Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, vill ekki upplýsa um hvenær félagið Wintris, sem skráð er til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum, keypti skuldabréf útgefin af föllnu bönkunum þremur sem það átti. Sigmundur Davíð var helmingseigandi félagsins þegar það keypti umrædd bréf.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um nákvæmlega hvenær umrædd skuldabréf höfðu verið keypt og hvað hefði verið greitt fyrir bréfin. Fyrirspurn þess efnis var send 27. júní síðastliðinn. Svar barst frá Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs, fyrr í þessari viku, tæpum mánuði eftir að fyrirspurnin var send.
Þar segir að um sé að ræða kröfur sem stofnuðust fyrir fall bankanna, vegna skuldabréf á bankana sem keypt voru fyrir fall þeirra og að engar kröfur hafi verið keyptar á eftirmarkaði eftir bankahrun. Hann segist ekki vera með lista yfir dagsetningarnar og að langt sé um liðið síðan að hann sá þær. Jóhannes Þór segist enn fremur ekki hafa „beinan aðgang“ að upplýsingunum. „Nú, eins og þá, hefur ekki verið birt beint yfirlit um eignir Önnu Stellu [eiginkonu Sigmundar Davíðs] í félaginu, enda eru það mjög persónulegar upplýsingar og einhvers staðar hlýtur fólk að draga línuna. Þrátt fyrir það hafa þau hjónin birt ítarlegri upplýsingar um fjármál sín en nokkrir aðrir sem tengdir eru stjórnmálum,“ sagði í svari Jóhannesar Þórs.
Lýstu kröfum upp á 523 milljónir
Sigmundur Davíð var skráður annar eigandi Wintris þegar félagið lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna þriggja. Hann seldi síðar helmingshlut sinn í félaginu til eiginkonu sinnar á einn bandaríkjadal á síðasta degi ársins 2009.
Wintris lýsti samtals kröfum upp á 523 milljónir króna í bú bankanna þriggja. Í svari sem Sigmundur Davíð birti á heimasíðu sinni, við spurningu sinni um af hverju Wintris ætti kröfur á föllnu bankanna, sagði m.a.: „Þúsundir sparifjáreigenda lögðu íslensku bönkunum til fjármagn á árunum fyrir efnahagshrunið, bæði með innlánum, peningamarkaðssjóðum og skuldabréfum. Félag Önnu var eitt þeirra sem átti peninga inni hjá bönkunum í formi skuldabréfa, þ.e. hún lánaði bönkunum peninga. Líkt og hjá öðrum voru þessi kaup gerð í góðri trú um að staða bankanna væri betri er raun varð en eins og flestir muna var lánshæfi íslensku bankanna metið í besta mögulega flokki (AAA) áður en þeir féllu. Þessar væntingar stóðust ekki og efnahagshrun var staðreynd. Frá upphafi hefur hefur Anna gert sér grein fyrir að tjón hennar næmi hundruðum milljóna króna og að möguleikar á endurheimtum væru ákaflega takmarkaðir. Í kjölfar þess að gömlu bankarnir féllu og sættu slitameðferð var kröfum lýst í slitabú þeirra eins og lög um gjaldþrotaskipti boða. Félagið hefur aldrei selt vogunarsjóðum kröfur og það hefur aldrei keypt kröfur á eftirmarkaði (þ.e. eftir hrun bankanna). Meðal krafna voru víkjandi skuldabréf, sem teljast samkvæmt gjaldþrotarétti eftirstæðar kröfur, og eru að fullu tapaðar. Ekki liggur fyrir hverjar endanlegar endurheimtur verða af heildinni en búast má við að þær nemi um 16 prósent af lýstum kröfum. Áætlað tjón vegna þessara skuldabréfa nemur því hundruðum milljóna króna.“
Miðað við þær ætluðu endurheimtir sem Sigmundur Davíð hefur gefið upp má gera ráð fyrir að Wintris fái um 84 milljónir króna greiddar alls úr slitabúum föllnu bankanna.
Þykja óvenjulegar fjárfestingar
Íslensku bankarnir voru komnir í mikinn vanda strax í lok árs 2007. Erlendir stórbankar hófu að gjaldfella lán til stórra íslenskra kúnna í byrjun árs 2008 og takmarka mjög lánamöguleika íslenskra fjármálafyrirtækja. Þeim leyst einfaldlega alls ekki á íslensku blikuna og af því voru sagðar mýmargar fréttir.
Wintris var stofnað síðla árs 2007, þegar óveðurskýin voru þegar byrjuð að hrannast fyrir ofan íslensku bankanna. Sérfræðingar sem Kjarninn hefur rætt við hafa sett stórt spurningarmerki við að slíkt félag, í eigu einstaklinga, hafi verið að taka jafn stórar stöður í skuldabréfum íslensku bankanna á síðustu mánuðunum fyrir hrun. Það hafi fyrst og síðast, við eðlilegar aðstæður, verið stórir fagfjárfestar, fjármálafyrirtæki, fjárfestinga- eða vogunarsjóðir og lífeyrissjóðir, sem tóku þátt í skuldabréfaútboðum íslensku bankanna.
Þegar við bætist að Sigmundur Davíð fullyrðir að hluti krafna Wintris sé tilkomin vegna víkjandi skuldabréfa þá þykja fjárfestingar félagsins enn sérkennilegri. Víkjandi skuldabréf er einfaldlega eins og lán án veða. Þ.e. alllir aðrir lánveitendur fá borgað á undan þeim sem á slíkt. Af hverju ætti Wintris að hafa keypt slík skuldabréf af banka sem mjög augljóslega var í vanda?
Við því hafa ekki svör og Sigmundur Davíð vill ekki upplýsa hvenær félagið keypti umrædd bréf utan þess að aðstoðarmaður hans fullyrðir að þau hafi verið keypt fyrir bankahrun, en ekki á eftirmarkaði þegar kröfur á bankanna seldust á hrakvirði. Ekki er hægt að leita að staðfestingu á þessum fullyrðingum í ársreikningum Wintris. Þeir eru ekki til.
Sigmundur Davíð snýr aftur
Sigmundur Davíð tilkynnti um fulla endurkomu sína í stjórnmál með bréfi til félagsmanna Í Framsóknarflokknum á mánudag og aðsendri grein í Morgunblaðið á þriðjudag. Í bréfinu sagði hann að endurkoman myndi vekja viðbrögð, jafnvel ofsafengin en slík væri „ nú sem fyrr til marks um að andstæðingar telji sér að sér standi ógn af okkur. “ Sigmundur Davíð boðaði einnig að flokksmenn muni fá send upplýsingar um öll þau álitamál tengd honum sem upp kunni að koma samhliða endurkomu hans inn í stjórnmálin.
Hann kom síðan skýrt á framfæri þeirri skoðun sinni að kosningar ættu ekki að fara fram fyrr en í vor og að flokkur hans hefði uppfyllt flest fyrirheit sín við kjósendur. „Skyldur okkar eru við þá sem höfðu trú á okkur og studdu og við samfélagið í heild en ekki við þá sem vilja losna við okkur.“Alþingi kemur saman á ný 15. ágúst næstkomandi.