,,Oh, we love Iceland” - með Sanders-hjónum á framboðsfundi í New York

bernie sanders
Auglýsing

Bernie Sand­ers, öld­unga­deild­ar­þing­maður Vermont-­rík­is, leggur nú nótt við nýtan dag við að reyna að ná for­skoti á Hill­ary Clint­on, fyrr­ver­andi utan­rík­is­ráð­herra og öld­unga­deild­ar­þing­konu New York-­rík­is, í for­seta­for­vali demókrata. Þegar loks var blásið til fjölda­fundar í New York-­borg ætl­aði allt um koll að keyra. Í fyrsta sinn í mörg ár hafa atkvæði kjós­enda í rík­inu mikil áhrif á útkomu for­vals demókrata og spennan er eftir því. Dag­inn fyrir fund Sand­ers var Clinton með sinn eigin við­burð í Harlem-hverfi borg­ar­inn­ar, í hinu sögu­fræga Appollo Thea­ter, sem þekkt­ast er fyrir að vera sá staður sem nær allir þekktir banda­rískir, svartir tónist­ar­menn tutt­ug­ustu aldar hafa komið fram. Útsend­ari Kjarn­ans skellti sér í þetta sinn á fram­boðs­fund Sand­ers, sem fór fram í suður Bronx, sem er meðal ann­ars fæð­inga­staður Hipp-hopps­ins.  

Eins og staðan er núna þarf Sand­ers að vinna tæp­lega 60% allra kjör­manna eða atkvæða sem eru í pott­in­um, fyrir utan ofur­kjör­menn­ina, sem eru atkvæði í höndum elítu flokks­ins. Mik­ill meiri­hluti þeirra hefur þegar lofað Hill­ary stuðn­ingi sín­um. Ekki er mikil hefð er fyrir því að ofur­kjör­menn skipti um skoð­un, en á sama tíma er ekki hefð fyrir því að þeir styðji þann sem ekki vinnur meiri­hluta hefð­bund­inna kjör­manna eða atkvæða. Til að vinna þarf annar aðili að ná 2.383 kjör­mönn­um. Í dag hefur Clinton tryggt sér 1.289 og Sand­ers 1.045. Þá hafa 469 ofur­kjör­menn lofað Clinton stuðn­ingi sínum en aðeins 31 hefur lofað Sand­ers stuðn­ingi. For­valið í New York fer fram í dag og sýna kann­anir að Sand­ers hefur náð að minnka for­skot Clinton tölu­vert. Nýjastu kann­anir sýna þó að hún er með 10-18 pró­sentu­stiga for­skot. Á lands­vísu hafa kann­anir sveifl­ast mikið og sýnir síð­asta könnun að Hill­ary er bara með 1,2 pró­sentustiga for­skot á Sand­ers. Fram­boð Clinton benti á það ítrekað í vik­unni sem leið að þrátt fyrir að nú væri Sand­ers að hækka í könn­unum hefðu meira en tvær millj­ónir fleiri kosið Clinton í for­vali en Sand­ers.   

Biðin langa

Á 134. stræti tæmd­ist lest nr. 2 og út úr lest­inni struns­aði hópur af ungu fólki sem merktur var í bak og fyrir með slag­orðum og merkjum Sand­ers. Þegar upp úr lest­ar­stöð­inni var komið blasti við nokkuð fjöl­breytt hverfi, nokkuð ólíkt þeim stöðum sem túristar borg­ar­innar eru vanir að sjá. Suður Bronx ber merki van­rækslu af hálfu borg­ar­yf­ir­valda, þar er rusl á göt­un­um, ólíkt því sem gengur og ger­ist í fínni hverfum og á leið­inni í garð­inn, sem var um 10 mín­útna gangur frá lest­ar­stöð­inni, blasti við bryn­varið barna- og ung­linga­fang­elsi ( juvenile det­ention center ) í miðju íbúa­hverf­inu. Þegar að garðs­hlið­inu var kom­ið, mætti okkur löng röð fyrir blaða­menn og það tók ríf­lega klukku­stund að kom­ast í gegnum stífa leit leyni­þjón­ust­unn­ar, sem ber ábyrgð á að verja for­seta­fram­bjóð­end­urna. Fólk streymdi að úr öllum áttum og í kringum garð­inn hring­sól­uðu bílar með risa­vaxna skjái sem spil­uðu fram­tíð­arlega aug­lýs­ingu sem lýsti kostum fram­bjóð­and­ans í þaula. Hin röðin var víst orðin svo löng að skipu­leggj­endur höfðu áhyggjur af því að hægt væri að koma öllum fyr­ir.  

