Síðastliðið ár hefur fennt yfir átökin í austustu héröðum Úkraínu þar sem rússneskir aðskilnaðarsinnar ráða ríkjum. Vopnahlé hefur haldist en friðarsamningar engu að síður ekki virtir. Við slíkar aðstæður er verulega hætta á að svæði hreinlega týnist. Þau stjórna sér sjálf en alþjóðasamfélagið lítur ekki við þeim.
Áminning
Söngkonan Jamala steig á svið 14. maí síðastliðinn og sigraði Eurovision söngkeppnina þvert á allar spár. Jamala er 32 ára gömul og ættuð frá Krímskaga. Faðir hennar er af Tatara-ættum en lagið sem hún flutti, „1944“, fjallar einmitt um nauðungarflutninga þess þjóðflokks frá Krímskaga til Úzbekistan á tímum Stalíns. Talið er að um 230.000 manns hafi verið reknir af skaganum og tugþúsundir soltið til bana á leiðinni. Í dag er atburðurinn skilgreindur sem þjóðarmorð. Rússar, sem spáð hafði verið sigri, urðu æfir, sökuðu Úkraínumenn um pólitískan áróður og hótuðu að sniðganga keppnina að ári. Pólitískur áróður er bannaður samkvæmt reglum Eurovision en laginu var hleypt í gegn vegna þess að það fjallaði um sögulega atburði en ekki nútímann. Flestir Úkraínumenn og þar á meðal forseti landsins, Petro Poroshenko, viðurkenna þó fúslega að lagið sé innblásið af atburðum seinustu ára. Lagið minnir okkur nefnilega sterklega á innlimun Rússa á Krímskaga og stríðið í Donbass, austustu héröðum Úkraínu.
Krím
Í febrúar 2014 hófust óeirðir á Krímskaga.Þetta var vegna byltingarinnar á Maidan-torgi í Kiev skömmu áður og hallarbyltingarinnar gegn forsetanum Viktor Yanukovich sem var mjög hallur undir Rússa. Meirihluti íbúa (um 2/3) á Krímskaga eru af rússneskum ættum og sögulega séð er svæðið rússneskt. Eitt af fyrstu verkum sovéska leiðtogans Nikita Khrushchev var að færa Krímskaga frá Rússlandi til Úkraínu sem gjöf. Það var árið 1954. Khrushchev var Rússi en hafði sterka tengingu við Úkraínu og hafði búið þar lengi. Innan Sovétríkjanna skipti þessi skipting í raun ekki miklu máli þar sem bæði Úkraína og Rússland lutu Kreml. En þegar Sovétríkin leystust upp í upphafi tíunda áratugarins varð þetta skyndilega hitamál. Rússar gagnrýndu réttmæti tilfærslunnar og einnig lögmæti hennar þar sem mjög fáir meðlimir æðsta ráðs Sovétríkjanna voru samankomnir til að samþykkja flutninginn. Um þetta var deilt í nokkur ár þangað til Rússar gáfu sig árið 1997 og viðurkenndu yfirráð Úkraínumanna á Krímskaga. Aftur á móti hélt málið áfram á skaganum sjálfum þar sem íbúarnir deildu sín á milli og rússneskir þjóðernissinnar hétu því að einn dag myndi skaginn sameinast Rússlandi á ný.
Það dylst engum að Rússar sjálfir áttu sinn þátt í óeirðunum í febrúar 2014. Óeinkennisklæddir vígamenn voru sendir yfir landamærin til að skipuleggja, taka þátt í og aðstoða við yfirtöku rússneskra aðskilnaðarsinna. Hlutirnir gerðust mjög hratt á þessum tíma. Þann 11. mars lýsa leiðtogar aðskilnaðarsinna yfir sjálfstæði Krímskaga, 16. mars er haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort ganga eigi Rússlandi á hönd og 18. mars innlimuðu Rússar skagann formlega. Á innan við mánuði hafði eitt Evrópuríki tekið um 27 þúsund ferkílómetra og um 2 milljónir íbúa af öðru Evrópuríki. Það duldist engum að þetta var þaulskipulagt og það sem merkilegast er að þetta var að mestu leyti blóðlaust. Úkraínustjórn og Vesturveldin beittu ekki hervaldi en fordæmdu yfirtökuna þó harkalega. Þjóðaratkvæðagreiðslan þar sem 96% höfðu samþykkt að gangast Rússum á hönd var afgreidd sem brandari. Úkraínumenn og fleiri hópar á skaganum höfðu sniðgengið hana. Sameinuðu þjóðirnar hafa neitað að viðurkenna yfirtökuna og er hún þess í stað skilgreind sem hernám. Í kjölfarið á yfirtökunni voru Rússar reknir úr G8, hópi helstu iðnríkja heims, og ýmsar aðrar þvinganir settar bæði á ríkið sem og ýmsa rússneska valdamenn.
