Mannvirkin hafa risið en þau eru of gölluð og hafa þurft miklar endurbætur.
Mynd: EPA

Þýski flugvallarskandallinn

Fyrir 20 árum var ákveðið að byggja skyldi nýjan flugvöll fyrir Berlín. Völlurinn átti að vera tilbúinn 11 árum síðar en hver skandallinn hefur rekið annan svo völlurinn er ekki nærri því tilbúinn. Borgþór Arngrímsson kynnti sér málið.

Árið 1996 ákváðu þýsk stjórnvöld að byggja nýjan flugvöll ásamt tilheyrandi flugstöð við Berlín. Hann skyldi leysa af hólmi þá þrjá flugvelli sem fyrir voru og þeim yrði lokað: Tempelhof, skammt sunnan við miðborg Berlínar, Tegel, norðvestan við miðborgina og Schönefeld, átján kílómetrum sunnan við borgarmiðjuna. Nýja flugstöðin átti að rísa skammt frá Schönefeld og ein flugbraut gamla flugvallarins yrði hluti nýja vallarins. Þegar ákvörðun um nýja flugvöllinn var tekin var jafnframt tilkynnt að hann, ásamt flugstöðinni, yrði tekinn í notkun árið 2007. Stjórnvöld og flugmálayfirvöld voru bjartsýn; ellefu ár til stefnu og þessi nýi ofurflugvöllur, eins og hann var kallaður, fékk nafnið Flughafen Berlin Brandenburg Willy Brandt, skammstafað BER.

Málaferli

Ekki voru allir jafn ánægðir og stjórnvöld með þessar fyrirætlanir. Schönefeld svæðið er á mörkum Berlínar og sambandsríkisins Brandenburg. Margir íbúar á þessu svæði voru mjög ósáttir við að fá þennan risaflugvöll svo að segja í túnfótinn, framkvæmdirnar myndu hafa í för með sér að 300 manna þorp sem stóð á hinu fyrirhugaða framkvæmdasvæði yrði jafnað við jörðu og byggja yrði nýtt þorp skammt frá flugvallarsvæðinu. Að lokum, eftir miklar og tímafrekar samningaviðræður, fóru almenningur og sveitarfélög í Brandenburg með málið fyrir dómstóla. Málaferlin stóðu yfir í tíu ár og niðurstaðan var sú að heimildin til að byggja flugvöllinn stóð. Þá var árið 2006 gengið í garð.

Ný áætlun og framkvæmdum hraðað

Nú var augljóst að ofurflugvöllurinn BER kæmist ekki í gagnið árið 2007. Byggingarnefnd flugvallarins tilkynnti að framkvæmdum yrði hraðað og að BER yrði tekinn í notkun í lok október árið 2011. Þetta töldu margir mikla bjartsýni en byggingarnefndin taldi áætlun sína raunhæfa. Gert var ráð fyrir að völlurinn gæti árlega annað 27 milljónum farþega og vandað skyldi mjög til allra hluta, bæði hinna tæknilegu og yfirbragðs flugstöðvarinnar. „Hlið Berlínar“ sagði formaður bygginganefndarinnar í ávarpi sínu á hátíðarsamkomu í tilefni þess að framkvæmdirnar væru hafnar, viðstaddir lyftu glösum. Jafnframt var tilkynnt að Tempelhof-flugvellinum yrði lokað árið 2008 og Tegel og Schönefeld yrðu í notkun þangað til nýi völlurinn BER yrði tilbúinn.

Aftur frestað, nú til 3. júní 2012

Í júní 2010 tilkynnti formaður byggingarnefndar að BER yrði ekki tilbúinn til notkunar fyrr en í byrjun júní 2012. Það væri loforð nefndarinnar að sú dagsetning stæðist, fleiri frestanir kæmu ekki til greina. Hann hefði kannski betur sleppt þessu loforði því þetta var ekki í síðasta sinn sem hann þurfti að tilkynna um frestun. Í maí 2012 var tilkynnt að völlurinn yrði tilbúinn 17. mars 2013, þarnæst var nefnd dagsetningin 27. október 2013, síðan var svo talað um 2016 en engin dagsetning nefnd.

Kannski 2018, kannski 2019

Nú er löngu ljóst að engar flugvélar lenda á BER á þessu ári. Talsmenn byggingaframkvæmdanna eru orðnir gætnari í tali en áður og gefa nú engin loforð og nefna allar dagsetningar með fyrirvara. Árið 2017 hefur heyrst nefnt en sérfræðingar sem eitt þýsku dagblaðanna ræddi við taldi að árið 2019 væri raunhæfara, „eftir hádegi“ bætti hann við og brá fyrir glettni í augnkrókum. Hvort það verður árið 2017, 2018, 2019 eða jafnvel enn seinna sem BER kemst í gangið veit enginn.

