Stefnumótunin hafin í loftslagsmálum Íslands
Afrakstur stefnumótunarvinnu ráðuneyta og samstarfsaðila í loftslagsmálum er nú að líta dagsins ljós. Komin er fram aðgerðaáætlun um orkuskipti í takti við markmið Parísarsamkomulagsins sem innleiða á í íslensk lög í haust.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar á Alþingi á dögunum sem fjallar um aðgerðaáætlun stjórnvalda í orkuskiptum. Er þetta nokkuð stórt skref í stefnumótun ríkisins í loftslagsmálum og eitt af aðalatriðum sóknaráætlunar ríkisstjórnarsamstarfs Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem kynnt var í nóvember í fyrra. Í þeirri áætlun stóð að kynna aðgerðaráætlunina nú í vor. Með undirritun og innleiðingu Parísarsáttmálans munu stjórnvöld skuldbinda Ísland til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi og við strendur Íslands.
Í sóknaráætluninni sem kynnt var á blaðamannafundi fyrir loftslagsráðstefnuna í París var viðbragðsverkefnum ríkisins í loftslagsmálum skipt í þrjá flokka: Verkefni til að draga úr nettólosun á Íslandi, alþjóðlegar áherslur og verkefni til að draga úr losun á heimsvísu og styrking innviða. Aðgerðaráætlun Ragnheiðar Elínar fellur undir fyrsta flokkinn þar sem einnig má finna önnur verkefni sem frekar eru á könnu annarra ráðuneyta; ss. loftslagsvænni landbúnað, skógrækt og landgræðslu, endurheimt votlendis og átak gegn matarsóun.
Þegar hafa nokkur verkefni í sóknaráætluninni verið sett af stað. Til dæmis má nefna að fyrr í sumar setti Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, af stað verkefni um endurheimt votlendis á jörðum í eigu ríkisins þegar hún, ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni forseta og Árna Bragasyni landgræðslustjóra, hófu uppfyllingu í skurði í landi Bessastaða. Landgræðsla ríkisins hefur umsjón með þessu verkefni á landsvísu. Endurheimt votlendis er viðurkennd aðferð — þó hún sé að vísu umdeild — til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.
Þingsályktunartillaga Ragnheiðar Elínar um aðgerðaáætlunina er hefur hlotið eina umræðu í sal Alþingis og liggur nú í atvinnuveganefnd. Að sögn Jóns Gunnarssonar, formanns nefndarinnar, hefur tillagan ekki enn verið tekin fyrir í nefndinni því búvörusamningar hafi átt nær alla athygli nefndarmanna undanfarið. Spurður hvort hann telji líklegt að málið verði afgreitt á þessu þingi segir hann að það sé líklegt ef um áætlunina ríki ekki ágreiningur.
Náttúruverndarsamtök Íslands hafa gagnrýnt að hvergi hafi komið fram hversu mikið þessari áætlun er ætlað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. „Við undirbúning og eftirfylgt Parísarráðstefnunnar hafa íslensk stjórnvöld ekki kynnt skýr markmið um hversu mikið Ísland hyggist draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021-2030,“ segir meðal annars í tilkynningu frá samtökunum.
Umhverfisvernd er ekki eini hvatinn
Aðgerðaáætlunin var kynnt til leiks í þremur köflum sem taka á hagrænum hvötum, innviðum og stefnumótum. Í áætluninni er stefnt að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Sem stendur þá er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi aðeins sex prósent. Stefnt er að því að hlutfallið verði komið í 30 prósent árið 2030. Að sama skapi á að ráðast í átak til að efla hlut endurnýjanlegra orkugjafa í íslenskum fiskiskipum. Árið 2030 á hlutfallið að vera komið í tíu prósent. Í dag er það hins vegar 0,1 prósent.
Aðgerðaráætluninni til stuðnings eru hagrænar forsendur einnig nefndar til sögunnar. Nokkur hagrænn ávinningur felst í því að minnka hlutdeild innflutts eldsneytis á Íslandi. Með því að Íslendingar reiði sig frekar á íslenska orkuframleiðslu verður stuðlað að gjaldeyrissparnaði.
„Margvísleg knýjandi rök eru fyrir orkuskiptum,“ sagði Ragnheiður Elín í ræðu sinni þegar hún flutti tillöguna á Alþingi 22. ágúst. „Mest hefur borið á ástæðum tengdum umhverfismálum, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og annarri mengun sem tengist jarðefnaeldsneyti. Fleiri rök eru ekki síður mikilvæg, eins og orkuöryggi, gjaldeyrissparnaður, nýsköpun og þróun. Innflutt jarðefnaeldsneyti er háð sveiflum í framboði og olíuverði. Aukið orkuöryggi eitt og sér er því nægjanlegt tilefni til að róa að því öllum árum að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Ávinningur er sömuleiðis fólginn í því að byggja upp nýja atvinnugrein, innlendan umhverfisvænan eldsneytisiðnað, sem hefur í för með sér fjölgun starfa með tilheyrandi margfeldisáhrifum.“
Til þess að hraða þessari þróun þá mun ríkið fjárfesta nokkuð í innviðum til ársins 2020. Eftir því sem að viðkomandi tæknilausnir verða samkeppnishæfari á markaði verður dregið úr opinberum stuðningi. Ráðuneytið tekur hins vegar ekki afstöðu til þess hvaða tækni verður fyrir valinu og reiðir sig á markaðsöfl í því tilliti. Ragnheiður Elín sagði í umræðum í þinginu um tillöguna að ríkisstjórnin hefði ákveðið að besta leiðin væri að kalla eftir bestu tækninni og bestu hugmyndunum sem markaðurinn hefur yfir að ráða. „[…] ríkið á ekki að vera að byggja hleðslustöðvar út um allt land frekar en að það á að byggja bensínstöðvar,“ sagði Ragnheiður Elín.
