Bera íslenskar stofnanir ábyrgð í gervibarkamálinu?

Gervibarki.
Gervibarki.
Auglýsing

Málinu um ígræðslu gervibarka í Eritíumanninn Andemariam Beyene, sem var fyrsti maðurinn á heimsvísu til að undirgangast slíka aðgerð, er hvergi nærri lokið. Samkvæmt því sem fram hefur komið þá eru gögn frá Íslandi talin vera lykilgögn í rannsókn á misferli og svikum ítalska prófessorsins Paolo Macchiarini sem gerði tilraunaaðgerðir á barkaígræðslu í fólk við Karolinska-sjúkrahúsið í Stokkhólmi, en hann hefur nú verið rekinn. Ástæðan er að hann hafði aldrei tilskilin leyfi til að gera aðgerðirnar eða nota gervibarkann. Þá hafi hann grafið undan trausti almennings á Karolinska-sjúkrahúsinu með hátterni sínu og gerst sekur um vanrækslu en Macchiarini sinnti í engu eftirliti með sjúklingum sínum eða upplýsti þá um mögulegar hliðarverkanir gervibarkaaðgerðanna. 

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur nú sett á stofn nefnd til að skipa nýja yfirstjórn yfir Karolinska-stofnunina í kjölfar þessa hneykslismáls. 

Forráðamenn Karolinska-stofnunarinnar halda því fram að Íslendingar hafi ekki greint rétt frá ástandi Beyene og varð það kveikjan að rannsókn málsins. Þá eru ásakanir um að villandi upplýsingar um ástand Beyene, bæði í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet og á málþingi sem haldið var í Háskóla Íslands, sem hafi orðið til þess að fleiri undirgengust gervibarkaígræðslu með hörmulegum afleiðingum en flestir þeir sjúklingar eru látnir. 

Auglýsing

Um er að ræða alþjóðlegt hneykslismál sem tengist Íslandi, en málið er meðhöndlað sem sakamál og er til rannsóknar í Svíþjóð.

Ef ásakanir á hendur Paolo Maccharini og Karolinska-stofnuninni reynast á rökum reistar er vísast um að ræða eitthvert stærsta hneykslismál í sögu læknavísindanna á síðustu áratugum, og kann að leiða til þungrar refsingar.

Á meðan stofnanir hérlendis, Landspítali (LSH), Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Háskóli Íslands (HÍ) sjá ekki ástæðu til að hefja rannsókn á þessu mikilvæga máli, jafnvel þótt fyrsti sjúklingurinn til að undirgangast tilraunaaðgerðina hafi komið héðan og tilskilin leyfi hafi ekki verið fyrir hendi, þá logar allt vísindasamfélagið bæði í Svíþjóð og víða á Vesturlöndum vegna málsins.

Saga málsins

Erítreumaðurinn Andemariam Beyene var við meistaranám í Háskóla Íslands (HÍ) þegar hann gekkst undir gervibarkaígræðslu sem var tilraunameðferð á Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í júlí 2011. Hann var álitinn vera með ólæknandi krabbamein í hálsi og hafði læknir hans, Tómas Guðbjartsson, leitað ráða bæði í Boston og síðar hjá Karolinska-sjúkrahúsinu um hvað væri hægt að gera fyrir Beyene. Þaðan kom uppástunga um að Beyene gengist undir gervibarkaígræðslu hjá Paolo Maccharini, prófessor við Karolinska-stofnunina, og sú varð raunin. 

Þessi nýstárlega aðgerð byggðist á meðhöndlun gervibarka með stofnfrumum sem áður höfðu verið einangraðar úr sjúklingnum sem átti að leiða til myndunar öndunarfæravefs og ef allt hefði verið með felldu hefði barkinn átt að vera sveigjanlegur. Barkinn yrði þannig því sem næst eðlilegur og eftirgefanlegur og ætti að starfa eðlilega.

Hvernig Beyene vegnaði eftir aðgerðina hefur orðið að ágreiningsefni og hafa komið fram vísbendingar um að ástand barka hans hafi verið miður gott þegar hann gekkst undir berkjuspeglun á LSH fáeinum mánuðum eftir ígræðsluna, eða um það leyti er grein sem lýsti aðgerðinni sem árangursríkri birtist í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet. 

