Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður Vermont-ríkis, leggur nú nótt við nýtan dag við að reyna að ná forskoti á Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra og öldungadeildarþingkonu New York-ríkis, í forsetaforvali demókrata. Þegar loks var blásið til fjöldafundar í New York-borg ætlaði allt um koll að keyra. Í fyrsta sinn í mörg ár hafa atkvæði kjósenda í ríkinu mikil áhrif á útkomu forvals demókrata og spennan er eftir því. Daginn fyrir fund Sanders var Clinton með sinn eigin viðburð í Harlem-hverfi borgarinnar, í hinu sögufræga Appollo Theater, sem þekktast er fyrir að vera sá staður sem nær allir þekktir bandarískir, svartir tónistarmenn tuttugustu aldar hafa komið fram. Útsendari Kjarnans skellti sér í þetta sinn á framboðsfund Sanders, sem fór fram í suður Bronx, sem er meðal annars fæðingastaður Hipp-hoppsins.
Eins og staðan er núna þarf Sanders að vinna tæplega 60% allra kjörmanna eða atkvæða sem eru í pottinum, fyrir utan ofurkjörmennina, sem eru atkvæði í höndum elítu flokksins. Mikill meirihluti þeirra hefur þegar lofað Hillary stuðningi sínum. Ekki er mikil hefð er fyrir því að ofurkjörmenn skipti um skoðun, en á sama tíma er ekki hefð fyrir því að þeir styðji þann sem ekki vinnur meirihluta hefðbundinna kjörmanna eða atkvæða. Til að vinna þarf annar aðili að ná 2.383 kjörmönnum. Í dag hefur Clinton tryggt sér 1.289 og Sanders 1.045. Þá hafa 469 ofurkjörmenn lofað Clinton stuðningi sínum en aðeins 31 hefur lofað Sanders stuðningi. Forvalið í New York fer fram í dag og sýna kannanir að Sanders hefur náð að minnka forskot Clinton töluvert. Nýjastu kannanir sýna þó að hún er með 10-18 prósentustiga forskot. Á landsvísu hafa kannanir sveiflast mikið og sýnir síðasta könnun að Hillary er bara með 1,2 prósentustiga forskot á Sanders. Framboð Clinton benti á það ítrekað í vikunni sem leið að þrátt fyrir að nú væri Sanders að hækka í könnunum hefðu meira en tvær milljónir fleiri kosið Clinton í forvali en Sanders.
Biðin langa
Á 134. stræti tæmdist lest nr. 2 og út úr lestinni strunsaði hópur af ungu fólki sem merktur var í bak og fyrir með slagorðum og merkjum Sanders. Þegar upp úr lestarstöðinni var komið blasti við nokkuð fjölbreytt hverfi, nokkuð ólíkt þeim stöðum sem túristar borgarinnar eru vanir að sjá. Suður Bronx ber merki vanrækslu af hálfu borgaryfirvalda, þar er rusl á götunum, ólíkt því sem gengur og gerist í fínni hverfum og á leiðinni í garðinn, sem var um 10 mínútna gangur frá lestarstöðinni, blasti við brynvarið barna- og unglingafangelsi ( juvenile detention center ) í miðju íbúahverfinu. Þegar að garðshliðinu var komið, mætti okkur löng röð fyrir blaðamenn og það tók ríflega klukkustund að komast í gegnum stífa leit leyniþjónustunnar, sem ber ábyrgð á að verja forsetaframbjóðendurna. Fólk streymdi að úr öllum áttum og í kringum garðinn hringsóluðu bílar með risavaxna skjái sem spiluðu framtíðarlega auglýsingu sem lýsti kostum frambjóðandans í þaula. Hin röðin var víst orðin svo löng að skipuleggjendur höfðu áhyggjur af því að hægt væri að koma öllum fyrir.
Garðurinn er ekki ýkja stór og fljótlega fór afgirta svæðið að fyllast af kappsömum stuðningsmönnum, í hvert sinn sem fólk gekk inn í hópinn var hrópað og fagnað, sólin skein og hitastigið var um 20 stig. „Get up stand up“ söng Marley í bakgrunni og stemmingin var í takt við það. Þegar liðnir voru þrír tímar frá því að við mættum í garðinn kom loks yfirmaður samskipta í kosningabaráttunni og bauð fólk velkomið, en bætti svo við að tveir tímar væru þar til Sanders sjálfur myndi mæta. Sumum eldri stuðningsmönnum þótti það nokkuð langur tími en klukkan var bara fimm og enn hlýtt í lofti.
