Það styttist í að vinnuhópur skipaður af Sigmundi Davíði Gunnlaugssyni og David Cameron skili niðurstöðu varðandi hugsanlegt verð og magn á orku sem myndi vera flutt í gegnum sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Því er ekki úr vegi að velta fyrir sér kostum og göllum þessarar framkvæmdar.
Í október síðastliðnum birtist í breskum blöðum grein undir fyrisögninni „Icelandic volcanoes could power British homes“ eða „Íslensk eldfjöll gætu gefið breskum heimilum rafmagn“. Greinin birtist í kjölfar fundar David Camerons og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrir ráðstefnuna Northern Future Forum sem haldin var á Íslandi í byrjun október 2015. Eftir fundinn var skipaður vinnuhópur til að finna út verð og magn á raforku sem gæti verið seld í gegnum sæstreng. Búast má við niðurstöðum frá vinnuhópnum nú í mars. Sigmundur Davíð setti þann fyrirvara á hugsanleg viðskipti, að ef samkomulag næðist mætti rafmagnssalan ekki hafa áhrif á raforkuverð til almennings. Viðræður um sæstreng milli landanna tveggja hafa verið í gangi síðan 2012. Bretar hafa sýnt því mikinn áhuga að fá að tengjast Íslandi og geta þannig hækkað hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap sínum. Nú í janúar hitti Ólafur Ragnar Grímsson fulltrúar Atlantic Superconnection Corporation til að ræða um sæstreng milli Íslands og Bretlands.
Græn orka á bresk heimili
Evrópusambandið setti sér metnaðarfull markmið í orkumálum árið 2007. Markmiðið felur í sér að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í álfunni upp í 20% fyrir árið 2020. Markmiðið hefur gert það hagstæðara að selja endurnýjanlega orku á milli landa. Mörg ríki hafa náð markmiðinu en nokkur ríki eru enn í erfiðleikum. Bretland þeirra á meðal. Bretar hafa því hafið viðræður við Norðmenn og Íslendinga um kaup á endurnýjanlegri raforku til að ná markmiðinu sem þeir settu sér um að vera með 15% endurnýjanlega orku í orkukerfum sínum fyrir árið 2020.
Norðmenn hafa þegar tengst Hollandi og Danmörku í gegnum sæstrengi. Þessi viðskipti eru Norðmönnum arðbær og þeir hafa hafið viðræður við Þýskaland og Bretland um sæstrengi til beggja landanna. Líklegt má telja að sæstrengur milli Noregs og Bretlands verði lagður; hann yrðium 730 km langur og kæmist í heimsmetabækur sem lengsti sæstrengur í heimi. Sæstrengur milli Íslands og Bretlands yrði töluvert lengri, eða um 1200 km.
Jákvæð reynsla Norðmanna af þessum viðskiptum virðist vera hvatning fyrir íslensk orkufyrirtæki, eins og Landsvirkjun, að leggjast í svipaðar aðgerðir á Íslandi. Norðmenn hafa fengið tekjur í ríkiskassann, orkufyrirtækin högnuðust og skattbyrði á almenningi minnkaði. Vonin er að hið sama gerist á Íslandi.
Svarar ekki nema litlum hluta af raforkuþörf Breta
Með því að tengjast Íslandi um raforkustreng komast Bretar skrefi nær því að ná markmiði sínu. Eins og Íslendingar myndi þeir þó þurfa að leggjast í töluverðar fjárfestingar fyrir strenginn. Til dæmis er gert ráð fyrir að það þurfi að efla raforkukerfið í Bretland enn frekar til að koma raforkunni til skila.
Sæstrengur frá Íslandi gæti aðeins uppfyllt lítinn hluta af raforkuþörf Breta. Atvinnuvegaráðuneytið fékk Environice, fyrirtæki sem veitir ráðgjöf um umhverfismál og sjálfbæra þróun, til að gera greinagerð um um umhverfismál tengd sæstrengnum. Í greinagerðinni segir að sú raforka sem hægt væri að flytja gegnum sæstrenginn myndi í mesta lagi uppfylla um 10% af heildarrafmagnsþörf Breta og það sé rausnsarlega áætlað.
Hagstætt að selja græna orku
Sæstrengur hefur verið til umræðu í meira en hálfa öld. Það hefur hins vegar ekki verið tæknilega mögulegt eða arðbært að leggjast í svona stóra framkvæmd fyrr en nýlega. Landsvirkjun hefur hvatt mjög til þess að sæstrengur verði lagður milli Bretlands og Íslands. Fyrirtækið sér hag sinn í því að geta selt umframorku úr íslenska orkukerfinu til annarra landa á betra verði. Einnig myndi opnast á mögleikann á uppbyggingu vindorkuvera. Landsnet sér hag í sæstreng líka, þar sem auðveldara yrði að fjármagna endurbætur á raforkuflutningskerfinu innanlands. Tillögur að því hafa legið fyrir í nokkurn tíma.
