Barack Obama, Bandaríkjaforseti, bauð leiðtogum Norðurlandanna í opinbera heimsókn á föstudaginn sem leið. Leiðtogarnir ræddu baráttuna gegn hryðjuverkum, aðgerðir gegn öfgahyggju, fólksflutninga-og flóttamannavandann, loftslagsmál, málefni norðurslóða, viðskiptamál og þróunar-og mannúðarmál. Kjarninn var með útsendara sinn á staðnum.
Rússaógnin
Mikil áhersla var lögð á þá sameiginlegu ógn sem stafar af Rússum , eftir að þeir hertóku Krímskaga fyrir tveimur árum síðan. Þá hefur her Rússa ítrekað rofið sjó-og lofthelgi nágrannaríkja sinna, m.a. Íslands, og augljóst var að með heimsókninni átti að senda Rússum skýr skilaboð um að ríkin stæðu þétt við bakið á hvert öðru. Bandaríkin og Norðurlönd eru uggandi yfir vaxandi herumsvifum Rússa við Eystrasalt, kjarnorkuáformum þeirra og heræfingum, ásamt ögrandi ágangi bæði herflugvéla og skipa. Dagurinn, sem var viðburðarríkur og spannaði 17 klukkustundir, með tilheyrandi öryggisleit, fundum, myndatökum, ræðuhöldum og endaði dagskráin með hátíðarkvöldverði.
Þegar föstudagurinn 13. maí rann upp var hlýtt í veðri en þungskýjað í höfuðborg Bandaríkjanna og klukkan sex að morgni voru norrænir fréttamenn mættir í ítarlega öryggisleit við norðvesturbakhlið Hvíta hússins. Meðfram göngustígnum sem liggur um Hvíta húsið var búið að hengja upp fána Norðurlandanna ásamt þeim ameríska. Á himninum þéttust skýin hratt og þegar búið var að rannsaka allan tækjabúnað fréttamannanna og svo smala yfir öllum yfir í Press Briefing Room byrjaði að rigna. Kvöldið áður hafði verið ákveðið að athöfnin yrði færð inn, þar sem spáð var rigningu. Hundruðum Norðurlandabúa sem búsettir eru í Washington DC hafði verið boðið að fylgjast með í suðurgarði hússins og þurftu breytinganna vegna að sitja heima og voru því ófáir svekktir þennan morguninn.
Virðuleg samkoma
Klukkan níu hófst athöfnin inni í Hvíta húsinu, þar sem háttsettir embættismenn og utanríkisráðherrar ríkjanna sátu. Heiðursverðir stóðu í hring meðfram salnum. Fyrir framan húsið tók Obama á móti forsætisráðherrunum. Fréttamenn tóku sér stöðu og svo var beðið. Utanríkisráðherrarnir voru hinir kátustu og hlógu dátt með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Susan Rice, öryggisráðgjafa forsetans, sem voru einnig í hópi gesta.
Enn var beðið. Þegar norrænu fréttamennirnir fóru að ókyrrast, sagði amerískur fréttamaður sem starfar allt árið um kring við að fjalla um málefni Hvíta hússins, að Obama hefði ekki mætt á réttum tíma í sjö ár svo það væri ástæðulaust að örvænta.
Obama og forsætisráðherrar Norðurlandanna við opnunarathöfnina.
Loks komu forsætisráðherrarnir og makar þeirra, ásamt Michelle Obama, og því næst sjálfur forsetinn sem ávarpaði leiðtoga þjóðanna með því að bjóða þá velkomna á þeirra eigin tungumáli. Obama þakkaði norrænu þjóðunum fyrir vináttuna og benti á að margir Bandaríkjamenn ættu rætur að rekja til Norðurlandanna þar sem fjöldi manna hefði flutt til Mið-vesturríkja Bandaríkjanna fyrir um öld síðan. Hann sagði að þessir íbúar minntu ítrekað á að Leifur Eiríksson hafði komið til Bandaríkjanna fyrir meira en þúsund árum, þessir íbúar gengu enn í lopapeysum, sýndu ,,dalahesta”, borðuðu lútfisk og lefsur. Það væri því ekki ofsögum sagt að þjóðirnar deildu hagsmunum og gildum.
