Mynd: Birgir Þór

Þegar 26 þúsund manns mótmæltu spillingu, slæmu siðferði og Sigmundi

Netkönnun sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi daganna eftir mótmælin 4. apríl sýnir að 26 þúsund manns hafi tekið þátt í þeim. Fólki var að mótmæla spillingu stjórnmálanna, slæmu siðferði, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og að kalla eftir kosningum.

Ekki færri en 26 þús­und manns tóku þátt í mót­mælum á Aust­ur­velli 4. apríl 2016, í kjöl­far þess að sýndur var Kast­ljós-þáttur um aflands­fé­laga­eign kjör­inna full­trúa á Íslandi. Mót­mæl­end­urnir voru aðal­lega að mót­mæla spill­ingu stjórn­mál­anna, slæmu sið­ferði, til að knýja fram kosn­ingar og til að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, segði af sér emb­ætti. Þetta er nið­ur­staða net­könn­unar sem Jón Gunnar Bern­burg, pró­fessor við Háskóla Íslands, fékk Félags­vís­inda­stofnun Háskól­ans til að fram­kvæma strax eftir mót­mælin á meðal íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins 18 ára eldri á þátt­töku í mót­mæl­un­um. Könn­unin fór fram á tíma­bil­inu 13. apríl til 4. maí og reynd­ist svörun ásætt­an­leg 63 pró­sent, sem þykir ásætt­an­legt. Alls svör­uðu um 1000 manns könn­un­inni. Jón Gunnar greinir frá nið­ur­stöðum hennar í grein sem birt­ist á Kjarn­anum fyrr í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem gögnin eru gerð opin­ber.

Panama­skjölin sem opin­ber­uðu ráða­menn

Mót­mælin sem fram fóru mánu­dag­inn 4. apríl urðu í kjöl­far þess að aflands­fé­laga­eign kjör­inna full­trúa á Íslandi var opin­beruð í sér­stökum Kast­ljós-þætti sem sýndur var dag­inn áður og var byggður á upp­lýs­ingum úr Panama­skjöl­un­um, sem lekið hafði verið frá panömsku lög­fræði­stof­unni Mossack Fon­seca. Þar var meðal ann­ars greint frá því að Sig­mundur Davíð hefði ásamt eig­in­konu sinni átt félagið Wintris, skráð til heim­ilis á Bresku Jóm­frúa­eyj­um, og að arfur hennar hafi verið vistaður inni í því félagi, en hann er talin vera upp á annan millj­arð króna. Í þætt­inum var einnig sagt frá því að Wintris hefði átt kröfur upp á rúman hálfan millj­arð króna í slitabú föllnu bank­anna, sem gerð voru upp með nauða­samn­ingum um síð­ustu ára­mót. Sig­mundur Davíð seldi sinn hlut í félag­inu til eig­in­konu sinn­ar, Önnu Sig­ur­laugar Páls­dótt­ur, á gaml­árs­dag 2009 á einn dal. Dag­inn eftir tók gildi ný lög hér­lend­is, svokölluð CFC-lög­gjöf, sem kvað meðal ann­ars á um að greiða skuli tekju­skatt hér á landi af hagn­aði félags sem íslenskur skatt­að­ili á en er í lág­skatta­­­rík­­­i. Íslend­ingar sem eiga félög á lág­skatta­­­­svæðum eiga einnig að skila sér­­­­­­­stöku fram­tali með skatt­fram­tal­in­u sínu vegna þessa. Wintris hefur aldrei skilað CFC-fram­tali.

Augu heimsbyggðarinnar beindust að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, eftir að viðtal við hann var sýnt 3. apríl 2016. Þar var hann spurður út í aflandsfélagaeign sína, sagði ósatt og rauk á endanum út. Tveimur dögum eftir að viðtalið var sýnt hafði Sigmundur Davíð neyðst til að segja af sér.
Mynd: Birgir Þór

Í þætt­inum var líka greint frá tengslum Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra og for­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins, og Ólafar Nor­dal, þáver­andi inn­an­rík­is­ráð­herra og vara­for­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins, við aflands­fé­lög. Bjarni átti 40 millj­­­óna hlut í félagi 

htt­p://kjarn­inn.is/skod­un/2016-04-08-­bjarn­i-t­harf-a­d-birta-oll-­gogn/

sem skráð var á Seychelles-eyj­um, Falson og Co.. Hann hafði áður neitað því að eiga, eða hafa átt, pen­inga í skatta­­­skjól­­­um. Bjarni sagði félagið hafa verið stofnað í kring um félag sitt og félaga sinna til að kaupa fast­­­eign í Dubai, sem varð þó aldrei af. Hann svar­aði fyrir þetta svo að hann hafi haldið að félagið hafi verið skráð í Lúx­em­borg, en ekki á skatta­­­skjóls­eyj­un­­­um. Félagið var sett í afskrán­ing­­­ar­­­ferli 2009. Síðar var einnig greint frá því að for­eldrar Bjarna ættu félag sem væri að finna í Panama­skjöl­un­um.

