Fjöldi sjálfstæðra ríkja í heiminum eykst stöðugt. Fyrir 100 árum síðan voru u.þ.b. 60 ríki til sem höfðu fulla sjálfstjórn. Í dag eru þau um 200. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru 193 en auk þeirra eru til ríki sem hafa takmarkaða alþjóðlega viðurkenningu, s.s. Kósóvó, Tævan og Norður Kýpur. Þá er ótalið sjálft Vatíkanið, smæsta ríki heims með íbúafjölda á við Stykkishólm. Fjölgun ríkja hefur komið í bylgjum seinustu 100 árin. Eftir fyrri heimsstyrjöldina voru Evrópa og Miðausturlönd teiknuð upp á nýtt og fjöldi nýrra ríkja varð til. Á sjötta og sjöunda áratugnum fengu ótal nýlendur Evrópustórveldanna sjálfstæði. Við fall kommúnismans í Evrópu upp úr 1990 splundruðust Sovétríkin og Júgóslavía. Það sem áður voru 2 ríki eru nú 22 og gæti fjöglað enn. Einhverjar sameiningar hafa orðið á þessum tíma, svo sem innlimun Tíbet í Kína og sameining Víetnam. En síðan Austur og Vestur Þýskaland voru sameinuð árið 1990 hefur engin sameining átt sér stað. Annars konar sameining hefur aftur á móti tekið við með stækkun og fjölgun alþjóðlegra stofnana og samtaka eins og Evrópusambandsins, Afríkusambandsins, Sameinuðu Þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins o.sv.frv. Nýjustu ríki heimsins eru Austur Tímor (2002), Svartfjallaland (2006) og Suður Súdan (2011). En hver verða næstu sjálfstæðu ríki heims?
10. Feneyjar
Gjáin milli norður og suður héraða Ítalíu hefur alltaf verið töluverð en Feneyingar skera sig úr. Í þessari fornu verslunarborg við Adríahafið og í héraðinu sem það tilheyrir (Veneto) er mikil þjóðernishyggja og andstaða við suðurhéröðin sem margir telja spillt og mafíuvædd. Sjálfstæðishreyfingin í héraðinu er nátengd hinu svokallaða Norðurbandalagi sem er einn af hinum rísandi flokkum þjóðernispópúlista í Evrópu. Flokkurinn, sem yfirleitt hefur verið á jaðrinum í stjórnmálum Ítalíu, hlaut yfir 50% atkvæða í Veneto í héraðskosninungum árið 2015. Sjálfstæðishreyfingin hefur verið til staðar síðan á áttunda áratugnum en nú fyrst er kominn þungi í baráttuna. Veneto teygir sig frá Adríahafinu norður að austurrísku landamærunum og telur um 5 milljónir íbúa. Ljóst er að stjórnvöld í Róm munu berjast með kjafti og klóm gegn sjálfstæði héraðsins. Sjálfstæði Veneto gæti einnig ýtt undir sjálfstæðistilburði annarra auðugra héraða norður Ítalíu s.s. Langbarðalands og Fjallalands.
9. Kashmír
Þegar Indland fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1947 kröfðust múslimar á svæðinu þess að stofna eigið ríki, Pakistan (sem seinna klofnaði í tvennt og Bangladesh varð til). Nýstofnuðu ríkin tvö gripu strax til vopna vegna skiptingar Kashmír-héraðs nyrst á svæðinu. Kashmír liggur við Himalaya fjöllin og þar búa um 10 milljónir manna, flestir múslimar, en Indverjar hafa ráðið stærstum hluta svæðisins til þessa. Deilan hefur nú staðið yfir í tæplega 70 ár og sér ekki fyrir endann á henni. Yfirleitt eru skærur á svæðinu og nokkrum sinnum hefur brotist út eiginlegt stríð. Deilan hefur litað öll samskipti þessarra tveggja risavöxnu ríkja og valdið því að bæði ríki hafa komið sér upp kjarnorkuvopnum. Hvorugt ríki tekur það í mál að gefa eftir svæði til hins en upp hafa komið hugmyndir um sjálfstætt Kashmír. Hversu stórt það ríki yrði er svo önnur umræða en flestir eru sammála um að það myndi að minnsta kosti spanna sjálfan Kashmír dalinn sem mestar deilurnar hafa staðið um.