Maður, sem lítur út eins og Barack Obama, gengur um svæðið og stillir sér upp svo fólk geti tekið mynd af sér, mér er sagt að þarna sé á ferðinni maður sem hafi gert sér það að atvinnu að líkjast forsetanum. Eftirlíkingin styður sumsé Sanders, frumgerðin hefur ekki gefið upp stuðning sinn.
Hér má sjá myndbút um eftirhermuna, sem kallast Lous Ortiz, en er þekktur sem „Bronx Obama.“
Stuðningsmenn Sanders
Á grasinu nokkuð frá sviðinu situr Sean Thieman, spænskuþýðandi sem er nýfluttur til borgarinnar frá Minnesota og les í blaðinu Socialist Alternative. Þegar ég nálgaðist hann og sagðist ekki muna eftir því að hafa séð sósíalistablað áður sagði hann að þetta blað væri næstum því ekki til, svo fá eintök væru prentuð. En hann vonaðist þó til að hreyfingin sem Sanders væri að skapa gæti breytt því. Aðspurður um hvað það væri við Sanders sem heillaði hann segir hann „frá því ég heyrði af honum í apríl hef ég verið ótrúlega glaður með að hann er réttu megin í öllum þeim málum sem skipta mig máli.“ En hvað ef Hillary vinnur í forvalinu? Gæti hann hugsað sér að kjósa hana? „Nei, ég get ekki kosið Hillary Clinton, í fyrsta lagi er ég á móti stjórnmálafjölskyldum sem eru eins og konungsfólk, þannig að valdið færist bara á milli fjölskyldumeðlima, en svo er ég mjög ósammála henni, sérstaklega í utanríkismálum. Ég var mjög mótfallinn Íraksstríðinu, til að nefna eitt dæmi,” segir hann. Ný könnun sýnir að 33% kjósenda Sanders telja sig ekki líklega til að kjósa Clinton í forsetakosningunum sjálfum ef hún vinnur forvalið.
Sean bætir við að hann bindi miklar vonir við að Sanders breyti miklu í stefnu stjórnvalda í utanríkismálum, sem hann hafði vonað að Obama gerði, en hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum.
Að svo mæltu er mætt til okkar eftirherma með leikbrúðu sem lítur út eins og Bernie Sanders. Ég kveð Sean og tek eftirhermuna tali en hann kemst lítið að því brúðan tekur yfir, undir hljómar „uuu, baby love, my baby love, I need you“ með Diönu Ross. Myndatökumaður sjónvarpsstöðvar er kominn við hliðina á mér og farinn að yfirheyra leikbrúðuna, svo ég leita að næsta viðmælenda.
Meril Dancigier stendur í þvögunni og veifar skilti með mynd af Sanders í líki fugls, en eins og frægt er orðið mætti smáfugl á framboðsfund hjá Sanders og settist á ræðupúltið hans í miðri ræðu sem hann hélt í stórum ráðstefnusal í Portland fyrir nokkrum dögum síðan. „Ég trúi því sem Bernie segir 100 prósent og ég held það eigi við um alla, líka þá sem ætla ekki að kjósa hann, það er hans sérstaða. Hann hefur verið að berjast fyrir sósíalískum málum alla tíð og ólíkt Hillary sem ég held að vilji bara verða forseti til að verða forseti. Ég held að Bernie hafi djúpa sannfæringu fyrir því sem hann talar fyrir og vilji ekkert meira en að koma þessum hlutum í verk. Ef það sem þarf til að koma þessu í verk sé að verða forseti, þá er hann tilbúinn að fara í þá vegferð, en það ekki einhvers konar markmið í sjálfu sér að verða forseti,” segir hún mér af miklum ákafa.