Ólöf, og eig­in­maður hennar Tómas Sig­urðs­son, þáver­andi for­stjóri Alcoa á Íslandi, áttu einnig félag­ið Dooly Securities, skráð á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um. Félagið var sett á lagg­­irnar fyrir þau hjón og þau voru bæði með pró­kúru í því. Hluta­bréfin voru hand­veð­­sett með sam­komu­lagi í ágúst 2007. Ólöf skráði aðild sína að félag­inu aldrei í hags­muna­­skrá.  Hún greindi frá því að félagið hefði verið sett upp vegna fjár­mála og kaup­rétt­ar­samn­inga sem hefðu verið hluti af starfs­kjörum eig­in­manns henn­ar. Það hafi hins vegar aldrei verið nýtt í þeim til­gangi né öðr­um. Félagið var afskráð árið 2012.

Átta af hverjum tíu treystu ekki Sig­mundi og vildu afsögn

Þátt­ur­inn, sem fékk ótrú­legt áhorf, hafði gríð­ar­leg áhrif. Þau feng­ust stað­fest í könn­unum sem gerðar voru næstu tvo daga. Könn­un MMR sýndi að stuðn­ingur við rík­is­stjórn­ina væri kom­inn niður í 26 pró­sent og sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna væri rétt rúm­lega 30 pró­sent. Þar kom einnig fram að 81 pró­sent lands­manna treysti Sig­mundi Davíð ekki og 60,6 pró­sent treysti ekki Bjarna Bene­dikts­syni.

Í könnun Félags­vís­inda­stofn­unar kom fram að 78 pró­sent lands­manna vildi að Sig­mundur Davíð segði af sér emb­ætti en 60 pró­sent töldu að Bjarni ætti að gera það. Þar var einnig spurt hvort umfjöllun Kast­ljóss hefði dregið úr trausti gagn­vart rík­is­stjórn­inni, Alþingi og stjórn­málum almennt. Svarið var yfir­gnæf­andi já. 70 pró­sent misstu traust gagn­vart rík­is­stjórn­inni, 63 pró­sent gagn­vart Alþingi og 67 pró­sent gagn­vart stjórn­mála almennt.

Þann 5. apríl sagði Sig­mundur Davíð af sér emb­ætti for­sæt­is­ráð­herra, mynduð var ný rík­is­stjórn undir for­sæti vara­for­manns hans, Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, og boðað að kosn­ingum yrði flýtt vegna aðstæðna. Þær munu nú fara fram 29. októ­ber næst­kom­andi í stað vors­ins 2017.

Hversu margir mót­mæltu?

Ráð­andi þáttur í þess­ari atburða­rás voru gríð­ar­lega fjöl­menn mót­mæli sem fóru fram á Aust­ur­velli 4. apríl 2016 fyrir framan fjöl­miðla alls staðar að úr heim­in­um, sem flykkt­ust til Íslands til að fylgj­ast með atburð­unum hér. Raunar héldu mót­mæli áfram næstu daga þótt að þau hafi náð hápunkti þennan mánu­dag.

Mörgum spurn­ingum varð­andi mót­mælin hefur þó verið ósvar­að. Hversu margir tóku raun­veru­lega þátt í þeim? Hverju voru þeir að mót­mæla og voru þeir sam­mála um hver ástæðan væri?

Þessi vildi Jón Gunnar Bern­burg, pró­fessor í félags­fræði við Háskóla Íslands, fá svör við. Í grein sinni, sem birt­ist á Kjarn­anum fyrr í dag, segir hann að þótt „þessi saga sé kunn hefur túlkun atburð­anna liðið fyrir skort á stað­reynd­um. Tölur um fjölda mót­mæl­enda hafa verið á reiki og hlut­læg gögn um mark­mið „venju­legra“ mót­mæl­enda hafa ekki legið fyr­ir. Fyrir utan nokkur frétta­við­töl er ekki vitað fyrir víst af hverju allt þetta fólk mætti til að mót­mæla. Var um að ræða tíma­bundna reiði vegna fram­göngu þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra og sam­ráð­herra hans? Eða voru hugð­ar­efni þátt­tak­enda djúp­stæð­ari og „stærri“ en fram­ganga nokk­urra ráð­herra? Með öðrum orð­um: var óánægjan sem dreif þús­undir almennra borg­ara niður á Aust­ur­völl í apr­íl­mán­uði síð­ast­liðnum tíma­bundin – eða er um að ræða við­var­andi óánægju í sam­fé­lag­inu sem leitt gæti til meiri mót­mæla í fram­tíð­inn­i?“ Jón Gunnar fékk Félags­vís­inda­stofnun til að fram­kvæma net­könnun strax dag­anna eftir mót­mælin til að reyna að fá þau.

Í könn­un­inni voru íbúar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu 18 ára og eldri spurðir um þátt­töku sína í mót­mæl­unum 4. apríl og laug­ar­dag­inn 9. apríl og hvaða ástæður hefðu verið fyrir mót­mælum þeirra. Alls bár­ust 1001 svör og svar­hlut­fallið var 63 pró­sent, sem þykir ásætt­an­legt.

.