Tveir virtir íslenskir læknar hafa sogast inn í atburðarrás þessa hneyklismáls. Í fréttaflutningi hér á landi hefur kastljósið að miklu leyti beinst að þeirra þætti í þessu sorglega máli. 

Villandi upplýsingar í Lancet og málþing í HÍ ruddu brautina fyrir fleiri aðgerðir

Í grein sem birtist í Lancet einungis fimm mánuðum eftir tilraunaaðgerðina kom fram að hún hefði tekist vel, að barkinn væri „næstum eðlilegur“. Lancet-greinin hefur enn ekki verið dregin til baka og hlýtur það að þýða að höfundar hennar telja upplýsingarnar þar vera réttar. Íslensku læknarnir eru báðir meðhöfundar hennar og eru því samábyrgir fyrir því sem þar stendur. Greinin ásamt málþingi sem haldið var í HÍ þar sem kynntar voru jákvæðar niðurstöður tilraunaaðgerðarinnar, ruddu brautina fyrir Maccharini til að hefja fleiri aðgerðir á fólki með hörmulegum afleiðingum, fólki sem jafnvel lifði ágætu lífi fyrir. 

Læknadeild HÍ kom að málþinginu sem var haldið í tilefni þess að ár var liðið frá tilraunaaðgerðinni, þáverandi forseti læknadeildar, Andemariam og nokkrir prófessorar við læknadeildina voru þar. Paolo Maccharini var meðal ræðumanna á málþinginu, Tómas Guðbjartsson, læknir Beyene og einn þeirra þriggja manna sem komu að aðgerðinni, er prófessor í skurðlækningum við HÍ og yfirlæknir við LSH. Tómas sagði að aðgerðin væri aðeins eitt skref á langri leið. Þörf fyrir líffæri væri mikil í heiminum og verið væri að vinna að rannsóknum á gervilíffærum með hjálp stofnfrumna. 

Anemariam Beyene voru gefin 8-10 ár með gervibarkann en hann lifði tæp 3 ár. Á innan við ári eftir tilraunaaðgerðina og áður en málþingið var haldið í HÍ var búið að setja stoðnet í plastbarka hans til að öndunarvegurinn félli ekki saman þar sem stofnfrumumeðferðin mistókst. Sú aðgerð var gerð í Svíþjóð og var Maccharini viðstaddur hana. Beyene var illa haldinn og leið kvalir síðasta árið, eftir því sem eiginkona hans hefur lýst í þætti Bosse Lindquists í sænska sjónvarpinu, með aðskotahlut í öndunarvegi sínum en bólgur og sýkingar eru algengur fyligfiskur slíkra aðskotahluta í líkama fólks.

Lykilstofnanir þegja þunnu hljóði   

Háskóli Íslands.Lítið verið horft til ábyrgðar íslenskra heilbrigðisyfirvalda og lykilstofnana eins og LSH og SÍ í málinu allt frá því að ákvörðun var tekin um að Andemariam Beyene gengist undir hina misráðnu plastbarkaígræðslu. Engar fyrirliggjandi upplýsingar lágu fyrir um að  tilraunaaðgerðin væri líkleg til að heppnast og ekki lágu fyrir staðfest tilskilin leyfi fyrir aðgerðinni eða að nota gervibarkann. 

Í ljósi alvarleika málsins, þá hlýtur að teljast eðlilegt að fram fari rannsókn á ábyrgð allra hlutaðeigandi. Þáttur Íslands er þar engan veginn undanskilinn og beinist ekki einungis að LSH og SÍ heldur einnig að HÍ. Á málþinginu í HÍ voru kynntar jákvæðar niðurstöður tilraunaaðgerðarinnar og meintur vísindalegur ávinningur hennar.

Mögulega hefði mátt miðla upplýsingum um allsendis ófullnægjandi útkomu barkaígræðslunnar til Karolinska-stofnunarinnar og vísindasamfélagsins og koma þannig í veg fyrir að sjö einstaklingar til viðbótar færu í gervibarkaaðgerð hjá Maccharini.