Nicole Lynch stendur utan þvögunnar og bíður eins og aðrir átekta, hún segir mér að hún sé í raun ekki alveg sannfærð um að hún kjósi Sanders. „Ég er meira að kynna mér málin, ég hugsa að ég kjósi Sanders en ég er samt ekki jafn sannfærð og flestir vinir mínir sem tala um fátt annað,“ segir hún og bendir í átt að þvögunni. „Mér finnst heillandi við Bernie að hann er búinn að vera að tala fyrir sömu málefnum mjög lengi og Hillary hefur skipt oft um skoðun og er að spila hinn pólitíska leik, það veldur mér áhyggjum.” Hún segist þó vera alveg viss um að hún muni á endanum kjósa þann sem fær útnefningu demókrata.
Spike Lee og gamla fólkið
Nú var klukkan að nálgast sex og aðeins farið að skyggja, og leikkonan Rosario Dawson komin á sviðið. Hún hóf ræðu sína á að gagnrýna Clinton fyrir að hafa gagnrýnt Sanders fyrir að hafa ekki brugðist nógu harkalega við ummælum Donalds Trump daginn áður, þegar hann sagði að það ætti að refsa konum fyrir að fara í fóstureyðingu. Um þriðjungur kvenna í Bandaríkjunum hefur farið í fóstureyðingu og ummælum Trumps var mótmælt víða um Bandaríkin sama dag. „Skammastu þín Hillary“ sagði leikkonan og átti sú hljóðklippa eftir að hljóma um öldur ljósvakans næsta dag.
Næstur á svið var mættur sjálfur kvikmyndaleikstjórinn Spike Lee, sem hélt örstutta ræðu. Hann hvatti alla til að tala við foreldra sína af því að „gamla fólkið ætlar allt að kjósa Clinton,“ sagði leikstjórinn frækni sem er 59 ára. En nú var komin góð stemming í mannskapinn, fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Í um hálftíma var svo bara boðið upp á tónlist í hátölurum og greinilegt að um töf á dagskránni var að ræða. Þegar þarna var við komið var klukkan orðin sjö og gamli maðurinn við hlið mér sagðist varla þola miklu lengri bið, hann hafði verið mættur í garðinn klukkan tvö. Stöku sinnum mátti greina kannabislykt, sem er nokkuð viðtekin venja á útisamkomum sem þessum í þessari borg, en flestir voru í góðu stuði og spjölluðu og dilluðu sér við tónlistina.
Þrumuræða Sanders
Klukkan rúmlega sjö var Bernie Sanders svo loks mættur og þá var öll þreyta í mannskapnum um leið á bak og burt. Hann hóf ræðu sína á því að minna fólk á að hann væri alinn upp í fátækt í Brooklyn-hverfi, sem sonur pólskra innflytjenda, og hann væri ekki búinn að gleyma þeirri reynslu. Fjöldi innflytjenda býr í Suður Bronx. ,,Ég er hér vegna þess að ég er að vinna í því að koma af stað byltingu og þið öll, fimmtán þúsund sem eruð hér saman komin, eruð hjartað og sálin í þessari byltingu. Við erum að segja saman „það er nóg komið““. Hélt Sanders áfram og uppskar gífurleg fagnaðarhróp frá stuðningsmönnum sem nú voru búnir að troðfylla garðinn og stóð fjöldi manns fyrir utan garðinn og hlýddi á úr fjarlægð.
„Við viljum forseta sem þjónar öllum, ekki bara þeim sem styðja þá. Við viljum hagkerfi sem er ekki spillt. Við viljum dómskerfi sem er ekki brotið og við erum ákveðin í að í staðinn fyrir að eyða milljörðum í Íraksstríð og önnur stríð sem við áttum aldrei að hefja, ætlum við að eyða fénu í að byggja upp samfélög eins og þetta hér í Suður Bronx.”