Hann hrósaði svo Norðurlandaþjóðunum fyrir að vera þau lönd þar sem hvað mestan jöfnuð mætti finna. Í framhaldinu velti hann því upp hvort það væri ástæða þess að þau mældust ítrekað sem hamingjusömustu lönd heims, þrátt fyrir að fá fremur lítinn skerf af sól. Eftir að hafa dregið saman þau fjölmörgu mál og hagsmuni sem sameina þjóðirnar, sagði hann að vegna þess hve miklir samherjar þjóðirnar væru, hafi honum þótt mikilvægt að bjóða þeim til heimsóknar. Það vildi oft fara svo að þjóðir tækju sína helstu bandamenn sem sjálfsögðum hlut en mikilvægt væri að styrkja bönd þjóðanna enn frekar. Hann grínaðist með að stundum hefði hann í sinni forsetatíð stungið upp á því að Bandaríkjamenn fengju þjóðirnar fimm til að koma og stjórna landinu í smá tíma og taka aðeins til fyrir þau, þar sem allt virtist ganga svo vel á Norðurlöndunum.
Að lokum þakkaði hann þjóðunum fyrir hafa fært Bandaríkjamönnum H.C. Andersen, Línu Langsokk, LEGO, skandínavísk húsgögn, Abba, Spotify, Skype, Minecraft, Angry Birds og Candy Crush. Ómæld aðdáun forsetans á Norðurlandaþjóðunum átti eftir að koma fram oftar yfir daginn. Það að forseti Bandaríkjanna tali fyrir því að Bandaríkin geti lært mikið af norræna módelinu er fremur nýtt í stjórnmálum í Bandaríkjunum. Fyrir ekki svo löngu síðan hefði það verið óhugsandi að forseti Bandaríkjanna talaði jafn jákvætt um hið sósíalíska kerfi sem einkennir Norðurlöndin.
Áhrif stefnu forsetans sjálfs, sem og Bernie Sanders, Elizabeth Warren og fleiri stjórnmálamanna upp á síðkastið, hefur orðið til þess að svona orðræða fellur í ljúfa löð hjá flestum kjósendum Demókrata. Íslendingar hafa í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fremur vanist því að aðdáun stjórnvalda hér á landi sé á bandaríska kerfinu ekki öfugt og bar því við nokkuð nýtt stef í samskiptum þjóðanna.
Í ljósi meginefnis fundarins í Hvíta húsinu er áhugavert að skoða afstöðu Obama varðandi stöðuna sem komin er upp varðandi Rússland og Sýrland, en Obama greindi nýverið frá skoðun sinni varðandi hvernig best sé að meðhöndla þessi tvö mál í viðtali við blaðið Atlantic.
Þar kemur fram að hann segist ekki sjá eftir því að hafa hætt við ákvörðun sína að ráðast með loftárásum á Sýrland, eftir að Assad forseti landsins var sakaður um að beita efnavopnum á íbúa sína. Fram hefur komið að margir innan stjórnar Obama, sem og sumir aðrir þjóðarleiðtogar voru afar ósáttir við viðbragðsleysi hans á þessum tíma. Sama gilti um viðbrögð hans eftir innrás Rússa í Úkraínu. Í viðtalinu benti Obama á að þrátt fyrir að mikilvægt væri að bregðast við árás Rússa, þá væru þeir sem vildu að hann stæði í hótunum að gera eitthvað róttækt við Pútin í kjölfarið, að misskilja út á hvað góð utanríkispólitík snérist. Þeir, sem sem leituðu annarra leiða en að ná sínu fram en með ofbeldi væru einmitt þeir sem sýna alvöru kænsku í utanríkismálum, útskýrði forsetinn.