Stór hluti þeirra hefur síðan látið lífið eða sex af átta manns, mun fyrr en annars hefði verið. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvað íslensku læknarnir létu fara í skýrslu um Beyene, varðandi ástand hans eftir aðgerðina ytra og þar stendur hnífurinn í kúnni. 

Heilbrigðisyfirvöld hafa lítið vilja tjá sig um málið, raunar verjast bæði SÍ og LSH allra frétta en ljóst er að fyrirkomulag þessa máls hlýtur að vera á þeirra ábyrgð. 

Í svari frá SÍ til Kjarnans kemur fram að SÍ hafi ekki greitt fyrir barkaígræðsluaðgerðina sjálfa heldur hafi kostnaðurinn fallið á Karolinska-sjúkrahúsið þar sem um tilraunaaðgerð hafi verið að ræða en reglur SÍ kveða skýrt á um að stofnunun greiði ekki fyrir slíkar aðgerðir. SÍ hefur samt sem áður enn ekki viljað gefa upp upphæðina sem stofnunin greiddi eða fyrir hvað og segja það vera vegna persónuverndarákvæða. En SÍ greiddu allt annað en tilraunaaðgerðina sjálfa og einnig eftirmeðferð. Beyene fór m.a. til Svíþjóðar eftir aðgerðina þar sem hann dvaldi á Karolinska-sjúkrahúsinu og gekkst undir aðra aðgerð á barka. 

Um þetta segir Ingibjörg Þorsteinsdóttir, lögfræðingur hjá SÍ, í svari til Kjarnans: „Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiddu ekki fyrir barkaígræðsluna, heldur féll kostnaðurinn á Karolinska sjúkrahúsið í Svíþjóð. Þar sem hér er um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða geta SÍ ekki tjáð sig að öðru leyti um þetta mál, s.s. um annan kostnað sem féll á SÍ vegna þessa sjúklings, né afhent gögn sem snerta hann.“ 

Er hægt að aðskilja tilraunaaðgerðina frá öðrum þáttum meðferðarinnar?

Ætla mætti að aðgerðin væri hluti af tilraunameðferðinni og einkennilegt ef hægt er að aðskilja þessa þætti. Gera má ráð fyrir viðamiklu ákvörðunarferli af hálfu SÍ sem greiddu kostnað sem af tilraunameðferðinni hlaust, ekki síst þar sem reglur stofnunarinnar (siglinganefnd), kveða á um að hún taki ekki þátt í kostnaði við slíka meðferð. Hvert einstakt mál verður siglinganefndarmál ef meðferð er ekki í boði hér á landi en ef brýn nauðsyn er fyrir þann sem er sjúkratryggður að fá hana, sækir læknir viðkomandi til siglinganefndar um að hún annist og meti umsóknina til meðferðar. Sé hún samþykkt er greiddur meðferðarkostnaður, ferða- og uppihaldskostnaður ásamt kostnaði vegna fagfylgdar eða annarrar fylgdar sem læknir vottar að nauðsynleg sé, sbr. reglugerð nr. 712/2010 en hún fjallar um mál sjúklings.

 „Sjúkratryggður einstaklingur sem hyggst fara erlendis í læknismeðferð þarf að huga að ýmsu áður en lagt er af stað. Skoða þarf undir hvaða málaflokk viðkomandi læknismeðferð flokkast, hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt og hvaða gögnum þarf að skila.“

Landspítalinn.Ástríður Stefánsdóttir, læknir og dósent í siðfræði við HÍ, segir þessa afstöðu SÍ endurspegla tvískinnung sem birtist víða í málinu. Í Svíþjóð hafi mikið verið rætt um að skýra þyrfti betur þá aðgreiningu sem gera þurfi á milli vísindatilraunar á fólki annars vegar og læknismeðferðar hins vegar. „Nú þegar hefur starfshópur verið skipaður þar til að fara sérstaklega ofan í þann þátt málsins í Svíþjóð. Svo virðist sem þessi skil hafi verið óljós í afgreiðslu SÍ,“ segir Ástríður.

Ferlið sem mál hvers sjúklings undirgengst þegar leitað er eftir framvæmd aðgerðar erlendis, er bæði langt og ítarlegt og reglurnar sem gilda um slík mál skýrar. 