Árið 2013, þegar viðræður voru komnar í gang um sæstreng milli Íslands og Bretlands, sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að Bretar væru tilbúnir að borga vel fyrir græna orku. Samkvæmt skýrslu frá atvinnuvegaráðuneytinu, unninni af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, kemur fram að hugsanlegt raforkuverð í Bretalandi árið 2030 yrði 94-130 evrur fyrir MWst. Sem er töluvert hærra en fæst fyrir raforkuna innanlands.
Verði af sæstreng er áætlað að hann geti flutt700-900 MW til Bretlands. Til samanburðar framleiðir Kárahnjúkavirkjun 690 MW. Landsvirkjun gerir ráð fyrir að þurfa að virkja eitthvað til að koma til móts við meiri orkuþörf.
Sterkara flutningskerfi og bættur þjóðhagur
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands segir í skýrslu til atvinnuvegaráðuneytisins að sæstrengur myndi hafa veruleg áhrif á efnahagskerfi landsins. Meðal annars yrði tímabundið meiri atvinna í boði á meðan á uppsetningu stendur. Eftir framkvæmdir myndi þurfa mannafla til að viðhalda nýjum raflínum og starfsfólk við umbreytistöð. Framkvæmdir sem þyrfti að leggjast í eru virkjanir, lagning nýs raforkuflutningskerfis og framkvæmdir við umbreytistöð þar sem strengurinn kæmi á land.
Þrátt fyrir að nokkur óvissa ríki um orkuverð í framtíðinni lítur út fyrir að verð á endurnýjanlegri orku muni hækka. Miklu betra verð fengist fyrir raforku sem seld yrði úr landi en fyrir raforku sem seld er í t.d. stóriðju. Ísland gæti selt umframorku úr orkukerfinu á mjög hagstæðu verði.
Rafmagnsflutningskerfið þarf að endurbæta, sama hvar strengurinn kæmi á land. Meira þyrfti að bæta flutningskerfið ef strengurinn kæmi á land á Austfjörðum en minna ef hann kæmi á land á Suðurlandinu. Rafmagnsflutingskerfið innanlands myndi því verða miklu öruggara og áreiðanlegra fyrir almenning.
Síðustu ár hefur Landsnet bent á að það þurfi að efla raforkuflutningskerfið hvort sem verður af sæstreng eða ekki. Þannig væri hægt að slá tvær flugur í einu, efla raforkukerfið og að lokum fá arð í gegnum sæstrenginn þegar hann kæmist í notkun. Núverandi flutningskerfi stenst ekki mesta álag ef kæmi til náttúruhamfara eins og flóða á Suðurlandi er hætta á að það stæðist ekki álagið og það myndi hafa stórvægilegar afleiðingar fyrir almenning og stóriðjur.
Einnig segir í skýrslunni „á móti kemur að ef t.d. hluti af ábatanum af sölu raforku um sæstrenginn verður notaður til rannsóknar og þróunar í raforkuframleiðslu gæti það leitt til aukins framboðs á raforku í framtíðinni og þar af leiðandi leitt til minni hækkunar á raforkuverði innanlands“. Jón Steinsson hagfræðingur bendir á í grein í Fréttablaðinu 14. nóvember 2014 að með sæstreng væri hægt að flytja inn ódýra orku til Íslands. „Rafmagn fæst nánast ókeypis að nóttu til í Bretlandi. Ástæða þessa er að það svarar ekki kostnaði að slökkva á kjarnorkuverum og kolaorkuverum á nóttunni og vindorkuver framleiða rafmagn jafnt að nóttu sem á degi. Þar sem eftirspurn er minni en framboð á nóttunni fellur verðið á rafmagni niður undir núll (og stundum niður fyrir núll).“
Óvissa um verð á raforku
Samanburður við Norðmenn í orkusölu um sæstreng hefur verið gagnrýndur þar sem raforkukerfi þeirra er mjög frábrugðið íslenska raforkukerfinu. Ávinningur Íslendinga þyrfti ekki að vera jafn mikill og hjá Norðmönnum. Sem dæmi um aukinn ávinning þeirra er að Norðmenn eiga strenginn sjálfir í félagi við móttökulandið. Svo verður ekki raunin um íslenska strenginn, ef svo fer sem horfir í yfirstandandandi viðræðum. Hann yrði alfarið í eigu erlendra aðila og Ísland þyrfti að borga leigu fyrir afnot á honum.