Sam­kvæmt nið­ur­stöðum könn­un­ar­innar tóku 23 pró­sent þátt í mánu­dags­mót­mæl­unum 4. apr­íl. Miðað við þá nið­ur­stöðu væri áætl­aður fjöldi mót­mæl­enda um 35 þús­und. Jón Gunnar telur að sú tala sé lík­lega ofmat. í grein sinni segir hann að rann­sóknir hafi bent til þess þeir sem áhuga hafi á stjórn­málum taki frekar þátt í net­könn­unum en þeir sem minni áhuga hafa. Þess vegna sé lík­lega minna um mót­mæl­endur í hópi þeirra sem ekki svör­uðu könn­un­inni.

Sam­kvæmt leið­réttu mati hafi þátt­takan verið um 17 pró­sent af íbúum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins 18 ára og eldri. Því hafi ekki færri en 26 þús­und manns tekið þátt í mánu­dags­mót­mæl­unum 4. apr­íl. Leið­rétt mat fyrir þátt­töku í laug­ar­dags­mót­mæl­unum 9. apríl var í takti við það sem skipu­leggj­endur þeirra höfðu haldið fram, að tíu pró­sent full­orð­inna íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, eða um 15 þús­und manns, hafi mætt á þau. Þá hafi alls 22 pró­sent íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, um 33 þús­und manns, tekið þátt í ein­hverjum mót­mælum á Aust­ur­velli frá byrjun apríl og fram í maí, en mót­mæli voru nær dag­legur við­burður á því tíma­bili þótt að sífellt hafi fækkað í hópi mót­mæl­enda.

Jón Gunnar segir þó að mik­il­vægt sé að árétta að aðferðin við að leið­rétta svar­bjögun eyði ekki óvissu um nákvæman fjölda þátt­tak­enda. „Bjög­unin er óþekkt og kanna þarf þátt­tök­una með fleiri aðferðum (t.d. með síma­könn­un) til þess að stað­festa þessar nið­ur­stöð­ur. Ólík­legt er þó að miklu muni og því ljóst að þátt­takan í þessum tveimur við­burðum var afar mikil á íslenskan mæli­kvarða.“

Skipuleggjendur mótmælendanna 4. apríl hafa sagt að talningar þeirra hafi sýnt að mótmælendur hafi verið á milli 20 og 30 þúsund talsins. Leiðrétt mat byggt á netkönnun Félagsvísindastofnunar segir að sá fjöldi hafi verið 26 þúsund.
Mynd: Birgir Þór

Svar­endur sem sögð­ust hafa tekið þátt í mót­mælum í apr­íl­mán­uði voru beðnir um að nefna þrjár ástæður fyrir þátt­töku sinni. Flestir sögð­ust hafa mót­mælt vegna þess að þeir telja stjórn­málin spillt og sið­ferði stjórn­mála­manna ábóta­vant. Margir vildu flýta kosn­ingum enda var það yfir­skrift mót­mæl­anna.

Í grein Jóns Gunn­ars segir einnig að ýmis önnur þemu hafi komið fram sem tengj­ast óánægju með stöðu lýð­ræð­is­ins. „Sumir upp­lifðu sið­ferð­is­lega vand­læt­ingu og að það hefði verið borg­ara­leg skylda þeirra að mót­mæla. Fáeinir nefndu það sér­stak­lega að þeir hefðu mót­mælt til að knýja á um nýja stjórn­ar­skrá.

Þessar nið­ur­stöður ríma vel við aðra nið­ur­stöðu sem fram kemur í þess­ari könnun og sem líka kom fram í könn­unum á bús­á­halda­mót­mæl­in­um, sem er að trú á spill­ingu í stjórn­málum og óánægja með lýð­ræðið eru afar sterkir for­spár­þættir mót­mæla­þátt­töku.

.Athygli vekur að óánægja með spill­ingu og sið­ferð­is­bresti er oftar nefnd sem ástæða fyrir mót­mæla­þátt­töku heldur en tíma­bundnu hneyksl­is­málin sem opin­ber­uð­ust í Panama­lek­an­um. En auð­vitað voru þau mál­efni mót­mæl­endum ofar­lega í huga. Fram­ganga þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra og sam­ráð­herra hans var oft nefnd sem ástæða mót­mæla­þátt­töku. Kröfur um afsagnir þess­ara ein­stak­linga koma fyrir í mörgum svörum, sér­stak­lega krafan um afsögn Sig­mundar Dav­íðs en einnig Bjarna Bene­dikts­sonar og Ólafar Nor­dal.“

Þá gaf hluti mót­mæl­enda til kynna að hann hefði mót­mælt vegna stjórn­mála­skoð­ana sinna. Þar var um að ræða ein­stak­linga sem vildu öðru fremur koma rík­is­stjórn­inni frá vegna stefnu hennar og mál­efna. Í grein Jóns Gunn­ars segir að þetta rími ágæt­lega við íslenskar rann­sóknir sem sýnt hafi að stjórn­mála­skoð­an­ir, sér­stak­lega fylgni við vinstri­flokka, teng­ist mót­mæla­þátt­töku hér­lend­is.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar