Panamafélagið Guru Invest fjármagnaði verkefni í Bretlandi og á Íslandi
Félag sem skráð er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og er með heimilisfesti í Panama, hefur fjármagnað fjöldamörg verkefni í Bretlandi og á Íslandi eftir hrun. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, var skráður með prókúru í félaginu og tengist mörgum verkefnanna sem það hefur fjármagnað.
Hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir hafa verið fyrirferðamikil í íslensku viðskiptalífi undanfarna áratugi. Jón Ásgeir var í forgrunni þess sem kallaðist á einföldu máli íslenska útrásin. Hann fór um heiminn og keypti upp fyrirtæki í skuldsettum yfirtökum og safnaði undir sig gríðarlegu magni eigna, skulda og valda.
Eignir hans á Íslandi voru ekki síður umfangsmiklar. Hann rak stærsta smásöluveldi landsins og nær ómögulegt var fyrir nokkurn landsmann að vera ekki í neinum viðskiptum við Jón Ásgeir. Félög sem hann stýrði áttu auk þess ráðandi hluti í fjárfestingarisanum FL Group og ásamt helstu viðskiptafélögum sínum hafði Jón Ásgeir tögl og hagldir í Glitni banka fyrir bankahrun.
Þegar efnahagslegur hvirfilbylur reið yfir haustið 2008 var ljóst að það myndi hafa mikil áhrif á stöðu Jóns Ásgeirs. Þrátt fyrir mikla baráttu fyrir því að halda eignum sínum varð hvert félagið sem hann átti hlut í á fætur öðru gjaldþrota og kröfuhafaröðin sem á eftir honum gekk lengdist í sífellu. Samanlagðar skuldir félaganna sem Jón Ásgeir kom að námu á annað þúsund milljarða króna. Á móti voru einhverjar eignir, en í tilfellum margra þeirra voru þær ekki miklar. Til að mynda er gert ráð fyrir að sjö milljarðar króna fáist upp í alls 240 milljarða króna kröfur í þrotabú fjárfestingafélagsins Baugs Group, sem Jón Ásgeir stýrði.
Baugur var að mestu í eigu Fjárfestingafélagsins Gaums, sem var að mestu í eigu Jóns Ásgeirs (hann átti 41 prósent hlut), systur hans og foreldra. Gaumur var gefið upp til gjaldþrotaskipta í september 2013, þótt að legið hefði fyrir árum saman að félagið ætti enga möguleika á að lifa af. Hvað tafði það gjaldþrot í nær fimm ár eftir bankahrun er erfitt að fullyrða um. Einhvern hag taldi fjölskyldan sig þó hafa af því að halda yfirráðum yfir Gaumi. Þegar skiptum lauk í síðasta mánuði kom í ljós að 14,8 milljónir króna fengust upp í almennar kröfur í búið, sem námu 38,7 milljörðum króna. Alls fengust því 0,067 prósent upp í almennar kröfur í búið. Stærstu kröfuhafarnir voru þrotabú gamla Landsbanka Íslands, þrotabú Kaupþings og þrotabú Baugs, og allir voru kröfuhafarnir álíka stórir. Nýlega var einnig greint frá því að BG-fasteignir, sem hafði verið í eigu Baugs Group, hefði verið gert upp. Þar námu kröfurnar 17 milljörðum króna en um ein milljón króna fékkst upp í þær.
Þetta eru einungis þrjú dæmi af mörgum um afleiðingar fyrirtækjarekstrar Jóns Ásgeirs. Skuldaslóðin lá víða eftir hann og kröfuhafar reyndu hvað þeir gátu til að komast yfir einhverjar eignir til að takmarka tap sitt. Slitastjórn Glitnis fékk meira að segja í gegn að allar þekktar eignir hans voru frystar með dómsúrskurði í Bretlandi árið 2010 og við þá málsmeðferð sór Jón Ásgeir að hann ætti ekkert meira en það sem þar var tilgreint. Slitastjórnin var ekki sannfærð og réð meðal annars rannsóknarfyrirtækið Kroll til að reyna að hafa upp á frekari eignum sem hún grunaði Jón Ásgeir um að hafa komið undan. Samkvæmt frystingarbeiðninni, sem Kjarninn hefur undir höndum, var slitastjórnin meðal annars að leita að afrakstri sölu snekkju, sem bar heitið OneOOne og var skráð til heimilis á Cayman-eyjum.
