Sagan um Fönix-liðið, Skepnuna og sturluðu stuðningsmennina
Árið 1988 vann Wimbledon F.C. FA-bikarinn. Fjórtán árum síðar var ákveðið að flytja félagið til Milton Keynes. Nýtt félag, AFC Wimbledon, var stofnað og fjórtán árum síðar komst það í þriðju efstu deild.
Frá ritstjórn Kjarnans: AFC Wimbledon lagði MK Dons í leik liðanna í fyrstu deild ensku knattspyrnunnar, 2-0. Stuðningsmenn liðanna sungu „Hvar voruð þið þegar þið voruð við,“ þegar sigurinn var vís.
Athugasemd bætt við 18. mars 2017.
Þann 30. maí 2002 var stofnað nýtt knattspyrnulið í Kingston upon Thames borgarhlutanum í London. Það fékk nafnið AFC Wimbledon. Aðstæður voru afar óvenjulegar og stofnun félagsins var sprottin upp úr mótmælum gegn ákvörðun eigenda annars félags, Wimbledon F.C., að flytja það úr hverfinu og til Milton Keynes, í 90 kílómetra fjarlægð.
Félagið var stofnað af fyrrum stuðningsmönnum Wimbledon F.C. sem gátu ekki sætt sig við flutning liðsins sem þeir studdu, og hafði sterkar rætur í nærsamfélaginu, til annarrar borgar. Þegar gamla Wimbledon breytti svo nafninu sínu í Milton Keynes Dons árið 2004 hurfu öll tengsl.
Þann 30. maí 2016, fjórtán árum eftir stofnun AFC Wimbledon upp á dag, vann liðið frækinn 2-0 sigur á Plymouth í úrslitum umspils í League 2, fjórðu efstu deild ensku deildarkeppninnar. Með sigrinum komst liðið upp um deild í sjötta sinn á þessum fjórtán árum og mun á næstu leiktíð leika í sömu deild og liðið sem stal liðinu þeirra, Milton Keynes Dons.
Hinir klikkuðu
Wimbledon F.C. var stórmerkilegt knattspyrnufélag. Það var stofnað 1889 og lék í ensku deildarkeppninni frá árinu 1977. Undir lok níunda áratugar síðustu aldar var Wimbledon orðið ráðsett lið í efstu deild og náði sínum merkasta áfanga þegar það sigraði í ensku FA-bikarkeppninni árið 1988 í ótrúlegum 1-0 sigri á einu besta Liverpool-liði allra tíma með marki frá Lawrie Sanchez. Hetja liðsins var markvörðurinn og fyrirliðinn Dave Beasant sem varð í leiknum fyrstur til að verja vítaspyrnu í úrslitaleik bikarkeppninar og auk þess fyrsti markvörðurinn til að leiða lið til sigurs í henni sem fyrirliði.
Lið Wimbledon á þessum árum var á þessum árum samansett af ansi litríkum karakterum og fékk viðurnefnið „Crazy Gang“, eða hinir klikkuðu. Á meðal leikmanna liðsins var hinn alræmdi Vinnie Jones, Dennis Wise, Eric Young og John Fashanu. Liðið þótti leika afskaplega hart og beita öllum tiltækum brögðum til að vinna. Atferli þeirra jaðraði oft við að vera hreint ofbeldi.
Beinskeyttur stíll og villt viðhorf stóð liðinu þó ekki fyrir þrifum. Þvert á móti gekk því vel á þessum árum og þótt andstæðingar þess hötuðu það þá fjölgaði sífellt þeim sem höfðu taugar til litla, grófa liðsins sem gat.
Liðið var þó í aðstöðuvandræðum. Þótt það hafi risið í gegnum deildir Englands á ljóshraða þá lék það enn heimaleiki sína á Plough Lane, líkt og það hafði gert frá árinu 1912. Völlurinn var í öllum meginatriðum eins árið 1991 og hann hafði verið þegar Wimbledon lék í utandeildinni. Á þessum árum voru kröfur til leikvalla auknar mikið, sérstaklega í kjölfar hins hörmulega Hillsborough-slyss sem átti sér stað 1989 og dró 96 til dauða. Í kjölfarið þurftu leikvangar liða í efstu deild að bjóða einungis upp á sæti. Bannað var að standa, líkt og flestir áhorfendur gerðu á Plough Lane.
Til stóð að byggja nýjan völl, með einungis sætum, í Merton en af því varð ekki. Til að mæta þeim kröfum sem nýr veruleiki gerði hóf liðið að leika leiki sína á heimavelli Crystal Palace, Selhurst Park, haustið 1991. Þessi flutningur reyndist upphafið að endalokunum.
Wimbledon F.C. verður MK Dons
Á tíunda áratugnum var félagið í eigu Sam Hammam, litríks fjárfestis frá Líbanon. Hann þótti ekki síður klikkaðri en leikmenn liðsins. Á þessum tíma var því stýrt af Íranum Joe Kinnear og náði prýðilegum árangri. Árið 1994 lék meira að segja í fyrsta og eina skiptið í Evrópukeppni þegar það tók þátt í hinni vanhugsuðu Intertoto keppni.
Árið 1997 keyptu norsku kaupsýslumennirnir Bjørn Rune Gjelsten og Kjell Inge Røkke 80 prósent hlut í Wimbledon og þremur árum síðar eignuðust þeir það sem upp á vantaði. Í millitíðinni hafði Joe Kinnear hætt sem knattspyrnustjóri vegna veikinda og þeir ákveðið að ráða Egil „Drillo“ Olsen, fyrrum landsliðsþjálfara norska landsliðsins, í hans stað. Það reyndist afleit ákvörðun og þegar „Drillo“ var rekinn, nokkrum dögum fyrir lok fyrsta og eina tímabilsins sem hann stýrði liðinu, sat það í fallsæti. Wimbledon féll nokkrum dögum síðar, þann 14. maí 2000, nákvæmlega tólf árum eftir að liðið lyfti eina titli sínum á Wembley árið 1988.
Ljóst var að skortur á eigin heimavelli háði Wimbledon mjög. Hammam hafði reynt að flytja liðið til Írlands við litlar vinsældir stuðningsmanna, en sú áætlun gekk ekki upp. Norsku eigendurnir seldu gamla heimavöll liðsins Plough Lane til Safeway stórmarkaðskeðjunnar sem lét rífa hann. Síðar voru byggðar íbúðir á reitnum. Wimbledon var þar með formlega orðið heimilislaust félag.
Eftir fall úr efstu deild var liðið komið í töluvert alvarleg fjárhagsvandræði. Á þeim tíma hafði hópur fjárfesta sem leiddur var af tónleikahaldaranum Pete Winkleman, og innihélt meðal annars Asda-keðjuna og IKEA, leitað til ýmissa liða í ensku deildarkeppninni með þá hugmynd um að þau myndu flytja sig á nýjan völl sem hópurinn ætlaði sér að byggja sem hluta af fasteignaþróunarverkefni í borginni Milton Keynes. Þeir höfðu þegar rætt við Luton, Wimbledon, Crystal Palace, Barnet og Queens Park Rangers um hugmyndina en án árangurs.
Það breyttist árið 2001 eftir að norsku eigendur Wimbledon skipuðu nýjan stjórnarformann, mann sem heitir Charles Koppel. Sá var hrifinn af hugmynd Winkleman og félaga og taldi hana einu lausnina til að koma í veg fyrir að Wimbledon færi hreinlega í þrot. 2. ágúst 2001 tilkynnti hann um að félagið myndi flytja til Milton Keynes og tæpu ári síðar, 28. maí 2002, samþykkti þriggja manna nefnd á vegum enska knattspyrnusambandsins að heimila flutninginn. Atkvæði féllu tvö á móti einu.
Flutningurinn tafðist þó og fjárhagserfiðleikar Wimbledon héldu áfram að ágerast. Í júní 2003 fór félagið í greiðslustöðvun, í september það sama ár lék það fyrsta heimaleik sinn í Milton Keynes og á árinu 2004 keypti Winkleman það af skiptabúi þess. Hann breytti merki félagsins, liðslitunum og síðast en ekki síst nafninu. Nú hét liðið Milton Keynes Dons. Wimbledon F.C. var ekki lengur til.
Stuðningsmenn liðsins voru brjálaðir og nær enginn þeirra
fylgdi liðinu lengur. Raunar voru þeir byrjaðir að skipuleggja andóf í verki
ári áður en liðið þeirra flutti til Milton Keynes. Tveimur dögum eftir að
þriggja manna nefndin hafði heimilað flutninginn, 30. maí 2002, stofnuðu þeir
nýtt félag. Hugmyndin hafði fæðst eftir of margar ölkrúsir á krá nærri Plough Lane og byggði á því að liðið þyrfti alltaf að vera í að minnsta kosti 75 prósent eigu
stuðningsmanna. Merki nýja félagsins var nær eins og merki Wimbledon F.C.,
liðslitirnir voru þeir sömu og liðið hlaut nafnið AFC Wimbledon. Á fótboltamáli
er svona lið kallast „Fönix-lið“, lið sem rís úr öskutóni annars eins og
fuglinn Fönix. Og þumalputtarreglan er sú að stofnun slíkra liða sé afleit
hugmynd.
