Ungt fólk á Íslandi hefur dregist aftur úr í tekjum undanfarin aldarfjórðung á meðan að eftirlaunaþegar hafa bætt stöðu sína umtalsvert. Áhrif skatta- og bótakerfa á tekjudreifingu milli aldurshópa virðast hafa verið fremur lítil en hafa frekar bætt kjör yngri aldurshópa heldur en hitt. Ójöfnuður í tekjum milli aldurshópa óx mikið á Íslandi frá árinu 1997 og fram að bankahruni. Á þeim rúma áratug tóku eldri aldurshópar verulega fram úr þeim sem yngri eru. Frá lokum hrunsársins 2008 hefur dregið verulega úr bili á milli hópa en þó með þeim hætti að elstu hóparnir halda sínu forskoti. Þróunin hérlendis virðist því vera sambærileg því sem er að eiga sér stað í öðrum löndum sem við miðum okkur við. Aldarmótakynslóðin er á mun verri hlutfallslegri stað fjárhagslega en þær kynslóðir sem komu á undan henni voru á sama aldursskeiði.
Þetta kemur fram í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um kynslóðareikninga sem unnin var samkvæmt beiðni þingmanna Samfylkingarinnar. Þar er farið yfir þróun efnahagslegrar stöðu þess þjóðfélagshóps sem á hverjum tíma er á aldrinum 20-35 ára miðað við eldri kynslóðir undanfarna tvo til þrjá áratugi. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, og Axel Hall, lektor í hagfræði við sama háskóla, unnu skýrsluna.
Umfjöllun The Guardian hvatinn
Skýrslubeiðnin kom í kjölfar þess að breska blaðið The Guardian birti röð greina sem sýndi að staða ungs fólks í Bretlandi - svokallaðra „Millenials“ sem er kynslóðin fædd á árunum 1980 til 1995 er oft kölluð - væri umtalsvert lakari í efnahagslegu tilliti á ýmsa mælikvarða nú en fyrir þremur áratugum.
Í niðurstöðum skýrsluhöfunda segir meðal annars að tekjur Íslendinga undir 35 ára aldri hafi lækkað hlutfallslega mikið en tekjur þeirra Íslendinga sem eru yfir 39 ára aukist. Hæstu tekjum nær fólk á aldrinum 45-49 ára en árið 1990 var sá hópur sem hafði hæstar tekjur 40-44 ára.
Mestu framvindubrotin voru frá árinu 1997 og til loka árs 2008 þegar eldri hóparnir fóru að taka verulega fram úr hinum yngri. Á eftirhrunsárunum hefur dregið saman með aldurshópum að nýju.
Þróun tekna eftir kynjum hefur verið ólík á þeim tímabilum sem skoðuð voru. Árið 1990 fóru tekjur karla nálægt því að tvöfaldast frá 20-24 ára að 40-44 ára aldri, fóru úr um 90 prósent af meðaltekjum í 170 prósent. Tekjur kvenna hækkuðu mun minna með aldri, fóru úr 60 prósent við 20-24 ára aldur í 85 prósent þegar 40-44 ára aldri var náð. Í skýrslunni segir að tekjur eftir aldri séu mun líkari hjá kynjunum nú. „Engu að síður eiga konur enn nokkuð í land með að ná körlum í ráðstöfunartekjum í nánast öllum aldurshópum.“
Vísbendingar eru uppi um að ferill ævitekna sé að breytast þannig að einstaklingar byrji frekar með lægri tekjur en áður en að tekjurnar aukist síðan hraðar með aldri og að hækkunin vari lengur. Hámarkstekjum sé því náð við hærri aldur en áður var. Áhrif skatta- og bótakerfa hafa verið frekar lítil og fremur í þá átt að bæta kjör yngstu hópanna. Því sé skýringa á lakari stöðu unga fólksins að öllum líkindum ekki að leita í þeim kerfum.
Ávinningur af háskólanámi minnkað mikið
Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil fjölgun á þeim sem stunda háskólanám. Fjölgunin hefur verið mest hjá yngstu aldurshópum fullorðinna Íslendinga og sérstaklega á meðal kvenna. Þótt tekjur séu almennt hærri hjá þeim sem eru með háskólamenntun þá hefur sá
ávinningur minnkað verulega á undanförnum árum, samkvæmt skýrslunni. „Svo virðist sem sköpun nýrra starfa við hæfi háskólamenntaðra hafi ekki haldið í við fjölgun þeirra og tekjuávinningur menntunar því minnkað. Í þessu felst áskorun fyrir íslenskt samfélag. Þessi vandi er ekki einskorðaður við Ísland.“
Í henni kemur einnig fram að það hvenær fólk ákveði að hefja sambúð ráðist að einhverju leyti af efnahagslegum og félagslegum þáttum. Gögn gefa til kynna að að meðalaldur fólks við stofnun sambúðar hafi hækkað um fimm ár frá 1990.
Erfiðara að eignast húsnæði
Sterk tengsl eru á milli kaupmáttar ráðstöfunartekna og húsnæðisverðs. Í skýrslunni segir að ef einstakir hópar dragist aftur úr í kaupmætti gæti það leitt til þess að húsnæðiskaup verði þeim erfið. „Gögn frá 2004 sýna að þung undiralda er í þá átt að hlutdeild eigin húsnæðis minnki hjá yngstu aldurshópum. Hröðust var þróunin meðan fjármálakreppan reið yfir. Lækkunin virðist stöðvast árið 2011 og einhver viðsnúningur hafa orðið síðustu ár.“
Í skýrslu Friðriks Más og Axels kemur fram að fasteignaverð hafi tvöfaldast að raunvirði frá árinu 1990, en á sama tíma hafi raunvextir einnig lækkað um helming. Því togist hækkun fasteignaverðs og lækkun vaxta á þegar litið sé til greiðslubyrði nýrra lána. „Þegar þessi þróun er sett í samhengi við kaupmátt yngstu hópa kemur í ljós að greiðslubyrði af dæmigerðu láni hefur ekki breyst mikið milli 1990 og 2014. Sú staðreynd að fasteignaverð hefur hækkað verulega umfram ráðstöfunartekjur þessara aldurshópa bendir til að um þessar mundir sé greiðslubyrði lána ekki aðalvandamálið fyrir ungt fólk heldur öllu fremur getan til að safna fyrir útborgun, sem reynist erfiðari hjalli að yfirstíga.“
Staðfestir áhyggjur
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er einn þeirra þingmanna sem bað um skýrsluna. Hann segir niðurstöður hennar staðfesta þær áhyggjur sem hann hafði af stöðu aldarmótakynslóðarinnar. „Þetta er hættuleg öfugþróun því annars vegar þurfum við mest á tekjum að halda þegar við erum að koma þaki yfir höfuðið, að stofna fjölskyldu og þess háttar. Skýrslan dregur líka fram að við erum ekki að skapa nægilega mikið af þekkingarstörfum fyrir komandi kynslóðir sem eru að mennta sig.“
Hann segir litla huggun í því fyrir ungt fólk að greiðslubyrði nýrra lána hafi ekki breyst mikið þegar það á ekki fyrir útborgun eða kemst ekki í gegnum greiðslumat. „Það eru engin ný sannindi að það þarf að fara í stórátak í húsnæðismálum fyrir ungt fólk og ég vona að þessi skýrsla verði frekar til að ýta undir það. En fyrst og fremst tek ég út úr þessu að það þarf að breyta áherslum í atvinnupólitík okkar á þá leið að við verðum að búa til fleiri spennandi störf sem byggja á þekkingu heldur en við höfum verið að gera.“