OneOOne nafnið var ekki gripið úr lausu lofti. Það vísaði til kennileitis sem eiginkona Jóns Ásgeirs, Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, hafði gert að sínu. Hún átti hótel sem hét í höfuðið á póstnúmerinu fræga og mörg félög sem henni tengdust báru það sem forskeyti.
Þrátt fyrir að Ingibjörg hafi sjálf verið umsvifamikill fjárfestir fyrir hrun og tekið þátt í mörgum áhættusömum fjárfestingaævintýrum í slagtogi við eiginmann sinn eða ein síns liðs þá virðist hún hafi komið nokkuð vel utan hrunvetrinum. Að minnsta kosti hefur henni tekist að halda mörgum af sínum helstu eignum á Íslandi og í krafti auðs síns tekið yfir aðrar eignir, sem Jón Ásgeir átti áður en lenti í erfiðleikum með að halda vegna þrýstings kröfuhafa, rannsókna sérstaks saksóknara og uppþornaðs lánshæfis. Þar ber helst að nefna stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, 365 miðla, sem Ingibjörg tók yfir eftir að Jón Ásgeir hafði tryggt sér áframhaldandi stjórn á því vikurnar eftir bankahrunið.
Skiptastjórar í þrotabúum félaga sem tengjast hjónunum hafa lengi skoðað alls kyns tilfærslur á eignum sem áttu sér stað innan þeirra á lokametrunum fyrir hrun eða á misserunum eftir það. Með litlum árangri. Peningarnir virtust hafa farið til peningahimna.
Svo virðist þó sem að einhverjir peningar hafi reyndar haft áframhaldandi viðveru í mannheimum. Í skjölum lögfræðistofunnar Mossack Fonseca frá Panama, sem láku út í fyrra og eru nú til umfjöllunar í fjölmiðlum víða um heim, er varpað ljósi á hvert hluti þeirra fór. Hann fór til Panama.
Jón Ásgeir og Ingibjörg bæði með prókúru
Í október 2007 stofnaði panamíska lögfræðistofan Mossack Fonseca félag fyrir Landsbankann í Lúxemborg, sem kom fram við skráninguna fyrir hönd viðskiptavinar sínar. Félagið átti að heita OneOOne Entertainment S.A. Í tölvupósti vegna skráningarinnar var lögð sérstök áhersla á stafsetningu á nafni félagsins. Hún yrði að vera algjörlega rétt.
Þetta kemur fram í gögnum frá Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum víðsvegar um heim.
Í stjórn félagsins voru skipuð þau George Allen, Carmen Wong, Yvette Rogers, Jaqueline Alexander og Verna De Nelson. Öll voru þau starfsmenn Mossack Fonseca og sitja í stjórnum þúsunda félaga sem stofnuð eru af fyrirtækinu fyrir kúnna sem vilja næla sér í skattalegt hagræði á lágskattasvæðum, fela eignir eða vilja eiga félög í Panama af einhverjum öðrum ástæðum. Vert er að taka fram að ekkert ólöglegt þarf að vera við það að eiga félög eins og þau sem Mossack Fonseca stofnaði í bílförmum fyrir viðskiptavini sína. Flestu venjulegu fólki þykir það hins vegar afar óvenjulegt og fjarlægt.
Í fundargerð stjórnar hins nýstofnaða félags, sem er dagsett 2. október 2007, kemur fram að prókúruhafar félagsins séu Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Þ.e. öll völd yfir eignum þess eru í höndum þessara tveggja aðila frá stofnun. Þau máttu taka lán eða lána fé félagsins án nokkurra takmarkanna. Vald stjórnarmanna í félaginu var að fullu framselt til þeirra tveggja í þrjú ár, fram til ársins 2010.
Þau gögn um þetta félag sem Kjarninn hefur fengið aðgang að í gegnum samstarf sitt við Reykjavik Media eru ákaflega víðferm. Þar sem hjónin höfðu fullt vald yfir OneOOne fram á árið 2010 er þó lítið um samskipti við Mossack Fonseca vegna félagsins frá stofnun þess 2007 og fram til 2010. Strax í janúar það ár er sendur tölvupóstur þar sem óskað er eftir því að starfsmenn Mossack Fonseca, sem sátu í stjórn OneOOne, fylltu út skráningareyðublað til að heimila Ingibjörgu að opna bankareikning fyrir félagið hjá svissneska bankanum Credit Suisse í Lúxemborg. Í kjölfarið var einnig farið fram á að nafni félagsins yrði breytt í Moon Capital S.A. Það nafn hljómar ugglaust kunnuglega í eyrum margra, enda er meirihlutaeignarhald Ingibjargar á 365 miðlum að mestu í gegnum félag sem ber sama nafn, Moon Capital, en er skráð í Lúxemborg.