Helgi Guðbergsson, yfirlæknir hjá SÍ, minnir á að þagnarskylda varðandi mál einstaklinga sem hann og starfsmenn SÍ séu bundnir og að hann geti því ekki annað en svarað spurningunni almennt um hvort hægt sé að aðskilja tilraunaaðgerðina frá meðferðinni. Það gildi einnig eftir að sjúklingar séu látnir eins og í því tilfelli sem hér um ræðir. Því verði hann að svara spurningunni almennt. Í því sambandi segir Helgi. „Það er ófrávíkjanleg regla að SÍ tekur ekki þátt í greiðslu kostnaðar ef um er að ræða einhvers konar tilraunameðferð, hvort sem lækningatilraunirnar eru hluti af akademískt viðurkenndu ferli, eða ekki. Samkvæmt lögum eiga SÍ að standa undir kostnaði við meðferð erlendis þegar um gagnreynda meðferð er að ræða. Ef myndlíking er notuð má segja að þegar um gagnreynda meðferð er að ræða sé verið að vinna á hvítu svæði. Þegar um meðferð er að ræða, sem læknisfræðin hefur sýnt fram á að er gagnslaus, sé verið að vinna á svörtu svæði og þegar óvissa er um árangur, sé verið að vinna á gráu svæði. Það er beinlínis hlutverk háskólasjúkrahúsa og rannsóknarstofnana að vinna á þessu gráa svæði, þar sem ella yrði engin framþróun í læknisfræði og þar með í meðferð sjúkdóma.“

Þessi orð Helga eru athyglisverð í ljósi þess aðgerðin á Beyene var framkvæmd án undangenginna rannsókna sem sýndu fram á að meðferðin gæti borið árangur og án tilskilinna leyfa. Beyene var í raun „tilraunaviðfangið“. 

Helgi segir jafnframt að túlkun siglinganefndar SÍ á þeim lögum og reglum, sem sett hafa verið um meðferð erlendis, sé sú að það sé ekki hlutverk SÍ samkvæmt lögum, að taka þátt í vinnu á þessu gráa svæði með því að kosta ferðir sjúkratryggðra einstaklinga með erfiða sjúkdóma í rannsóknir og meðferð, þegar með öllu er óljóst hvaða meðferð kunni að vera í boði. „SÍ telja að stofnuninni sé beinlínis óheimilt að taka þátt í slíkum kostnaði. Háskólastofnanir birta, að loknum rannsóknum sínum og tilraunum með nýja meðferð, niðurstöðurnar í ritrýndum alþjóðlegum læknisfræðiritum og þá hafa aðrir læknar, þar á meðal sérfræðilæknar hér á landi, í höndunum upplýsingar um meðferð, sem hægt er að byggja á.“

 „Í því tilviki sem þú spyrð um voru þessar reglur hafðar í heiðri af hálfu SÍ,“ segir Helgi.

Nauðsynlegt að viðkomandi stofnanir hefji rannsókn á málinu

Ástríður Stefánsdóttir telur nauðsynlegt að þær íslensku stofnanir sem komu að máli Beyene, þekki til þess í heild, rannsaki sérstaklega sinn þátt í málinu. Það sé beinlínis nauðsynlegt. „Best er að þær skipi óháða utanaðkomandi sérfræðinga til að vinna málið. Slík rannsókn þjónaði þeim tilgangi að skoða málið sérstaklega út frá þeim spurningum sem vakna hér á Íslandi tengum málinu. Enginn annar en við getur svarað þeim spurningum. Jafnframt þurfum við og munum þurfa að eiga samtal við erlendar rannsóknarstofnanir um þessa hörmulegu atburðarás,“ útskýrir hún.

Ástríður tekur einnig fram að til þess að geta rannsakað atburðarásina með viðunandi hætti þurfum við að þekkja málið frá sjónarhóli okkar. Það sé ótækt fyrir Íslendinga ef okkar stofnanir séu það veikburða að þær geti ekki sjálfar sinnt eftirlitsskyldu með þessum hætti. Slíkt grafi undan almennu trausti á stofnunum. 

Eins og málið horfir við nú virðast læknarnir tveir, Tómas Guðbjartsson, læknir Beyene, og Óskar Einarsson, sem gerði berkjuspeglun á Beyene eftir ígræðsluaðgerðina úti, vera á eigin vegum í þessu máli, þrátt fyrir að þeir séu starfsmenn LSH og þar af leiðandi íslensku heilbrigðisþjónustunnar, auk þess sem annar starfar við HÍ.

Væntanlega hefur sú stóra ákvörðun að þekkjast boð Karolinska-sjúkrahússins að framkvæmd yrði fyrsta plastbarkaígræðsla í heimi á sjúklingi í þjónustu LSH verið tekin eftir umfangsmikið ákvörðunarferli sérfræðinga og yfirmanna þar sem allar upplýsingar þar að lútandi lágu fyrir. Slíkt ferli hlýtur að hafa falið í sér vandaða yfirferð yfir rannsóknir sem áður höfðu verið framkvæmdar og lágu til grundvallar því að reyna aðgerðina á manneskju.

Framkvæmdastjóri lækninga á LSH, Ólafur Baldursson, hefur lýst fullu trausti á læknana tvo sem komu að máli Beyene og sagt að rannsókn, svokölluð rótargreining, sem nær yfir meðferðina sem Beyene var veitt þar, hafi leitt í ljós að aðgerðin hafi bæði bjargað lífi hans og lengt það. Rótargreiningin var gerð um fagleg vinnubrögð á LSH og störf læknanna af utnaðkomandi fagaðilum en blaða- og fréttamenn hafa ekki fengið aðgang að henni. Rótargreiningin er ekki gagnsæ, hún er undanþegin upplýsingalögum og getur því ekki hjálpað til við að upplýsa almenning eða efla traust hans á LSH og starfsmönnum hans í þessu alvarlega máli. Ólafur hefur ekki viljað tjá sig frekar um málið en sagði í viðtali við Vísi 1. sept 2015. „Lærdómurinn í þessu tilfelli er að við þurfum að bæta verklagsreglur þegar sjúklingar eru sendir til útlanda og það má líka alltaf bæta skráningu. En þessar miklu ásakanir sem sérstaklega læknarnir urðu fyrir, þær eiga ekki við rök að styðjast hvað varðar meðferðina á Landspítalanum." 

Paolo Maccharini, prófessor við Karolinska-stofnunina.Á hinn boginn má túlka orð Reynis Arngrímssonar, formanns læknaráðs Landspítala, á þann veg að læknaráð vilji að málið verði upplýst. Hann segir að læknaráð hafi ekki haft beina aðkomu að gervibarkamálinu en stjórn þess hafi reynt að kynna sér málavexti og fylgjast með framvindu þess eins og frekast sé kostur. Málið sé nú komið í ákveðinn farveg hjá sænskum stjórnvöldum og þeim stofnunum sem hlut eigi að máli. „Stjórn læknaráðs Landspítala er þeirra skoðunar að mikilvægt sé að allir þættir þess séu upplýstir og hvetur til vandaðrar, málefnalegrar og hleypidómalausrar umfjöllunar,“ segir Reynir. 

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við HÍ, telur líkt og Ástríður að Íslendingar þurfi að ræða þær siðferðilegu spurningar sem þessi tilraunameðferð veki. „Sú umræða þarf bæði að snúast um breytni heilbrigðisstarfsmanna og þau kerfi eða ferli sem við búum yfir til að hafa eftirlit með meðferð og rannsóknum. Þetta þarf að gera óháð því hverjar niðurstöður rannsóknarmálsins um ábyrgð einstakra starfmanna eða stofnana verða. Þetta er hörmulegt mál þar sem virðist hafa verið brotið gegn grundvallaratriðum í vísindasiðferði,“ segir Vilhjálmur um gervibarkamálið.

