Ekki færri en 26 þúsund manns tóku þátt í mótmælum á Austurvelli 4. apríl 2016, í kjölfar þess að sýndur var Kastljós-þáttur um aflandsfélagaeign kjörinna fulltrúa á Íslandi. Mótmælendurnir voru aðallega að mótmæla spillingu stjórnmálanna, slæmu siðferði, til að knýja fram kosningar og til að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, segði af sér embætti. Þetta er niðurstaða netkönnunar sem Jón Gunnar Bernburg, prófessor við Háskóla Íslands, fékk Félagsvísindastofnun Háskólans til að framkvæma strax eftir mótmælin á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins 18 ára eldri á þátttöku í mótmælunum. Könnunin fór fram á tímabilinu 13. apríl til 4. maí og reyndist svörun ásættanleg 63 prósent, sem þykir ásættanlegt. Alls svöruðu um 1000 manns könnuninni. Jón Gunnar greinir frá niðurstöðum hennar í grein sem birtist á Kjarnanum fyrr í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem gögnin eru gerð opinber.
Panamaskjölin sem opinberuðu ráðamenn
Mótmælin sem fram fóru mánudaginn 4. apríl urðu í kjölfar þess að aflandsfélagaeign kjörinna fulltrúa á Íslandi var opinberuð í sérstökum Kastljós-þætti sem sýndur var daginn áður og var byggður á upplýsingum úr Panamaskjölunum, sem lekið hafði verið frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Þar var meðal annars greint frá því að Sigmundur Davíð hefði ásamt eiginkonu sinni átt félagið Wintris, skráð til heimilis á Bresku Jómfrúaeyjum, og að arfur hennar hafi verið vistaður inni í því félagi, en hann er talin vera upp á annan milljarð króna. Í þættinum var einnig sagt frá því að Wintris hefði átt kröfur upp á rúman hálfan milljarð króna í slitabú föllnu bankanna, sem gerð voru upp með nauðasamningum um síðustu áramót. Sigmundur Davíð seldi sinn hlut í félaginu til eiginkonu sinnar, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, á gamlársdag 2009 á einn dal. Daginn eftir tók gildi ný lög hérlendis, svokölluð CFC-löggjöf, sem kvað meðal annars á um að greiða skuli tekjuskatt hér á landi af hagnaði félags sem íslenskur skattaðili á en er í lágskattaríki. Íslendingar sem eiga félög á lágskattasvæðum eiga einnig að skila sérstöku framtali með skattframtalinu sínu vegna þessa. Wintris hefur aldrei skilað CFC-framtali.
Í þættinum var líka greint frá tengslum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og Ólafar Nordal, þáverandi innanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, við aflandsfélög. Bjarni átti 40 milljóna hlut í félagi
http://kjarninn.is/skodun/2016-04-08-bjarni-tharf-ad-birta-oll-gogn/
sem skráð var á Seychelles-eyjum, Falson og Co.. Hann hafði áður neitað því að eiga, eða hafa átt, peninga í skattaskjólum. Bjarni sagði félagið hafa verið stofnað í kring um félag sitt og félaga sinna til að kaupa fasteign í Dubai, sem varð þó aldrei af. Hann svaraði fyrir þetta svo að hann hafi haldið að félagið hafi verið skráð í Lúxemborg, en ekki á skattaskjólseyjunum. Félagið var sett í afskráningarferli 2009. Síðar var einnig greint frá því að foreldrar Bjarna ættu félag sem væri að finna í Panamaskjölunum.Ólöf, og eiginmaður hennar Tómas Sigurðsson, þáverandi forstjóri Alcoa á Íslandi, áttu einnig félagið Dooly Securities, skráð á Bresku Jómfrúareyjunum. Félagið var sett á laggirnar fyrir þau hjón og þau voru bæði með prókúru í því. Hlutabréfin voru handveðsett með samkomulagi í ágúst 2007. Ólöf skráði aðild sína að félaginu aldrei í hagsmunaskrá. Hún greindi frá því að félagið hefði verið sett upp vegna fjármála og kaupréttarsamninga sem hefðu verið hluti af starfskjörum eiginmanns hennar. Það hafi hins vegar aldrei verið nýtt í þeim tilgangi né öðrum. Félagið var afskráð árið 2012.