Auglýsing

Garð­ur­inn er ekki ýkja stór og fljót­lega fór afgirta svæðið að fyll­ast af kapp­sömum stuðn­ings­mönn­um, í hvert sinn sem fólk gekk inn í hóp­inn var hrópað og fagn­að, sólin skein og hita­stigið var um 20 stig.  „Get up stand up“ söng Marley í bak­grunni og stemm­ingin var í takt við það. Þegar liðnir voru þrír tímar frá því að við mættum í garð­inn kom loks yfir­maður sam­skipta í kosn­inga­bar­átt­unni og bauð fólk vel­kom­ið, en bætti svo við að tveir tímar væru þar til Sand­ers sjálfur myndi mæta. Sumum eldri stuðn­ings­mönnum þótti það nokkuð langur tími en klukkan var bara fimm og enn hlýtt í lofti.  

Mað­ur, sem lítur út eins og Barack Obama, gengur um svæðið og stillir sér upp svo fólk geti tekið mynd af sér, mér er sagt að þarna sé á ferð­inni maður sem hafi gert sér það að atvinnu að líkj­ast for­set­an­um. Eft­ir­lík­ingin styður sumsé Sand­ers, frum­gerðin hefur ekki gefið upp stuðn­ing sinn. 

Hér má sjá mynd­bút um eft­ir­hermuna, sem kall­ast Lous Ort­iz, en er þekktur sem „Bronx Obama.“

Stuðn­ings­menn Sand­ers

Sean Thieman.

Á gras­inu nokkuð frá svið­inu situr Sean Thiem­an, spænsku­þýð­andi sem er nýfluttur til borg­ar­innar frá Minnesota og les í blað­inu Soci­alist Alt­ernati­ve. Þegar ég nálg­að­ist hann og sagð­ist ekki muna eftir því að hafa séð sós­í­alista­blað áður sagði hann að þetta blað væri næstum því ekki til, svo fá ein­tök væru prent­uð. En hann von­að­ist þó til að hreyf­ingin sem Sand­ers væri að skapa gæti breytt því. Aðspurður um hvað það væri við Sand­ers sem heill­aði hann segir hann „frá því ég heyrði af honum í apríl hef ég verið ótrú­lega glaður með að hann er réttu megin í öllum þeim málum sem skipta mig máli.“ En hvað ef Hill­ary vinnur í for­val­inu? Gæti hann hugsað sér að kjósa hana? „Nei, ég get ekki kosið Hill­ary Clint­on, í fyrsta lagi er ég á móti stjórn­mála­fjöl­skyldum sem eru eins og kon­ungs­fólk, þannig að valdið fær­ist bara á milli fjöl­skyldu­með­lima, en svo er ég mjög ósam­mála henni, sér­staklega í utan­rík­is­mál­um. Ég var mjög mót­fall­inn Íraks­stríð­inu, til að nefna eitt dæmi,” segir hann. Ný könnun sýnir að 33% kjós­enda Sand­ers telja sig ekki lík­lega til að kjósa Clinton í for­seta­kosn­ing­unum sjálfum ef hún vinnur for­val­ið. 

Sean bætir við að hann bindi miklar vonir við að Sand­ers breyti miklu í stefnu stjórn­valda í utan­rík­is­mál­um, sem hann hafði vonað að Obama gerði, en hafi orðið fyrir miklum von­brigð­u­m. 