Kænska umfram ofbeldi
Hann benti á að sagan styddi þessa skoðun sína og nefndi sem dæmi að Bandaríkin hefðu sprengt fleiri sprengjur í Kambódíu og Laos en í þau gerðu í allri Evrópu í seinni heimstyrjöldinni. Eftir stóð að Nixon dró her sinn til baka frá Víetnam og Kissinger fór til Parísar að semja um frið. Mikil hryllingur undir einræðisstjórn tók við í nágrannaríkjum Víetnam en friður komst á í Evrópu.
Í viðtalinu tekur hann einnig fram að þó innrás Rússa inn í Úkraínu væri alvarlegt mál, væri staðreynd málsins sú að landið væri Bandaríkjunum ekki jafn mikið hagsmunamál og Rússum. Aðgerðirnar væru í samræmi við það. Landið sé ekki NATO ríki og sama hvað yrði gert, yrði úkraínski herinn alltaf viðkvæmur fyrir áhrifum Rússa. Þessa afstöðu Obama gagnvart Rússum mátti greina á fundum dagsins og þótt ákveðið hefði verið að bætt yrði í varnir Bandaríska hersins víða um Evrópu var markmiðið að Norðurlandaþjóðirnar tækju virkari þátt í auknum vörnum. Bandaríkin hafa óspart hvatt hinar NATO þjóðirnar að standa við skuldbindingu sína að verja því prósentuhlutfalli af þjóðarframleiðslu sem samningur NATO til varnamála segir til um. Síðustu árin hafa færri og færri ríki staðið við þessa skuldbindingu. Ný staða í heimsmálunum með ágangi Rússa og stríðinu í Sýrlandi hefur bandarískum ráðamönnum án efa þótt ærin ástæða til að ítreka að þjóðirnar standi við skuldbindingar sínar. Nokkuð nákvæma útlistun af nýjum eða nýlegum skuldbindingum þjóðanna í útgjöldum vegna sameiginlegra hernaðar- og varnaaðgerða má finna í sameiginlegri yfirlýsingu þjóðanna eftir fundinn. Herleysi Íslendinga gerir það líklega að verkum að engar nýjar eða nýlegar fjárhagslegar skuldbindingar landsins er að finna í yfirlýsingunni.
Tólfta stærsta hagkerfi heimsins
Næstur til að taka til máls var svo forsætisráðherra Finnlands, Juha Sipilä, sem lagði áherslu á að saman væru Norðurlöndin, tólfta stærsta hagkerfi heims og í raun væru þau stórveldi þegar það kæmi að því að leiða nýsköpun, umhverfisvæna tæknisköpun, sem og í íþróttum og menningu. Þá bætti hann við að hógværð væri líka á afrekalista þjóðanna, og hló. Hann talaði um mikilvægi þess að löndin ynnu saman að því að vinna bug á þeirri spennu sem upp væri komin varðandi Rússland, það væri í anda norrænu ríkjanna að vinna saman að þessu markmiði.
Þar á eftir tók forsætisráðherra Noregs til máls, Erna Solberg, en hún lagði áherslu á samvinnu þjóðanna í varnarmálum, og mikilvægi þess að vinna bug á aðsteðjandi hættum, svo sem íslamska ríkinu. Hún benti á að fleiri byggju nú í Ameríku sem ættu rætur að rekja til Noregs en þeir sem nú byggju í Noregi. Hún hrósaði Obama sérstaklega fyrir leiðtogahæfileika hans sem birtust meðal annars í umhverfismálum og árangursins í tengslum við Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í fyrra. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að að markmiðum SÞ um sjálfbæra þróun yrði framhaldið og benti á að ef það myndi takast ætti að vera raunhæft markmið að geta veitt öllum betra líf og frið, svo miklu máli skipti máli að Bandaríkin væru leiðandi í þessum málum.