Átta af hverjum tíu treystu ekki Sigmundi og vildu afsögn
Þátturinn, sem fékk ótrúlegt áhorf, hafði gríðarleg áhrif. Þau fengust staðfest í könnunum sem gerðar voru næstu tvo daga. Könnun MMR sýndi að stuðningur við ríkisstjórnina væri kominn niður í 26 prósent og samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna væri rétt rúmlega 30 prósent. Þar kom einnig fram að 81 prósent landsmanna treysti Sigmundi Davíð ekki og 60,6 prósent treysti ekki Bjarna Benediktssyni.
Í könnun Félagsvísindastofnunar kom fram að 78 prósent landsmanna vildi að Sigmundur Davíð segði af sér embætti en 60 prósent töldu að Bjarni ætti að gera það. Þar var einnig spurt hvort umfjöllun Kastljóss hefði dregið úr trausti gagnvart ríkisstjórninni, Alþingi og stjórnmálum almennt. Svarið var yfirgnæfandi já. 70 prósent misstu traust gagnvart ríkisstjórninni, 63 prósent gagnvart Alþingi og 67 prósent gagnvart stjórnmála almennt.
Þann 5. apríl sagði Sigmundur Davíð af sér embætti forsætisráðherra, mynduð var ný ríkisstjórn undir forsæti varaformanns hans, Sigurðar Inga Jóhannssonar, og boðað að kosningum yrði flýtt vegna aðstæðna. Þær munu nú fara fram 29. október næstkomandi í stað vorsins 2017.
Hversu margir mótmæltu?
Ráðandi þáttur í þessari atburðarás voru gríðarlega fjölmenn mótmæli sem fóru fram á Austurvelli 4. apríl 2016 fyrir framan fjölmiðla alls staðar að úr heiminum, sem flykktust til Íslands til að fylgjast með atburðunum hér. Raunar héldu mótmæli áfram næstu daga þótt að þau hafi náð hápunkti þennan mánudag.
Mörgum spurningum varðandi mótmælin hefur þó verið ósvarað. Hversu margir tóku raunverulega þátt í þeim? Hverju voru þeir að mótmæla og voru þeir sammála um hver ástæðan væri?
Þessi vildi Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, fá svör við. Í grein sinni, sem birtist á Kjarnanum fyrr í dag, segir hann að þótt „þessi saga sé kunn hefur túlkun atburðanna liðið fyrir skort á staðreyndum. Tölur um fjölda mótmælenda hafa verið á reiki og hlutlæg gögn um markmið „venjulegra“ mótmælenda hafa ekki legið fyrir. Fyrir utan nokkur fréttaviðtöl er ekki vitað fyrir víst af hverju allt þetta fólk mætti til að mótmæla. Var um að ræða tímabundna reiði vegna framgöngu þáverandi forsætisráðherra og samráðherra hans? Eða voru hugðarefni þátttakenda djúpstæðari og „stærri“ en framganga nokkurra ráðherra? Með öðrum orðum: var óánægjan sem dreif þúsundir almennra borgara niður á Austurvöll í aprílmánuði síðastliðnum tímabundin – eða er um að ræða viðvarandi óánægju í samfélaginu sem leitt gæti til meiri mótmæla í framtíðinni?“ Jón Gunnar fékk Félagsvísindastofnun til að framkvæma netkönnun strax daganna eftir mótmælin til að reyna að fá þau.
