Nú þegar Panamaskjölin hafa leitt í ljós eitt af stærstu hneykslismálum samtímans og margir stjórnmálamenn, þar á meðal á Íslandi, eiga í vök að verjast er vert að líta yfir nokkur af stærstu málum seinustu áratuga. Hér er vitaskuld einungis litið til lýðræðisríkja þar sem siðferðisvitund og kröfur eru mun meiri en í einræðisríkjum.
10. Forsætisráðherra mafíunnar
Giulio Andreotti var stór leikmaður í ítölskum stjórnmálum um hálfrar aldar skeið. Hann gengdi ýmsum embættum og ráðherrastöðum fyrir Kristilega Demókrata, þar á meðal vermdi hann forsætisráðherrastólinn í þrígang. Mafían hafði gríðarleg ítök í ítölskum stjórnmálum um miðja seinustu öld og allt fram á tíunda áratuginn. Þetta átti sérstaklega við um Sikiley þar sem stjórnmálamenn héldu verndarhendi yfir mafíumönnum. Árið 1993 var Andreotti, sem þá var á áttræðisaldri, dreginn fyrir dómstóla á Sikiley og ákærður fyrir samstarf við mafíuna. Hann var sýknaður í það skipti en nokkrum árum seinna var hann ákærður ásamt nokkrum öðrum mafíuforingjum fyrir morð á blaðamanni árið 1979. Andreotti var sakfelldur í héraði fyrir morðið og dæmdur til 24 ára fangelsisvistar. Ári seinna var hann þó sýknaður í hæstarétti. Mál Andreotti var eitt af þeim málum sem leiddi til falls Kristilega Demókrata og algerrar umturnunar ítalskra stjórnmála árið 1994.
9. Borgarstjóri á krakki
Árið 2010 var hinn litríki Rob Ford kjörinn borgarstjóri Toronto borgar í Kanada. Hann var mjög vinsæll hægrimaður en þó ekki flokksbundinn. Hann var mjög óheflaður í málfari og átti að baki langa sögu af umdeildum og jafnvel vanhugsuðum ummælum sem hann þurfti iðulega að biðjast afsökunar á. En helsti akkilesarhæll Ford var ofdrykkja og eiturlyfjanotkun. Hann var margstaðinn að ofurölvun á almannafæri með tilheyrandi óspektum. Hann sást einnig í félagsskap með eiturlyfjasölum og öðrum glæpamönnum. Árið 2014 var svo botninum náð þegar fram kom myndbandsupptaka af honum reykjandi krakk. Það sama ár dró hann sig úr framboði til borgarstjóra vegna veikinda en hann var þá hrjáður af magakrabbameini. Hann hélt þó áfram sæti sínu í borgarstjórn Toronto. Rob Ford lést úr meini sínu þann 22. mars síðastliðinn.
8. Profumo málið
Árið 1963 var hermálaráðherra Bretlands, John Profumo, staðinn að því að ljúga að þinginu. Hann laug því að hafa ekki átt í kynferðislegu sambandi við hina 19 ára gömlu Christine Keeler. Fljótlega komst þó hið sanna í ljós en málið hafði enn meiri vigt sökum þess að ástmaður Keeler var sovéskur njósnari að nafni Yevgeni Ivanov. Keeler var ákærð fyrir meinsæri og maðurinn sem kynnti hana fyrir Profumo, Stephen Ward, var kærður fyrir hórmang. Í réttarhöldunum tók Ward sitt eigið líf. [http://www.britannica.com/event/Profumo-affair] Profumo sagði af sér ráðherraembætti og stjórnmálaferli hans var þar með lokið. Málið fékk gríðarmikla umfjöllun og laskaði Íhaldsstjórn Harolds Macmillan mikið. Macmillan sagði af sér skömmu seinna og Íhaldsflokkurinn tapaði stórt í kosningunum ári seinna.