Þá var byrjað að vinna. Obama minnti á að það væru þrjú ár frá því að þjóðarleiðtogarnir hittust í Stokkhólmi og á þeim fundi yrði byggt þennan daginn. Næstur leiðtoga til að halda ræðu var Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem var heldur beinskeyttari en kollegar hans. Tveir þættir ræðunnar vöktu helst athygli. Annars vegar áherslan á að allar þjóðirnar einsettu sér að stuðla að friði milli Palestínu og Ísrael með tveggja ríkja leiðina að leiðarljósi. Sem og áhersla á að konur fengju sæti við borðið í friðarviðræðum, en sú áhersla var útlistuð í sameiginlegri yfirlýsingu þjóðanna. Ástæða þess að Svíar ákváðu að beita sér af töluverðri hörku fyrir sínum áhersluatriðum á fundinum, er líklega sú að Svíar eru í framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í haust.
Eftir ræðurnar tvær voru fjölmiðlamenn beðnir um að fara og bíða þar til leiðtogarnir gengu inn á skrifstofu forsetans, Oval office. Þar átti hver og einn svo nokkurra mínútna fund með forsetanum í einrúmi.
Lilja Dögg og Sigurður Ingi á fundi með John Kerry, Barack Obama og hinum leiðtogum Norðurlandanna.
Leiðtogarnir ganga að skrifstofu forsetans.
Sigurður Ingi á skrifstofu forsetans.
Þegar Sigurður Ingi gekk úr vesturálmu Hvíta hússins náði blaðamaður tali af forsætisráðherranum og spurði hann hvernig dagurinn legðist í hann. Hann var glaðbeittur og sagðist mjög ánægður með það sem af væri degi og að með heimboðinu væri Íslendingum sýnd mikil vinsemd.
Það var ljóst eftir því sem leið á daginn að varnarmál vógu þyngst í viðræðum leiðtoganna. Framferði Rússa eftir innlimun hluta Úkraínu stóð þar hæst. Aðspurður um hvort sú samstaða sem ítrekuð hafi verið á fundinum þýddi auknar skuldbindingar fyrir Ísland, sagði hann að engar slíkar ákvarðanir hefðu verið teknar á fundinum. Ekki dugi þó að takast á við nýjar ógnir í gegnum NATO þar sem Svíþjóð og Finnland eru ekki aðilar, ólíkt hinum löndunum.
,,Sum löndin eru í NATO en önnur eingöngu í ESB. Rætt var hvernig við getum öll lagt okkar af mörkum, það var ekki rætt um framlag einstaka landa heldur sem heild. Við Íslendingar og Obama höfum lagt áherslu á að haldið sé áfram opnu viðræðuferli við Rússa en á sama tíma sé staðið fast á alþjóðalögum og reglum,” útskýrði Sigurður Ingi.
Í töluverðan tíma hefur ESB staðið í samningaviðræðum við Bandaríkin um nýjan fríverslunarsamning þeirra á milli. Sigurður Ingi sagðist hafa komið því að á fundinum að Ísland, sem og hin EFTA ríkin hefðu áhuga á að tengjast slíkum samningi þegar búið væri að semja við ESB.
Fyrr í vikunni kynnti Obama hertar aðgerðir til að sporna gegn skattaskjólum. Þær voru ekki sértaklega ræddar á fundinum sagði Sigurður Ingi en aðspurður um hvort sambærilegra aðgerða væri að vænta heima sagði hann: ,,Þessar hugmyndir sem ég sá Obama kynna um daginn, voru á margan hátt sambærilegar og þær sem þau hafa verið ræddar heima, og ég held það sé einn liður í því að hver skoði þetta fyrir sig en svo nauðsyn þess að taka þetta alþjóðlega svo hægt sé að taka á þessu vandamáli.” Starfandi væri starfshópur á Íslandi sem skoða ætti málið og mætti vænta niðurstöðu í lok júlí en hvort eitthvað gerðist áður yrði að koma í ljós.
Sigurður Ingi nýtti tækifærið í samtali sínu við Obama og bauð honum í heimsókn til Íslands. ,,Hann tók vel í þetta og sagði að þetta hefði verið á to-do listanum lengi,” sagði Sigurður Ingi og bætti við að hvort sem forsetinn kæmi áður en hann hætti sem forseti, eða eftir forsetatíð sína, skipti ekki sköpum, það yrði gleðilegt fyrir Íslendinga ef af þessu yrði. Að því búnu var komið að því að rjúka út í bíl og aka sem leið lá í utanríkisráðuneytið þar sem John Kerry bauð til hátíðarhádegisverðar.
