Þingmaðurinn segir „já“
Stormasamt kjörtímabil virðist ekki hafa blásið viljann úr sitjandi þingmönnum til að gefa kost á sér áfram í komandi Alþingiskosningum. Flestir segjast vilja halda áfram, þó að margir séu enn óákveðnir. Kjarninn kannaði afstöðu allra þingmanna fyrir kosningarnar.
Mikill meirihluti núverandi þingmanna ætla að freista gæfunnar og gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu í komandi Alþingiskosningum. Kjarninn leitaði svara hjá öllum sitjandi þingmönnum og fékk svör frá flestum. Nokkrir reyndust óákveðnir, en eins og áður segir, eru langflestir sem ætla sér að halda áfram. Svör þingmanna má sjá hér fyrir neðan.
„Eins og staðan er í dag, að óbreyttu…”
Rétt er að taka fram að margir þingmenn voru örlítið tvístígandi í afstöðu sinni. Sögðu margir hverjir að í hinu pólitíska umróti síðustu vikna hafi ekki gefist mikill tími til að velta fyrir sér framtíðinni - menn hafi einungis verið að skipuleggja dag frá degi. Enda gerðust hlutirnir hratt. Margir bentu á að enn væri þó einhver tími til kosninga, sem óvíst er hvenær verða, og margt geti gerst í millitíðinni.
„Eins og staðan er í dag, að óbreyttu, þá ætla ég að gefa kost á mér áfram,” og „ef flokkurinn veitir mér brautargengi og eftirspurn verður eftir mér, þá já,” voru nokkuð algeng svör. Fjölmargir voru þó gallharðir í afstöðu sinni til áframhalds. Þess ber þá að geta að svör þingmanna til Kjarnans eru ekki bindandi og fólki er frjálst að skipta um skoðun, eins og sannast hefur í vikunni.
Veit ekki annað en Sigmundur ætli að halda áfram
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, fór í frí í byrjun síðustu viku. Hjálmar Bogi Hafliðason, fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, tók sæti hans. Hjálmar segir í samtali við Kjarnann að hann hafi átt að koma inn í þrjár vikur, þá frá mánudeginum 11. apríl til mánudagsins 2. maí. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar, segist ekki hafa heyrt neitt um að Sigmundur ætli að hætta. Hann hafi þó ekki náð í Sigmund, sem sé í ferðalagi erlendis með fjölskyldu sinni.
Utanríkisráðherra óákveðinn
Sumir þingmenn voru ekki búnir að ákveða hvort þeir hygðust halda áfram í pólitík á næsta kjörtímabili. Má þar nefna Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og helming þingmanna Bjartrar framtíðar; Guðmund Steingrímsson, Róbert Marshall og Brynhildi Pétursdóttur. Lilja Alfreðsdóttir, nýi utanþingsutanríkisráðherra Framsóknarflokksins, hefur heldur ekki tekið ákvörðun um hvort hún muni bjóða sig fram til þingmennsku í haust.
Þingmenn og báðir utanþingsráðherrarnir voru spurðir hvort þeir hygðust bjóða sig fram í komandi kosningum og má sjá svör þeirra hér fyrir neðan.
Tæplega 70 prósent vilja vera áfram
Svör fengust frá 57 þingmönnum og báðum utanþingsráðherrunum, Lilju Alfreðsdóttur og Ólöfu Nordal. Rúmlega 65 prósent svarenda, eða 39 manns, 38 þingmenn og innanríkisráðherra sem situr utan þings, segjast ætla að gefa áfram kost á sér á næsta kjörtímabili. Fjórir þingmenn ætla að hætta og níu eru óákveðnir.
Forseti, ráðherra og varaformaður að hætta
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og fyrrverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, og Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætla öll að yfirgefa þingið eftir kjörtímabilið.
Sigrún segir að vissulega sé sterk löngun hjá henni að framfylgja sjálf málum Framsóknarflokksins. „En ég held að aldur og fyrri störf segi mér að nú sé komið gott."
Einar segir að hann hafi ákveðið að bjóða sig ekki fram til þingmennsku áfram í samráði við fjölskyldu sína, en hann hefur setið í 25 ár á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Nú er komið að tímamótum í lífi mínu. Beinni þátttöku minni í stjórnmálum lýkur senn. Við tekur nýtt tímabil sem ég veit ekki hvað muni bera í skauti sínu. Það leiðir tíminn einn ljós,“ sagði Einar á Facebook síðu sinni. Einar er oddviti Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi og í vikunni gaf þingmaðurinn Haraldur Benediktsson það út við Skessuhorn að hann ætlaði að sækjast eftir sætinu.
Páll Jóhann segir að mótælaaldan og óánægjan í samfélaginu hafi haft þau áhrif að hann ætli að hætta á þingi eftir kjörtímabilið. „Ég ætla ekki að láta grýta mér oftar út úr þinghúsinu,” segir hann í samtali við Kjarnann. „Það var meira að segja mótmælt við þingsetninguna.”
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, tilkynnti fyrr í vetur að hún ætlaði að hætta á þingi eftir þetta kjörtímabil. Ákvörðunin hafi verið persónuleg og tími sé kominn til að snúa sér að öðru.
Ekki fengust viðbrögð frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Illuga Gunnarssyni, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Vigdís Hauksdóttir vildi ekki velja einn af fjórum möguleikum og óskaði eftir því að það kæmi fram að hún „væri ekkert byrjuð að pæla í framboði."