Mánuði síðar hélt hið nýstofnaða félag prufur í almenningsgarði þar sem allir samningslausir leikmenn voru velkomnir til að reyna að komast í liðið. Alls mættu 230 leikmenn í prufurnar og þeir sem hlutu náð fyrir augum aðstandenda mynduðu kjarnann að fyrsta liðshópi AFC Wimbledon. Á þeim tíma átti liðið engan heimavöll, var ekki með neina fasta æfingaaðstöðu og átti ekki búninga.
Heimavöllur liðsins varð síðar Kingsmeadow völlurinn sem tekur tæplega fimm þúsund manns, þar af tæpan helming í sæti. Fyrrum Wimbledon F.C. leikmaðurinn Terry Eames var ráðinn sem knattspyrnustjóri og liðið hóf leik i níundu efstu deild á Englandi síðsumars 2002.
Næstu ár voru stanslaust ævintýri. Liðið náði að klífa upp úr hverri utandeildinni á fætur annarri og setti meðal annars met þegar það tapaði ekki í 78 leikjum í röð frá febrúar 2003 til desember 2004. Alls náði liðið að fara fimm sinnum upp um deildir á níu árum og 2011 náði það þeim merka áfanga að komast upp úr utandeildinni inn í hina eiginlegu ensku deildarkeppni, þegar AFC Wimbledon vann sér rétt til þess að leika í League 2, D-deildinni. Sá réttur var tryggður með marki úr vítaspyrnu frá Danny Kedwell (sjá hér að neðan frá sjónarhorni stuðningsmanna). Með því varð liðið það fyrsta sem stofnað var á 21. öldinni til að öðlast keppnisrétt í deildarkeppninni.
Það er ekki bara AFC Wimbledon liðið sjálft sem er nær einstakt. Helstu stuðningsaðilar liðsins eru ekki beint hefðbundnir. Frá stofnun hefur tölvuleikjafyrirtækið Sports Interactive, sem bjó til hina feikivinsælu Championship Manager og síðar Football Manager tölvuleiki, sem eyðilagt hafa fjölmörg hjónaböndin, verið helsti styrktaraðili liðsins og vörumerki helstu vöru fyrirtækisins, Football Manager, verið framan á búningum þess. Með því vildu Sports Interactive sýna í verki stuðning sinn við grasrótarknattspyrnu.
Annar einkennilegur stuðningsaðili er bandaríski rithöfundurinn og YouTube-stjarnan John Green. Sá er margverðlaunaður rithöfundur sem skrifaði meðal annars bókina The Fault in Our Stars, sem feykivinsæl kvikmynd var gerð eftir árið 2014. Raunar virðast flest öll kvikmyndatengd verkefni sem Green kemur nálægt verða að gulli.
Green hefur á undanförnum árum einnig einbeitt sér að því að stofna YouTube-rásir með bróður sínum Hank, sem hafa gengið afburðavel og skilað þeim miklum auglýsingatekjum. Sumt efnið sem þeir hafa borið á borð þar hefur alvarlegan undirtón, t.d. Crash Course, þar sem þeir héldu nokkurs konar hraðnámskeið í mikilvægum málefnum á borð við sögu heimsins, sögu Bandaríkjanna, bókmenntum, efnafræði, lífræði, vistfræði, sálfræði, heimspeki, stjörnufræði, hagfræði og eðlisfræði.
Annað efni er ekki jafn alvarlegt. John Green hefur til að mynda hlaðið upp leikjum sem hann spilaði í tölvuleiknum FIFA 14 upp á eina af YouTube-rásum bræðranna. Hann lýsir þar leikjunum sjálfur og er alltaf sama liðið, AFC Wimbledon. Það sem er athyglisvert við þessa skrýtnu iðju er að John Green er hræðilega slakur FIFA-spilari. Geta hans í leiknum hefur verið borin saman við getu Hillary Clinton til að breik-dansa. Hann skapar hins vegar mjög skemmtilegan heim í kringum liðið sitt, sem hann lýsir síðan fyrir áhorfendum. Til dæmis heita báðir aðalframherjar liðsins John Green og þeir eru, að sögn John Green, giftir hvor öðrum. „Engir aðrir leikmenn hafa sömu tengsl sín á milli og sköllótti John Green og hinn John Green,“ segir hann í einni lýsingunni.
Þetta hljómar allt frekar skringilega, en varð alveg fáranlega vinsælt. Og líkt og gerist þegar YouTube-efni verður vinsælt, þá fóru auglýsingatekjur að streyma inn.
