Sigurdagurinn 9. maí er mikill hátíðardagur í Rússlandi ár hvert en þá minnast Rússar bæði sigra og fórna Rauða hersins í „Föðurlandsstríðinu mikla“ á árunum 1941-1945. Dagskrá Sigurdagsins í Moskvu í ár var nokkuð hefðbundin með tilheyrandi hersýningu þar sem meira en tíu þúsund hermenn marseruðu um Rauða torgið, ásamt því að sýna helstu hernaðar farartæki rússneska hersins.
Samkvæmt rússnesku RT-fréttastofunni var hersýningin í ár þó frábrugðin að því leyti að nú marseruðu einnig rússneskar herkonur í fyrsta skipti á Rauða torginu á Sigurdaginn. Ekki kemur þó fram í umfjölluninni af hverju herkonur hafa ekki tekið þátt í hersýningunni til þessa. Hvernig sem því líður þá er sannarlega vel til fundið að konur eigi fulltrúa í hinni árlegu hersýningu - til heiðurs kynsystrum sínum sem lögðu sitt að mörkum fyrir Rauða herinn í Föðurlandsstríðinu mikla.
Konur í fremstu víglínu stríðsátaka
Því hefur verið haldið fram að ákveðið fordæmi fyrir beinni þátttöku í stríðsátökum hafi verið sett af rússneskum konum á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar, en þá skráðu þúsundir kvenna sig í herinn og sinntu þar margvíslegum störfum. Sagnfræðingurinn Laurie Stoff, höfundur bókarinnar They Fought for the Motherland, fullyrðir reyndar að Rússar hafi verið einu stríðsaðilarnir sem tefldu markvisst fram konum í bardögum í fremstu víglínu í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þá eru heimildir fyrir því að Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna hafi allt frá árinu 1931 staðið fyrir herþjálfun í skólum þar sem stelpum jafnt sem strákum voru kennd undirstöðuatriði herþjálfunar. Síðar hefur sovéska stríðsmyndin Chapayev frá árinu 1934, í leikstjórn bræðranna Georgi og Sergei Vasilyev, einnig verið talin á meðal áhrifavalda fyrir konur til að ganga í herinn. Ástæðan er sú að í myndinni fer leikkonan Varvara Myasnikova á kostum sem kvenhetjan Anka en hún var gjarnan vopnuð vélbyssu og varð umsvifalaust að miklu átrúnaðargoði á meðal fjölda kvenna í Sovétríkjunum.
Konur í Sovétríkjunum höfðu því einhver fótspor til að feta í og einhverjar fyrirmyndir til að samsvara sig við og líta upp til þegar síðari heimsstyrjöldin skall á. En eiginlegar ástæður þess að svo margar konur ákváðu að ganga til liðs við Rauða herinn í Föðurlandsstríðinu mikla gegn nasistum hafa þó eflaust verið jafn ólíkar og þær voru margar. Þær konur sem vildu berjast í fremstu víglínu þurftu hins vegar að sýna það og sanna, miklu fremur en karlar, að þær hefðu hugrekkið og drápseðlið sem til þurfti í stríðsátökum.
Goðsögnin „Lafði Dauði“ verður til
Lyudmila Mikhailovna Pavlichenko fæddist 12. júlí árið 1916 í smábænum Belaya Tserkov í nágrenni Kænugarðs í Úkraínu. Pavlichenko var því 24 ára gömul þegar nasistar hófu innrás inn í Sovétríkin þann 22. júní árið 1941, en hún var þá að læra sagnfræði í háskóla. Pavlichenko ákvað hins vegar að skrá sig sem sjálfboðaliði í herinn og var með þeim fyrstu sem svöruðu kallinu eftir mikið mannfall hjá Rauða hernum í upphafi stríðsátakanna. Henni stóð þá til boða að verða hjúkrunarkona en hún neitaði og taldi sig hafa meira fram að færa með því berjast í fremstu víglínu með riffil í hönd. Pavlichenko hafði reyndar lagt stund á skotfimi frá unga aldri og gat sýnt fram á skírteini sem undirstrikaði hæfileika hennar með riffilinn. Það var hins vegar ekki fyrr en hún sýndi í verki hversu góð skytta hún var að hún fékk endanlega inngöngu í herinn sem leyniskytta, eftir að hún drap sína fyrstu tvo óvinahermenn í nokkurs konar „inntökuprófi“.
Pavlichenko var fljót að skapa sér orðspor sem afburðaskytta þegar hún tók þátt í vörn Rauða hersins í hafnarborginni Ódessu á norðvesturströnd Svartahafs. Á aðeins tveimur og hálfum mánuði á svæðinu drap hún alls 187 óvinahermenn. Pavlichenko hélt svo uppteknum hætti þegar herdeild hennar var send til að verja Sevastopol á Krímskaga, eftir að nasistar og bandamenn þeirra höfðu náð yfirráðum í Ódessu.
