„Ég geri ekki ráð fyrir að margir sem gegnt hafa ráðherraembætti hafi svarað jafn mörgum fyrirspurnum og sá sem hér stendur. Reyndar hefur stjórnarandstaðan sett sérstakt met í því að leggja fyrirspurnir fyrir ráðherrana. Þeim hefur verið svarað í áður óþekktum mæli. Ekki liggja fyrir jafn mörg svör eftir fyrri ríkisstjórnir og eftir þessa ríkisstjórn. Það eru bara ekki dæmi um annað eins.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á þingi í síðustu viku, þegar þingmenn Samfylkingarinnar höfðu kvartað yfir því að Bjarni hafi annars vegar svarað skriflegri fyrirspurn frá Kristjáni Möller um Borgunarmálið með ófullnægjandi hætti, og hins vegar að fyrirspurn Kristjáns til munnlegs svars frá Bjarna hafi ekki verið sett á dagskrá þó óskað hafi verið eftir því þann 26. janúar síðastliðinn.
Er það rétt hjá Bjarna að met hafi verið sett í því að leggja fram fyrirspurnir og er það rétt að fyrirspurnum hafi verið svarað í áður óþekktum mæli? Kjarninn ákvað að kanna málið.
Hafa svarað 69% fyrirspurna
Á þessu kjörtímabili, með ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hafa verið lagðar fram 1156 fyrirspurnir til munnlegs og skriflegs svars til ráðherra ríkisstjórnarinnar og forseta Alþingis. Af þessum 1156 hefur sléttum 800 fyrirspurnum verið svarað. Það er ríflega 69% svarhlutfall við fyrirspurnum.
Á síðasta kjörtímabili, þegar Samfylking og Vinstri græn voru í ríkisstjórn, voru lagðar fram 1607 fyrirspurnir til ráðherra og forseta. Þar af var 1068 fyrirspurnum svarað, eða ríflega 66% allra fyrirspurna. Ef tekið er mið af stöðunni á sama tíma á síðasta kjörtímabili, það er fram til 26. apríl á þriðja þingvetrinum, fer svarhlutfallið niður í tæplega 62%. Þá eru fyrirspurnirnar 1275 og svörin 788. Í þessum útreikningum er þingið vorið 2009, þegar Vinstri græn og Samfylkingin skipuðu minnihlutastjórn, talið með þessu kjörtímabili þar sem ummæli Bjarna snérust um ríkisstjórnir en ekki hrein kjörtímabil. Minnihlutastjórnin er því sama ríkisstjórn og sú sem tók svo við sem meirihlutastjórn eftir kosningar 2009.
Hefur farið miklu lægra
Annað stutt kjörtímabil var milli 2007 og 2009, þegar Sjálfstæðisflokkur og Samfylking mynduðu ríkisstjórn. Á þessu tímabili voru lagðar fram 478 fyrirspurnir og 209 þeirra var svarað, eða tæplega 44% fyrirspurna.
Milli áranna 2003 og 2007 starfaði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Á því kjörtímabili voru lagðar fram 1851 fyrirspurnir, og 822 þeirra var svarað. Þetta er 44% svarhlutfall. Ríkisstjórn sömu flokka svaraði 47% fyrirspurna kjörtímabilið 1999-2003, þegar 638 af 1359 fyrirspurnum var svarað. Kjörtímabilin þar á undan var svarhlutfallið 52% 1995-1999 og 38% 1991-1995.
Niðurstaðan er því sú að svarhlutfall ríkisstjórnarinnar við fyrirspurnum á þessu kjörtímabili er vissulega hærra en þeirra ríkisstjórna sem á undan henni fóru. Í hreinum fjölda svara hefur þessi ríkisstjórn nauman vinning sé miðað við 26. apríl, hefur svarað 800 fyrirspurnum á meðan síðasta ríkisstjórn hafði á sama tíma kjörtímabils svarað 788. Þá verður aftur að hafa í huga að á því kjörtímabili er vorþingið 2009 talið með. Hins vegar höfðu fleiri fyrirspurnir verið lagðar fyrir ráðherra síðustu ríkisstjórnar á sama tíma á síðasta kjörtímabili, það er til og með 26. apríl árið 2012. Þá höfðu 1275 fyrirspurnir verið lagðar fyrir ráðherra og forseta þingsins, en nú eru þær sem fyrr segir 1156 talsins. Það hefur því ekki verið sett sérstakt met í fyrirspurnum á þessu kjörtímabili.