Lögmaður Reykjavík Development, sem er framkvæmdaaðili á Hafnartorgi, býst við því að á næstu vikum verði fundað með Minjastofnun Íslands um það hvernig haldið skal áfram með málefni hafnargarðsins, sem var fjarlægður af lóðinni í lok síðasta árs.
Hafnargarðurinn var skyndifriðaður fyrir tæpu ári síðan, þegar framkvæmdir á lóðinni voru þegar hafnar, og stöðvuðust framkvæmdirnar um stund. Framkvæmdaaðilarnir sögðu strax þá að friðlýsingin myndi valda þeim 2,2 milljarða króna tjóni yrði hún staðfest og það tjón yrði sótt úr hendi Minjastofnunar, og þar með ríkisins. Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við málsmeðferðina.
Fyrir skömmu síðan sendi Málflutningsstofa Reykjavíkur kröfubréf til Minjastofnunar fyrir hönd Reykjavík Development vegna kostnaðar í tengslum við friðunina. Krafan er tvíþætt, annars vegar vegna áorðins tjóns vegna breytinga á hönnun sem þurfti að ráðast í vegna kröfunnar um verndun garðsins, sem og kostnaðar vegna verulegra verktafa. Þetta er metið upp á rúmlega 600 milljónir króna. Hins vegar var boðuð krafa fyrir kostnaði vegna rýmisins sem mun fara undir garðana, sem og kostnaði við að setja þá upp og útbúa þá.
Það er um seinna atriðið sem Reykjavík Development vill ræða sérstaklega við Minjastofnun, og að sögn Bjarka Þórs Sveinssonar lögmanns var erindið sem sent var til Minjastofnunar þess efnis að beðið hafi verið um fund um framhaldið. Hann segist hafa verið í sambandi við lögmann Minjastofnunar en ekki sé búið að ákveða fundartíma eða neitt slíkt.
Hafnargarðurinn, sem var fluttur stein fyrir stein í burtu af svæðinu, er í geymslu. Reykjavík Development telur ljóst að ef setja á hann upp aftur á lóðinni þurfi ríkið að borga þann kostnað, sem gæti hlaupið á milljörðum. Nú þurfi því að funda um framhaldið, hvernig hægt sé að lágmarka tjónið og ná niður kostnaði.
Umdeild lög Sigmundar Davíðs
Fyrr á þessu kjörtímabili voru samþykkt lög um verndarsvæði
í byggð. Flutningsmaður þeirra var Sigmundur Davíð
Gunnlaugsson þáverandi forsætisráðherra. Samkvæmt
lögunum getur forsætisráðherra
tekið ákvörðun um vernd byggðar að fenginni tillögu
sveitarstjórnar eða Minjastofnunar Íslands,
ekki sveitarfélögin sem byggðin er í. Minjastofnun
var færð undir forsætisráðuneytið þegar
ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar
tók við völdum. Hún heyrði áður undir mennta- og
menningarmálaráðuneytið. Var þetta
gert sérstaklega að ósk Sigmundar Davíðs,
sem er mikill áhugamaður um skipulags- og
verndarmál. Minjastofnun er eina eftirlitsstofnun
landsins sem heyrir undir forsætisráðuneytið.
Lögin hafa verið gagnrýnd harkalega, meðal annars af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði til dæmis að frumvarpið stríði gegn skipulagsvaldi og sjálfstjórnarrétti sveitarfélaganna, og að minnsta kosti sé farið mjög nálægt því að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar með því.
Sagði garðinn verða friðaðan áður en ákvörðun var tekin
Þann 7. september í fyrra ákvað Minjastofnun að skyndifriða hafnargarða við Austurhöfnina í Reykjavík. Friðunin gilti í sex vikur og átti forsætisráðherra að taka ákvörðun um það hvort hún stæði áfram eða ekki.
Í raun eru þetta nefnilega tveir garðar, annar þeirra telst til fornleifa þar sem hann er yfir 100 ára gamall. Minjastofnun hafði áður tilkynnt lóðarhöfum að sá garður ætti að standa en að það mætti hylja hann að fullu. Hinn garðurinn, sá nýrri, var reistur 1928 og er því ekki fornminjar samkvæmt 100 ára skilgreiningunni. Umræddur garður stóð auk þess í tíu ár eftir að hann var byggður. Þennan garð stóð til að fjarlægja. Þrátt fyrir þetta tilkynnti Minjastofnun um skyndifriðun alls garðsins án afmörkunar 7. september síðastliðinn.
Reykjavíkurborg dró stjórnsýslulegt hæfi Sigmundar Davíðs í efa og krafðist þess að hann viki sæti í ákvörðuninni. Ástæðan var að hann hafði tjáð skoðun sína á málinu með afgerandi hætti og átt aðkomu að málinu á fyrri stigum. Hann var meðal annars búinn að skrifa grein á bloggsíðu sína þar sem hann talaði um uggvænlega þróun í skipulagsmálum og sagði beinlínis að hafnargarðurinn yrði friðaður, löngu áður en Minjastofnun tók svo ákvörðun um að skyndifriða garðinn.
Það fór svo að Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra var settur forsætisráðherra í málinu og hún ákvað að staðfesta friðun á öllum garðinum í heild.
Í desember var gert samkomulag þar sem ákveðið var að hafnargarðurinn yrði fluttur svo hægt væri að ráðast í framkvæmdir, en að honum yrði svo komið fyrir á sama stað. Landeigendur hafa alltaf sagt að sá kostnaður myndi lenda á ríkinu. Í febrúar sagði Sigrún Magnúsdóttir hins vegar að ríkið myndi bara bera launakostnað vegna eftirlits með framkvæmdunum. Því höfnuðu framkvæmdaaðilar, líkt og alltaf, og sögðust mundu sækja bæturnar til ríkisins.
Stærsta byggingaverkefni til þessa í hjarta Reykjavíkur
Byggingarreiturinn að Austurbakka 2 er um 55 þúsund fermetrar að stærð og liggur frá Ingólfsgarði, yfir Geirsgötu að Tryggvagötu. Lóðarhafar eru Tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., Situs ehf., Kolufell ehf., Landsbankinn og Bílastæðasjóður Reykjavíkur. Um er m.a. að ræða lóðina sem Harpa stendur á, lóðina sem lúxushótel á að rísa á við hlið hennar, lóðina sem Landsbankinn hefur haft hug á að reisa sér höfuðstöðvar og lóðina við hlið Tollhússins.
Á lóðinni er gert ráð fyrir byggingarreit neðanjarðar. Sá byggingarreitur nær yfir alla lóðina. Um er að ræða kjallara á tveimur hæðum með þjónustu og bílastæðum.
Allt í allt eru níu byggingarreitir á Austurbakka 2. Félagið Reykjavík Development, sem áður hét Landstólpar þróunarfélag ehf. á tvo þeirra. Í apríl 2015 var tekin fyrsta skóflustunga vegna upphafs framkvæmda á reitunum. Í frétt á heimasíðu Reykjavíkurborgar af því tilefni segir: „Fyrirhugaðar framkvæmdir eru hluti af stærsta byggingaverkefni fram til þessa í hjarta Reykjavíkur. Samkvæmt deiliskipulagi má byggja á reitum 1 og 2 við Austurbakka, 21.400 m2 ofanjarðar. Áætlað er að þar verði íbúðir og fjölbreytt húsnæði fyrir ýmsa atvinnustarfsemi, s.s. verslanir, veitingahús, skrifstofur og þjónustu. Auk þess verður byggður bílakjallari á reitnum sem verður samtengdur öðrum bílakjöllurum á lóðinni, allt að Hörpu. Áætlað að sameiginlegur kjallari rúmi um 1.000 bíla“.
Framkvæmdunum átti að ljúka árið 2018 samkvæmt áætlun.