Aukinn þrýstingur í hagkerfinu vegna lána fyrir framkvæmdum myndi auka líkur á verðbólgu og vaxtahækkunum. Jákvæð áhrif eru háð því hve mikið vextir muni hækka; ef þeir hækka mjög mikið gæti það leitt til þess að smærri fyrirtæki veigri sér við að taka lán. Þannig gæti smærri fjárfestingum fækkað á meðan verið er að leggja strenginn og endurbæta raforkuflutningskerfið. Það er ekki þjóðhagslega arðbært til skamms tíma litið.
Fjárfesting í sæstreng getur skilað þjóðhagslegum arði ef það væri öruggt að arðurinn kæmist alla leið inn í hagkerfið. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er það hins vegar ekki öruggt, þar sem það mun þurfa að viðhalda strengnum og öllum kerfum í kringum hann eftir að hann er kominn í notkun. Þar að auki hafa Bretar enn ekki sett lög um sína orkustefnu og því er mikil óvissa um hugsanlegt verð fyrir raforkuna frá Íslandi.
Sigmundur Davíð sagði á fundi sínum með David Cameron að „forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri að raforkuverð til heimila og fyrirtækja á Íslandi hækki ekki“. Í mati frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er bent á að flutningsgeta strengsins er meiri en gert er ráð fyrir að verði framleitt af raforku á Íslandi. Flutningsgetan er um 6-8 TW en gert er ráð fyrir að framleiða um 5 TW með fullnýtingu núverandi virkjana, nýrra vindorkuvera og nýrra jarðvarma virkjana. „Þess vegna er líklegt að verð á raforku muni hækka innanlands þar sem innlendir raforkuframleiðendur geta valið að nýta umframsflutningsgetu strengsins og dregið með því úr framboði á rafmagni innanlands,“ segir í skýrslunni. Til samanburðar framleiðir Landsvirkjun um 13 TW af orku árlega. 80% af þeirri raforku er selt til stóriðju. Einnig myndi hátt raforkuverð erlendis hafa áhrif á raforkuverð á Íslandi. Það er því líklegt að raforkuverð muni hækka, en hve mikið það mun hækka er óvíst.
Hversu mikið þarf að virkja?
Gert er ráð fyrir að reistar verði virkjanir upp á 3 TWst og svo verður umframafl úr núverandi virkjunum upp á 2 TWst nýtt. Flutningsgeta um strenginn er hins vegar áætluð um 6-8 TWst. Í skýrslunni, sem er frá 2013, segir einnig að Alþingi hafi þegar tekið frá virkjanakosti sem samsvara 9 TW.
Umræðan í þjóðfélaginu hefur einkennist af áhyggjum um hve mikið þyrfti að virkja til að geta svarað þessari orkuþörf. Sveinn Valfells, eðlisfræðingur og hagfræðingur, skrifaði grein á mbl.is þar sem hann hélt því fram að það myndi jafnvel þurfa að virkja því sem nemur tveimur Kárahnjúkavirkjunum til að ná þessu markmiði.
Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Askja Energy Partners svaraði greininni. Hann segir að ekki verði nauðsynlegt að virkja svo mikið, en virkja verði engu að síður. Skýrara svar barst frá Óla Grétari Blöndal Sveinssyni, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar, í aðsendum pistli á Vísir.is. Hann segir að nóg verði að virkja með nýjum vatnsaflsvirkjunum upp á 1,5 TWst. 1,5 TWst kæmu úr nýjum orkugjöfum svo sem vindorku eða jarðvarma og 2 TWst segir hann nú þegar til í íslenska orkukerfinu í formi framhjárennslis í vatnsaflsvirkjunum sem nú eru starfræktar. Sú raforka sé ónotuð vegna einangrunar íslenska raforkukerfisins. Óli Grétar bendir á að Norðmenn hafi ekki þurft að fara í stórar virkjunarframkvæmdir til að reka sína sæstrengi.
Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur, gagnrýndi samanburðinn við Norðmenn. „Auðvitað hafa Norðmenn ekki þurft að leggja út í nýjar virkjanaframkvæmdir vegna raforkusæstrengja. Í fyrsta lagi er norska raforkukerfið átta sinnum stærra en það íslenska og orkubúskapur Norðmanna er byggður upp í kringum allt aðra álagspunkta,“ segir Þorsteinn í aðsendri grein á vísir.is.
Allir greinahöfundarnir eiga það þó sameiginlegt að nefna sölu á raforku til stóriðjufyrirtækja sem slæma nýtingu. Mikið hagstæðara væri að selja raforkuna úr landi fremur en á afslætti til stóriðjufyrirtækja. „Áhugavert væri að skoða hvernig þessi framkvæmd kemur út í samanburði við aðra möguleika, svo sem auknar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði hér á landi,“ segir í skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins.
