Sparnaðarhneigð Íslendinga hefur breyst í kjölfar fjármálakreppunnar. Þrátt fyrir kröftugan vöxt einkaneyslu undanfarið og horfur á áframhaldandi miklum vexti hefur sparnaður heimila haldið áfram að aukast, eiginfjárstaða og kaupmáttur aukist en skuldir heimila að lækka. Þetta kemur fram í riti Seðlabanka Íslands, Peningamálum, sem birt var á miðvikudag.
Þar segir að auk breyttrar sparnaðarhegðunar þjóðarinnar hafi aðhaldssöm peningastefna Seðlabankans einnig haft áhrif á „neyslu- og sparnaðarákvarðanir heimila.“ Þar er átt við áhrif vaxtastefnu bankans, en vextir á Íslandi hafa haldist mjög háir þrátt fyrir lága verðbólgu. Raunar hefur verðbólga verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í febrúar 2014 og mælist nú 1,1 prósent. Samt hafa meginvextir bankans verið 5,75 prósent frá því í nóvember í fyrra. Þ.e. þangað til í dag þegar tilkynnt var að þeir verði lækkaðir um 0,5 prósentustig niður í 5,25 prósent. Sú breyting mun hafa áhrif til vaxtalækkunar á lánum þeirra sem eru með breytilega vexti á þeim, og lækka vexti á þeim lánum sem standa nýjum lántakendum til boða.
Íbúðaverð hækkað um 12,9 prósent
Í Peningamálum er farið vítt og breytt yfir aðstæður í íslensku efnahagslífi. Þar er meðal annars greint frá því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 12,4 prósent á milli ára og leiguverð um 9,1 prósent á sama tíma. Til að setja þær tölur i samhengi þá hefur íbúð sem kostaði 30 milljónir króna í júlí 2015 hækkað um 3,72 milljónir króna í verði á einu ári. Íbúð sem leigðist út á 150 þúsund krónur á mánuði fyrir ári kostar nú tæplega 164 þúsund krónur á mánuði.
Á sama tíma lækkaði hlutabréfaverð, en Úrvalsvísitala Kauphallarinnar er nú tæplega níu prósentum lægri en hún var fyrir útgáfu Peningamála í maí. Í Peningamálum segir að þessi lækkun endurspegli að einhverju leyit llakari afkomuhorfur í kjölfar mikillar hækkunar á innlendum kostnaði og gengi krónunnar.
Ferðamenn drífa áfram vöxt
Þjóðarútgjöld halda áfram að vaxa á fyrsta ársfjórðungi og jukust um 8,3 prósent á milli ára, sem er meiri vöxtur en Seðlabankinn hafði gert ráð fyrir. Einkaneysla jókst um sjö prósent og fjárfesting um fjórðung. Til viðbótar voru utanríkisviðskipti hagstæðari en áætlað var. ALlt þetta leiðir til þess að hagvaxtarspá bankans fyrir fjórðungin var gríðarlega langt frá því sem síðar reyndist vera. Í maí hafði Seðlabankinn spáð því að hagvöxtur á fyrstu þremur árum ársins yrði 1,7 prósent en hann reyndist vera 4,2 prósent. Hagvöxtur á Íslandi hefur nú verið yfir fjögur prósent þrjú ár í röð. Gert er ráð fyrir áframhaldandi örum vexti á næsta ári.
Fjárfesting heldur áfram að aukast og Seðlabankinn segir horfur á því að vöxtur hennar gæti orðið allt að 18 prósent á árinu í heild. Þá eru áframhaldandi horfur á því að útflutningur á vöru og þjónustu haldi áfram að vaxi, og aukist um allt að 8,5 prósent á þessu ári. Ástæðan er einföld: ferðamenn. Í Peningamálum segir: „Vöxturinn er að talsverðu leyti borinn uppi af auknum þjónustu- útflutningi, en ferðamönnum hefur fjölgað ört og kortavelta þeirra hér á landi jókst mikið á fyrri hluta ársins frá sama tíma í fyrra. Horfur um vöruútflutning eru hins vegar svipaðar og í maí en samsetning vaxtarins hefur breyst lítillega.“
Verðbólga áfram í kortunum
Helsta ástæða þess að vextir Seðlabankans voru lækkaðir í vikunni eru þær að verðbólguhorfur hafa batnað frá síðustu spá bankans. Í Peningamálum stendur að þar muni „mestu um að gengi krónunnar hefur hækkað töluvert auk þess sem horfur eru á heldur meiri framleiðnivexti í ár en þá var gert ráð fyrir. Eftir sem áður er spáð vaxandi verðbólgu þegar áhrif gengishækkunarinnar taka að fjara út og að því gefnu að gengi krónunnar hækki ekki frekar. Að gefinni þeirri forsendu er gert ráð fyrir að verðbólga nái hámarki í um 3¾% á fyrri hluta árs 2018 en taki síðan að þokast í markmið á ný.“
Gert er ráð fyrir að olíuverð á heimsmarkaði, sem er ein aðalástæða lágrar verðbólgu á Íslandi, lækki nokkru minna á þessu ári en áætlað var í maí þar sem verðlækkunin í sumar reyndist minni en búist hafði verið við. Framvirk verð benda hins vegar til minni hækkunar á næstu árum en gert hafði verið ráð fyrir í maí.