Í utanríkisráðuneytinu beið rauður dregill gesta og margt var um manninn. Sænski kokkurinn Marcus Samuelsson sá um matseldina. John Kerry tók til máls fór yfir efni fundarins og lagði áherslu á samvinnu þjóðanna. Að því loknu flutti hver leiðtogi skálaræðu. Hádegisverður var haldinn í hátíðarsal sem kenndur er við Benjamín Franklín og var öll umgjörðin hin glæsilegasta.
Að hádegisverðinum loknum héldu utanríkisráðherrarnir til John Kerry þar sem rædd voru málefni fundarins. Eftir að fundinum var lokið mælti blaðamaður sér mót við nýjan utanríkisráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra ásamt sendiherra Íslands Geir H. Haarde, aðstoðarmönnum ráðherra og sendinefnd Íslands.
Lilja Dögg, nýr utanríkisráðherra Íslands, sagði að heimsóknin hefði verið í alla staði mjög áhugaverð en þetta er hennar fyrsta opinbera heimsókn. ,,Nú er ég búin að vera utanríkisráðherra í sex vikur, ég nálgast þetta starf bara eins og hvert annað starf sem ég hef tekið að mér í gegnum tíðina, ég set mér markmið og ætla að koma á framfæri ákveðnum málefnum í öryggis- og jafnréttismálum í utanríkispólitíkinni,” sagði Lilja Dögg þar sem við sátum á bekk bak við Hvíta húsið og biðum eftir að næsti dagskrárliður hæfist. Hún segist ekki gera ráð fyrir sérstökum stefnubreytingum í utanríkismálum með komu sinni í embættið, hún legði þó áherslu á að klára frumvarp um þjóðaröryggisráðið.
Aðspurð um samtal sitt við John Kerry sagði Lilja: ,,Ég lagði áherslu á að Ísland er að taka sinn þátt í öryggis- og varnarmálum, við erum að auka stuðning hvað varðar þátttöku okkar í NATO, svo er einnig verið að auka viðbúnað í Keflavík.” Hún sagði það ekki hafa verið hluta af samstarfi ríkjanna í tengslum við fundinn sérstaklega heldur væri þetta þegar ákveðið og hluti af því sem búið var að ákveða í ríkisfjármálunum. Engra stórra breytinga væri að vænta í framhaldi af þessum fundi. Hún sagði það vera augljóst að landfræðileg lega landsins væri enn á ný farin að skipta auknu máli vegna þeirrar stöðu sem uppi í samskiptum þjóðanna við Rússland.
Sæti við borðið
Í grein utanríkisráðherra þjóðanna fimm sem birtist í Huffington Post daginn fyrir fundinn var sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að þjóðirnar tryggðu konum sæti við samningaborðið þegar samið væri um frið í heiminum. Lilja Dögg sagði að Norðurlöndin væru í sameiningu að leggja áherslu á þetta. Þessi áhersla var svo útlistuð í lokaskjali sem löndin sendu frá sér að fundunum loknum. Aðspurð um flóttamannamálin, sem voru einnig efni fundarins og hvort einhverra breytinga væri að vænta í þeim málaflokk, sagði hún ekki svo vera. Áætlun væri í gangi og henni yrði áfram framfylgt.
Aðkoma Lilju inn í stjórnmálin var um margt dramatísk. Hún tók boði Sigmundar Davíðs um að verða ráðherra, eftir að Sigmundur Davíð hafði sagt af sér sem forsætisráðherra í kjölfar Wintris-málsins svokallaða og umfjöllunar um Panamaskjölin í Kastljós-þætti RÚV.
Lilja Dögg, sem hafði starfað sem sérlegur ráðgjafi Sigmundar í forsætisráðuneytinu og innan Seðlabanka Íslands, hefur starfað innan Framsóknarflokksins lengi og meðal annars setið í nefndum borgarinnar. Lilju Dögg eru stjórnmálin í blóð borin en faðir hennar, Alfreð Þorsteinsson, var lengi borgarfulltrúi í Reykjavík.