8. Quebec
Þann 30. október árið 1995 gengu íbúar í Quebec fylki í Kanada til þjóðaratkvæðagreiðslu um fullveldi héraðsins. Atkvæðagreiðslan var kosningaloforð Parti Quebecois flokksins og ljóst að ef íbúar samþykktu fullveldi myndu leiðtogar hans lýsa yfir fullu sjálfstæði Quebec frá Kanada. Quebec er ekki eingöngu sérstakt vegna franskrar tungu og menningar heldur einnig vegna lagahefðar. Mörgum íbúum Quebec finnst fylkið ekki passa inn í Kanada og þykir það afskipt í stjórnmálum landsins. Fáir bjuggust þó við jafn spennandi kosningum og raunin varð. Fullveldi var hafnað með einungis 1,16% mun, eða rúmlega 50.000 atkvæðum. Sjálfstæðissinnar í Quebec hafa náð að semja um töluverða sjálfsstjórn í ýmsum málum en mestur vindur er úr hreyfingunni í bili. Styrkur Parti Quebecois hefur dalað og flokkurinn ekki náð að knýja fram aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.
7. Flæmingjaland og Vallónía
Það er sagt að Belgar líti fyrst á sig sem Evrópumenn, svo sem annað hvort Flæmingja eða Vallóna, en aðeins í þriðja sæti sem Belga. Belgía er ekki þjóðríki heldur afurð deilna milli Hollendinga og Frakka fyrir tæpum 200 árum síðan. Flæmingjaland í norðri er auðugt og íhaldssamt svæði þar sem meirihluti fólks talar hollensku. Þar hafa sjálfsstæðissinnarnir í Nýja Flæmingjabandalaginu aukið fylgi sitt töluvert á seinustu árum og árið 2014 komust þeir í fyrsta skipti í ríkisstjórn Belgíu. Hin franska Vallónía í suðri er töluvert frjálslyndara svæði en þar er einnig sjálfstæðishreyfing, þó hún sé ekki jafn sterk og sú flæmska. Í fyrstu virðist auðvelt að skipta landinu í tvennt ef það væri vilji íbúanna, en það sem flækir málið er höfuðborgin Brussel. Hún er staðsett í Flæmingjalandi en töluverður meirihluti borgarbúa eru Vallónar. Það yrði undarlegt fyrirkomulag ef höfuðborg Evrópusambandsins yrði nokkurs konar eyja í öðru ríki líkt og Vestur-Berlín var í kalda stríðinu.
6. Palestína
Staða Palestínu hefur verið ein heitasta kartafla alþjóðastjórnmála um áratuga skeið. Við stofnun Ísraelsríkis árið 1948 braust út stríð milli Gyðinga og Araba á svæðinu sem lauk með því að Egyptar nernumdu Gaza svæðið og Jórdaníumenn Vesturbakkann. Í sex-daga stríðinu árið 1967 lentu svæðin undir yfirráðum Ísraela og eru þar enn. Stanslaus styr hefur staðið um svæðið síðan. Árið 1988 lýstu Palestínumenn yfir sjálfstæði og meirihluti ríkja heims viðurkennir tilvist ríkis þeirra. Þeir hafa meira að segja áheyrnarfulltrúa hjá Sameinuðu Þjóðunum. Sjálfstæði þeirra er þó meira í orði en á borði því að landið er hernumið og getur því ekki stýrt sér sjálft. Með fjölgun landnemabyggða Ísraelsmanna, vegtálma og veggja sem aðskilja svæði verður staða Palestínumanna sífellt þrengri með hverju árinu. Margoft hefur verið reynt að leysa deiluna án nokkurs árangurs en ljóst er að núverandi þróun getur ekki haldið áfram að eilífu.
5. Bosníu Serbar
Það eru fáir staðir í Evrópu þar sem ríkir jafn mikil fátækt, eymd og gremja og í Lýðveldi Serbanna. Lýðveldið sem hefur mikla sjálfstjórn er hluti af Bosníu Herzegóvínu og afsprengi Dayton friðarsamninganna árið 1995 þegar bundinn var endir á blóðbaðið þar í landi. Miklar þjóðernishreinsanir höfðu átt sér stað og reynt var að draga línurnar milli svæðanna á þeim forsendum. Bosníu Serbum hefur að mestu leyti verið kennt um styrjöldina og leiðtogar þeirra, Radovan Karadzic og Ratko Mladic, eru einhverjir alræmdustu stríðsglæpamenn heims. Þjóðarstolt Bosníu Serba er því sært en engu að síður er mikill vilji til að slíta sig frá Bosníu og mynda eigið ríki. Milorad Dodik, forseti Bosníu Serba, hefur harkalega gagnrýnt allt samstarf við Bosníumenn og heimtað þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins. Bosníumenn hafa aftur á móti svarað honum með því að þá yrðu friðarsamningarnir fyrir bý og möguleiki á nýju stríði. Ástandið á Balkanskaga er því enn mjög eldfimt, 20 árum eftir blóðbaðið mikla.
4. Kúrdistan
Kúrdistan er fjallasvæði sem nær yfir hluta Tyrklands, Sýrlands, Íraks og Írans og íbúarnir eru um 30 milljónir. Sjálfstæðistilburðir Kúrda hafa að mestu leyti farið fram í gegnum Verkamannaflokk Kúrda, sem stofnaður var á áttunda áratugnum af Abdullah Öcalan. Sá flokkur hefur beitt vopnavaldi, verið skilgreindur sem hryðjuverkasamtök og Öcalan sjálfur situr nú í fangelsi. Um helmingur Kúrda býr innan landamæra Tyrklands en þar hefur andstaðan við réttindi þeirra verið mest. Ólíklegt er að nokkuð breytist í þeim efnum meðan Recep Erdogan er við völd en hann hefur beitt sér af hörku gegn Kúrdum, bæði innan landamæra Tyrklands og utan. Kúrdar hafa notið meiri sjálfstjórnar í hinum ríkjunum og nú meðan vargöld ríkir í Írak og Sýrlandi stjórna þeir stóru landsvæði þar. Það mun velta á framvindu stríðsins hvort Kúrdar nái jafnvel að mynda sjálfstætt ríki til framtíðar.
3. Grænland
Það virðist meitlað í stein að Grænland hljóti fullt sjálfstæði frá Danmörku á komandi árum. Landið fékk heimastjórn árið 1979 og yfirráð yfir lögreglu, dómstólum og fleiru árið 2009. Bæði var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu með yfir 70% atkvæða og flokkar sem stefna að aukinni sjálfstjórn landsins eru með ríflegan meirihluta á grænlenska þinginu. Danir fara ennþá með varnir og utanríkismál Grænlands en það sem hefur hindrað fullt sjálfstæði landsins hingað til eru efnahagsmálin. Danir greiða Grænlendingum um 58 milljarða íslenskra króna árlega en sú upphæð mun lækka þegar Grænlendingar ná betri nýtingu á auðlindum sínum. Með hlýrra loftslagi er búist við að það verði fyrr en seinna og ljóst er að Grænlendingar sitja á miklum auði í formi málma og olíu. Bjartsýnustu menn segja að Grænland gæti orðið sjálfstætt innan 5 ára.
2. Katalónía
Eins og mörg önnur svæði á Spáni hefur Katalónía takmarkaða sjálfstjórn en óánægjan kraumar í héraðinu. Þjóðernisvitundin nær langt aftur í aldir, menningin er sterk og tungumálið nokkuð frábrugðið spænsku. Katalónía er efnahagslega mikilvægasta svæði Spánar og íbúarnir um 7,5 milljón. Stjórnvöld í Madríd hafa því barist með kjafti og klóm gegn sjálfstæðistilburðum héraðsins því ef Katalónía fær sjálfstæði gætu t.d. Baskar fylgt á eftir. Þetta er helsta ástæða þess að Spánverjar eru tregir að viðurkenna nýstofnuð ríki. Árið 2014 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Katalóníu þar sem sjálfstæði var samþykkt með yfir 80% atkvæða en hún var hins vegar ekki bindandi og stjórnvöld í Madríd höfnuðu henni. Aukinn þungi hefur þó færst í sjálfstæðishreyfinguna undanfarin ár og í hverri einustu götu má sjá fána Katalóníu hanga niður úr svölum eða gluggum íbúða. Það er líklegra en ekki að héraðið verði sjálfstætt á komandi árum.
1. Skotland
Árið 1603 erfði skoski konungurinn Jakob VI England en vitaskuld færðust völdin þá frá Edinborg til Lundúna. Skotar hafa þó aldrei litið á sig sem nýlendu og sjálfstæði hefði þótt óhugsandi fyrir einungis nokkrum árum síðan. Sjálfstæðissinnar í Skoska Þjóðarflokknum mældust varla þar til um 1970 en síðan þá hefur fylgið rokkað milli 10 og 20%. Á undanförnum árum hefur flokkurinn þó algerlega sprungið út. Þjóðernisvitund hefur vaxið gríðarlega en þó með jákvæðum formerkjum, þ.e. laus við útlendingahatur og andstöðu við minnihlutahópa. Skotar hafa lagt áherslu á jafnara, friðsamara og sanngjarnara þjóðfélag en nágrannar þeirra fyrir sunnan. Skoski Þjóðarflokkurinn hefur nú yfirburðastöðu í skoskum stjórnmálum og nánast alla þingmenn landsins á breska þinginu. Flokkurinn náði að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins haustið 2014 en það var fellt með um 10% mun. En eftir að Bretar samþykktu að ganga úr Evrópusambandinu nú í sumar er líklegt að Skotar haldi aðra atkvæðagreiðlu, jafnvel á næsta ári. Hver einasta sýsla Skotlands vildi vera áfram í Evrópusambandinu.