Stór hluti ræðu hans fjallaði um mikilvægi þess að setja á laggirnar heilbrigðisþjónustu fyrir alla og ókeypis háskólanám. Hann ræddi þá staðreynd að í Bandaríkjunum byggju hlutfallslega flest börn í fátækt í hinum vestræna heimi og því þyrfti að breyta. Hann fjallaði um hversu ósanngjarnt það væri að ríkasta eitt prósentið ætti næstum því jafnmikið og restin af heiminum. Klappið hættir ekki. „Við ætlum að hækka lágmarkslaunin í 15 dollara á tímann, við ætlum að hafa sömu laun fyrir konur og karla fyrir sömu vinnu. Við ætlum að byggja húsnæði sem fólk hefur efni á, við þurfum að byggja innviði landsins. Og við munum með þessu skapa 15 milljónir nýrra starfa,” sagði hann. Sanders eyddi einnig dágóðum tíma í að tala um milliríkjasamninga sem hafa að hans mati verið ástæða þess að fjöldi starfa hefur flust úr landi. „Við viljum hagkerfi sem virkar fyrir alla, ekki bara þá sem eru á toppnum. Í dag fer 58% af öllum nýjum tekjum til ríkasta prósentsins,“ segir hann með rámri og sannfærandi röddu. „Það er ekkert ríki í heiminum sem fangelsar jafn marga og við gerum í Bandaríkjunum, við þurfum að breyta þessu,“ hrópaði hann og mér varð hugsað til barnanna og unglinganna sem sitja í fangelsi, eða „Juvy“ eins og það er kallað, hinu megin við götuna.
„Bernie, Bernie, Bernie“ hrópaði hópurinn, ég er allt í einu farin að klappa í takt. „Leitt að þú getur ekki kosið,“ hvíslar sessunautur minn að mér og glottir.
„Við ætlum að sjá til þess að hver einasta kona í þessu landi fái að ráða yfir eigin líkama,“ kallar Sanders. Mér á vinstri hönd sé ég að Jean O'Meara Sanders, eiginkona Sanders stendur fimm metrum frá mér. Ég stekk til hennar, gríp tækifærið og næ henni á hlaupum. Ég kynni mig og segist vera blaðamaður frá Íslandi, hún brosir og segir að þau hjónin „elski Ísland.“ Mig er farið að gruna að hún hafi lesið leiðbeiningar að hjarta Íslendinga og þegar ég spyr hvort þau hafi farið þangað, þá jánkar hún því. „Ofboðslega fallegt land,“ segir hún og brosir sínu breiðasta. „Gaman að hitta þig,“ segir hún að sið innfæddra, og gefur til kynna að nú sé verið að slíta samtalinu. Hún snýr sér að hópi af fólki sem bíður, allir vilja selfí með henni svo hún er ekki tiltæk í frekara spjall. Ég fæ eina líka. Nokkrum dögum síðar áttu svo Panama-skjölin eftir að tröllríða allri umræðu á landsvísu, hún hefði þá líklega talað um það, í stað fegurðar landsins, en jæja.
Sanders er enn að tala: „Mikilfenglegt land er ekki dæmt eftir því hversu marga milljarðamæringa það á, heldur hvernig það kemur fram við þá sem minnst mega sín,“ segir Sanders. Mér er farið að líða eins og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafi runnið inn í eina manneskju og ég sé á eftirhrunsmótmælum. Fólkið á fundinum er kannski ekki bálreitt en það hefur klárlega fengið sig fullsatt af venjulegum stjórnmálamönnum og biðin eftir róttækum breytingum er ekki auðveld. „Bernie, Bernie“ hrópar gamli maðurinn og fyrrverandi háskólakennarinn við hlið mér sem var nú var búinn að vera þarna í fimm tíma samfleytt. Það er orðið alveg dimmt en Sanders er rétt að byrja.
„Okkur dreymir um að vera eins og þið þarna á Íslandi og hinum Norðurlöndunum,” segir hann mér. Ég kinka kolli og ákveð að hryggja ekki gamla manninn með tali um skattaskjólsskandalinn eða bankahrunið okkar. Þegar mér er litið yfir hópinn sé ég gjörólíka samsetningu af fólki en við þekkjum á Norðurlöndunum. Þó hér sé yngra fólkið í meirihluta og hippaklæddir stuðningsmenn séu áberandi er hópurinn eins fjölbreyttur og hugsast getur og endurspeglar hið flókna og fjölbreytta samfélag Bandaríkjanna, sem er ríflega þúsund sinnum stærra en Ísland. Spurningin í þessu forvali snýst um hvort meiri samneysla sé raunhæfur möguleiki í Bandaríkjunum, líkt og er á Norðurlöndunum.
