Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann eigi ekki lengur í neinum samskiptum við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins. Þeir hittist ekki lengur eftir að Sigmundur Davíð lét af embætti forsætisráðherra og tali heldur ekki saman í síma. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna á Hrafnaþingi á sjónvarpsstöðinni ÍNN.
Sigmundur Davíð sagði af sér embætti forsætisráðherra 5. apríl 2016 eftir að upp komst um Wintris-málið svokallaða. Það snýst um að Sigmundur Davíð og eiginkona hans áttu saman aflandsfélagið Wintris, skráð til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum, fram til loka árs 2009. Félagið átti skuldabréf á föllnu íslensku bankanna upp á rúman hálfan milljarð króna og lýsti kröfum í bú þeirra á meðan að Sigmundur Davíð var eigandi þess. Hann seldi eiginkonu sinni sinn helming í félaginu á gamlársdag 2009 á einn dal. Wintris stóð ekki í skattskilum í samræmi við CFC-reglur, líkt og erlend fyrirtæki, félög eða sjóðir í lágskattaríkjum í eigu, eða undir stjórn íslensks eigenda, eiga að gera. Sigmundur Davíð hefur sagt að félagið hafi ekki þurft að gera það og haldið því fram að öll skattskil hafi verið í samræmi við lög. Ekki hafa fengist upplýsingar um hver skattstofn eigna Wintris er eða var og því er ekki hægt að sannreyna hvort allir skattar hafi verið greiddir af eignum félagsins.
Fordæmalaus atburðarrás
Bjarni var sjálfur í Panamaskjölunum líkt og Sigmundur Davíð og Wintris. Þar kom fram að Bjarni átti 40 milljóna hlut í félagi sem skráð var á Seychelles-eyjum, Falson og Co. Hann hafði áður neitað því að eiga, eða hafa átt, peninga í skattaskjólum. Bjarni sagði í voru að félagið hefði verið stofnað í kring um félag sitt og félaga sinna til að kaupa fasteign í Dubai, sem varð þó aldrei af. Hann svaraði fyrir þetta svo að hann hafi haldið að félagið hafi verið skráð í Lúxemborg, en ekki á skattaskjólseyjunum. Félagið var sett í afskráningarferli 2009.
Eftir frægan Kastljós-þátt um Panamaskjölin, sem sýndur var sunnudaginn 3. apríl, fór af stað fordæmalaus atburðarás. Mikill þrýstingur skapaðist strax á Sigmund Davíð, og Bjarna, að segja af sér embættum. Eftir mikil mótmæli mánudaginn 4. apríl dró loks til tíðinda daginn eftir. Þá reyndi Sigmundur Davíð að sækja sér umboð til að rjúfa þing til forseta Íslands og tilkynnti um þá fyrirætlan sína á Facebook-síðu sinni. Hann hafði hvorki rætt málið við eigin þingflokk né samstarfsflokkinn, Sjálfstæðisflokk. Þetta ætlaði Sigmundur Davíð að gera ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórn hans við að ljúka sameiginlegum verkefnum. Fyrr um morguninn höfðu hann og Bjarni fundað og þar greindi Bjarni honum frá því að það þyrfti að bregðast við þeirri stöðu sem upp væri komin. Sigmundur Davíð hafi boðið sér tvo kosti í stöðunni, annað hvort óskoraðan stuðning við sig og áframhald ríkisstjórnarinnar eða þingrof. Bjarni hafi hins vegar séð fleiri kosti í stöðunni, meðal annars myndun nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks án Sigmundar Davíðs. Sú varð raunin og ríkisstjórn undur forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns Framsóknar var mynduð 5. apríl.
Tveimur dögum síðar mættu bæði Sigmundur Davíð og Bjarni í viðtöl í Íslandi í dag. Þar hélt Sigmundur Davíð því fram að engin munur væri á málum hans og Bjarna. Bjarni hélt því hins vegar fram að grundvallarmunur væri á málum þeirra tveggja. Í þættinum sagði hann: „Ég held að það sé óhætt að segja að það sé mikill grundvallarmunur á því að vera sem ráðherra ekki með neitt slíkt félag nálægt sér og það er ekki nein uppi nein spurning um hagsmunaárekstra af nokkrum toga. Ég held að það sé hægt að segja, og nú er ég bara að lýsa minni skoðun, þegar ég horfi yfir sviðið og horfi á fréttir reyni að rýna í það hvað menn eru að reyna að draga út úr þessi og kannski ekki síst að utan, glöggt er gests augað og allt það. Þá staldra menn við það að þarna voru kröfur á slitabúin á sama tíma og ríkisstjórnin var að vinna að lausn þeirra mála. Þetta er auðvitað auðvitað mikill grundvallarmunur.“
Kom til baka í lok júlí
Sigmundur Davíð tók sér frí eftir afsögn sína en snéri aftur í stjórnmál í lok júlí. Í bréfi sem hann sendi flokksmönnum sínum sagðist hann enn njóta mikils stuðnings þeirra og fjölda annars fólks sem ekki tekur þátt í stjórnmálastarfi. Það séu staðreyndir sem liggi fyrir. Hann sagði enga ástæðu til þess að kjósa í haust en boðaði fulla þátttöku sína í stjórnmálabaráttunni. Síðar hefur hann boðið upp á ýmsar skýringar á því hvað hafi legið að baki Wintris-málinu. Í byrjun ágúst sagði hann í viðtali á Bylgjunni að málið væri í raun mjög einfalt. „Svo sér maður að það skipti engu máli, það var búið að skrifa eitthvað handrit, undirbúa það í sjö mánuði í mörgum löndum, eins og kom síðar fram og margt sérkennilegt í þeirri sögu allri.“
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur Davíð ýjaði að því að Panamaskjölin og umfjöllun um þau hafi verið einhvers konar samsæri gegn honum. Áður hafði hann ásakað bandaríska auðmanninn George Soros um að standa að baki því, hann hafi keypt Panamaskjölin og notað þau að vild. Þess ber að geta að upplýsingar um víðfeðma aflandsfélagaeign Soros er að finna í skjölunum.
Þrátt fyrir að mánuður sé liðinn frá því að Sigmundur Davíð snéri aftur í stjórnmál hefur hann ekki verið í neinum samskiptum við formann samstarfsflokks Framsóknarflokksins í ríkisstjórn, Bjarna Benediktsson.
Flokksþing verður haldið hjá Framsókn
Þrátt fyrir mikla andstöðu Sigmundar Davíð gegn kosningum í haust hafa Bjarni og Sigurður Ingi boðað slíkar 29. október næstkomandi. Nú stendur yfir undirbúningur flokka fyrir þær og í gærkvöldi kaus kjördæmaþing Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi með því að halda flokksþing fyrir kosningarnar. Það þýðir að þrjú af fimm kjördæmaþingum flokksins hafa kosið með slíku og þá þarf það að fara fram. Eina kjördæmaþingið sem hefur kosið gegn flokksþingi, þar sem kosin er ný forysta, er Norðausturkjördæmi, þar sem Sigmundur Davíð situr. Hann barðist sjálfur gegn því að flokksþing færi fram í haust og kaus gegn ráðstöfuninni. Eina kjördæmaþing Framsóknarflokksins sem á eftir að fara fram er í Reykjavík, en það fer fram á morgun.