Það er allt á fullu í íslensku efnahagslífi. Kaupmáttur launa er hærri en hann hefur nokkurn tímann verið áður, samkvæmt launavísitölu. Einkaneysla jókst um 4,8% í fyrra samkvæmt Hagstofu Íslands og því er spáð að hann verði talsvert meiri í ár. Á fyrsta ársfjórðungi mældist vöxturinn 5,6%. Íslendingar hafa slegið met í útlandaferðum og íbúðir hafa ekki selst hraðar síðan 2007. Sömu sögu er að segja af byggingarkrönum, sem hafa ekki verið fleiri frá 2007. Flestir greinendur eru enda sammála um að góðæri sé komið. Kjarninn tók saman nokkur dæmi.
Met í útlandaferðum slegið
Líkt og greint var frá fyrir helgi settu Íslendingar met í útlandaferðum í júní síðastliðnum. Þá fóru 67 þúsund Íslendingar til útlanda í gegnum Keflavíkurflugvöll. Útlandaferðirnar höfðu aldrei áður verið eins margar í einum mánuði frá því að talningar Ferðamálastofu hófust, en áður var metið slegið í júní 2007, þegar 54.800 Íslendingar fóru til útlanda.
Ferðamálastofa telur að ekki sé ólíklegt að Evrópumótið í fótbolta hafi haft talsverð áhrif á tölurnar. „Í því sambandi er vert að slá þann varnagla að hugsanlega er óvenju algengt að fleiri en eina brottför sé að ræða hjá sömu einstaklingum. Slíkt er þó ekki hægt að segja fyrir um með neinni vissu,“ segir Ferðamálastofa. Fjölmargir fóru aftur til Frakklands með ýmsum leiðum eftir að Ísland komst upp úr riðli sínum á EM og einnig þegar liðið komst í átta liða úrslit á mótinu.
Ef rýnt er nánar í tölurnar sést að brottfarir Íslendinga fyrstu sex mánuði þessa árs voru rétt tæplega 254 þúsund talsins, meira en nokkuð annað ár frá því að mælingar Ferðamálastofu hófust. Árið sem kemst næst þessum fjölda er 2008, en fyrri helming þess árs fóru Íslendingar í rétt tæplega 230 þúsund utanlandsferðir á fyrri hluta ársins, örlítið fleiri en árið 2007, þegar það voru tæplega 228 þúsund ferðir. Með þessu áframhaldi fer árið í ár létt með slá fyrra met ársins 2007, þegar Íslendingar fóru í 469.885 utanlandsferðir.
Íbúðir ekki selst hraðar í tæpan áratug
Þá hafa íbúðir á Íslandi ekki selst eins hratt og þær gera nú í tæpan áratug, eða frá fyrrnefndum júní 2007. Einungist tekur nú um sjö vikur, eða 1,87 mánuði, að meðaltali að selja íbúðarhúsnæði miðað við veltu á fasteignamarkaði í apríl. Eina dæmið um hraðari veltu á markaði var í júní 2007, samkvæmt hagvísum Seðlabanka Íslands.
Þá hefur gengið hratt á framboð eigna. Þannig var framboð af sérbýliseignum á sölu ríflega 900 í apríl 2012, en fjöldinn var kominn niður í 320 í apríl á þessu ári. Sömu sögu er að segja af fjölbýliseignum. Þær voru tæplega 1.900 í apríl 2012 en voru um 900 í apríl síðastliðnum.
Byggingarkranarnir að ná 2007
Ummæli Roberts Z Aliber hagfræðings um byggingarkrana á Íslandi fyrir hrun vöktu mikla athygli. Hann sagði að það þyrfti bara að telja kranana til að sjá ofþenslu í efnahagslífinu. Samkvæmt samantekt Braga Fannars Sigurðssonar, sem heldur úti síðunni visitala.is og heldur utan um gögn um skoðaða byggingarkrana, höfðu 157 byggingarkranar verið skoðaðir af Vinnueftirlitinu á fyrri helmingi þessa árs. Það eru ekki endilega allt virkir kranar, en þykir gefa vísbendingu um ástandið. Það eru litlu færri en fyrri hluta áranna 2007 og 2008. Árið 2007 voru 364 byggingarkranar skoðaðir af Vinnueftirlitinu. Árið 2008 voru þeir 310, en þeim fækkaði verulega á síðasta ársfjórðungi þess árs, þegar hrunið varð. Árið í fyrra fór yfir árið 2008, með 318 skoðuðum byggingarkrönum, en í ár stefnir í enn meiri aukningu.
Í Morgunblaðinu í gær er rætt við Árna Jóhannsson, forstöðumann bygginga- og mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, og hann segir að þrátt fyrir þessa fjölgun sé uppbygging í landinu enn á upphafsstigum. „Þetta er rétt að byrja. Það sem er ólíkt við það sem var á árunum fyrir hrun að uppbygging innviða er ekki hafin af neinu viti. Fyrir utan Þeistareyki og Búrfellsvirkjun er ekkert í gangi hjá hinu opinbera. Allt var á fleygiferð á vegum hins opinbera fyrir hrun. Það er ekki svo núna. Uppbyggingin er studd af einkageiranum.“ Sprengingin fyrir hrun hafi einnig verið í íbúðarhúsnæði fyrir hrun en það sé ekki enn tilfellið nú.
Töluverður fjöldi nýbygginga er á skipulagi, sérstaklega í Reykjavík, á næstu árum. Hafa verður í huga að uppbygging af þessu tagi fór nærri því að stöðvast eftir hrun og hefur þörfin því safnast upp. Það vantar enn talsvert upp á að framboðið mæti eftirspurninni eftir húsnæði, eins og Arion banki kemur inn á í greiningu sinni um horfur á fasteignamarkaði.
Fleiri sjónvörp flutt inn en fyrir hrun
Í síðustu viku tók greiningardeild Arion banka saman áhugaverðar upplýsingar um vöruskipti. Þar kemur meðal annars fram að vöruinnflutningur til Íslands á fyrstu fimm mánuðum ársins svipar mjög mikið til þess sem var á árunum 2006 til 2008. Allir helstu liðir innflutnings hafa aukist frá því að efnahagsbatinn hófst á Íslandi, og vöruinnflutningur jókst um 48% af raunvirði frá 2010 til 2015.
Þegar rýnt er nánar í tölur um innflutning kemur einnig ýmislegt áhugavert í ljós, til dæmis það að fleiri sjónvörp voru flutt inn á fyrstu fimm mánuðum þessa árs en árin 2006 og 2008. Tæplega þrettán þúsund sjónvörp voru flutt inn á þessu ári, 12.888 talsins. Sömu sögu er að segja af þvottavélum, og innflutningur á kæli- og frystitækjum er meiri en hann var árið 2008.
Þá voru ríflega tíu þúsund fólksbílar fluttir til Íslands á fyrstu fimm mánuðum þessa árs, mjög svipað því sem var árið 2006. Munurinn nú er auðvitað sá að aukning í innflutningi bíla er að stórum hluta vegna fjölgunar ferðamanna sem þurfa fleiri bílaleigubíla.