Alls voru 85 prósent þeirra nýju lána sem íslenskar innlánsstofnanir veittu viðskiptavinum sínum á fyrstu sex mánuðum ársins verðtryggð. Bankar lánuðu samtals 39,3 milljarða króna að frádregnum uppgreiðslum til heimila landsins á fyrri helmingi ársins 2016 og þar af voru 33,3 milljarðar króna verðtryggð lán. Einungis sex milljarðar króna voru óverðtryggð lán.
Um er að ræða mikinn viðsnúning á örfáum árum, en eftir að bankar hófu að bjóða upp á óverðtryggð lán haustið 2011 nutu slík mikilla vinsælda. Sem dæmi má nefna að á tveggja mánaða tímabili - í maí og júní 2013 - tóku viðskiptavinir banka samtals um 6,5 milljarða króna í óverðtryggð lán, eða hærri upphæð en þeir tóku á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Á þeim tíma nutu verðtryggðu lánin ekki mikilla vinsælda og voru 2,9 milljarðar króna að frádregnum uppgreiðslum. Því námu verðtryggð lán á þessu tveggja mánaða tímabili árið 2013 um 30 prósent allra lána til heimila en óverðtryggð lán voru um 70 prósent slíkra.
Sú þróun var einkennandi fyrir stöðuna eins og hún var á árinu 2013 og fram á árið 2014. Í febrúar það ár gerðust hins vegar tíðindi; verðbólga á Íslandi fór í fyrsta sinn í mörg ár undir 2,5 prósent verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Hún hefur haldist þar síðan og er nú einungis 1,1 prósent. Ásókn íslenskra lántakenda í verðtryggð lán hefur aukist jafn og þétt á undanförnum árum en það sem af er þessu ári hefur orðið algjör kúvending, líkt og sést á myndinni hér að neðan.
Alls eru útlán innlánsstofnana til heimila 926,6 milljarðar króna. Þar af eru verðtryggð útlán 550,2 milljarðar króna, eða um 60 prósent þeirra. Inni í þessum tölum eru ekki einungis íbúðalán heldur einnig bílalán og önnur lán, t.d. yfirdrættir.
Þrjár af hverjum fjórum lánuðum krónum sjóða verðtryggðar
Kjarninn greindi frá því um liðna helgi að lífeyrissjóðir landsins virðast hafa tekið sér forystuhlutverk í veitingu íbúðalána á undanförnu tæpu ári. Þeir lánuðu rúmlega 38 milljarða króna til íslenskra heimila á fyrri helmingi ársins, samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Hlutdeild sjóðanna á íbúðalánamarkaði hefur aukist verulega eftir að nokkrir stórir lífeyrissjóðir hófu að bjóða allt að 75 prósent íbúðalán, betri vaxtakjör en bankarnir, óverðtryggð lán og lægra lántökugjald á seinni hluta árs 2015.
Til samanburðar námu lán lífeyrissjóðanna til heimila rétt tæplega fimm milljörðum króna á sama tímabili í fyrra, áður en lífeyrissjóðirnir hófu í raun þessa innreið sína á íbúðalánamarkaðinn. Á seinni helmingi ársins 2015 voru veitt lán fyrir 16,7 milljarða króna, og útlánin hafa hækkað jafnt og þétt.
Hlutdeild verðtryggðra lána er mun meiri en óverðtryggðra. Verðtryggð lán á fyrri helmingi ársins námu ríflega 28 milljörðum króna en óverðtryggð rúmlega 10 milljörðum. 1817 ný verðtryggð lán voru veitt heimilum á fyrri hluta ársins en 648 óverðtryggð, samtals 2465 ný lán.
82 prósent húsnæðislána verðtryggð um áramót
Kjarninn kallaði fyrr á þessu ári eftir upplýsingum frá öllum viðskiptabönkunum þremur: Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka um hvernig húsnæðislán þeirra skiptust eftir lánaformum um síðustu áramót. Húsnæðislán Landsbankans voru 217 milljarðar króna um síðustu áramót og höfðu vaxið mikið á árinu 2015, en þau voru 169 milljarðar króna í byrjun þess árs. Ný og endurfjármögnuð lán hjá bankanum voru 70 milljarðar króna í fyrra og þar af voru 48 milljarðar króna vegna nýrra lána. Af þeim nýju lánum voru 63 prósent verðtryggð en 37 prósent óverðtryggð. Alls var skipting húsnæðislánasafns Landsbankans þannig að 144 milljarðar króna, eða 66 prósent, voru verðtryggð lán. Óverðtryggð lán voru 73 milljarðar króna, eða 34 prósent af húsnæðislánum bankans.
Íslandsbanki átti íbúðalán upp á 197,3 milljarða króna í byrjun þessa árs. Þau hækkuðu um tæpa þrettán milljarða króna í fyrra. Skipting húsnæðislánasafnsins var þannig að 66 prósent þess voru verðtryggð lán en 34 prósent óverðtryggð lán.
Arion banki átti síðan stærsta safn húsnæðislána af öllum viðskiptabönkunum. Alls nema húsnæðislán bankans 268 milljörðum króna. Það minnkaði um fjóra milljarða króna á árinu 2015 og samkvæmt upplýsingum frá Arion banka var sú lækkun aðallega tilkomin vegna leiðréttingar ríkisstjórnarinnar sem greiddi upp ellefu milljarða króna af lánum hjá bankanum á árinu. Í árslok var skipting húsnæðislána Arion banka þannig að 73 prósent þeirra voru verðtryggð en 27 prósent óverðtryggð.
Stærsti húsnæðislánveitandi landsins er enn Íbúðalánasjóður, þótt hann hafi vart verið þátttakandi í nýjum útlánum á undanförnum árum. Hann lánar einungis verðtryggt og húsnæðislán hans til einstaklinga námu 560,4 milljörðum króna í lok síðasta árs.
Samkvæmt ofangreindum tölum námu heildarútlán viðskiptabankanna þriggja og Íbúðalánasjóðs til húsnæðiskaupa því um 1.200,5 milljörðum króna um síðustu áramót. Þar af voru verðtryggð húsnæðislán 988 milljarðar króna. Því voru 82 prósent allra húsnæðislána aðilanna verðtryggð.