Lífeyrissjóðirnir
lánuðu rúmlega 38 milljarða króna til íslenskra heimila á fyrri helmingi
ársins, samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands.
Lífeyrissjóðirnir hafa aukið hlutdeild sína á íbúðalánamarkaði
verulega undanfarin misseri, eftir að nokkrir stórir lífeyrissjóðir hófu að bjóða allt að 75% íbúðalán og óverðtryggð lán.
Til samanburðar námu lán lífeyrissjóðanna til heimila rétt tæplega fimm milljörðum króna á sama tímabili í fyrra, áður en lífeyrissjóðirnir hófu í raun þessa innreið sína á íbúðalánamarkaðinn. Á seinni helmingi ársins 2015 voru veitt lán fyrir 16,7 milljarða króna, og útlánin hafa hækkað jafnt og þétt. Hér að neðan má sjá þróun útlána lífeyrissjóðanna frá upphafi árs 2014.
Samkvæmt nýjustu tölunum um útlán lífeyrissjóðanna til heimila, sem eru bráðabirgðatölur fyrir júní-mánuð, lánuðu lífeyrissjóðirnir heimilum 7,4 milljarða króna í júní. Svipuð upphæð var lánuð til heimila í maí, en það sem af er árinu var mest lánað í apríl, átta milljarðar króna.
Fjöldi nýrra útlána hjá lífeyrissjóðunum nálgast 2500 á fyrstu sex mánuðum ársins. Meðaltalsupphæð lána er því um 15,6 milljónir króna.
Hlutdeild verðtryggðra lána er mun meiri en óverðtryggðra. Verðtryggð lán á fyrri helmingi ársins námu ríflega 28 milljörðum króna en óverðtryggð rúmlega 10 milljörðum. 1817 ný verðtryggð lán voru veitt heimilum á fyrri hluta ársins en 648 óverðtryggð, samtals 2465 ný lán.