Síðastliðinn febrúar voru 37 ár síðan Ayatollah Khomeini kom aftur til Írans úr útlegð sinni frá París. Þar með urðu vatnaskil í stjórnmálum Írans og stuttu síðar var íslamskt lýðveldi stofnað. Síðan þá hafa miklar breytingar orðið á írönsku samfélagi, jafnt innanlands en einnig í samskiptum landsins við erlend ríki. Segja má að í dag sé mikil gerjun í írönsku samfélagi og ýmsir hópar eru farnir að kalla á aukin réttindi og viðurkenningu af hálfu stjórnvalda, þar á meðal samkynhneigðir. Enn í dag eru þeir samkvæmt laganna bókstaf réttdræpir. Í þessari grein verður fjallað um Ramtin og Farhod. Þeir eru báðir íranskir hommar en jafnframt aðgerðasinnar, eða „aktivistar“, sem barist hafa fyrir breytingum og þurft að gjalda fyrir það með frelsi sínu. Ramtin flúði að lokum land og þjóð og býr núna í Ístanbúl, en sú borg hefur orðið griðastaður samkynhneigðra flóttamanna víðs vegar frá Miðausturlöndum, eins og rætt var um í grein sem birtist í Kjarnanum fyrir um hálfu ári. Farhod aftur móti er enn búsettur í Tehran en hefur í hyggju að flýja land.
Ég hitti Ramtin fyrir framan Burger King, nálægt Taksim torgi í Ístanbúl, síðsumarkvöld fyrir um ári síðan. Ég var kominn eitthvað á undan og á meðan ég beið eftir honum horfði ég á fólksmergðina streyma niður Istikalgötu, helstu verslunargötu hverfisins. Svo mætti hann og þekkti ég hann um leið. Hann er brosmildur, hávaxinn og grannur, með tvo eyrnalokka í vinstra eyra. Þegar ég spurði hann út eyrnalokkana sagði hann að móðir hans hefði gefið honum annan þeirra. Bætti hann svo við: „Föðurfjölskyldan mín skilur ekkert í þessu með eyrnalokkana og kallar mig konu því einungis konur bera skartgripi.“ Viðhorf föðurfjölskyldu Ramtins eru í samræmi við ríkjandi viðhorf stjórnvalda í Íran sem krefjast þess að bæði kynin klæði sig hófsamlega og á hefðbundin hátt í samræmi við þeirra kyngervi. Hvers kyns frávik á borð við eyrnalokka eða þröngar gallabuxur í tilfelli pilta, varalitur eða litríkur fatnaður hjá stúlkum, getur gefið tilefni til þess að vera stoppaður og ávíttur af siðgæðislögreglunni. Írönsk ungmenni eru hins vegar í auknum mæli farin að storka stjórnvöldum með því að klæða sig upp á vestræna vísu; eitthvað sem að mati stjórnvalda samræmist ekki íslömskum gildum. Í samkvæmum í heimahúsum og í „neðanjarðar“ partýjum sleppa ungmennin svo fram af sér beislinu og upplifa algjört frelsi í klæðaburði og samskiptum við hitt kynið.
Í Tehran var mér boðið í „hommapartý“ og sá ég þar hvernig gestir klæddu sig öðruvísi innan veggja einkarýmisins, heldur en dagsdaglega. Ég ræddi meðal annars við Manziar sem sagðist vera trúaður múslimi, sinnti bænakalli og fastaði í Ramadan mánuði. Hann bar hins vegar eyrnalokk og þegar ég spurði hann út í það sagði hann: „Þetta er segull, ekki gat. Karlmenn í Íran geta ekki haft gat í eyra, allavega ekki ef þeir ætla að falla að normi samfélagsins. Þú lendir í vandræðum fyrr eða síðar“.
Ramtin hóf sögu sína þegar við settumst niður við Galatasarai turninn. Frásögnin tók á hann og sá ég tár myndast í hvörmum hans. Hann er 26 ára og á rætur að rekja til Tabriz í Norður-Íran, svæði sem tilheyrir íranska hluta Azerbaijdan. Föðurfjölskylda hans er mjög trúuð og leggur áherslu á hefðbundin gildi að hans sögn. Eftir að hann kom út úr skápnum hafnaði hún honum og upplifði hann stöðugt ofbeldi af þeirra hálfu, aðallega andlegt: „Þau segja að samkynhneigð sé sjúkdómur.“ Í Íran er hin opinbera orðræða einmitt í þá veru: samkynhneigð er sjúkdómur sem á rætur að rekja til Vesturlanda. Það þurfi því að uppræta þessa „plágu“ með öllum tiltækum ráðum. Móðir Ramtins var hins vegar hans stoð og stytta á meðan hún lifði og reyndi að skilja hann. „Hún var sú eina sem skildi mig og elskaði mig,“ sagði Ramtin og tók ég eftir að tár brutust fram hjá honum. Eftir að hún dó fyrir um ári síðan, voru fáir eftir sem hann gat reitt sig á og það var líka þá sem hann fór að hugsa um að flýja land.
Ramtin rekur andúð föðurfjölskyldunnar í sinn garð til trúarbragða og þess áróður sem stjórnvöld hafa uppi um samkynhneigð: „Þetta eru fasistar, klerkarnir sem predika gegn fólki eins og mér og svo öryggissveitir ríkisins og siðgæðislögreglan sem gerir allt til að koma höggi á okkur, allt saman auðvitað í nafni trúarinnar.“ Sama sagði hann um núverandi stjórnvöld í Tyrklandi sem væru innblásin af trúareldmóð þar sem margbreytileiki, einkum á grundvelli kynhneigðar og kyngervis, hefði ekkert rými. Minntist hann þess er gleðigangan var brotin á bak aftur í júní 2015. Lenti hann sjálfur í táragasárás lögreglu og varð fyrir kylfuhöggum lögreglusveita ríkisins. En segja má að mótlætið hafi styrkt hann og gert hann ákveðnari í því að streitast á móti. Hann skilgreinir sig því sem „gay aktivista“:„Í Íran klæddi ég mig oft á ögrandi hátt, ekki í samræmi við normið, og lenti oft í siðgæðislögreglunni. Ég var líka meðlimur í litlum hóp aktivista sem vildi reyna að ögra og storka yfirvöldum. Eitt sinn flaggaði ég regnbogafánanum rétt utan við Tehran og við tókum myndband og settum á netið.“
Eftir það breyttist allt saman. Hann og vinir hans voru handteknir og sátu í fangelsi um tíma. Eftir að þeim var sleppt ákváðu þeir að slíta öll tengsl þar sem þeir voru hræddir um að fylgst væri með þeim og að símar væru hleraðir. Þetta urðu líka ákveðin vatnaskil í lífi Ramtins: „Ég ákvað að yfirgefa Íran. Það var ekkert sem hélt mér lengur í Íran.“ Hann sótti því um vegabréf og svokallaða undanþágu frá herskyldu en hana fá þeir sem skilgreindir eru „sjúkir“ í Íran. Í hans tilfelli var samkynhneigð vísun á sjúkdóm. Leiðin lá síðan til Tyrklands þar sem hann fékk stöðu flóttamanns fyrir um ári síðan. Hann býr þar með öðrum írönskum hommum sem flúið hafa land og þreytir þorrann og góuna með peningasendingum frá móðurfjölskyldunni og illra borgaðri íhlaupavinnu. Ramtin er hins vegar vongóður og bjartsýnn. Hann eygir von um að komast að lokum til Evrópu eða Kanada þar sem hann getur verið hann sjálfur án þess að þurfa fela sig eða verða fyrir aðkasti. „Þar ríkir frelsi, þar er hægt að trúa á hvað sem er. Gandálfur er minn guð,“ sagði Ramtin að lokum þegar við kvöddumst við eina af hliðargötum Istikalgötu.
Víkur þá sögunni að Farhod. Ég bjó hjá Farhod og kærasta hans, Baziar, í nokkra daga þegar ég heimsótti Tehran fyrir um ári síðan; ein af mörgum heimsóknum mínum til Írans. Við komum okkur vel fyrir í stofunni eftir að Baziar hafði farið til vinnu og drukkum te saman og ræddum málin. Ég bað þá Farhod að segja mér sögu sína. Hann kemur frá Isfahan sem er þekkt fyrir hinar glæsilegu byggingar, hallir og moskur í kringum eitt aðaltorg borgarinnar. Hann hafði snemma gert sér grein fyrir því að hann hneigðist til karlmanna en hélt því leyndu og sagði engum frá því. Enn í dag veit fjölskyldan ekkert um hans hagi. „Eitt sinni spurði bróðir minn hvers vegna ég byggi með Baziar. Ég svaraði að það væri einfaldlega hagkvæmara, deila leigunni með öðrum. Þá spurði bróðir minn mig hvort ég væri ekki bara hommi og ég bara hló án þess að svara.“
Fljótlega barst talið að mótmælum og baráttu fyrir opnara samfélagi. Farhod segist lengi vel hafa verið virkur í ýmiss konar mótmælahreyfingum og hafa byrjað snemma sem aðgerðasinni fyrir auknum réttindum minnihlutahópa og opins samfélags. „Þegar ég var stúdent í Tabriz fór ég að stjórna fundum og skipuleggja mótmæli. Þar var ég fyrst handtekinn en sleppt stuttu síðar.“ Eftir það fór hann til höfuðborgarinnar Tehran þar sem hann hélt áfram þátttöku sinni í ýmiss konar umbótahreyfingum. Þar tók hann þátt í mótmælum og var aftur handtekinn. „Ég sat inni í hótel-Evin í eina viku.“ Farhod er hér að vísa til hins alræmda Evin fangelsis í Tehran, þar sem pólitískir andstæðingar stjórnvalda og þeir sem á einhvern hátt mótmæla ríkjandi fyrirkomulagi eru vistaðir, oft á tíðum við skelfilegan aðbúnað og pyntingar. Eftir viku í Evin skrifaði hann undir yfirlýsingu þar sem hann hét því að hann myndi aldrei taka aftur þátt í mótmælum. „Ég gat hins vegar ekki hætt að mótmæla,“ sagði Farhod og sneri nú til heimaborgar sinnar Isfahan. Þar hóf hann aftur virka þátttöku í mótmælum enda var „græna byltingin“ brostin á.
„Græna byltingin“ voru mótmæli sem brutust út árið 2009 eftir forsetakosningarnar en þá mótmæltu margir Íranir, einkum ungt fólk, endurkjöri Ahmadinijads, sem tilheyrði íhaldsarmi samfélagsins og var studdur af klerkaveldinu. Megin andstæðingur hans Mir Mousavi, var í augum jaðarhópa og ungs fólks holdgervingur frelsis og umbóta. Urðu því gífurleg vonbrigði meðal margra Írana þegar Ahmadinijad bar nauman sigur úr bítum og var talið að um kosningasvik hefði verið að ræða. Mótmælin voru brotin á bak aftur af yfirvöldum og stuðningssveitum Ahmadinijads og kostuðu þau fjölmörg mannslíf og lentu margir í fangelsi. Farhod var þar á meðal. Dag einn þegar hann var að rölta heim eftir mótmæli þá sá hann lögregluþjón berja unga konu. „Ég spurði hann hvers vegna hann sé að berja varnarlausa konu og hann segir mér að skipta sér ekki af þessu. Ég varð svo reiður að ég réðst á hann og kom konunni til bjargar. Þá komu fleiri lögregluþjónar og snéru mig niður.“ Að lokum er Farhod settur í járn og færður á lögreglustöð þar sem hann er barinn til óbóta. „Ég hló bara og setti upp v-merkið. Ég hélt að þetta yrði eins og áður þegar ég var handtekinn, sleppt stuttu síðar.“ En raunin varð hins vegar önnur enda töldu stjórnvöld sig hafa rétt til að berja niður „grænu byltinguna“ með öllum tiltækum ráðum.
Farhod var pyntaður herfilega. Fyrst var hann barinn með kylfum. Því næst var hann afklæddur og hafður í klefa sem var við frostmark. Svo var hann hengdur upp öfugur (haus sneri niður) og rafmagn leitt í magann á honum. „Þegar maður snýr svona öfugt, fer allt blóðið niður í haus og þá magnast allt upp þegar þeir settu rafmagnið í mig, gáfu mér stuð. Það var eins og hausinn á mér væri að springa.“ Tilgangur með pyntingunum að hans sögn var sá að fá hann til að skrifa undir játningu. Það gerði hann eftir að hafa þolað pyntingar í um viku. „Ég hefði skrifað undir hvað sem er,“ sagði Farhod. Eftir það var farið með hann í dómsal þar sem dómur var kveðinn upp yfir honum. „Ég sagði dómaranum að ég hefði verið pyntaður en hann hlustaði ekki á það.“ Farhod fékk mánaðar fangelsisdóm og var farið með hann í sérstaka öryggisálmu fyrir „hættulega“ fanga, sem voru aðallega þar af pólitískum ástæðum. „Þar var ég látinn dúsa í litlum klefa með átta öðrum föngum. Einn klefafélagi minn var múlla (prestur). Þegar hann vildi fara með bæn og biðja til allah um að hann myndi að lokum hjálpa þeim út úr prísundinni sagði ég að þetta væri lokpunkturinn. Allah mun ekkert hlusta á okkur.“
Fjölskylda hans vissi ekkert hvað um hefði orðið eða hvað um hann varð. Hann náði að lokum að koma skilaboðum til þeirra þegar klefafélagi hans losnaði úr fangelsinu. Sá hringdi úr almenningssíma í fjölskylduna og sagði hvar Farhod væri niðurkominn. Svo skellti hann á. Fjölskylda hans kom í fangelsið fjórum sinnum og spurði um hann en fékk alltaf þau svör að hann væri ekki þar. Eftir mánuð var honum svo sleppt og fór hann þá heim til sín, skemmdur á sál og líkama. Hann þurfti síðar að koma aftur fyrir dómara og var hann þá fárveikur eftir dvöl sína í fangelsinu. „Ég sé ekki eftir neinu. Ég er ánægður í dag og sé hlutina í öðru ljósi.“ Í dag býr Farhod í Tehran en hefur í hyggju að flýja Íran fljótlega. „Það er ekki hægt að búa í Íran. Ég er samkynhneigður en jafnframt óvinur ríkisins. Ég fæ hvergi vinnu og get ekki byggt upp líf mitt hér.“ Í dag er Farhod að vinna að heimildamynd um stöðu og reynslu homma í Íran.
Frásagnir Ramtins og Farhods gefa sýn inn í líf homma í Íran og hvernig þeir þrátt fyrir fordóma og ofsóknir, reyna að skapa sér rými og streitast á móti ríkjandi gildum, í þeirri von að fyrr eða síðar muni samfélagið taka breytingum í átt til aukins umburðalyndis og lýðræðis. Næstu grein verður fjallað um stöðu hinsegin fólks í Indónesíu.