7. Hinn fallegi leikur
Þann 27. maí 2015 voru sjö stjórnendur alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA handteknir í Zürich. Þeir voru á leiðinni á þing í höfuðstöðvunum þar í borg. Fleiri handtökur áttu sér stað á sama tíma við höfuðstöðvar norður ameríska knattspyrnusambandsins CONCACAF í Miami. Það hafði verið vitað lengi að spilling grasseraði innan knattspyrnusambandanna og vegna uppljóstranna gátu yfirvöld loksins hafið aðgerðir. Málið snerist m.a. um mútur, peningaþvætti og svik og snerist að miklu leyti um samninga við fataframleiðendur. En einnig um misferli við val á staðsetningu heimsmeistaramótsins í Suður Afríku 2010 og forsetakosningu FIFA 2011. Mikið af þessum brotum áttu sér stað undir stjórn forseta CONCACAF, Jack Warner frá Trinidad og Tóbagó. Rannsóknir fóru í gang um víða veröld og þrýstingur jókst á Sepp Blatter forseta FIFA að segja af sér. Fyrr á þessu ári var Blatter loks bannaður frá knattspyrnu í 6 ár. Rannsókn málsins og fleiri spillingarmála innan FIFA eru ennþá í rannsókn.
6. Hinn kynóði Strauss-Kahn
Dominique Strauss-Kahn var einn af lykilmönnum í franska Sósíalistaflokknum á tíunda áratug seinustu aldar og sat m.a. sem fjármála og iðnaðarráðherra. Árið 2007 dró hann sig út úr landsmálunum og tók við stöðu forstjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Hann átti því mikil samskipti við íslensk stjórvöld eftir bankahrunið 2008. Þann 15. maí árið 2011 var hann handtekinn í New York og ákærður fyrir að hafa nauðgað hótelþernu. Ljóst var að samræði hafði átt sér stað en saksóknari dró þó ákæruna til baka. Þetta var ekki eina kynferðishneykslið sem Strauss-Kahn hefur tengst. Hann hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni við aðrar konur og fyrir að hafa skipulagt og tekið þátt í veislum þar sem vændiskonur voru viðstaddar. Eftir handtökuna í New York sagði Strauss-Kahn af sér forstjórastöðunni í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og hefur ekki átt afturkvæmt í heim stjórnmálanna síðan.
5. Forseti í kröppum dansi
Hinn danselski Jacob Zuma hefur verið forseti Suður Afríku síðan árið 2009. Hann situr fyrir Afríska Þjóðarráðið sem hefur verið samfleytt við völd síðan aðskilnaðarstefnan apartheid leið undir lok. Zuma tók við af Thabo Mbeki við vofveiflegar aðstæður í suður afrískum stjórnmálum þegar þeir báðir voru bendlaðir við spillingarmál. Zuma hefur ávallt verið afar umdeildur. Hann hefur verið sakaður um mútur, mútuþægni og skattaundanskot. Árið 2005 var hann ákærður fyrir að hafa nauðgað dóttur pólitísks vinar síns en þá var Zuma varaforseti landsins. Málið var eitt mesta hneykslismál Suður Afríku eftir apartheid og klauf þjóðina nánast í tvennt. Nú berst Jacob Zuma enn á ný fyrir pólitísku lífi sínu þar sem hann er sakaður um misnotkun á opinberu fé. Féð var notað til endurbóta á heimili hans í Nkandla í Austurhluta landsins en flokkur hans hefur verið tregur við að draga hann til ábyrgðar.
4. Nauðgarinn Katsav
Moshe Katsav var forseti Ísraels á árunum 2000-2007 fyrir Likud flokkinn. Í Ísrael er embætti forseta svipað og hér á Íslandi, þ.e. einungis þjóðhöfðingi, en forsetar hafa þó yfirleitt verið flokksbundnir. Árið 2006 var Katsav grunaður um kynferðislega áreitni og nauðgun á undirsáta sínum þegar hann var ferðamálaráðherra nokkrum árum fyrr. Lögreglurannsókn hófst og upp kom á daginn að konurnar sem Katsav hafði ráðist á voru margar. Katsav bar við sakleysi og sakaði konurnar um fjárkúgun. Einnig sakaði hann fjölmiðla um nornaveiðar gegn sér. Fáir tóku það þó alvarlega. Forsetinn dró sig í hlé og ári seinna var hann endanlega settur af. Árið 2009 var Katsav ákærður fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot og tveimur árum seinna var hann fundinn sekur og dæmdur til 7 ára fangelsisvistar. Katsav afplánar nú fangelsisdóm sinn í borginni Ramla.