Árið 2025 á fólki að vera fært að aka vistvænum ökutækjum áhyggjulaust í þéttbýli og á skilgreindum leiðum utan þéttbýlis. Þá á uppbyggingu innviða, tam. uppbygging rafhleðslustöðva, að vera lokið. Á sama tíma er stefnt að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til allrar almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar. Hvergi er hins vegar rætt um hvort — og hvernig — það þurfi að ráðst í frekari raforkuframleiðslu hér landi með virkjunum hverskonar til að mæta aukinni þörf á orku sem upprunin er hér á landi.
Hér að neðan hefur aðgerðaáætlunin verið einfölduð og sett fram á tímaási til útskýringar.
Parísarsamningurinn innleiddur á þessu þingi
Fyrir loftslagsráðstefnuna í París í desember í fyrra lögðu öll aðildarríki að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál fram sín eigin markmið í loftslagsmálum. Var það meðal annars talið til þeirra atriða sem gerðu farsæla ráðstefnu að möguleika í París. Ísland ákvað að fylgja Evópusambandinu (ESB) og hengja sig á markmið sambandsins um 40 prósent minni losun árið 2030 miðað við árið losun ársins 1990. Í markmiði Íslands er talað um að stjórnvöld hér á landi ætli að skuldbinda sig til ábyrgðar á „réttlátum hluta“ (e. fair share) í markmiði ESB. Noregur tók einnig þátt í markmiði ESB en þar í landi hafa stjórnvöld þegar gefið út að stefnt verði að minnsta kosti 40 prósent minni losun árið 2030.
Enn hefur Ísland ekki samið um sína hlutdeild í markmiði Evrópusambandsins. Samkvæmt upplýsingum úr utanríkisráðuneytinu er búist við að formlegar viðræður við ESB hefjist nú í haust um „réttláta hlutdeild“ Íslands í loftslagsmarkmiðum ESB og stefnt er á að viðræðunum ljúki á næsta ári.
Í fjarveru Lilju Alfreðsdóttur kynnti Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindarráðherra, áform utanríkisráðherra um að mæla fyrir þingsályktunartillögu um innleiðingu Parísarsamningsins í íslensk lög á næstunni fyrir ríkisstjórn. Þingsályktunin um fullgildingu samningsins var lögð fyrir Alþingi á föstudag. Sigrún hefur þegar undirritað samninginn fyrir hönd Íslands. Það gerði hún í höfðustöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í apríl.
Parísarsamningurinn um loftslagsmál mun ekki öðlast gildi fyrr en þau 55 lönd sem bera sameiginlega ábyrgð á 55 prósent alls útblásturs gróðurhúsalofttegunda hafa fullgilt samninginn. Nú hafa aðeins 24 ríki af þeim 179 sem undirritað hafa samninginn innleitt hann í löggjöf sína, séu Bandaríkin og Kína undanskilin. Samanlagt bera þessi lönd ábyrgð á um það bil einu prósenti af öllum útblæstri í heiminum.
Flest þessara ríkja sem innleitt hafa samninginn eru eyríki í Kyrrahafinu sem munu, ef fram heldur sem horfir, sökkva í sæ á næstu áratugum vegna hækkandi sjávarborðs. Helstu mengunarlöndin í þessum hópi eru Kamerún, Norður-Kórea, Perú og Noregur.
Mest munar um fullgildingu Kína og Bandaríkjanna á samningnum. Þau lönd bera samtals ábyrgð á 37,98 prósent af öllum útblæstri heimsins samanlögðum. Barack Obama Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína, tilkynntu við upphaf fundar 20 stærstu iðnríkja heims að ríki þeirra hafi innleitt samninginn. Obama mun hins vegar þurfa að fara fram hjá bandaríska þinginu enda hefur meirihluti repúblikana lýst því yfir að þar verði samningnum hafnað.
Noregur er eina Evrópuríkið sem hefur innleitt samninginn. Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur þegar mælt fyrir lagafrumvarpi um innleiðingu samningsins og hvatt önnur lönd í Evrópu til að klára þessi mál fyrir árslok.
Loftslagsstefna Evrópusambandsins byggir að miklu leyti á sameiginlegum markaði með losunarheimildir, það sem á ensku kallast Emissions Trading System (ETS). Með loftslagsmarkmiði sambandsins til ársins 2030 er ætlunin að dreifa ábyrgðinni á aðildarríkin í þeim málaflokkum sem ETS nær ekki yfir. Það eru geirar á borð við samgöngur, landbúnað og mannvirki. Eins og áður segir er sameiginlegt markmið ESB að blása 40 prósent minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið árið 2030 en gert var árið 1990. Þá er markmiðið að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í heildarnotkun verði að minnsta kosti 27 prósent og að orkunýtni verði aukin um að minnsta kosti 27 prósent.
Á næstu mánuðum verður hverju aðildarríki, og um leið Íslandi, veitt hlutdeild í þessu markmiði. Um leið á að gera breytingar á ETS til að það samræmist betur markmiðum Parísarsamkomulagsins.