Sá sem stóð að samskiptunum fyrir hönd raunverulegra eigenda félagsins var Þorsteinn Ólafsson, fyrrum starfsmaður Landsbankans í Lúxemborg, sem þá var orðinn annar framkvæmdastjóra nýs fyrirtækis sem fyrrum starfsmenn íslenskra banka þar í landi höfðu þá stofnað, Arena Wealth Management. Þorsteinn var á árum áður þekkt sveitaballastjarna á Íslandi þar sem hann söng með hljómsveitinni Vinir vors og blóma. Þann feril gaf hann þó upp á bátinn fyrir eignarstýringardraumana.
Samkvæmt frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu í ágúst 2009 tók Arena Wealth Management, sem einbeitir sér að eignarstýringu fyrir ríka viðskiptavini, til starfa í lok árs 2008. Að því stóðu fyrrum starfsmenn Landsbankans og Kaupþings í Lúxemborg. Í frétt Viðskiptablaðsins er rætt við Þorstein, sem segir að Arena hafi fyrst og fremst verið að „aðstoða þann viðskiptamannahóp sem var fyrir í Lúxemborg og einstaklingar í hópnum hafa byggt upp á síðustu 10 til 15 árum.“ Með öðrum orðum tóku nokkrir íslenskir eignarstýringarmenn úr föllnu íslensku bönkunum í Lúxemborg nokkra stóra íslenska kúnna og stofnuðu nýtt fyrirtæki í utanumhald um eignir þeirra.
Á meðal þeirra eru Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir.
OneOOne verður Moon Capital sem verður Guru Invest
Nafnabreytingin á félaginu var staðfest af fyrirtækjaskránni í Panama þann 16. mars 2010. Samkvæmt tölvupóstum frá Þorsteini, fulltrúa eigenda Moon Capital í samskiptum þeirra við Mossack Fonseca, var mikilvægasta úrlausnarefni næstu mánaða sem eftir fylgdu að gera samkomulag við slitastjórn Glitnis vegna skulda sem Fjárfestingafélagið Gaumur og 101 Chalet, félag í eigu Gaums, höfðu stofnað til við bankann og voru komnar fram yfir gjalddaga án þess að félögin ættu fyrir þeim. Samanlögð skuld þeirra var tæplega þrír milljarðar króna.
Líkt og lesa má nánar um hér greiddi Moon Capital hluta þeirrar upphæðar sem greidd var til að komið væri í veg fyrir að slitastjórn Glitnis gengi á félögin og gæti þar með knúið þau í gjaldþrot. Sú greiðsla sem innt var af hendi samanstóð af 200 milljónum krónum í reiðufé og 2,2 milljörðum króna sem greiddar voru með skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði, svokölluðum HFF-bréfum.
Þegar gerð samkomulagsins var í höfn var ráðist í aðra nafnabreytingu á félaginu í Panama. Sem fyrr var það Þorsteinn Ólafsson hjá Arena sem óskaði eftir breytingunni og sendi hann tölvupóst þess efnis 23. september 2010 til Mossack Fonseca. Moon Capital skyldi nú heita Guru Invest S.A.
Eftir þetta snúast flest tölvupóstsamskipti Þorsteins við Mossack Fonseca vegna Guru Invest um að stjórnarmennirnir sem settir voru inn í félagið þurfi að skrifa undir allskyns lánasamninga sem Guru Invest var að gera við rekstrarfélög í Evrópu eða til að opna bankareikninga í nafni þess hjá alþjóðlegum bönkum. Flest félaganna eiga það sameiginlegt að hafa verið tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í fjölmiðlaumfjöllun um þau. Svo virðist því sem umrædd félög hafi sótt sér rekstrarfé til Guru Invest á Panama. Gögnin opinbera líka að Guru Invest á hlut í félaginu sem á rekstur íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct á Íslandi. Lesa má nánar um það hér.