Að svo mæltu er mætt til okkar eft­ir­herma með leik­brúðu sem lítur út eins og Bernie Sand­ers. Ég kveð Sean og tek eft­ir­hermuna tali en hann kemst lítið að því brúðan tekur yfir, undir hljómar „uuu, baby love, my baby love, I need you“ með Diönu Ross. Mynda­töku­maður sjón­varps­stöðvar er kom­inn við hlið­ina á mér og far­inn að yfir­heyra leik­brúð­una, svo ég leita að næsta við­mæl­enda. 

Meril Dancigier

Meril Dancigier stendur í þvög­unni og veifar skilti með mynd af Sand­ers í líki fugls, en eins og frægt er orðið mætti smá­fugl á fram­boðs­fund hjá Sand­ers og sett­ist á ræðupúltið hans í miðri ræðu sem hann hélt í stórum ráð­stefnu­sal í Portland fyrir nokkrum dögum síð­an. „Ég trúi því sem Bernie segir 100 pró­sent og ég held það eigi við um alla, líka þá sem ætla ekki að kjósa hann, það er hans sér­staða. Hann hefur verið að berj­ast fyrir sós­íal­ískum málum alla tíð og ólíkt Hill­ary sem ég held að vilji bara verða for­seti til að verða for­seti. Ég held að Bernie hafi djúpa sann­fær­ingu fyrir því sem hann talar fyrir og vilji ekk­ert meira en að koma þessum hlutum í verk. Ef það sem þarf til að koma þessu í verk sé að verða for­seti, þá er hann til­bú­inn að fara í þá veg­ferð, en það ekki ein­hvers konar mark­mið í sjálfu sér að verða for­set­i,” segir hún mér af miklum ákafa. 

Nicole Lynch

Nicole Lynch stendur utan þvög­unnar og bíður eins og aðrir átekta, hún segir mér að hún sé í raun ekki alveg sann­færð um að hún kjósi Sand­ers. „Ég er meira að kynna mér mál­in, ég hugsa að ég kjósi Sand­ers en ég er samt ekki jafn sann­færð og flestir vinir mínir sem tala um fátt ann­að,“ segir hún og bendir í átt að þvög­unni. „Mér finnst heill­andi við Bernie að hann er búinn að vera að tala fyrir sömu mál­efnum mjög lengi og Hill­ary hefur skipt oft um skoðun og er að spila hinn póli­tíska leik, það veldur mér áhyggj­u­m.” Hún seg­ist þó vera alveg viss um að hún muni á end­anum kjósa þann sem fær útnefn­ingu demókrata.  

Spike Lee og gamla fólkið

Nú var klukkan að nálg­ast sex og aðeins farið að skyggja, og leik­konan Rosario Daw­son komin á svið­ið. Hún hóf ræðu sína á að gagn­rýna Clinton fyrir að hafa gagn­rýnt Sand­ers fyrir að hafa ekki brugð­ist nógu harka­lega við ummælum Don­alds Trump dag­inn áður, þegar hann sagði að það ætti að refsa konum fyrir að fara í fóst­ur­eyð­ingu. Um þriðj­ungur kvenna í Banda­ríkj­unum hefur farið í fóst­ur­eyð­ingu og ummælum Trumps var mót­mælt víða um Banda­ríkin sama dag.  „Skammastu þín Hill­ary“ sagði leik­konan og átti sú hljóð­klippa eftir að hljóma um öldur ljós­vakans næsta dag. 

Næstur á svið var mættur sjálfur kvik­mynda­leik­stjór­inn Spike Lee, sem hélt örstutta ræðu. Hann hvatti alla til að tala við for­eldra sína af því að „gamla fólkið ætlar allt að kjósa Clint­on,“ sagði leik­stjór­inn frækni sem er 59 ára. En nú var komin góð stemm­ing í mann­skap­inn, fagn­að­ar­lát­unum ætl­aði aldrei að linna. Í um hálf­tíma var svo bara boðið upp á tón­list í hátöl­urum og greini­legt að um töf á dag­skránni var að ræða. Þegar þarna var við komið var klukkan orðin sjö og gamli mað­ur­inn við hlið mér sagð­ist varla þola miklu lengri bið, hann hafði verið mættur í garð­inn klukkan tvö. Stöku sinnum mátti greina kanna­bis­lykt, sem er nokkuð við­tekin venja á úti­sam­komum sem þessum í þess­ari borg, en flestir voru í góðu stuði og spjöll­uðu og dill­uðu sér við tón­list­ina. 