Aðspurð um hvernig það sé að koma inn í stjórnmálin í kjölfarið á svona atburðarás og hvernig þetta liti við henni, bæði fyrir hana og flokkinn hennar, sagði hún þetta mikla áskorun en mikilvægt væri að muna að vel hefði gengið í efnahagsmálunum. Um hvort hún fyndi fyrir því á fundinum og almennt að ímynd Íslands hefði hlotið skaða af vegna Panama skjalanna sagði hún: ,,Auðvitað hefur þetta allt áhrif, en það sem skiptir auðvitað mestu máli í þessu er að það hefur líka gengið vel á Íslandi á síðustu árum, við erum auðvitað leggja áherslu á þann efnahagsbata sem hefur átt sér stað, en þarna er klárlega eitthvað sem verður að fara ofan í og við finnum öll fyrir því og við ætlum að gera það”.
Lilja sagði það vera ótímabært að svara því hvort hún væri á leið í framboð, hún væri að sinna þessu starfi eins vel og hún gæti og svo kæmi það í ljós. Hún sagðist hafa hugleitt málið en enga ákvörðun tekið, né væri hún farin að horfa á stól formannsins hýrum augum.
Þegar þarna var komið mátti sjá aðstoðarmann utanríkisráðherra, Hrannar Pétursson, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, gefa merki við öryggishlið Hvíta hússins um að nú væri best að blaðamaður drifi sig því leyniþjónustan væri farin að tékka blaðamenn inn í seinni hluta dagskrárinnar í Hvíta húsinu. En ef fréttamenn mættu ekki á tilskildum tíma áttu þeir á hættu að fá ekki að fylgjast með kvölddagskránni.
Svöngum og fremur þreyttum blaðamönnum var aftur skóflað inn í fréttamannaherbergið, sem margir þekkja vel, en þaðan er sjónvarpað daglega helstu fréttum úr Hvíta húsinu. Engin leið var fyrir fréttamenn að skjótast út í sjoppu þegar búið var að fara í gegnum öryggisleit Hvíta hússins og þeim var ekki boðinn neitt að borða þrátt fyrir langa dagskrá. Sem betur fer hafði íslenska sendinefndin bent íslensku fréttamönnunum á þetta og við sátum og mauluðum orkustykki milli atriða. Þegar kaffileysið var farið að segja til sín var það góðvild CNN fréttastofunnar sem kom í veg fyrir að íslensku fréttamennirnir færu í algjör kaffifráhvörf.
Nú var komið að móttöku forsetans og forsetafrúarinnar fyrir hátíðarkvöldverðinn. Búið var að setja upp einskonar stillansa fyrir aftan bakdyr Hvíta hússins. Þegar fréttamönnunum, sem höfðu fengið sérstakt leyfi til að taka myndir og fylgjast með, var gefið leyfi til að raða sér upp hlupu þeir metnaðarfyllstu af stað. Vopnaðir löngum og þungum ljósmyndalinsum og kvikmyndavélum hlupu þeir og ruku upp á pallana, drógu fram málningarstiga og eins og áhættuleikarar, röðuðu sér upp með miklum tilþrifum og rifust svo um hver hefði verið hvar fyrstur.
Sjálf náði undirrituð að smeygja sér undir þrífótinn hjá kvikmyndatökumanni frá NRK fréttastofunni og var á besta stað. Heiðursverðir voru búnir að raða sér upp og lengi vel störðu fréttamenn á hurðahúninn og þóttu ítrekað greina hreyfingar. Minnti þetta helst að dramatískar lýsingar af fundi Gorbatsjov og Regans á Höfða um árið.
