Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lagði fram miklu færri mál á þessu löggjafarþingi heldur en árin á undan, og miklu færri mál heldur en nokkur ríkisstjórn síðustu tuttugu ár hefur verið búin að leggja fram þann 8. apríl á hverju þingi.
Ríkisstjórnin sem starfaði þar til á fimmtudaginn lagði fram 85 frumvörp á yfirstandandi þingi. Það er fimmtán frumvörpum færra en árið 2005, þegar 100 frumvörp höfðu verið lögð fram á þessum tíma. Lengst af á þessu tuttugu ára tímabili var þing ekki sett fyrr en 1. október. Þingsetningin var færð fram um nokkrar vikur, fram í september, haustið 2012.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur lagt fram flest frumvörp, 24 talsins, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kemur þar á eftir mað 19 frumvörp. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur lagt fram 11 frumvörp, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sjö frumvörp og Sigurður Ingi Jóhannsson lagði fram sex frumvörp sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafa komið fram með fimm frumvörp hvort og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram fjögur frumvörp. Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram tvö frumvörp sem utanríkisráðherra, en mörg málanna sem utanríkisráðherra kemur með inn í þingið eru þingsályktunartillögur vegna EES mála. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom fram með tvö frumvörp á þessu þingi sem forsætisráðherra.
Gagnrýnt strax í haust
Þingmenn bæði í stjórn og stjórnarandstöðu vöktu athygli á því strax í haust að skortur væri á þingmálum frá ríkisstjórninni. Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, vakti athygli á þessu í þinginu þann 10. nóvember síðastliðinn. Hún benti á að þingnefndir hefðu af þessum sökum lítið að gera og þingstörfin væru í uppnámi. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tók undir með henni, og flokkssystir hennar Heiða Kristín Helgadóttir líka. „Hér er fullt af fólki sem er tilbúið að vinna og það er miður að málin komi svo inn í þingið eftir tvær til þrjár vikur og þá séu þau afgreidd á einhverju hundavaði,“ sagði hún. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, benti á að tveir mánuðir væru liðnir af þinginu og þrír ráðherrar hefðu ekki skilað einu einasta þingmáli inn. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lagði til að nefndir væru í verkfall þangað til mál kæmu inn í þær. „Ég tek undir þá hvatningu til ráðherra að fara að koma fleiri málum hérna inn svo að við í þinginu getum tekið það hlutverk okkar alvarlega að vinna að málum vel,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins við umræðurnar.
Seinkun á afgreiðslu fjárlaga
Þrátt fyrir að færri mál hafi komið inn í þingið fyrir jól en síðustu áratugina þar á undan varð seinkun á afgreiðslu fjárlaga. Ástæðan var sú að ríkisstjórnin afgreiddi ekki sínar tillögur að breytingum á fjárlögum fyrr en of seint til að halda starfsáætlun þingsins. Þar með varð seinkun á umfjöllun fjárlaganefndar og málið allt tafðist.
Tíðrætt um að klára stóru málin fyrir kosningar
Ríkisstjórninni hefur verið tíðrætt um að klára þurfi mörg stór mál fyrir kosningar í haust. Frestur til þess að leggja fram ný þingmál á Alþingi rann út þann fyrsta apríl síðastliðinn. Mál sem koma fram eftir þann frest þurfa því að vera samþykkt inn á dagskrá þingsins með afbrigðum. Ríkisstjórnin ætlaði samkvæmt þingmálaskrá að leggja fram rúmlega 140 frumvörp á þessu þingi.