Þrumuræða Sand­ers 

Klukkan rúm­lega sjö var Bernie Sand­ers svo loks mættur og þá var öll þreyta í mann­skapnum um leið á bak og burt. Hann hóf ræðu sína á því að minna fólk á að hann væri alinn upp í fátækt í Brook­lyn-hverfi, sem sonur pól­skra inn­flytj­enda, og hann væri ekki búinn að gleyma þeirri reynslu. Fjöldi inn­flytj­enda býr í Suður Bronx.  ,,Ég er hér vegna þess að ég er að vinna í því að koma af stað bylt­ingu og þið öll, fimmtán þús­und sem eruð hér saman kom­in, eruð hjartað og sálin í þess­ari bylt­ingu. Við erum að segja saman „það er nóg kom­ið““. Hélt Sand­ers áfram og upp­skar gíf­ur­leg fagn­að­ar­hróp frá stuðn­ings­mönnum sem nú voru búnir að troð­fylla garð­inn og stóð fjöldi manns fyrir utan garð­inn og hlýddi á úr fjar­lægð. 

„Við viljum for­seta sem þjónar öll­um, ekki bara þeim sem styðja þá. Við viljum hag­kerfi sem er ekki spillt. Við viljum dóms­kerfi sem er ekki brotið og við erum ákveðin í að í stað­inn fyrir að eyða millj­örðum í Íraks­stríð og önnur stríð sem við áttum aldrei að hefja, ætlum við að eyða fénu í að byggja upp sam­fé­lög eins og þetta hér í Suður Bronx.” 

Stór hluti ræðu hans fjall­aði um mik­il­vægi þess að setja á lagg­irnar heil­brigð­is­þjón­ustu fyrir alla og ókeypis háskóla­nám. Hann ræddi þá stað­reynd að í Banda­ríkj­unum byggju hlut­falls­lega flest börn í fátækt í hinum vest­ræna heimi og því þyrfti að breyta. Hann fjall­aði um hversu ósann­gjarnt það væri að rík­asta eitt pró­sentið ætti næstum því jafn­mikið og restin af heim­in­um. Klappið hættir ekki. „Við ætlum að hækka lág­marks­launin í 15 doll­ara á tím­ann, við ætlum að hafa sömu laun fyrir konur og karla fyrir sömu vinnu. Við ætlum að byggja hús­næði sem fólk hefur efni á, við þurfum að byggja inn­viði lands­ins. Og við munum með þessu skapa 15 millj­ónir nýrra starfa,” sagði hann. Sand­ers eyddi einnig dágóðum tíma í að tala um milli­ríkja­samn­inga sem hafa að hans mati verið ástæða þess að fjöldi starfa hefur flust úr landi. „Við viljum hag­kerfi sem virkar fyrir alla, ekki bara þá sem eru á toppnum. Í dag fer 58% af öllum nýjum tekjum til rík­asta pró­sents­ins,“ segir hann með rámri og sann­fær­andi röddu. „Það er ekk­ert ríki í heim­inum sem fang­elsar jafn marga og við gerum í Banda­ríkj­un­um, við þurfum að breyta þessu,“ hróp­aði hann og mér varð hugsað til barn­anna og ung­ling­anna sem sitja í fang­elsi, eða „Ju­vy“ eins og það er kall­að, hinu megin við göt­una.

Sjálfsmyndir með Jean O'Meara Sanders.

„Bern­ie, Bern­ie, Bern­ie“ hróp­aði hóp­ur­inn, ég er allt í einu farin að klappa í takt. „Leitt að þú getur ekki kos­ið,“ hvíslar sessu­nautur minn að mér og glott­ir. 

