Seðlabanki Íslands vill ekki svara spurningum Kjarnans um heimild sem hann veitti félaginu Guru Invest, með heimilisfesti á Panama, til að nota skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði, svokölluð HFF-bréf, til greiða upp skuld íslenskra félaga eigenda Guru Invest vil slitastjórn Glitnis. Seðlabankinn vill enn fremur ekki svara því hvort fleiri dæmi séu um að eigendur erlendir eigendur HFF-bréfa hafi fengið að greiða skuld íslensks félags við slitabú banka með þessum hætti.
Kjarninn greindi frá skuldauppgjöri nokkurra félaga í eigu eða undir stjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við slitabú Glitnis í fréttaskýringu þann 21. apríl síðastliðinn. Skjöl um skuldauppgjörið var að finna í hinum svokölluðu Panamaskjölum sem láku frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca. Kjarninn vann röð fréttaskýringa upp úr hluta skjalanna í samstarfi við Reykjavík Media.
Panamafélag notaði íslensk skuldabréf til að greiða skuldir annarra
Skuldauppgjörið er dagsett í júní 2010. Félögin sem aðild áttu að samkomulaginu voru annað hvort skuldarar eða í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldunum. Um er að ræða annars vegar yfirdrátt upp á 2.563 milljónir króna sem íslenska félagið 101 Chalet ehf. var með hjá Glitni og hins vegar 723 milljóna króna skuld Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., við Glitni. Stærsti eigandi Gaums var Jón Ásgeir Jóhannesson og 101 Chalet var einnig í eigu dótturfélaga Gaums á þessum tíma.
Eitt félaganna sem greiddi hluta skuldanna heitir Guru Invest, og er stýrt var af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, eiginkonu hans. Það er með heimilisfesti á Panama. Alls fékk slitabú Glitnir þá 2,4 milljarða króna greiðslu upp í 3,3 milljarða króna skuld sem Gaumur og félagið 101 Chalet ehf. höfðu stofnað til en ekki getað greitt. Skuldin var annars vegar greidd með 200 milljóna króna greiðslu í reiðufé og hins vegar með afhendingu skuldabréfa útgefnum af Íbúðalánasjóði, að andvirði 2,2 milljarða króna.
Með þessari greiðslu var komist hjá því að Glitnir gæti sett Gaum og 101 Chalet ehf. í þrot. Gaumur óskaði ekki eftir gjaldþrotaskiptum fyrr en í september 2013 og 101 Chalet er enn starfrækt. Það er nú í eigu Moon Capital S.a.r.l. í Lúxemborg, félags Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur.
Fengu fullt verð fyrir bréfin
Kjarninn hefur rætt umrætt skuldauppgjör við sérfræðinga sem komið hafa að vinnu við fjármagnshöft, við úrvinnslu skuldauppgjöra eftir bankahrun og innan fjármálageirans. Þeim ber saman um að uppgjörið sé óvenjulegt, sérstaklega þar sem panamíska félagið Guru Invest, erlendur eigandi íslenskra HFF-bréfa, fékk að nota bréfin til að greiða inn á skuld félaga Jóns Ásgeirs. Í uppgjörinu fékkst fullt verð fyrir bréfin löngu áður en þau voru á gjalddaga. Það var ekki staða sem bauðst öðrum erlendum eigendum HFF-bréfa. Þeir hafa þurft að taka þátt í útboðum Seðlabanka Íslands til að koma fé sínu út úr íslenskum höftum, og þar með gefa eftir hluta af virði þeirra.
Kjarninn hefur heimildir fyrir því að beiðni forsvarsmanna Gaums og 101 Chalet um að nota HFF-bréfin sem greiðlsu í samkomulaginu hafi upprunalega verið hafnað af Seðlabanka Íslands en að þeirri ákvörðun hafi síðar verið snúið.
Ítarlegt erindi var sent til Seðlabanka Íslands vegna málsins. Erindið var sent til bankans 19. maí. Því var á endanum svarað 19. júlí, þremur mánuðum eftir að það var upphaflega sent. Fyrirspurnin var eftirfarandi:
Færa má rök fyrir því að með svona notkun á HFF-bréfum hafi hið erlenda félag fengið fullt verð fyrir bréfin löngu áður en að þau voru á gjalddaga. Það er ekki staða sem býðst öðrum erlendum eigendum HFF-bréfa. Hvernig stenst þessi gjörningur viðmið um jafnræði sem tryggð eru í stjórnarskrá, og Seðlabanki Íslands á þar með að vinna í samræmi við?
Í samkomulagsins fólst að Glitnir myndi fá 2,4 milljarða króna greiðslu upp í sameiginlega skuldina gegn því að hún yrði felld niður. Greiðslan samanstóð annars vegar af skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði, svokölluðum HFF-bréfum, að andvirði 2,2 milljarða króna og 200 milljónum króna í reiðufé. Greiðandi var félagið Guru Invest sem skráð er með heimilisfesti í Panama. Þetta staðfesta gögn sem Kjarninn er með undir höndum.
Við höfum upplýsingar um að beiðni um að nota HFF-bréf sem greiðslu í þessu samkomulagi hafi upprunalega verið hafnað af Seðlabanka Íslands en þeirri ákvörðun síðan snúið?
Af hverju var það samþykkt að leyfa notkun á HFF-bréfum í eigu erlends félags til að greiða skuld íslensks félags við slitabú banka?
Eru fleiri dæmi um það að eigendur HFF-bréfa hafi fengið að nota þau til að greiða niður skuldir íslenskra félaga með þessum hætti?
Ber fyrir sig þagnarskyldu
Í svari Seðlabankans er beðist velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á því að svara erindinu, og sagt að tafirnar megi rekja til gífurlegra anna innan gjaldeyriseftirlits Seðlabankans að undanförnu. Síðan segir: „Með vísan til þagnarskylduákvæða 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, og 15. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, getur Seðlabankinn hins vegar ekki upplýst um einstaka mál sem kunna að hafa verið til afgreiðslu innan Seðlabankans.“
Það tók því Seðlabanka Íslands þrjá mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að hann ætlaði sér ekki að svara fyrirspurninni.Jón Ásgeir og Ingibjörg vildu ekki svara fyrirspurn Kjarnans um Guru Invest efnislega þegar eftir því var leitað í apríl síðastliðnum.