Vísindasiðareglur döguðu uppi í menntamálaráðuneytinu

Vilhjálmur bendir á að sjálfur hafi hann starfað í vinnuhópi á vegum Rannís til að móta vandaða starfshætti í vísindum. Vinuhópurinn skilaði starfi sínu í drögum að siðareglum árið 2011 til menntamálaráðuneytisins en þar hafa siðareglurnar legið og ekkert verið gert til að koma þeim á laggirnar. Í drögunum er m.a. tekið fram að sérstök siðanefnd fjalli um mál af því tagi sem um ræðir, þ.e. tilraunameðferðir, og e.t.v. hefðu þessar reglur haft einhverja þýðingu í að forða misferli í vísindum eins því sem gerðist í gervibarkamálinu ef þær hefðu komist í framkvæmd. Við fyrirspurn Kjarnans til menntamálaráðuneytisins um hvers vegna áðurnefnd drög komust aldrei á laggirnar, segir Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi í menntamálsráðuneytinu. „Eftir að ráðuneytið fékk málið til meðferðar og byrjað var að rýna í það var niðurstaðan sú að rétt væri að siðareglurnar ættu sér stoð í lögum og það kallar á breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2002. Slíkar breytingar taka langan tíma, ekki síst þegar önnur aðkallandi og brýn málefni eru ofar í forgangsröðinni. Þar að auki kalla breytingar af þessu tagi á víðtækt samráð við marga aðila. Staðan núna er sú að hafin er vinna við gerð tillagna um breytingar á framangreindum lögum og er grein um siðanefnd vísindamála hluti af þeirri vinnu. Gert er ráð fyrir að tillögur verði lagðar fyrir ráðherra á þessu ári.“

Vísindasamfélagið þarf að skoða þetta mál 

Ástríður Stefánsdóttir telur ekki vafa leika á að Íslendingar þurfi að bera ábyrgð og skoða þetta mál og gangast við því ef mistök hafa verið gerð. „Vísindasamfélagið í heild þarf tvímælalaust að skoða þetta mál. Við þurfum einnig að útskýra hvernig fyrirhugað er að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Að öðrum kosti er ekki hægt að ætlast til þess að vísindasamfélaginu og tilheyrandi stofnunum sé treystandi.“ Hún bendir einnig á í þessu sambandi áðurnefnd drög að góðum starfsháttum í rannsóknum sem Rannsóknarráð Íslands samdi og hafa aldrei litið dagsins ljós heldur döguðu uppi í menntamálaráðuneytinu. Þar er m.a. lagt til að setja skuli á fót siðanefnd sem fjallað gæti um mál eins og gervibarkamálið. „Ef sú siðanefnd væri starfandi þá ætti hún að vera einn þeirra aðila hérlendis sem skoða ætti málið og álykta um það. Sú nefnd mynda heyra undir mennta- og menningarmálaráðneyti. Þar sem hún er ekki til þá er vel hugsanlegt að mennta- og menningarmálaráðuneytið ætti að finna til sinnar ábyrgðar og skipa óháða nefnd til að fara ofan í málið,“ segir Ástríður. 

Eftirlitsstofnun heilsu- og félagsmála í Svíþjóð taldi aðgerðir Maccharini ólöglegar og að bæri að líta á þær sem tilraunir á mönnum. Sænska vísindasiðanefndin taldi aðgerðirnar hneyksli og að ekki hefði verið sýnt fram á að aðgerðirnar hefðu verið gerðar í lækningaskyni. Á þeim tíma taldi Karolinska-stofnunin að Maccharini væri ekki sekur um vísindalegt misferli. 

Eftir að málið var tekið upp á ný hefur Karolinska-stofnunin haldið því fram að upplýsingar frá Íslandi um ástand Andemariam Beyene eftir aðgerðina og þar til Lancet-greinin leit dagsins ljós hafi verið lykilgögn í rannsókn í hneykslismálinu og í því að Maccharini varð ákærður. Þessar upplýsingar hafa reynst mjög dýrkeyptar og urðu til þess að kallað var eftir afsögn rektors Karolinska-stofnunarinnar, Anderes Hamsten, sem sagði af sér í febrúar síðastliðinn. 

Við rannsókn á Maccharini kom í ljós að hann hafði aldrei gert þær tilraunir með stofnfrumur á dýrum sem hann sagðist hafa gert, heldur óð hann beint í lifandi fólk og gerði það að tilraunaviðfangsefnum sínum. Hann hafði heldur ekki tilskilin leyfi til að gera aðgerðirnar eða nota gervibarkana. Þá reyndust upplýsingar frá Íslandi villandi skv. því sem Svíar segja og enn óljóst í hvað stóð í íslensku gögnunum um Beyene sem rataði í Lancet-greinina. 

Magnús Karl Magnússon, forseti læknadeildar HÍ, hefur ekki séð ástæðu til að gera óháða rannsókn á málinu og rektor HÍ, Jón Atli Benediktsson, hefur lýst því yfir að hann muni bíða eftir niðurstöðum rannsóknarinnar í Svíþjóð en HÍ hefur verið tilbúinn til að veita aðstoð með því að láta gögn af hendi. Hann hefur ekki lýst yfir stuðningi við starfsmann sinn, Tómas Guðbjartsson prófessor, líkt og LSH hefur gert. 

Um ábyrgð HÍ á þátttöku íslenskra vísindamanna í samstarfi sem þessu sem að stórum hluta fer fram erlendis, segir rektor, dr. Jón Atli Benediktsson. „Almennt séð taka vísindamenn þátt í rannsóknarverkefnum á eigin ábyrgð, hvort sem þessi verkefni eru unnin innanlands eða utan. HÍ er í fæstum tilvikum beinn þátttakandi í einstökum verkefnum, heldur er aðkoma skólans í flestum tilvikum í gegnum starfsfólk hans. Um þátttöku starfsfólks í rannsóknarverkefnum gilda reglur skólans, þ.á m. siðareglur. Sumar rannsóknir eru leyfisskyldar og þá þarf að sækja um leyfi fyrir framkvæmd þeirra til þar til bærra aðila, svo sem Vísindasiðanefndar.“

Siðareglur:

Vandvirkni og heilindi

2.1.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur eru gagnrýnir á sjálfa sig og vanda dóma sína. Þeir falsa ekki eða afbaka upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna. Þeir gæta þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu. Þeir forðast hvers kyns mistök og villur í rannsóknarstarfinu. Verði þeim á mistök viðurkenna þeir þau og gera það sem þeir geta til að bæta fyrir þau.

Jón Atli segir enn fremur að verkefnið sem hér um ræðir hafi verið unnið innan veggja LSH og hjá Karolinska og að eftirlit með framgangi þess hafi því verið í höndum þeirra stofnanna en ekki HÍ. Hann segir að málþingið sem haldið var ári eftir umrædda aðgerð og skipulagt af HÍ, hafi byggst á grunni upplýsinga sem þá lágu fyrir. „Ég tel ekki rétt að tjá mig um málið á þessu stigi. HÍ mun ekki bregðast við fyrr en að lokinni þeirri rannsókn sem þegar er farin af stað í Svíþjóð hjá óháðri rannsóknarnefnd. Skólinn hefur þegar sett sig í samband við rannsóknarnefndina og heitið fullri samvinnu við að upplýsa málið eftir því sem efni standa til,“ segir rektor.

Heilbrigðisyfirvöld hafa eins og áður segir varist fregna en ljóst er að aðkoma okkar Íslendinga að þessu verkefni hlýtur að vera á þeirra ábyrgð. SÍ hefur eingöngu sagt að íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi komið að kostnaði í kringum aðgerðina á Beyene í Svíþjóð en að Svíar hafi greitt fyrir sjálfa aðgerðina. Heilbrigðisyfirvöld hljóta þó að vera ábyrgð fyrir að Beyene fór í tilraunaaðgerðina. Ábyrgðin í þessu máli liggur fyrst og fremst þar.

„Við verðum að hafa í huga að hér er um að ræða mjög alvarlegar ásakanir sem fela í sér grun um óboðlega og lífshættulega læknismeðferð, rannsóknir á fólki þar sem ekki var gætt tilhlýðilegrar varúðar og jafnframt ásakanir um misferli eða jafnvel svik í rannsóknum sem hafa hugsanlega haft alvarlegar afleiðingar og jafnvel leitt til þess að fjöldi manns hefur látist. Þetta mál teygir anga sína til fjölmargra landa og er mjög flókið. Það er því ljóst að sú rannsókn sem nú er byrjuð í Svíþjóð mun einnig verða gerð í fleiri löndum og mun hugsanlega taka mörg ár. Við Íslendingar verðum að skoða vel okkar eigin aðkomu að þessu máli. Við getum þar ekki einungis treyst á aðkomu annarra stofnana í öðrum löndum og að þau skýri fyrir okkur hvað gerðist, við verðum líka að gera okkar eigin rannsókn. Vandinn sem við glímum við nú er m.a. sá að málið er fordæmalaust hérlendis og við virðumst ekki hafa fyrir það skýra farvegi,“ segir Ástríður Magnúsdótttir.

Mikilvægt er að framkvæmd verði ítarleg skoðun á öllu ferlinu í kringum hina afdrifaríku tilraunameðferð hér á landi og hlutverki og ábyrgð íslensku stofnananna. Sænska rannsóknin mun líklega ekki ná til þátta íslensku stofnananna en mikilvægt er að við getum lært af þessu máli eins og fram hefur komið. Samt sem áður virðist það vera skoðun forráðamanna þeirra stofnana sem komu að málinu að ekki sé ástæða til sérstakrar rannsóknar á aðkomu þeirra hér á landi. 

Fjölmiðlar hafa ekki sýnt þessu máli mikinn áhuga ef frá eru taldir Stundin og RÚV. Fálæti fjölmiðla vekur upp spurningu um hvort málinu hefði verið sýndur meiri áhugi ef einstaklingurinn sem var sendur héðan í tilraunaaðgerðina sem misheppnaðist hefði verið íslenskur. 

Viðbót klukkan 07:00 27. mars 2016:

Ályktun um að ekki hafi verið farið eftir siðareglum starfsmanna HÍ í málinu hefur verið fjarlægð úr fréttaskýringunni eftir að aðfinnslur bárust. Það liggur ekki fyrir að svo sé og er það hér með leiðrétt. Beðist er velvirðingar á þessu. 

Þá skal árétta að þótt fram komi í fréttaskýringunni að forseti Læknadeildar hafi ekki séð ástæðu til að framkvæmda óháða rannsókn á gervibarkamálinu hérlendis þá er ekki verið að halda því fram að Læknadeild HÍ vilji ekki óháða rannsókn. Fyrir liggur að Læknadeildin styðji rannsókn óháðra aðila í Svíþjóð. Viðmælendur höfundar greinarinnar telja hins vegar að gera verði eigin rannsókn á Íslandi og draga af henni lærdóm.

Hægt er að lesa aðsenda grein Magnúsar Karls Magnússonar, forseta Læknadeildar HÍ, vegna fréttaskýringarinnar hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Tryggvi Rúnar Brynjarsson
Í Dal hinna föllnu
Kjarninn 16. september 2021
Sif Sigmarsdóttir
Hvernig viljum við lifa?
Kjarninn 16. september 2021
Arnhildur Hálfdánardóttir fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Hún er þar með síðasti handhafi þeirra verðlauna.
Hætta að veita fjölmiðlaverðlaun á degi íslenskrar náttúru
Algjör sprenging hefur orðið í umfjöllun fjölmiðla um loftslags- og umhverfismál og því telur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki lengur þörf á að verðlauna miðla sérstaklega fyrir slíkan fréttaflutning.
Kjarninn 16. september 2021
Sif Konráðsdóttir
Áratugur Árósasamnings
Kjarninn 16. september 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Framlög til barnabótakerfisins aukin og fleiri fá þær, en raunvirði bóta hefur lítið hækkað
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur um að ríkisstjórn hennar hafi aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði fyrir fjórum árum síðan.
Kjarninn 15. september 2021
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Rúm 40 prósent vilja að Katrín verði áfram forsætisráðherra
Í niðurstöðum könnunar á vegum ÍSKOS kemur í ljós að langflestir vilja að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Athygli vekur að Bjarni Benediktsson nýtur minni stuðnings í embættið en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í könnunum.
Kjarninn 15. september 2021
Eyþór Eðvarðsson
Rétturinn til að deyja
Kjarninn 15. september 2021
Þröstur Ólafsson
Hvað á ég að kjósa?
Kjarninn 15. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None