Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að íslensku krónunni verði líklega aldrei fleytt aftur að fullu. Ein af helstu lærdómum bankahrunsins hafi verið að tryggja að fjárfestar geti ekki hagnast á vaxtamunaviðskiptum með krónuna. Bjarni segir að það innflæði sem nú streymir til landsins sé áskorun. Þetta kemur fram í viðtali við hann á Bloomberg.
Bjarni segir einnig að þegar hann tali um stöðugleika eigi hann við að feta rólegan veg að því að losa um fjármagnshöft á sama tíma og vextir geti verið lágir, verðbólga lítil, atvinnuþátttaka mikil og Ísland sé samkeppnishæft. „Við munum ekki vera með fjármagnshöft líkt og þau sem hafa verið hér frá árinu 2008.[...]En ég held að við verðum heldur ekki með sömu algjörlega frjálsu fljótandi krónuna. Það væri ekki skynsamlegt.“
Fjármagnshöft verða því ekki afnumin, þótt að einstaklingar og flest fyrirtæki muni ekki finna jafn mikið fyrir þeim og áður. Í raun munu flestir ekkert finna fyrir þeim að viti í sínu daglega amstri. En í stað hafta verða sætt tæki sem Seðlabanki Íslands getur beitt til að koma í veg fyrir að áhætta skapist í kerfinu. Slíkt tæki var kynnt til leiks í sumar og bindur vissar tegundir nýs fjármagnsinnstreymis með sérstakri bindiskyldu.
Búið að stöðva innstreymi
Markmið tækisins er einfalt: að koma í veg fyrir að útlenskir spákaupmenn gætu hagnast gríðarlega á miklum vaxtamun Íslands og annarra landa með tilheyrandi áhættu sem getur fylgt slíku innflæði fjármagns í örefnahagskerfi eins og okkar.
Í stuttu máli þá svínvirkaði tækið.
Í Peningamálum Seðlabankans, sem komu út í gær, segir að í kjölfar þess að Seðlabankinn tók tækið í notkun hafi „erlent innstreymi fjármagns á innlendan skuldabréfamarkað nánast stöðvast.“
Vaxtamunaviðskipti stórsköðuðu Ísland
Það skal enginn velkjast í vafa um hversu alvarleg áhætta er fólgin í vaxtamunaviðskiptum fyrir íslenskt efnahagskerfi. Í einföldu máli snúast þau um að erlendir fjárfestar tóku lán í myntum þar sem vextir voru lágir og keyptu síðan íslensk skuldabréf, vegna þess að vextir á þeim eru háir í öllum alþjóðlegum samanburði. Því gátu fjárfestarnir hagnast vel umfram þann kostnað sem þeir báru af lántöku sinnar. Og ef þeir voru að gera viðskipti með eigin fé þá gátu þeir auðvitað hagnast enn meira.
Þessi vaxtamunaviðskipti áttu stóran þátt í að blása upp þá bólu sem sprakk á Íslandi haustið 2008. Það erlenda fé sem leitaði í íslenska skuldabréfaflokka var endurlánað til viðskiptavina íslensku bankanna og við það stækkaði umfang þeirra gríðarlega. Við hrun, þegar setja þurfti fjármagnshöft á til að hindra útflæði gjaldeyris, voru vaxtamunafjárfestingar vel á sjöunda hundrað milljarða króna.
Allt var komið á fullt
Vextir Seðlabanka Íslands lækkuðu skarpt fyrstu árin eftir hrun. Undanfarin misseri hafa þeir hins vegar hækkað, enda vaxtahækkanir helsta stýritæki bankans til að halda aftur að verðbólgu. Stýrivextir á Íslandi vor til að mynda 5,75 prósent frá nóvember í fyrra og þangað til í gær, þegar þeir voru lækkaðir niður í 5,25 prósent, á sama tíma og þeir eru mjög nálægt núllinu í mörgum öðrum löndum. Þessar vaxtahækkanir hafa gert Ísland eftirsóknarverðara sem fjárfestingakost. Væntingar um að losun hafta væri fram undan gerðu einnig mikið til að auka áhuga erlendra fjárfesta á því að ávaxta fé sitt á Íslandi. Losun hafta myndi enda þýða að þeir væru frjálsir til að flytja fé sitt aftur heim þegar skuldabréfaflokkarnir sem þeir fjárfestu í væru á gjalddaga.
Yfir 50 milljarðar í ríkisskuldabréf
Í fyrrasumar voru síðan sagðar fréttir af því að vaxtamunaviðskipti væru klárlega hafin að nýju. Og samkvæmt svari sem Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fékk frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi í febrúar um innflæði gjaldeyris á árinu 2015 þá voru þau umtalsverð. Alls voru keypt ríkisskuldabréf fyrir um 54 milljarða króna af erlendum aðilum í fyrra. Mest var keypt í skuldabréfaflokki sem er á gjalddaga 2025, eða fyrir um 21 milljarða króna. Næst mest var keypt í flokki sem er á gjalddaga 2031, eða fyrir um 15,1 milljarð króna. Nánast allar fjárfestingar erlendra aðila í ríkisskuldabréfum voru gerðar af lögaðilum, ekki einstaklingum.
Erlendir aðilar virðast líka vera búnir að fá áhuga á íslenskum hlutabréfum. Þeir keyptu slík fyrir um 5,8 milljarða króna á síðasta ári. Mestur áhugi var á bréfum í Icelandair (1.031 milljón króna) og Marel (1.022 milljón króna). Auk þess keyptu erlendir fjárfestar í HB Granda, Högum, Eimskip og Reitum fyrir 820-848 milljónir króna á árinu 2015.