Lánað til MyM-e
Eitt félaganna heitir MyM-e Limited. Það er með heimilisfesti í Bretlandi og sérhæfir sig í fjölmiðlaþjónustu fyrir eintaklinga og fyrirtæki og greiningu á fjölmiðlaumfjöllun um smásölumarkað. Í frétt DV um fyrirtækið frá árinu 2012 segir: „Um er að ræða eins konar fjölmiðlavakt þar sem fyrirtækið velur og tekur saman fréttir um það helsta og mikilvægasta sem er að gerast hverju sinni í heimi viðskiptanna og sendir til viðskiptavina sinna. Þessi þjónusta fyrirtækisins kallast My-retail media. Á heimasíðu félagsins kemur fram að þessi þjónusta sé hins vegar aðeins byrjunin á „MyM-e-byltingunni“.
Fyrirtækið hefur einnig reynt fyrir sér í hefðbundnari fjölmiðlum. Það kom meðal annars að stofnun íþróttasíðunnar sportsdirectnews.com sem Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrum fréttastjóri Stöðvar 2, var síðar ráðinn til að stýra. Síðan vann sér það til frægðar að bera á borð ævintýralega óáreiðanlegar og oft á tíðum rangar fréttir úr heimi ensku knattspyrnunnar. Frægasta dæmið var þegar hún hélt því fram að Newcastle United, félag í eigu Mike Ashley eiganda Sports Direct og viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, væri að fara að kaupa stórstirnið Wayne Rooney frá Manchester United. Miðillinn baðst síðar afsökunar á fréttinni, viðurkenndi að hún væri ósönn og fjarlægði hana af síðu sinni. Sportsdirectnews.com náði ekki að festa sig í sessi í heimi knattspyrnufrétta og er ekki til lengur.
Í fréttum á Íslandi á þessum tíma var ætið greint frá því að Mike Ashley væri eigandi MyM-e Limited. Samkvæmt Panamaskjölunum er það ekki alls kostar rétt.
Í hluthafasamkomulagi sem þar er að finna kemur fram að Guru Invest og nýstofnað félag á Bresku Jómfrúareyjunum, Gardienne Nominees No. 1 Ltd. væru stærstu eigendur félagsins. Sá sem kom fram fyrir hönd Guru Invest við undirritun samkomulagsins var Þorsteinn Ólafsson. Fyrir Gardienne skrifaði Gunnar Sigurðsson, fyrrum forstjóri Baugs og nánasti samstarfsmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, undir fyrir hönd félagsins JMS Partners Ltd.. Það félag höfðu hann, Jón Ásgeir og Don McCharthy, þá stjórnarformaður House of Fraser, höfðu stofnað á árinu 2010. Auk þess var Sara Lind Þrúðardóttir á meðal eigenda í gegnum félagið Biki ltd. Hún var á þessum tíma framkvæmdastjóri MyM-e Ltd. en hafði áður starfað sem upplýsingafulltrúi Baugs Group.
Samkvæmt Panamaskjölunum lánaði Guru Invest MyM-e ltd. tugi þúsunda punda að minnsta kosti tvívegis á næstu árum. Fyrst í apríl 2012 og síðan í lok október 2013. Þá var lán sem hið breska Guru Capital Ltd. hafði veitt MyM-e Limited upp á 72 þúsund pund færð til Guru Invest í Panama á árinu 2013.
Töskur, herraklippingar og húðhreinsun
Guru Invest lánaði ýmsum fleirum félögum, sem Jón Ásgeir og félagar hans komu að, fé á árunum sem eftir fylgdu. Eitt þeirra fyrirtækja var Moncrief, sem framleiðir hágæðatöskur. Guru Invest keypti hlut í Moncrief og lánaði félaginu mörg hundruð þúsund pund á næstu árum. Eitt skjalanna sem Þorsteinn Ólafsson sendi til Mossack Fonseca svo stjórnarmenn Guru Invest gætu undirritað það var merkt „Guru bridge loan agreement – JAJ“. Það má því ætla að Jón Ásgeir, sem skammstafar nafnið sitt með þeim hætti, hafi komið að lánveitingunni. Jón Skaftason, sem starfar fyrir Jón Ásgeir, kemur einnig fram fyrir hönd Guru Invest vegna Moncrief, samkvæmt skjölunum.