„Við ætlum að sjá til þess að hver ein­asta kona í þessu landi fái að ráða yfir eigin lík­ama,“ kallar Sand­ers. Mér á vinstri hönd sé ég að Jean O'Me­ara Sand­ers, eig­in­kona Sand­ers stendur fimm metrum frá mér. Ég stekk til henn­ar, gríp tæki­færið og næ henni á hlaup­um. Ég kynni mig og seg­ist vera blaða­maður frá Íslandi, hún brosir og segir að þau hjónin „elski Ísland.“ Mig er farið að gruna að hún hafi lesið leið­bein­ingar að hjarta Íslend­inga og þegar ég spyr hvort þau hafi farið þang­að, þá jánkar hún því. „Of­boðs­lega fal­legt land,“ segir hún og brosir sínu breið­asta. „Gaman að hitta þig,“ segir hún að sið inn­fæddra, og gefur til kynna að nú sé verið að slíta sam­tal­inu. Hún snýr sér að hópi af fólki sem bíð­ur, allir vilja selfí með henni svo hún er ekki til­tæk í frekara spjall. Ég fæ eina líka. Nokkrum dögum síðar áttu svo Pana­ma-skjölin eftir að tröll­ríða allri umræðu á lands­vísu, hún hefði þá lík­lega talað um það, í stað feg­urðar lands­ins, en jæj­a. 

Sand­ers er enn að tala: „Mik­il­feng­legt land er ekki dæmt eftir því hversu marga millj­arða­mær­inga það á, heldur hvernig það kemur fram við þá sem minnst mega sín,“ segir Sand­ers. Mér er farið að líða eins og Jóhanna Sig­urð­ar­dóttir og Stein­grímur J. Sig­fús­son hafi runnið inn í eina mann­eskju og ég sé á eft­ir­hruns­mót­mæl­um. Fólkið á fund­inum er kannski ekki bál­reitt en það hefur klár­lega fengið sig fullsatt af venju­legum stjórn­mála­mönnum og biðin eftir rót­tækum breyt­ingum er ekki auð­veld. „Bern­ie, Bern­ie“ hrópar gamli mað­ur­inn og fyrr­ver­andi háskóla­kenn­ar­inn við hlið mér sem var nú var búinn að vera þarna í fimm tíma sam­fleytt. Það er orðið alveg dimmt en Sand­ers er rétt að byrj­a. 

„Okkur dreymir um að vera eins og þið þarna á Íslandi og hinum Norð­ur­lönd­un­um,” segir hann mér. Ég kinka kolli og ákveð að hryggja ekki gamla mann­inn með tali um skatta­skjólsskandal­inn eða banka­hrunið okk­ar. Þegar mér er litið yfir hóp­inn sé ég gjör­ó­líka sam­setn­ingu af fólki en við þekkjum á Norð­ur­lönd­un­um. Þó hér sé yngra fólkið í meiri­hluta og hippa­klæddir stuðn­ings­menn séu áber­andi er hóp­ur­inn eins fjöl­breyttur og hugs­ast getur og end­ur­speglar hið flókna og fjöl­breytta sam­fé­lag Banda­ríkj­anna, sem er ríf­lega þús­und sinnum stærra en Ísland. Spurn­ingin í þessu for­vali snýst um hvort meiri sam­neysla sé raun­hæfur mögu­leiki í Banda­ríkj­un­um, líkt og er á Norð­ur­lönd­un­um. 

„Við þurfum að end­ur­skoða svo­kallað stríð gegn eit­ur­lyfj­u­m,“ heldur Sand­ers áfram og bendir á að mari­júana sé enn skráð sem eit­ur­lyf í Banda­ríkj­un­um, í sama flokki og heróín. „Þrátt fyrir að svartir og hvítir íbúar í Banda­ríkj­unum neyti maríjúana í nokkuð jöfnum mæli eru svartir fjórum sinnum lík­legri að vera hand­teknir fyrir að eiga maríjúana en hvít­ir. Ef ungur maður er tek­inn með maríjúana fer hann á saka­skrá í Amer­íku en ef for­stjóri Gold­man Sacks eða aðrir yfir­menn Wall Street fyr­ir­tækja, sem ber ábyrgð á að hafa sett efna­hag lands­ins á hausinn, þá fer hann ekki á saka­skrá heldur fær hann kaup­hækk­un,” hrópar Sand­ers yfir hóp­inn sem púar til sam­þykk­is. Því næst snéri hann sér að mót­fram­bjóðandum sem hefur þegið fé frá fjölda sterkra hags­muna­hópa.