3. Lewinsky málið
Kynferðissamband Bandaríkjaforsetans Bill Clinton og lærlingsins Monicu Lewinsky komst í fréttirnar í janúar árið 1998. Clinton þvertók fyrir sambandið í upphafi með hinum frægu orðum “Ég átti ekki í kynferðissambandi við þessa konu”. Þetta átti eftir að hundelta hann á næstu misserum. Um sumarið viðurkenndi Lewinsky að sambandið hafði átt sér stað og skömmu seinna forsetinn sjálfur. Samband þeirra var þó ekki það sem kom honum í klandur heldur lygin og yfirhylmingin sem átti sér stað í kjölfarið. Þingið ákærði Clinton fyrir meinsæri og var það samþykkt í neðri deild þingsins. Demókrataflokkur Clintons var á þessum tíma í minnihluta í báðum deildum þingsins og því hefði hann hæglega getað misst embættið. Vinsældir forsetans voru þó í hæstu hæðum um þetta leyti og það hefði verið mjög óvinsælt að steypa honum. Það voru því nokkrir Repúblíkanar í öldungardeildinni sem ákváðu að sýkna Clinton árið 1999 og því slapp hann með skrekkinn.
2. Bunga Bunga
Silvio Berlusconi hefur verið einn helsti leiðtogi hægrimanna og einn áhrifamesti stjórnmálamaður Ítalíu síðan í kosningunum frægu árið 1994 þegar stokkað var upp í stjórnmálunum þar í landi. Hann hefur verið ákaflega vinsæll og er það ekki síst vegna fjölmiðlaveldis hans sem hann byggði upp á áttunda áratugnum. Hann hefur verið forsætisráðherra í þrígang en ferill hans hefur í seinni tíð verið markaður af ýmsum hneykslismálum. Hann hefur m.a. verið sakaður um mútur, fölsun reikninga, embættisglöp og misbeitingu valds. Alvarlegustu ásakanirnar á hendur Berlusconi voru þó vegna hinna svokölluðu Bunga Bunga samkvæma sem hann hélt þar sem barnungar stúlkur gengu um naktar í fylgd miðaldra karlmanna. Hann fékk ákæru og var dæmdur í héraðsdómi fyrir barnavændi en eins og svo oft áður var hann sýknaður í áfrýjunarrétti. Berlusconi situr nú af sér dóm í samfélagsvinnu fyrir skattsvik.
1. Watergate
Endingin –gate er orðin samnefnari fyrir skandal og það ekki að ástæðulausu. Watergate hneykslið er það þekktasta í sögunni. Þann 17. júní árið 1972 voru fimm innbrotsþjófar gripnir við höfuðstöðvar Demókrataflokksins í Washington. Það var að miklu leyti fyrir tilstilli blaðamannana Bob Woodward og Carl Bernstein hjá Washington Post dagblaðinu að upp komst um tengsl innbrotsþjófanna og forsetans Richards Nixon. Málið tengdist ekki einungis Nixon sjálfum heldur einnig hátt settum mönnum í ýmsum stofnunum á borð við alríkislögregluna FBI og leyniþjónustuna CIA. Efri deild þingsins hóf rannsókn á málinu og krafðist þess að fá afhentar hljóðupptökur úr hvíta húsinu þar sem tengsl forsetans við innbrotið komu bersýnilega í ljós. Þann 9. ágúst árið 1974 sagði Richard Nixon af sér embætti forseta en var náðaður af arftaka sínum Gerald Ford.