Donbass
Eftir innlimun Krímskaga brutust út óeirðir Úkraínumanna af rússneskum ættum víðs vegar í austurhluta landsins. Hvergi þó meiri en í héruðunum Donetsk og Luhansk, austast í landinu, við landamæri Rússlands. Óeirðirnar hörðnuðu þar og brutust út í alvöru stríðsátök þó að mannfall væri ekki mikið. Rússar hafa aldrei viljað viðurkenna þátt sinn í stríðinu en ljóst er að þeir sendu óeinkennisklædda hermenn, vopn og vistir yfir landamærin til að aðstoða aðskilnaðarsinnana. Þann 11. maí 2014 voru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur í báðum héröðunum þar sem aðskilnaðarsinnar héldu því fram að sjálfstæði frá Úkraínu hefði verið samþykkt með miklum meirihluta. Hvorki Úkraína né alþjóðasamfélagið hefur þó viðurkennt þessar atkvæðagreiðslur. Degi seinna var lýst yfir sjálfstæði ríkjanna Donetsk og Luhansk.
Bardagar héldu áfram þar sem úkraínski stjórnarherinn og aðskilnaðarsinnar skiptust á að vera í sókn. Alþjóðasamfélagið reyndi þá að grípa í taumana og semja um vopnahlé og frið á svæðinu, undir forystu Francois Hollande Frakklandsforseta. Friðarviðræðurnar fóru fram í Minsk, höfuðborg Hvíta Rússlands, í september 2014 og febrúar 2015. Þar náðist samkomulag um vopnahlé og að héröðin myndu ganga aftur inn í Úkraínu en fá aukna sjálfstjórn. Vopnahléið hefur að mestu leyti haldið, utan við nokkrar skærur snemma árs 2015, en treglega hefur gengið að fá leiðtoga aðskilnaðarsinna til að undirbúa héröðin undir sameiningu. Einnig hefur gengið illa að fá stjórnvöld í Kiev til að skipuleggja kosningar og fleira sem nauðsynlegt er fyrir sameiningu. Vantraustið og úlfúðin er einfaldlega ennþá of mikil milli stríðsaðilanna og þjóðerniskenndin sem er í hæstu hæðum báðum megin er ekki til að liðka fyrir sameiningu. Staðan í dag er nánast óbreytt. Aðskilnaðarsinnar stjórna stórum svæðum og óvíst hver framtíð þeirra verður. Þau eiga meira að segja á hættu að verða svokölluð týnd ríki.
Týndu ríkin
Týnd ríki eru þau sem eru sjálfstæð í raun og veru en njóta ekki viðurkenningar alþjóðasamfélagsins. Sum ríki (Ísrael, Palestína, Kósóvó, Norður og Suður Kórea o.fl.) eru ekki viðurkennd af öllum ríkjum innan Sameinuðu þjóðanna. Týndu ríkin eru hins vegar viðurkennd af einungis örfáum ríkjum, sum engum. Hér eru nokkur af þeim helstu.
Transnistría
Íbúafjöldi Rúmlega 500.000
Tilheyrir Moldóvu
Viðurkennt af Engum
Transnistría er landræma á landamærum Moldóvu og Úkraínu. Sjálfstæði var lýst yfir 2. september 1990 og um mitt ár 1992 braust út stríð milli Transnistríumanna og Moldóvumanna þar sem Rússar studdu þá fyrrnefndu. Landið er það eina í heiminum sem enn skartar sovéskum fána.