„Við höfum fengið fjár­stuðn­ing frá sex milljón ein­stak­ling­um, sem eru fleiri ein­staka gjafir en nokkur annar for­seta­fram­bjóð­andi hefur fengið í sögu Banda­ríkj­anna. Með­al­fram­lagið eru 27 doll­ar­ar. Þetta er kosn­inga­her­ferð „by the people for the peop­le,“” segir Sand­ers og vitnar þar í fræg­ustu ræðu Abra­ham Lincoln, Gett­ys­borg­ará­varp­ið. „Hill­ary hefur fengið um 15 millj­ónir frá fyr­ir­tækjum á Wall Street.” Hann hélt áfram og gagn­rýndi hana fyrir að hafa fengið hund­ruði þús­unda doll­ara fyrir að halda ræður fyrir fyr­ir­tæki eins og Gold­man Sacks og heldur áfram og segir að nú væru margir bank­arnir enn stærri en fyrir hrun og það væri orðið löngu tíma­bært að brjóta þá upp og það væri það sem hann myndi gera yrði hann for­seti,  ekki halda ræður fyrir þessi fyr­ir­tæki eins og hún ger­ir. 

Hann minnti stuðn­ings­menn sína á að hann hefði kosið gegn stríð­inu ólíkt Clinton sem kaus með því. Hann hafi einnig kosið gegn NAFTA og fjölda milli­ríkja­samn­inga sem hefði kostað millj­ónir starfa og að Clinton hefði kosið með þeim öll­um. Aug­ljóst er að tónn­inn í ræð­unni var nokkuð beitt­ari gegn Clinton en oft­ast áður og hafa fjöl­miðlar velt því fyrir sér hér ytra hvort greina megi skil í bar­áttu Sand­ers. Sjálfur hafði Sand­ers sagt að hann myndi ekki standa í að tala um ókosti and­stæð­inga sinna heldur fók­usera á sína eigin kosti en í ræðu sinni í Suður Bronx dró hann skarpa línu á milli þeirra með því að gagn­rýna hana harka­lega í þeim málum sem þau hafa verið ósam­mála. Sand­ers snerti á öllum helstu mál­efn­um, en ein­beitti sér tölu­vert að mál­efnum inn­flytj­enda og stöðu mála í Puertó Ríkó en margir inn­flytj­endur frá því lands­stjórn­ar­ríki búa í Bronx. Áður en hann gekk af svið­inu sagði hann „ef við vinnum í New York þá komumst við alla leið í Hvíta hús­ið.“ Sand­ers gaf sér stuttan tíma til að heilsa upp á stuðn­ings­menn og eftir að hafa heilsað upp á þá sem næstir voru svið­inu í um fimm mín­útur var hann á bak og burt í blikk­andi bíla­lest. Það frétt­ist svo á leið­inni út úr garð­inum að áður en hann steig á svið hafði hann stigið upp á kassa fyrir utan garð­inn og haldið stutta ræðu fyrir þá sem höfðu beðið kukku­stundum saman fyrir utan garð­inn eftir að hann fyllt­ist. Það duld­ist engum að það var glað­vær og von­góður hópur sem hélt út í kolniða myrkrið á leið sinni heim eftir við­burð­inn.  Hvort Sand­ers tak­ist hins vegar að sann­færa fleiri en Hill­ary næstu vik­urnar sem eftir er af for­vals­tíma­bil­inu, á eftir að koma í ljós, en hvernig sem fer, þá er ljóst að það er stór hópur kjós­enda von­ast til þess að bylt­ingin hans Sand­ers hefj­ist í Hvíta hús­inu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None