John Green ákvað að það þyrfti að nýta þetta fé á almennilegan máta, setti sig í samband við AFC Wimbledon í nóvember 2013 og bauðst til að styrkja félagið. Í fyrrasumar jók hann við þann stuðning og síðastliðið ár hefur norðurstúkan á Kingsmeadow-vellinum verið þekkt sem John Green-stúkan. Í lok mars síðastliðnum tilkynnti Green svo að hann ætlaði sér, í samvinnu við Fox 2000, að framleiða Hollywood-kvikmynd um AFC Wimbledon.
Eftir að hafa eytt fimm árum í ensku D-deildinni náði AFC Wimbledon þeim árangri á liðnu tímabili að komast í umspil um sæti í næstu deild fyrir ofan, þriðju efstu deild í Englandi. Það gerði liðið undir stjórn Neil Ardley, sem lék árum saman með Wimbledon F.C. eftir að hafa komið upp í gegnum unglingastarf þess. Liðið komst í gegnum undanúrslit umspilsins með hádramatískum sigri á Accrington Stanley þar sem stjörnuframherji liðsins, Lyle Taylor, skoraði í framlengingu til að tryggja liðinu sæti í úrslitaleik gegn Plymouth Argyle á Wembley. Já, AFC Wimbledon var að fara að spila á Wembley.
Og það merkilega var að úrslitaleikurinn fór fram fjórtán árum upp á dag eftir að AFC Wimbledon var stofnað.
Auðvitað gat úrslitaleikurinn einungis farið á einn veg. Sögur eins og þessar verða að vera með góðum endi, og AFC Wimbledon vann 2-0. Til að gera þetta allt saman enn Hollywood-legra skoraði Adebayo Akinfenwa, tæplega 110 kíló vöðvabuffið sem tekur 180 kíló í bekk og kallar sjálfan sig „Skepnuna“ (e. Beast), síðasta mark leiksins á níundu mínútu uppbótartíma úr víti eftir að hafa rifist við léttari liðsfélaga sína um hver ætti að taka það.
Akinfenwa er gríðarlega vinsæll á meðal stuðningsmanna, enda einn sérkennilegasti knattspyrnumaður sem fyrir finnst. Þrátt fyrir það mun hann líklega ekki fá nýjan samning í sumar, þegar sá gildandi rennur út. Hann notaði tækifærið í viðtali við breska sjónvarpsmenn eftir úrslitaleikinn til að fara aðeins yfir þá stöðu. Sjón er sögu ríkari.
Það sem gerir næsta tímabil enn áhugaverðara og dramatískara fyrir AFC Wimbledon er að þá mun liðið leika í sömu deild og liðið sem stal kennitölu þess, hið sálarlausa MK Dons. Liðin hafa áður mæst í bikarleikjum en ljóst er að fátt er sætara í augum stuðningsmanna AFC Wimbledon en að lið þeirra standi nú jafnfætis MK Dons. Þeir bera þá gleði þó ekki á torg og segjast raunar ekkert hlakka neitt sérstaklega til leikja sinna við MK Dons eða ætla að gera neitt stórmál úr þeim. Ástæðan er sú að AFC Wimbledon stuðningsmenn viðurkenna ekki tilverurétt MK Dons og vilja því ekki gefa liðinu það vægi að vera erkifjendur sínir. Þannig er það þó auðvitað í raunveruleikanum.
Líklegast verða næstu ár töluvert basl hjá liðinu. Umfang reksturs þess er fjarri því að vera á pari við það sem er hjá flestum öðrum liðum í þriðju efstu deild. Til að takast á við þennan veruleika hafa stjórnendur liðsins m.a. barist fyrir því að fá að byggja nýjan leikvang, steinsnar frá því sem gamli heimavöllurinn Plough Lane var. Nýi völlurinn, sem nýr borgarstjóri í London mun taka ákvörðun um hvort verði að veruleika á allra næstu misserum, á að taka ellefu þúsund manns í sæti en möguleiki verður á því að stækka hann upp í að taka 20 þúsund í sæti, haldi ævintýrið áfram. Völlurinn, verði hann byggður, verður auðvitað kenndur við Plough Lane.
Í gegnum allt þetta fjórtán ára ævintýri hafa sauðtryggir áhangendur AFC Wimbledon sungið stanslaust til stuðnings sínu liði. Einn söngvanna sem fylgt hefur þeim í gegnum allt það tímabil er: „Show Me the Way to Plough Lane. I’m tired and I want to go home. / I had a football ground twenty years ago / And I want one of my own.”
Allir með hjarta hljóta að vona að þessum þolinmóðu, dass sturluðu en dásamlegu knattspyrnuáhangendum verði að ósk sinni.