Suður Ossetía
Íbúafjöldi Rúmlega 50.000
Tilheyrir Georgíu
Viðurkennt af Rússlandi, Venesúela, Níkaragúa, Nauru
Lýstu yfir sjálfstæði 21. desember 1991 og í kjölfarið braust út stríð við Georgíumenn sem stóð fram á sumarið 1992 þar sem Rússar börðust við hlið Ossetíumanna. Árið 2008 braust aftur út stríð milli þjóðanna og efldust þá tengsl Suður Ossetíu og Rússlands. Síðan 2015 hafa Rússar í raun stýrt ríkinu fyrir þá, sbr. fjármál, velferðarmál, landamæravörslu o.fl.
Abkhazía
Íbúafjöldi Um 250.000
Tilheyrir Georgíu
Viðurkennt af Rússlandi, Venesúela, Níkaragúa, Nauru
Abkhazíumenn lýstu yfir sjálfstæði þann 23. júlí árið 1992. Þá braust út stríð við Georgíumenn sem stóð yfir í rúmt ár og nutu Abkhazíumenn stuðnings Rússa. Georgískir borgarar voru stráfelldir og flæmdir burt af svæðinu. Bardagar milli þjóðanna hófust aftur í tengslum við stríðið í Suður Ossetíu árið 2008.
Nagorno-Karabakh
Íbúafjöldi Um 150.000
Tilheyrir Azerbaijan
Viðurkennt af Engum
Deilur Armena og Azera eiga sér langa forsögu og skærur hófust á svæðinu áður en Sovétríkin féllu. 2. september árið 1991 lýstu Armenar á Nagorno-Karabakh svæðinu yfir sjálfstæði. Hinir fornu fjendur héldu í stríð, Armenar með hjálp Rússa og Grikkja og Azerar með hjálp Tyrkja. Tugþúsundir fórust og um milljón manns þurftu að flýja heimili sín. Stríðinu lauk um mitt ár 1994 og Nagorno-Karabakh menn sitja nú á stærra landi en þeir gerðu kröfu um í upphafi.
Norður Kýpur
Íbúafjöldi 300.000
Viðurkennt af Tyrklandi
Árið 1974 var gert valdarán á Kýpur þar sem reynt var að sameina eyjuna Grikklandi. Tyrkir gerðu innrás nokkrum dögum seinna og hófust þá miklir fólksflutningar. Kýpur-Grikkir flúðu suður en Kýpur-Tyrkir norður. Árið 1983 lýstu Kýpur-Tyrkir loks yfir sjálfstæði og tyrkneski herinn tryggði öryggi þeirra.
Listinn er alls ekki tæmandi. Til eru fleiri ríki sem njóta ekki viðurkenningar alþjóðasamfélagsins s.s Sómalíland og Vestur-Sahara í Afríku og eyjan Taíwan í Kínahafi. Önnur slík ríki hafa verið innlimuð inn í móðurríkin, sbr. Tjétjénía inn í Rússland árið 2000 og Krajina inn í Króatíu árið 1995.
Vandi týndra ríkja
Týnd ríki eiga yfirleitt við töluverða erfiðleika að stríða. Þau eru fjárhagslega óstöðug og almennt eru lífskjör betri í því ríki sem þau klufu sig frá. Þau eru einnig mjög háð þeim ríkjum sem studdu þau til sjálfsstjórnar í upphafi, sem í mörgum tilfellum er Rússland. Rússar hafa stutt sín týndu ríki bæði hernaðarlega og fjárhagslega en að öðru leyti reynist þessum ríkjum mjög erfitt að fá erlenda aðila til að fjárfesta. Það er bæði vegna þess að ríkin er óstöðug og bardagar gætu blossað upp hvenær sem er og einnig sú lagalega óvissa sem fylgir þeim. Týndu ríkin eru ekki aðilar að alþjóðasáttmálum og óvíst hvort að alþjóðalög og samningar haldi innan þeirra. Þau geta heldur ekki algerlega treyst á stuðningsríki sín til að sinna varnarmálum fyrir sig. Mjög stór hluti af ríkisútgjöldum fer í herinn og landamæragæslu. Þar sem þessi ríki eru yfirleitt fámenn er því minna eftir til að nota í velferðarmál. Spilling er mikil og skipulögð glæpastarfsemi einnig. Innviðir samfélagsins, svo sem löggæsla og dómskerfi, eru einfaldlega of veikir til að takast á við þetta. Ofan á þetta bætist flóttamannavandi þar sem deilurnar eru yfirleitt af þjóðernislegum toga. Annað hvumleitt vandamál fyrir íbúa týndu ríkjanna er landleysi þeirra. Vegabréf þeirra eru einskis nýt nema þá til að ferðast til þeirra örfáu landa sem viðurkenna þau.
