téténíu stríðsins árið 1999 gengu Kadyrov-feðgar svo til liðs við Rússa í skiptum fyrir stuðning frá yfirvöldum í Kreml við að hrifsa völdin í Téténíu.
Ógn við þjóðaröryggi Rússlands?
Í lok febrúar boðaði rússneski stjórnmálamaðurinn og stjórnarandstæðingurinn Ilya Yashin til blaðamannafundar þar sem hann kynnti skýrslu um stjórnartíð Ramzan Kadyrov í Téténíu. Skýrsla Yashin ber titilinn „Ógn við þjóðaröryggi” og hvetur hann Rússlandsforseta þar meðal annars til þess að reka Kadyrov umsvifalasut úr embætti. „Pútín er búinn að koma fyrir tifandi tímasprengju í norðurhluta Kákasusfjalla sem getur sprungið hvenær sem er og hafið Þriðja Téténíu stríðið. Til þess að koma í veg fyrir það þarf að stoppa þessa ógn við þjóðaröryggi Rússlands,” var haft eftir Yashin á blaðamannafundinum.
Kadyrov hafnaði að sögn Yashin beiðni um viðtal við gerð skýrslunnar og þess vegna endar skýrslan á upptalningu á tuttugu ósvöruðum spurningum til Kadyrovs. Yashin spyr Kadyrov meðal annars hvort hann telji sig hafinn yfir rússnesk lög og hvers vegna hann þurfi á einkaher að halda. Yashin biður hann enn fremur að svara til um meint tengsl sín við morðið á rússneska stjórnmálamanninum Boris Nemtsov, sem var skotinn til bana í miðborg Moskvu þann 27. febrúar fyrir rúmu ári síðan.
Fimm karlmenn frá Téténíu hafa sem kunnugt er verið handteknir fyrir aðild að morðinu en gæsluvarðhald yfir þeim var nýverið framlengt til loka maí. Einn hinna ákærðu, Zaur Dadayev, er sakaður um að hafa skotið Nemtsov en hann var á sínum tíma háttsettur í Sever hersveitinni í Téténíu, sem heyrði vitanlega undir leiðtogann Kadyrov.
Virkur á samfélagsmiðlum
Kadyrov hefur jafnan svarað fullum hálsi öllum ásökunum um meinta aðild hans að ódæðisverkum - en oft á tíðum með nokkuð óhefðbundnum hætti miðað við mann í hans stöðu. Kadyrov er nefnilega afar virkur á samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram, Twitter og VKontakte og notar þá ákaft í pólitískum tilgangi.Kadyrov veigraði sér til að mynda ekki við að birta fyrrnefnda skýrslu Yashins, um að hann væri ógn við þjóðaröryggi Rússlands, á Facebook og VKontakte síðum sínum og kallaði skýrsluna “þvaður”. Þá skrifaði Kadyrov á Instagram síðu sína að Zaur Dadayev væri “óttalaus og hugrakkur föðurlandsvinur”, eftir að hinn meinti morðingi Nemtsovs hafði verið handtekinn.
Af tíðum færslum Kadyrovs á samfélagsmiðlunum má ætla að hann sé í senn mjög trúaður og mikill fjölskyldumaður. Auk þess að vera yfirlýstur dýravinur og fanatískur áhugamaður um bardagaíþróttir og fótbolta. Þess á milli koma svo hárbeittar og rammpólitískar færslur þar sem hann ýmist mærir Rússlandsforseta eða ræðst harkalega gegn andstæðingum stjórnar hans. Í byrjun febrúar vakti mikla athygli birting Kadyrovs á myndbandi á Instagram síðu sinni þar sem sjá mátti stjórnarandstæðingana Mikhaíl Kasyanov og Vladimír Kara-Murza Jr. í sigti leyniskyttu. Myndbandið var síðar fjarlægt af Instagram og Kasyanov og Kara-Murza Jr. fóru fram á að Kadyrov yrði refsað fyrir athæfið. Rússneska alríkislögreglan, FSB, tók málið til rannsóknar en sá ekkert athugavert við myndbandið.
Pattstaða fyrir Pútín |
Yfirstandandi kjörtímabil Kadyrovs tekur formlega enda í byrjun apríl næstkomandi en fastlega er þó búist við því að Pútín muni á endanum styðja hann til endurkjörs í kosningum næsta haust. Þrátt fyrir að leiðtogi Téténíu segist vera tilbúinn að stíga til hliðar þá telja sumir að Pútín eigi raunar ekki annara kosta völ. Pútín þurfi einfaldlega að halda sig við hinn óstýrláta Kadyrov til þess að tryggja friðinn og stöðugleikann á svæði sem er söguleg púðurtunna fyrir rússnesk stjórnvöld. Auk þess sem Kadyrov var, eins og áður segir, handvalinn af Pútín og hann væri annars að snúa baki við eigin „sköpunarverki”.
Fari svo að lokum Kadyrov haldi áfram í embætti má leiða líkur að því að staða hans gagnvart yfirvöldum í Kreml hafi þá styrkst til muna. Öllum yrði þá ljóst hversu ómissandi hann væri fyrir rússnesk stjórnvöld. Í kjölfarið yrði hann þá jafnvel enn „ósnertanlegri” en áður og ómögulegt að segja til um hvaða afleiðingar það hefði í för með sér. Í því samhengi er vert að minnast á lýsingu blaðakonunnar Önnu Politkovskaju á Ramzan Kadyrov frá árinu 2004. „Kreml hefur alið lítinn dreka sem þarf að fæða reglulega, til þess að hann spúi ekki eldi og eyðileggi allt í kringum sig.”