Í könnuninni voru íbúar á höfuðborgarsvæðinu 18 ára og eldri spurðir um þátttöku sína í mótmælunum 4. apríl og laugardaginn 9. apríl og hvaða ástæður hefðu verið fyrir mótmælum þeirra. Alls bárust 1001 svör og svarhlutfallið var 63 prósent, sem þykir ásættanlegt.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar tóku 23 prósent þátt í mánudagsmótmælunum 4. apríl. Miðað við þá niðurstöðu væri áætlaður fjöldi mótmælenda um 35 þúsund. Jón Gunnar telur að sú tala sé líklega ofmat. í grein sinni segir hann að rannsóknir hafi bent til þess þeir sem áhuga hafi á stjórnmálum taki frekar þátt í netkönnunum en þeir sem minni áhuga hafa. Þess vegna sé líklega minna um mótmælendur í hópi þeirra sem ekki svöruðu könnuninni.
Samkvæmt leiðréttu mati hafi þátttakan verið um 17 prósent af íbúum höfuðborgarsvæðisins 18 ára og eldri. Því hafi ekki færri en 26 þúsund manns tekið þátt í mánudagsmótmælunum 4. apríl. Leiðrétt mat fyrir þátttöku í laugardagsmótmælunum 9. apríl var í takti við það sem skipuleggjendur þeirra höfðu haldið fram, að tíu prósent fullorðinna íbúa höfuðborgarsvæðisins, eða um 15 þúsund manns, hafi mætt á þau. Þá hafi alls 22 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins, um 33 þúsund manns, tekið þátt í einhverjum mótmælum á Austurvelli frá byrjun apríl og fram í maí, en mótmæli voru nær daglegur viðburður á því tímabili þótt að sífellt hafi fækkað í hópi mótmælenda.
Jón Gunnar segir þó að mikilvægt sé að árétta að aðferðin við að leiðrétta svarbjögun eyði ekki óvissu um nákvæman fjölda þátttakenda. „Bjögunin er óþekkt og kanna þarf þátttökuna með fleiri aðferðum (t.d. með símakönnun) til þess að staðfesta þessar niðurstöður. Ólíklegt er þó að miklu muni og því ljóst að þátttakan í þessum tveimur viðburðum var afar mikil á íslenskan mælikvarða.“
Svarendur sem sögðust hafa tekið þátt í mótmælum í aprílmánuði voru beðnir um að nefna þrjár ástæður fyrir þátttöku sinni. Flestir sögðust hafa mótmælt vegna þess að þeir telja stjórnmálin spillt og siðferði stjórnmálamanna ábótavant. Margir vildu flýta kosningum enda var það yfirskrift mótmælanna.
Í grein Jóns Gunnars segir einnig að ýmis önnur þemu hafi komið fram sem tengjast óánægju með stöðu lýðræðisins. „Sumir upplifðu siðferðislega vandlætingu og að það hefði verið borgaraleg skylda þeirra að mótmæla. Fáeinir nefndu það sérstaklega að þeir hefðu mótmælt til að knýja á um nýja stjórnarskrá.
Þessar niðurstöður ríma vel við aðra niðurstöðu sem fram kemur í þessari könnun og sem líka kom fram í könnunum á búsáhaldamótmælinum, sem er að trú á spillingu í stjórnmálum og óánægja með lýðræðið eru afar sterkir forspárþættir mótmælaþátttöku.
Athygli vekur að óánægja með spillingu og siðferðisbresti er oftar nefnd sem ástæða fyrir mótmælaþátttöku heldur en tímabundnu hneykslismálin sem opinberuðust í Panamalekanum. En auðvitað voru þau málefni mótmælendum ofarlega í huga. Framganga þáverandi forsætisráðherra og samráðherra hans var oft nefnd sem ástæða mótmælaþátttöku. Kröfur um afsagnir þessara einstaklinga koma fyrir í mörgum svörum, sérstaklega krafan um afsögn Sigmundar Davíðs en einnig Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal.“
Þá gaf hluti mótmælenda til kynna að hann hefði mótmælt vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þar var um að ræða einstaklinga sem vildu öðru fremur koma ríkisstjórninni frá vegna stefnu hennar og málefna. Í grein Jóns Gunnars segir að þetta rími ágætlega við íslenskar rannsóknir sem sýnt hafi að stjórnmálaskoðanir, sérstaklega fylgni við vinstriflokka, tengist mótmælaþátttöku hérlendis.