Taktísk þolinmæði (strategic patience) er aðferðafræði sem gjarnan hefur verið beitt gegn aðskilnaðarsinnum. Í þessari aðferðafræði felst lítið annað en opinber fordæming, viðskiptaþvinganir og biðlund. Vonast er til að íbúar týndu ríkjanna muni í tíð og tíma fá nóg af stöðunni og þrýsta á um að sameiningu. Þessi stefna hefur þó ekki virkað að neinu viti. Að einhverju leyti er það vegna þess að lífskjör í móðurríkinu eru ekkert endilega mikið betri en í því týnda. Ríki á borð við Moldóva og Georgía eru með þeim fátækustu í Evrópu. Einnig hafa Rússar reynst nokkuð sterkur bakhjarl. Síðan má ekki vanmeta þátt þjóðernisstefnunnar, sem er mjög sterk á þessum svæðum. Týndu ríkin hafa haldist á floti í aldarfjórðung og jafnvel lengur.
Geta Donetsk og Luhansk orðið týnd ríki?
Týndu ríkin hafa hingað til verið smá og fámenn, þetta eru svæði sem aldrei heyrist neitt frá í fjölmiðlum nema þá í tengslum við stríðsátök. Nú í apríl komst Nagorno-Karabakh í fréttirnar fyrir skærur við landamæri ríkisins. Í fyrstu virðist það óhugsandi að þetta geti orðið örlög Donetsk og Luhansk. Svæðið sem aðskilnaðarsinnar ráða yfir er mjög víðfeðmt og á því búa samtals um 3,5 milljón manns. Þetta eru gamalgróin iðnaðarhéröð sem skiptu Sovétríkin miklu máli en hafa reyndar mátt muna fífil sinn fegurri seinustu ár þar sem lífsgæðum hefur hrakað umtalsvert. Svæðið er einnig mikilvægt vegna námagraftrar á kolum og öðrum jarðefnum. Getur svo mikilvægt svæði orðið draugur innan alþjóðasamfélagsins?
Stefna Rússa virðist vera sú að festa Donetsk og Luhansk í þessu móti. Rússland ber ábyrgð á tilvist flestra týndra ríkja, beint eða óbeint, og sú stefna hefur gefist vel fyrir þá. Með þessu ná þeir að hafa áhrif innan ríkja sem flest hafa flúið í faðm Vesturveldanna eftir fall Sovétríkjanna. Þetta setur þau ríki úr skorðum og elur á úlfúð og deilum. Ríki á borð við Úkraínu, Moldóvu og Georgíu eiga erfiðara með að ganga inn í sambönd á borð við NATO eða ESB með slík átök í sínum garði. Segja má að Rússar hafi stigið yfir línuna þegar þeir innlimuðu Krímskaga og það hefur komið þeim verulega í koll. Sú aðgerð hefur reynst þeim mjög dýr, bæði vegna aðlögunar skagans sjálfs að Rússlandi og fordæmingar og efnahagsþvingana alþjóðasamfélagsins. Innlimun Donetsk og Luhansk er því ekki inni í myndinni. Óbreytt ástand hentar Rússum hins vegar mjög vel.
Ljóst er að þvermóðska Úkraínumanna og vesturveldanna mun ekki liðka fyrir sameiningu landsins. Ef að Donetsk og Luhansk eiga að ganga aftur inn í Úkraínu er ágætt að líta til Transnistríu. Moldóvumenn hafa brugðið á þann leik að liðka fyrir viðskiptum, samskiptum og ferðalögum til og frá Transnistríu og það hefur gefist vel. Samskiptin hafa gengið svo vel að fjölmargir íbúar beggja ríkjanna vonast nú eftir sameiningu, eftir aldarfjórðungs aðskilnað. Það mun þó taka tíma rétt eins og sameining í Úkraínu mun gera. Lykillinn eru góð samskipti og minni þjóðernishyggja.