Óvissa um hve mikið á að virkja
Atvinnuvegaráðuneytið fékk Environice til að gera greinagerð um umhverfisþættina. Þar kemur fram að lagning sæstrengsins geti skapað þrýsting á virkjunarframkvæmdir á Íslandi til að svara orkuþörfinni. Líkur séu á hraðari uppbyggingu virkjana, langt umfram eftirspurn raforku innanlands, segir í greinagerðinni. Einnig er nefnd óvissa um orkumagn sem yrði flutt í gegnum strenginn, sem yrði sá lengsti í heiminum. Orkutap gæti orðið meira en búist er við. Komi til þess gæti það aukið enn fremur þrýsting til virkjana.
Mikið rask yrði á náttúru landsins við framkvæmdir. Það þyrfti að virkja því sem nemur 1,5 TW samkvæmt áætlunum ásamt því að setja upp vindorkuver, nýjar flutningslínur á miðhálendinu og vatnsaflsvirkjanir. Hagsmunasamtökin Gætum garðsins leggja til að miðhálendið verði gert að þjóðgarði og að allar áætlanir um virkjanir verið lagðar niður því ferðamenn sæki til Íslands til að skoða ósnortna náttúru landsins. Samtökin héldu blaðamannafund, með Andra Snæ Magnason, rithöfundur, og Björk Guðmundsdóttur, söngkona, í fararbroddi þegar Iceland Airwaves tónlistarhátíðin stóð yfir í nóvember síðastliðnum. Þau líktu áætlunum um sæstreng við trú á álfa og tröll. Íslensk náttúra er að þeirra mati of verðmæt til að fórna henni í virkjanir til rafmagnsframleiðslu sem yrði að auki seld úr landi. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði vorið 2015 kom fram að stór hluti þjóðarinnar, eða rúmlega 60%, er á móti frekari virkjanaframkvæmdum á miðhálendinu.
Hagur heimsins að minnka útblástur koltvísýrings
Ef litið er á heildarmyndina þá vilja Bretar auka hlutfall af endurnýjanlegri orku í raforkukerfi sínu og minnka þannig streymi af kolvetni út í andrúmsloftið. „Ein af ástæðum þess að hagkvæmt kann að þykja að leggja rafstreng milli Íslands og Bretlands er að framkvæmdin getur dregið úr þörf fyrir óendurnýjanlega orkugjafa í Bretlandi og þannig stuðlað að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda þarlendis,“ segir í greinagerðinni. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði eftir loftlagsráðstefnuna í París að Ísland gæti barist gegn loftslagsbreytingum með því selja græna orku til Evrópu. Ísland geti orðið grænt batterí fyrir Evrópu.
Í greinagerð Environice segir að það að fá endurnýjanlega orku í gegnum sæstreng, hvort sem það er frá Íslandi eða Noregi, geti heft nýsköpun Breta í þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum.
Þá megi einnig velta fyrir sér hvort umhverfisáhrifin sem sæstrengur myndi hafa í för með sér svaraði kostnaði. Ísland getur með þessum sæstreng mest svarað um 10% af heildarorkuþörf Breta.
Þarfnast frekari rannsóknar
Í öllum skýrslum á vef atvinnuvegaráðuneytisins, sem snúa að lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands, er bent á að það þurfi meiri og ýtarlegri rannsóknir á framkvæmdinni og hugsanlegum áhrifum hennar. Svo virðist sem það hafi ekki enn verið gert. Enn er hægt að læra af því sem áður hefur verið gert í raforkumálum hérlendis varðandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar.
Fundur Cameron og Sigmundar Davíðs og skipun vinnuhóps um hugsanlegt verð og magn gefur vísbendingar um að viðræður séu mögulega komnar lengra en skýrslur atvinnuvegaráðuneytisins gefa tilefni til. Skýrslur um framkvæmdina benda allar á að það þurfi meiri rannsóknir áður en ákvörðun verður tekin. Ljóst er að leggjast þyrfti í virkjunaraðgerðir á miðhálendinu til að svara orkuþörf sæstrengsins. Meirihluti landsmanna er á móti þeim aðgerðum.
Ef til þess kæmi að stóriðjur leggðu niður starfsemi sína, eins og hefur verið í umræðunni varðandi álverið í Straumsvík, myndi losna töluverð orka út í rafmagnskerfið. Þá væri von til að ekki þyrfti að virkja eins og áætlanir standa til. Hvar myndum við standa varðandi sæstreng þá?
Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.