En loks stigu forsetinn og forsetafrúin út og þá hrópaði einn djarfur blaðamaður ,,looking great”. Forsetinn hló, og svaraði um hæl ,,you too”. Stillansinn riðaði örlítið þegar blaðamennirnir hlógu að fyndni forsetans en fljótlega lagði grafarþögn aftur yfir hópinn og ljósmyndarnir miðuðu löngum linsunum sínum í átt að hjónunum. Forsetahjónin spjölluðu í hálfum hljóðum og flissuðu. Allt var þetta hálf óraunverulegt enda ekki á hverjum degi sem maður stendur andspænis forsetahjónunum og það margsinnis sama daginn.
Fyrst til að mæta voru svo íslensku forsætisráðherrahjónin og þau stilltu sér upp með forsetahjónunum og hröðuðu ljósmyndararnir sér nú að smella af á methraða svo hljóðaði í vélunum. Svo komu leiðtogarnir hver á fætur öðrum og fánaberarnir máttu hafa sig alla við að skipta út fánunum nógu hratt út, svo sá sem blakti við hlið bandaríska fánans væri frá sama landi og leiðtoginn sem Obama heilsaði hverju sinni. Þessi þáttur dagskrárinnar var hinn allra hátíðarlegasti og var afar fallegt að fylgjast með atburðarásinni í hlýrri kvöldsólinni.
Þá var komið að hátíðarkvöldverðinum. Boðsgestirnir voru sendinefndir landanna fimm, ásamt háttsettum embættismönnum í Bandaríkjunum, ráðamönnum, sem og frægum stjörnum úr fjölmiðlaheiminum, leikurum og skemmtikröftum. Gestalistinn var langur og þeir sem vöktu einna mestu athygli voru David Letterman, grínistinn Will Farrell, söngkonan Janelle Monáe, leikarinn Aziz Ansari, sem mætti ásamt móður sinni, söngkonan Demi Lovato, sem söng fyrir gesti lagið úr Frozen, rapparinn Common svo fáeinir séu nefndir.
Mikið var grínast með það í fjölmiðlum að þetta hlyti að verða fyndnasta hátíðarkvöldverðarboð sem haldið hafi verið í Hvíta húsinu í tengslum við opinbera heimsókn. Hvort ræðumenn kvöldsins hafi staðið undir þeim væntingum skal ósagt látið.
Rapparinn Common.
Mikið var um dýrðir og var hvert borð skreytt ríkulega með blómum og ísskúlptúrum.
En fyrstur til að flytja ræðu var sjálfur forsetinn. Hann las meðal annars upp úr Hávamálum og bauð gesti velkomna að hætti víkinga eins og hann sjálfur útskýrði, hann gerði stólpagrín að þjóðunum á góðlátlegan hátt en ítrekaði svo mikilvægi vináttu milli Bandaríkjanna og þjóðanna fimm.
Sigurður Ingi var einnig á léttu nótunum og sagði Íslendinga þakka fyrir vináttu þjóðanna og grínaðist með að við bættum smæð okkar með eldfjöllum, sem við værum þó enn að læra að miða betur. Forsætisráðherra Dana sló einnig á létta strengi og bauð forsetahjónunum til heimsóknar til Danmerkur líkt og Sigurður Ingi hafði gert fyrr um daginn. Gestir skemmtu sér vel og hátíðarstemming var yfir öllu. Augljóst er að vinátta Norðurlandanna og Bandaríkjanna stendur traustum fótum og nóg af áríðandi sameiginlegum verkefnum framundan.
Þegar þarna var komið voru flestir norrænir blaðamenn orðnir örmagna enda búnir að vera á fótum í yfir 20 tíma og sumir einnig að yfirstíga tímamismun heimsálfanna. Það var því kærkomið að kveðja Hvíta húsið, forsetahjónin og alla fréttamennina sem höfðu staðið vaktina um sautján tíma þann daginn. Hvort næsta opinbera heimsókn Íslands verði svo í boði Hillary Clinton eða Donald Trumps veit svo enginn, en það virtust allir gestir dagsins sammála um heimboðið í boði Barack og Michelle Obama hafi verið bæði uppbyggilegt fyrir samstarf ríkjanna sex sem og afar ánægjulegt fyrir vináttubönd þjóðanna.