„Við þurfum að endurskoða svokallað stríð gegn eiturlyfjum,“ heldur Sanders áfram og bendir á að marijúana sé enn skráð sem eiturlyf í Bandaríkjunum, í sama flokki og heróín. „Þrátt fyrir að svartir og hvítir íbúar í Bandaríkjunum neyti maríjúana í nokkuð jöfnum mæli eru svartir fjórum sinnum líklegri að vera handteknir fyrir að eiga maríjúana en hvítir. Ef ungur maður er tekinn með maríjúana fer hann á sakaskrá í Ameríku en ef forstjóri Goldman Sacks eða aðrir yfirmenn Wall Street fyrirtækja, sem ber ábyrgð á að hafa sett efnahag landsins á hausinn, þá fer hann ekki á sakaskrá heldur fær hann kauphækkun,” hrópar Sanders yfir hópinn sem púar til samþykkis. Því næst snéri hann sér að mótframbjóðandum sem hefur þegið fé frá fjölda sterkra hagsmunahópa.
„Við höfum fengið fjárstuðning frá sex milljón einstaklingum, sem eru fleiri einstaka gjafir en nokkur annar forsetaframbjóðandi hefur fengið í sögu Bandaríkjanna. Meðalframlagið eru 27 dollarar. Þetta er kosningaherferð „by the people for the people,“” segir Sanders og vitnar þar í frægustu ræðu Abraham Lincoln, Gettysborgarávarpið. „Hillary hefur fengið um 15 milljónir frá fyrirtækjum á Wall Street.” Hann hélt áfram og gagnrýndi hana fyrir að hafa fengið hundruði þúsunda dollara fyrir að halda ræður fyrir fyrirtæki eins og Goldman Sacks og heldur áfram og segir að nú væru margir bankarnir enn stærri en fyrir hrun og það væri orðið löngu tímabært að brjóta þá upp og það væri það sem hann myndi gera yrði hann forseti, ekki halda ræður fyrir þessi fyrirtæki eins og hún gerir.
Hann minnti stuðningsmenn sína á að hann hefði kosið gegn stríðinu ólíkt Clinton sem kaus með því. Hann hafi einnig kosið gegn NAFTA og fjölda milliríkjasamninga sem hefði kostað milljónir starfa og að Clinton hefði kosið með þeim öllum. Augljóst er að tónninn í ræðunni var nokkuð beittari gegn Clinton en oftast áður og hafa fjölmiðlar velt því fyrir sér hér ytra hvort greina megi skil í baráttu Sanders. Sjálfur hafði Sanders sagt að hann myndi ekki standa í að tala um ókosti andstæðinga sinna heldur fókusera á sína eigin kosti en í ræðu sinni í Suður Bronx dró hann skarpa línu á milli þeirra með því að gagnrýna hana harkalega í þeim málum sem þau hafa verið ósammála. Sanders snerti á öllum helstu málefnum, en einbeitti sér töluvert að málefnum innflytjenda og stöðu mála í Puertó Ríkó en margir innflytjendur frá því landsstjórnarríki búa í Bronx. Áður en hann gekk af sviðinu sagði hann „ef við vinnum í New York þá komumst við alla leið í Hvíta húsið.“ Sanders gaf sér stuttan tíma til að heilsa upp á stuðningsmenn og eftir að hafa heilsað upp á þá sem næstir voru sviðinu í um fimm mínútur var hann á bak og burt í blikkandi bílalest. Það fréttist svo á leiðinni út úr garðinum að áður en hann steig á svið hafði hann stigið upp á kassa fyrir utan garðinn og haldið stutta ræðu fyrir þá sem höfðu beðið kukkustundum saman fyrir utan garðinn eftir að hann fylltist. Það duldist engum að það var glaðvær og vongóður hópur sem hélt út í kolniða myrkrið á leið sinni heim eftir viðburðinn. Hvort Sanders takist hins vegar að sannfæra fleiri en Hillary næstu vikurnar sem eftir er af forvalstímabilinu, á eftir að koma í ljós, en hvernig sem fer, þá er ljóst að það er stór hópur kjósenda vonast til þess að byltingin hans Sanders hefjist í Hvíta húsinu.