Blaðamönnum var boðið að skoða mannvirkin þar sem nýja flugstöðin á að opna árið 2012.
Mynd: EPA

Hvað hefur farið úrskeiðis?

Spurningin er einföld og það er svarið líka: allt. Allt sem hugsast getur, og kannski líka allt óhugsanlegt hefur farið úrskeiðis. Í fyrstu gekk allt eftir áætlun, það er að segja eftir tíu ára seinkunina sem áður var getið. Flugstöðvarbyggingarnar þutu upp og þegar fréttamönnum var boðið að skoða framkvæmdirnar árið 2012 voru þeir á einu máli um að flugstöðin yrði glæsilegt „hlið Berlínar“ eins og byggingarnefndarformaðurinn hafði komist að orði, sex árum fyrr. En ekki var þó allt sem sýndist.

Fúsk

Árið 2012 skipaði þýska þingið sérstaka rannsóknarnefnd. Henni var ætlað að komast að ástæðum þess að byggingu flugstöðvarinnar (það gekk prýðilega að leggja brautirnar) seinkaði svo mjög og hvað hefði farið úrskeiðis. Skýrsla nefndarinnar er löng, mörg hundruð blaðsíður og ekki er ofmælt að hún sé svört, kolsvört. Engin leið er að gera grein fyrir niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar en í stuttu máli sagt er skýrslan áfellisdómur yfir nær öllum þeim sem komið hafa við sögu byggingaframkvæmdanna. Samtals eru nefndir í skýrslunni hvorki meira né minna en 150 þúsund gallar, smáir og stórir. Enginn einn, að mati skýrsluhöfunda, ber ábyrgð á öllum þessum göllum og því verður enginn dreginn til ábyrgðar. Yfirborgarstjórinn í Berlín Klaus Wowerheit, sem setið hafði í því embætti í 13 ár sagði af sér í hitteðfyrra en hann var stjórnarformaður BER um árabil. Meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni er að 600 eldtraustir veggir, mislangir og háir, reyndust ekki eldtraustir þegar að var gáð og þess vegna þurfti að fjarlægja þá alla og setja nýja í staðinn. Svokallað úðakerfi (eldvarnakerfi) reyndist alls ófullnægjandi og sömu sögu er að segja um loftræstikerfi. Það reyndist ekki loftræsta með fullnægjandi hætti og því þurfti að setja upp annað og öflugra. Þá tók ekki betra við því að í ljós kom að loftið í flugstöðvarbyggingunni reyndist ekki hafa nægilegt burðarþol fyrir nýja kerfið og um tíma var óttast að loftið kynni að falla niður. Sérfræðingur sem vann að burðarþolsútreikningum á loftinu var alls ekki neinn sérfræðingur, vissi afar takmarkað um burðarþol en síðar kom í ljós að hann hafði stungið seðlum í vasa þess sem réð hann til verksins.

Klaus Wowerheit sagði af sér sem stjórnarformaður BER vegna tafanna.
Mynd: EPA

Mesta byggingaklúður í sögu Þýskalands

Fjölmiðlar í Þýskalandi og reyndar víðar hafa margoft fjallað um þetta sem sumir þýskir stjórnmálamenn kalla mesta klúður í þýskri hönnunar- og byggingasögu. Sumir þeirra hafa lýst yfir að réttast væri að rífa flugstöðvarhúsið og byrja aftur frá grunni. Einn vildi gera húsið að „Safni mistakanna“ þar sem gestir greiddu aðgangseyri til að sjá þessa „klúðurbyggingu“ eins og þingmaðurinn orðaði það.

Kostnaðurinn margfaldur og flugstöðin þegar orðin of lítil

Upphafleg fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að BER myndi kosta 1.7 milljarða Evra (236 milljarða íslenska) en sú upphæð hefur margfaldast og nýjasta áætlun hljóðar uppá 5.4 milljarða Evra (750 milljarða íslenska). Jafnvel talið að endanleg tala verði enn hærri. Það sem kannski er alvarlegast er þó sú staðreynd að flugstöðin er líklega þegar orðin of lítil en farþegafjöldinn sem fer um Schönefeld og Tegel er nú næstum sá sami og gert er ráð fyrir að BER geti annað. Þarf þá ekki bara að stækka þennan nýja völl? spyr kannski einhver. Það er hinsvegar ekki svo auðvelt. Það er nefnilega mjög þröngt um flugstöðina og litlir möguleikar á stækkun. Þýskir stjórnmálamenn hafa viðrað þann möguleika að Tegel verði opinn áfram og þar gerðar nauðsynlegar endurbætur. Hvort sú verður raunin leiðir tíminn í ljós.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar