Dönsk stjórnvöld ætla að vísa Gerardo José Lopez Rodriguz, 26 ára gömlum nemanda við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, CBS, úr landi. Ástæða brottvísunarinnar er óvenjuleg: Gerardo hefur verið of vinnusamur.
Gerardo er frá Venesúela. Á menntaskólaárunum fór hann sem skiptinemi til Evrópu. Félagar hans, sem fóru í skiptinám á sama tíma, árið 2007, völdu allir að fara til Þýskalands en Gerardo valdi Danmörku. Ástæða þess var að hann hélt mikið uppá knattspyrnumanninn Michael Laudrup sem gerði garðinn frægan með spænsku stórliðunum FC Barselona og Real Madrid. Í Danmörku gekk Gerardo í menntaskólann í smábænum Törring á Jótlandi og bjó, eins og reglurnar mæltu fyrir um, hjá þremur fjölskyldum. Hann var eini útlendingurinn í skólanum og lagði sig fram um að læra dönskuna. Hann sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að dvölin í Törring hafi verið frábær. „Ég eignaðist marga vini, og var staðráðinn í að snúa aftur til Danmerkur þegar ég hefði lokið námi heima í Venesúela."
Aftur til Danmerkur
Gerardo lét ekki sitja við orðin tóm. Eftir að hafa lokið grunnnámi heima í Venesúela og sparað saman lá leiðin aftur til Danmerkur. Að þessu sinni til Kaupmannahafnar. Hann komst inn í Viðskiptaháskólann og hóf þar nám haustið 2015. Skólagjöldin samsvara um það bil 1800 þúsund krónum íslenskum á ári. Til viðbótar þurfti Gerardo að hafa sem svarar einni milljón íslenskra króna á bankabókinni til að sýna að hann gæti klárað sig fyrsta kastið, án aðstoðar danska ríkisins.
Nemandi og næturvörður
Gerardo er af efnuðu fólki kominn. Foreldrar hans hafa alla tíð sagt honum að hann geti ekki treyst á að þau haldi honum uppi, hann verði sjálfur að sjá fyrir sér. Gerardo vissi að það sem hann hefði skrapað saman áður en hann kom til Kaupmannahafnar myndi ekki endast lengi og þess vegna fór hann strax að leita sér að vinnu með náminu. Fljótlega bauðst honum starf sem næturvörður á hóteli. Samkvæmt dönskum reglum mega erlendir námsmenn vinna eins og þá lystir yfir sumarið, júní, júlí og ágúst. Hina níu mánuði ársins mega stúdentar aðeins vinna 87 tíma á mánuði. Gerardo var að sögn hótelstjórans einstaklega samviskusamur starfsmaður og alltaf tilbúinn að hlaupa í skarðið þegar á þurfti að halda. Það átti eftir að koma honum í koll.
Sextíu og þrír og hálfur tími umfram
Í september, október, nóvember og desember í fyrra vann Gerardo samtals 411.5 klukkustundir. Það er 63.5 klukkustundum meira en reglurnar heimila, semsagt tæpar þrjár klukkustundir á viku umfram það sem leyfilegt er. Ekki kom þessi vinna niður á náminu því Gerardo var í hópi efstu nemenda að loknu fyrsta árinu. Fyrirkomulag námsins er með þeim hætti að þegar fyrsta árinu er lokið eiga nemendur að fara í „praktík” eins og það er kallað. Siemens fyrirtækið bauð Gerardo vinnu. Hann er altalandi á ensku, dönsku og portúgölsku, auk móðurmálsins spænsku. Hjá Siemens átti hann að byrja fyrsta september síðastliðinn. En þá kom skyndilega babb í bátinn.
Dvalarleyfið afturkallað
Fyrir nokkrum vikum fékk Geradro bréf frá skrifstofu innflytjendamála, undirstofnun innflytjendaráðuneytisins. Í bréfinu stóð að dvalarleyfi hans væri hérmeð afturkallað og honum gert skylt að hverfa frá Danmörku eigi síðar en 2. október næstkomandi. Í bréfinu kom fram að hann hefði unnið meira en lögin heimila og það þýddi einfaldlega afturköllun dvalarleyfis í landinu.
Gerardo viðurkennir að hann hafi vissulega unnið meira en reglurnar heimili. Hann hafi einfaldlega verið alltof samviskusamur og ekki sagt nei þegar vinnuveitandinn hringdi og vantaði mann á vaktina. „Ég er búinn að safna fyrir skólagjöldum næsta árs en nú veit ég ekki hvað gerist,” sagði Gerardo í viðtali.
Alltof ferköntuð lög segir lögmaðurinn
Gunnar Homann, lögmaður Gerardos, sagði í blaðaviðtali að þarna væri auðvitað verið að fylgja lögum. „en er það sanngjarnt að manni sem hefur það eitt til saka unnið að vinna þremur klukkustundum meira í viku hverri en lögin heimila skuli vísað úr landi? Ég segi nei, það er ekki sanngjarnt,” sagði lögmaðurinn. Og bætti við „Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hefur margoft sagt að Danmörk þurfi á að halda duglegum og vinnusömum erlendum námsmönnum sem ílendist í landinu. Gerardo er lýsandi dæmi um þetta sem Lars Lökke talar um en lögin hitta einmitt fyrir svona dugnaðarforka sem vilja sjá fyrir sér og bjarga sér á eigin spýtur. Þarna eru lögin allt of ósveigjanleg,“ sagði lögmaðurinn. Öll laun Gerardos hafi verið gefin upp til skatts og lögmaðurinn sagði jafnframt frá því að sama dag og Gerardo fékk bréfið um afturköllun dvalarleyfisins fékk hann bréf frá skattinum. Þar var tilkynnt um endurgreiðslu vegna ofgreiddra skatta. „Það eru einu peningarnir sem skjólstæðingur minn hefur fengið frá danska ríkinu,” sagði Gunnar Homann lögmaður.
Skólinn getur ekkert gert
Stjórnendur Viðskiptaháskólans lýsa Gerardo sem duglegum og samviskusömum nemanda sem hafi fallið vel inn í nemendahópinn. Þeir segja að vissulega hafi hann farið yfir þau mörk sem lögin heimila hvað vinnuna varði en benda á, eins og lögmaður Gerardos, að það sé einmitt svona fólk sem Danir vilji fá til landsins. Skólinn geti hins vegar ekkert gert.
Þingmenn vilja breytingar á lögunum
Mál Gerardos hefur vakið talsverða athygli í Danmörku. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum, nema Danska Þjóðarflokknum, hafa lýst yfir að þeir vilji breytingar á lögunum um dvalarleyfi. Tilgangur laganna sé að tryggja að til Danmerkur komi fólk ekki undir fölsku flaggi, þykist ætla í nám en sé í raun komið til landsins í atvinnuleit. Þingmaður sem dagblaðið Politiken ræddi við sagði að túlkun laganna væri í tilfelli Gerardos allt of þröng og ynni gegn tilganginum. Inger Støjberg ráðherra innflytjendamála er sama sinnis og hefur tilkynnt að stjórnin hyggist á næstunni leggja fram frumvarp með breyttum reglum. Þannig verði skylt að senda dvalarleyfishöfum, eins og til dæmis Gerardo, einskonar áminningarbréf, ef þeir hafi unnið meira en lögin heimila. En ekki að afturkalla dvalarleyfið án viðvörunar eins og nú er gert. Dugi slík áminning ekki verði dvalarleyfið fellt úr gildi. Ekki kom fram í máli ráðherrans hvenær frumvarpið verði lagt fram.
Vonar hið besta
Eins og áður sagði á Gerardo Rodriguez að fara frá Danmörku eigi síðar en 2. október næstkomandi. Þótt lögmaður hans vinni ötullega að því að fá þeirri ákvörðun breytt er óvíst að það takist. Sjálfur segist Gerardo að óbreyttu fara úr landi í lok þessa mánaðar þótt hann vonist eftir kraftaverki eins og hann orðaði það í blaðaviðtali. Ef hann verður að yfirgefa landið segir hann að þetta ár sem hann hefur lokið í Viðskiptaháskólanum sé tapað. „Ég bíð og vona hið besta”.