Annað fyrirtæki sem fékk lán frá Guru var Cutis Developments, sem rekur ProSkin húðhreinsunarkeðjuna í Bretlandi. Það fékk lán upp á 100 þúsund pund í maí 2012 til að fjármagna rekstur sinn, kaupa tæki og opna tvær nýjar ProSkin stofur í júní sama ár. Enn eitt slíkt fyrirtæki er Murdock, sem rekur dýrar hárgreiðslustofur fyrir karlmenn í London. Samkvæmt frétt breska dagblaðsins Telegraph frá árinu 2013 settist Jón Ásgeir í stjórn fyrirtækisins það ár. Það gerði Jón Skaftason einnig.
Guru átti líka beint í ýmsum félögum. Í janúar 2013 sendi Þorsteinn Ólafsson póst á Mossack Fonseca og sagði þar að í viðhengi væri skipulag félags sem heitir Richmond Group/Richmond Brands. Það félag er skráð til heimilis á Seychelles-eyjum, sem er þekkt skattaskjól. Í póstinum segir Þorsteinn enn fremur að í viðhenginu sjáist að Guru Invest sé hluthafi í félaginu. Skjalið sem er í viðhengi er viðskiptaáætlun fyrir verkefni sem kallaðist „Hearts and Minds“. Verkefnið snérist um að opna og reka litlar skartgripaverslanir undir merkjum hins danska Pandora inni í verslunum House of Fraser í Bretlandi. Guru Invest á, samkvæmt áætluninni, sjö prósent hlut í Hearts and Minds. Aðrir eigendur eru Marc Robbert Rasmussen, sem á 51 prósent hlut og félag sem kallað er HFS en er ekki skilgreint nánar í áætluninni. Richmond fékk, samkvæmt skjölum, 776 þúsund punda lán frá JMS Partners í gegnum annað félag á Seychelles-eyju, Stratton Holdings Limited.
Þótt Jón Ásgeir hafi haft prókúru hjá Guru Invest, að minnsta kosti framan af, er Ingibjörg eiginkona hans skráður eini eigandi félagsins samkvæmt skjölum Mossack Fonseca. Í júní 2012 sendi Þorsteinn Ólafsson póst á Mossack Fonseca og bað um að gefin yrði út ný prókúra á Ingibjörgu Pálmadóttur fyrir Guru Invest. Sú sem hann hafði var frá þeim tíma sem félagið var kallað OneOOne Entertainment.
Engin efnisleg svör
Kjarninn sendi fyrirspurn á Jón Ásgeir og Ingibjörgu á þriðjudag þar sem þau voru spurð út í aðkomu sína að félaginu OneOOne Entertainment, sem breyttist síðar í Moon Capital S.A. og heitir síðast þegar af fréttist Guru Invest S.A. Á meðal þeirra svara sem óskað var eftir voru upplýsingar um hvaðan þeir fjármunir sem vistaðir eru í Guru Invest í Panama hafi komið, hverjar eignir félagsins eru og hvort að fé úr Guru Invest hafi runnið til félaga eða einstaklinga á Íslandi. Þar var einnig spurt hvort eignir Guru Invest hafi verið á meðal þeirra eigna sem tilgreindar voru í umfangsmiklum skuldauppgjörum þeirra við kröfuhafa á Íslandi sem fram hafa farið á undanförnum árum og beðið um upplýsingar um hvar Guru Invest greiðir skatta og gjöld. Þá var einnig spurt af hverju félagið væri skráð með heimilisfesti á Panama.
Ingibjörg svaraði fyrirspurninni á miðvikudag með eftirfarandi hætti: „ef fengið fyrirspurnir í dag frá fleirum miðlum en þínum og hef svarað. Ég hef engu við það að bæta, þú getur pikkað upp það sem þegar er haft eftir mér. Að öðru leyti eins og ég hef áður sagt, þá tjái ég mig ekki um einstök viðskipti, þar er trúnaður milli viðskiptafélaga.“
Rúmum klukkutíma áður en svarið barst hafði birst stutt frétt um Ingibjörgu á fréttavef DV sem enginn var skrifaður fyrir. Þar sagði hún: „„Ég hef verið búsett erlendis til fjölda ára. Þar af leiðandi er ég skattgreiðandi á Íslandi einungis að því leyti sem tekur til minna persónulegra eigna, fyrirtækja og tekna innanlands. Það hefur löngum verið ljóst að ég hef stundað viðskipti erlendis, og er það ekkert launungarmál, og í gegnum það tengst fjölda félaga erlendis, sem í einhverjum tilvikum kunna að flokkast sem aflandsfélög.“ Þá sagði hún einnig að ávallt hafi verið staðið skil á sköttum og gjöldum af þeim félögum sem henni tengjast.