Fjórðungur þingmanna ætlar að hætta
Einn af hverjum fjórum sitjandi þingmönnum ætlar að hætta á þingi í haust. Þar af eru tveir ráðherrar, forseti Alþingis, tveir nefndarformenn, tveir þingflokksformenn og fjórir fyrrverandi ráðherrar. Allir þingmenn hafa nú gefið út ákvörðun sína.
Sextán þingmenn af 63 ætla að róa á önnur mið eftir Alþingiskosningarnar 29. október næstkomandi. Þar af eru tveir núverandi ráðherrar, þau Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. Fjórir fyrrverandi ráðherrar ætla að hætta; Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar og fjármálaráðherra, Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi samgönguráðherra, og Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi innanríkisráðherra.
Helmingur þingmanna Bjartrar framtíðar ætlar að hætta, þrír af sex. Tveir af níu þingmönnum Samfylkingar hættir, Píratar og VG missa einn hvor og fjórir þingmenn Framsóknarflokks ætla að hætta. Sjálfstæðisflokkurinn missir líka fjóra; þingflokksformanninn, forseta Alþingis, menntamálaráðherrann og fyrrverandi varaformanninn. Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, er eini þingmaðurinn sem á eftir að gefa út ákvörðun sína um framhaldið.