Pavlichenko var búin að berjast í meira en átta mánuði í Sevastopol þegar hún særðist illa. Á þeim tímapunkti var hún komin með 309 dráp á óvinahermönnum skráð á sínu nafni. Pavlichenko var fyrir vikið kölluð „Lafði Dauði“ (e. „Lady Death“) í fjölmiðlum og orðin að sannkallaðri goðsögn í Sovétríkjunum og víðar. Af þeim sökum sáu yfirvöld í Kreml sér leik á borði til að nýta sér vinsældir leyniskyttunnar og afturkölluðu hana úr fremstu víglínu í júlí árið 1942 og sendu hana þess í stað í afar mikilvægan leiðangur, utan Sovétríkjanna.
Diplómatísk sendiferð fyrir Stalín
Pavlichenko var send í opinberar heimsóknir til Bandaríkjanna, Kanada og Bretlands frá ágúst til nóvember árið 1942. Hlutverk Pavlichenko var fyrst og fremst að reyna að sannfæra ráðamenn þjóðanna að ráðast gegn nasistum í Vestur-Evrópu, en á tíma heimsóknanna stóðu Sovétmenn í ströngu í Orrustunni um Stalíngrad.
Pavlichenko varð þannig fyrsti hermaður Sovétríkjanna til þess að heimsækja Hvíta húsið þegar hún heimsótti Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseta og eiginkonu hans, Eleanor Roosevelt. Pavlichenko og forsetafrúin náðu að sögn sérstaklega vel saman en leyniskyttan naut almennt mikilla vinsælda á ferðalagi sínu um Bandaríkin. Hinn þekkti bandaríski þjóðlagasöngvari Woody Guthrie samdi meðal annars lagið „Miss Pavlichenko“ henni til heiðurs.
En þrátt fyrir að Bandarískir fjölmiðlar hafi að mestu leyti hrósað Pavlichenko í hástert voru einnig dæmi um blaðagreinar sem settu út á útlit hennar og klæðaburð. Leyniskyttan var því ekki alltaf sátt með margar spurningar sem hún fékk frá þarlendum blaðamönnunum. Gremja hennar kom þannig bersýnilega í ljós í viðtali við Time magazine þar sem hún svaraði gagnrýnisröddunum fullum hálsi. „Ég klæðist einkennisbúningi mínum með stolti. Á honum hangir orða Leníns. Hann hefur verið útataður blóði í bardaga. Það er hins vegar augljóst að það skiptir bandarískar konur meira máli hvort að klæðst sé silki nærfötum eða ekki undir herklæðunum. Hvað einkennisbúningurinn raunverulega stendur fyrir, skilja þær alls ekki,“ var haft eftir Pavlichenko.
Goðsögnin lifir áfram
Þrátt fyrir að litið hafi verið á sendiferð Pavlichenko sem vel heppnaða þá þurfti Rauði herinn að bíða í tæp tvö ár eftir því að bandamenn réðust loksins inn í Vestur-Evrópu með innrásinni í Normandí. Á þeim tímapunkti var Rauði herinn kominn með yfirhöndina á austurvígstöðvum en tími Pavlichenko í fremstu víglínu var aftur á móti liðinn. Hún var þá búin að hækka í tign innan hersins og búið að sæma hana æðstu medalíu sem „Hetja Sovétríkjanna“. Pavlichenko hélt þó áfram að þjóna Rauða hernum út stríðið þar sem hún þjálfaði og undirbjó leyniskyttur fyrir stríðsátök.
Að stríðslokum snéri Pavlichenko sér aftur að námi og útskrifaðist sem sagnfræðingur frá Ríkisháskólanum í Kænugarði í lok árs 1945. Síðar flutti hún til Moskvu og vann við rannsóknir fyrir Sovéska sjóherinn en hún varð einnig áberandi í baráttu uppgjafahermanna fyrir betri kjörum. Pavlichenko var aðeins 58 ára þegar dó, þann 10. október árið 1974, en hún var jörðuð í Novodevichy kirkjugarðinum í Moskvu.
Minning Pavlichenko var heiðruð með ýmsum hætti en tveimur árum eftir dauða hennar var til að mynda gefið út frímerki með mynd af leyniskyttunni en það var einnig gert þegar stríðsátök stóðu sem hæst í síðari heimsstyrjöldinni árið 1943. Síðar hafa verið skrifaðar margar bækur og blaðagreinar um hetjudáð Pavlichenko og jafnan fjallað um afrek hennar á goðsagnakenndan hátt. Þá var nýlega gerð kvikmynd um ævi Pavlichenko sem ber titilinn „Bardaginn um Sevastopol“ og var hún frumsýnd í byrjun apríl 2015.
Athygli vakti að kvikmyndin var framleidd með aðkomu fjármagns frá bæði Rússlandi og Úkraínu og því talað um menningarlegt samstarfsverkefni, á afar viðkvæmum tímum í samskiptum landanna vegna stöðu mála á Krímskaga - En eitt er þó víst, að goðsögnin um Lafði Dauða” mun halda áfram að lifa góðu lífi.