Nýir og afar umdeildir búvörusamningar voru samþykktir á Alþingi í gær. Þeir munu kosta ríkissjóð yfir 130 milljarða króna á næstu tíu árum hið minnsta. Sú tala gæti hækkað þar sem samningarnir eru tvöfalt verðtryggðir. Samningarnir hafa verið harðlega gagnrýndir frá því að þeir voru undirritaðir í febrúar af núverandi leiðtogum ríkisstjórnarinnar. Gagnrýnin snýr helst að því að hagsmunir bænda og þeirra fyrirtækja sem njóta góðs að landbúnaðarkerfi Íslendinga hafi verið teknir fram yfir hagsmuni neytenda og skattgreiðenda við gerð þeirra, sérstaklega vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir þeim og að þeir eiga að gilda til tíu ára, eða í tvö og hálft kjörtímabil.
Þrátt fyrir háværa andstöðu og stór orð sem látin hafa verið falla í ræðustólum Alþingis um þá voru samningarnir samþykktir. En einungis 19 þingmenn, eða 30 prósent allra þingmanna, greiddu atkvæði með þeim. Sjö sögðu nei en aðrir sátu hjá eða voru ekki viðstaddir þessa gríðarlega mikilvægu og bindandi atkvæðagreiðslu sem mun móta eitt af lykilkerfum íslensks samfélags, hið ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi, næsta áratuginn.
Bjarni og Sigurður Ingi undirrituðu samninganna
Búvörusamningarnir eru fjórir samningar: Rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samningar um starfsskilyrði nautgriparæktar, sauðfjárræktar og garðyrkju.
Nýjustu samningarnir voru undirritaðir 19. febrúar síðastliðinn af fulltrúum bænda annars vegar og fulltrúum ríkisins. Fyrir hönd ríkisins skrifuðu Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi landbúnaðarráðherra og nú forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, undir samninganna.
Það sem vakti mesta athygli við samninganna var að þeir eiga að gilda til tíu ára. Greiðslur úr ríkissjóði vegna samningsins nema 132 milljörðum króna á samningstímanum, eða að meðaltali 13,2 milljarðar króna á ári. Auk þess eru samningarnir tvöfalt verðtryggðir. Þ.e. þeir taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga og eru „leiðréttir“ ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs verður önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu.
Í samningunum er stefnt að því að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt verði lagt niður. Hins vegar hefur verið ákveðið að halda núverandi stöðu óbreyttri um einhvern tíma og setja ákvörðun um afnám kvótakerfisins í atkvæðagreiðslu meðal bænda árið 2019.
Hörð gagnrýni
Undirritun samninganna vakti strax gríðarlega hörð viðbrögð. Sú gagnrýni snéri fyrst og síðast að þeim upphæðum sem þar eru undir og tímalengd samningsins. Þá var harðlega gagnrýnt að hagsmunir neytenda hefðu verið hundsaðir við gerð þeirra. Var þar meðal annars vísað í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann um mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi og kom út í júni 2015. Niðurstaða hennar var nokkuð skýr: Íslenska kerfið er meingallað og afar kostnaðarsamt fyrir ríkið og neytendur.
Kerfið gerir það að verkum að íslenska ríkið og eigendur þess, íslenskir neytendur, þurfa að borga um átta milljörðum krónum meira fyrir framleiðslu á henni en ef mjólkin hefði einfaldlega verið flutt inn frá öðru framleiðslulandi á árunum 2011 til 2013. Ríkið og neytendur borguðu 15,5 milljarða króna fyrir mjólkina á tímabilinu en innflutt mjólk, með flutningskostnaði, hefði kostað 7,5 milljarða króna. Reyndar var það svo að á tímabilinu sem um ræðir var framleitt meira af mjólk hérlendis en neytt var af henni. Neysla Íslendinga hefði einungis kostað tæplega 6,5 milljarða króna á ári. Offramleiðsla á niðurgreiddri mjólkinni kostaði neytendur og ríkið því milljarð til viðbótar.
Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu gagnrýndu samningana harðlega. Óljóst væri hvernig almenningur myndi njóta góðs af þeim og með þeim sé verið að viðhalda einokun á mjólkurmarkaði.
Stjórnarandstaðan setti fram margháttaða gagnrýni á samninganna og ýmsir þingmenn og forystufólk í Sjálfstæðisflokknum gagnrýndu þá harðlega, enda telja margir innan þess flokks að samningarnir séu í andstöðu við landsfundarályktanir hans.
Breytingartillögur lagðar fram
Í lok ágúst lagði meirihluti atvinnuveganefndar fram breytingartillögur á samningunum. Þar var lagt til að fella burt ákvæði um verðlag á landbúnaðarvörum og að heildaratkvæðagreiðsla um samningana yrði meðal bænda árið 2019. Skýrt yrði kveðið á um endurskoðunarákvæði innan þriggja ára. Þar sagði: „Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019. Skulu bændur eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.“ Tíu ára gildistími samninganna hélt sér hins vegar.
Engar frekari efnisbreytingar voru gerðar á samningunum milli annarrar og þriðju umræðu á þingi, þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi lagt fram breytingartillögur utan þess að bætt var við heimild til að fella niður greiðslur til bænda sem verða uppvísir að dýraníði.
Félag atvinnurekenda gagnrýndi breytingartillögurnar og sögðu þær ganga allt og skammt.
Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokk sögðu nei eða sátu hjá
Búvörusamningarnir voru svo samþykktir á þingi í gær. 19 þingmenn greiddu atkvæði með þeim en sjö sögðu nei. Alls sátu 16 þingmenn hjá, sjö voru með skráða fjarvist og 14 voru fjarverandi án skýringar.
Þeir þingmenn sem greiddu atkvæði með samningnum eru allir frá Framsóknarflokki (12 talsins) og Sjálfstæðisflokki (sjö talsins). Einn þeirra er Vilhjálmur Bjarnason, sem sagði í febrúar að hann gæti ekki stutt samninganna eins og þeir voru þá.
Þeir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn búvörusamningunum voru allir þingmenn Bjartrar framtíðar, sem höfðu lagt til að frumvarpi um samninganna yrði vísað frá og vinna við þá hafin að nýju með aðkomu fleiri aðila en bara ríkisins og bænda. Auk þeirra greiddi einn þingmaður Sjálfstæðisflokks, Sigríður Á. Andersen, atkvæði gegn samningunum. Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Birgir Ármannsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, sátu auk þess hjá við atkvæðagreiðsluna.
Athygli vakti að þorri stjórnarandstöðunnar sat annað hvort hjá við atkvæðagreiðsluna eða var fjarverandi þegar hún kom fram, sérstaklega vegna þess að „kerfisbreytingar“ eru tískuorðið hjá henni í aðdraganda komandi kosningum. Ein þeirra „kerfisbreytinga“ sem mikið hefur verið talað um innan raða þeirra, og úr ræðustól Alþingis, er grundvallarbreyting á landbúnaðarkerfinu.
Innan Pírata, sem mælst hafa með mest fylgi allra flokka undanfarin misseri, er mikil reiði með þá afstöðu þingmanna flokksins að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni, en það rökstuddu þeir með því að það sé viðmið hjá þeim að sitja hjá í þeim málum sem koma frá nefndum þar sem flokkurinn er ekki með aðalmenn í. Atvinnuveganefnd er ein slík. Því sé hjáseta í samræmi við viðmið Pírata um upplýsta ákvörðunartöku. Á Pírataspjallinu hafa þingmennirnir hins vegar verið gagnrýndir harðlega. Ein röksemdanna sem lögð var fram þar er sú að það hefði falist upplýst afstaða í því að hafna samningunum á grundvelli þess að í þeim væri verið væri að takmarka frelsi kjósenda til að hafa áhrif á landbúnaðarkerfið í áratug.
Ekki ríkistyrkur heldur niðurgreiðsla fyrir almenning
Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2í gær að það hefði komið honum á óvart að fimm þingmenn Sjálfstæðisflokks hefðu ekki stutt samninginn, þar sem hann hafi verið undirritaður af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni flokksins. „En þetta er komið í hús núna og nú verðum við bara að vinna eftir þessum samningi[...]Þessi samningur þýðir að nú eigum við að geta búið til stöðugleika til nokkuð langs tíma um þetta umhverfi. Bændur eiga nokkurn veginn að geta séð hvað bíður þeirra í framtíðinni[...]Það er ekkert óeðlilegt við það að við notum fjármuni til þess að tryggja íslenskan landbúnað eins og allir aðrir.“
Gunnar Bragi var ósammála því að um ríkisstyrktan búskap væri að ræða. „Er þetta ekki frekar niðurgreiddar vörur til almennings sem verið er að tryggja þarna? Heilnæmar og góðar vörur. Ég held að það sé þannig.“