Lífeyristökualdur þeirra sem greiða í opinbera lífeyrissjóði verður hækkaður úr 65 ára í 67 ára og ríkisábyrgð á opinberum lífeyrissjóðum verður afnumin. Iðgjöld verða áfram 15,5 prósent líkt og þau verða hækkuð í í almenna kerfinu út árið 2018. Á móti mun íslenska ríkið og sveitarfélög borga niður þann halla sem er á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og A-deildar Brúar (lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga), en samtals nema áfallnar skuldbindingar umfram eignir þeirra um 120 milljörðum króna. Þetta mun hið opinbera geta gert vegna stöðugleikaframlaga sem greiddust inn í ríkissjóð í ár og munu skila honum í yfir 300 milljarða króna afgangi þrátt fyrir ofangreinda greiðslu. Alls greiða um 35 þúsund manns í þessa tvo sjóði.
Samhliða verður unnið að því að jafna laun milli þeirra sem starfa hjá hinu opinbera og þeirra sem starfa á almennum markaði. Þeirri jöfnun á að ná innan áratugar, en í dag eru laun á almennum markaði umtalsvert hærri.
Þetta er niðurstaða samkomulags sem Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu í dag. Frumvarp um efni samkomulagsins hefur þegar verið samþykkt í ríkisstjórn og verður lagt fyrir Alþingi í vikunni. Verði frumvarpið að lögum verður markmið sem stefnt hefur verið að árum, ef ekki áratugum saman, að veruleika. Að eitt samræmt lífeyriskerfi verði fyrir allt launafólk á Íslandi óháð því hvort það vinni fyrir hið opinbera eða á hinum almenna markaði og að launakjör milli markaðanna tveggja verði jöfnuð.
Sjóðir ríkisins ekki lengur tómir
Á Íslandi hefur lengst af verið tvöfalt lífeyrissjóðakerfi, eitt fyrir opinbera starfsmenn og hitt fyrir alla hina. Í opinbera kerfinu fór lífeyrisávinnslan ekki eftir gengi sjóðanna heldur var hún tryggð. Ef opinberu lífeyrissjóðirnir áttu ekki fyrir því sjóðfélagar höfðu unnið sér inn í réttindi þá bar launagreiðandanum, hinum opinbera, einfaldlega að hækka iðgjaldagreiðslur sínar til að mæta muninum. Í almenna kerfinu eru réttindi hins vegar skert til að mæta halla á sjóði og aukin þegar afkoma þeirra er góð. Auk þess gátu opinberir starfsmenn farið fyrr á eftirlaun, við 65 ára aldur, en þeir sem störfuðu hjá einkafyrirtækjum, sem geta ekki hætt að vinna fyrir en þeir verða 67 ára.
Þessi staða hefur gert það að verkum að opinberir starfsmenn hafa unnið sér inn betri lífeyrisréttindi en á móti hafa laun þeirra að jafnaði verið lægri en tíðkast á almennum vinnumarkaði. Og ríkið hefur skuldað tugi milljarða króna vegna réttinda sem sjóðfélagar A-deilda opinberra sjóða hafa unnið sér inn, en eru ekki fjármagnaðar.
Árum saman hefur verið reynt að vinna að lausn á þessari stöðu og samræma opinbera og almenna lífeyrissjóðakerfið. Helstu ásteytingarefnin hafa verið þau að stéttarfélög opinberra starfsmanna hafa vilja fá hærri laun gegn því að gefa eftir betri lífeyri og að tryggt væri að áunnin lífeyrisréttindi yrðu ekki skert með neinum hætti.
Hið opinbera, ríkið og sveitarfélög, hafa átt í erfiðleikum með að mæta þessum kröfum síðustu ár, enda hafa sjóðir þeirra að mestu verið tómir. En það eru þeir ekki lengur.
Ríkið greiðir 120 milljarða króna til að ná samkomulagi
Stóru breytingarnar á opinbera kerfinu sem gerðar vera í kjölfar samkomulagsins eru þær að sjóðsöfnun opinberu sjóðanna mun byggja á föstum iðgjöldum og ávinnsla þeirra verður aldurstengd. Það þýðir að réttindi verða skert eða aukin eftir afkomu sjóðanna og því yngri sem fólk er þegar það byrjar að greiða, því verðmætari verða réttindi þeirra.
Samhliða verður ábyrgð launagreiðenda, ríkis og sveitarfélaga, á sjóðunum afnumin og lífeyristökualdurinn hækkaður í 67 ár. Núverandi sjóðfélagar mega hins vegar fara á eftirlaun við 65 ára aldur, kjósi þeir svo.
Á móti ætlar ríkið, sem á nú fé til að taka á þessu langvinna vandamáli, að greiða 120 milljarða króna í sérstaka lífeyrisaukasjóði og 10,8 milljarða króna í varúðarsjóði til stuðnings.
Ríkið leggur LSR til 91,3 milljarða króna Af þessari upphæð eru 57 milljarðar króna til að mæta halla á A-deild LSR, tíu milljarðar króna vegna breyttra forsendna um dánarlíkur (Íslendingar eru einfaldlega að lifa mun lengur en áður var búist við) og 24,4 milljarðar króna vegna hækkunar á lífeyristökualdri. Sveitarfélögin leggja til 28 milljarða króna í lífeyrisaukasjóð A- deildar Brúar. Samkvæmt samningi ríkis og sveitarfélaga felst í framlagi ríkissjóðs yfirtaka á hlut sveitarfélaganna í skuldbindingum þeirra í A–deild LSR sem nemur 20,1 milljarða króna. Auk þess leggja ríki og sveitarfélög til 10,8 milljarða króna í varúðarsjóði til stuðnings. Ef sjóðirnir eru ósnertir að 20 árum liðnum ganga þeir aftur til opinberra launagreiðenda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Ríkið greiðir sinn hluta með þrennu móti. Það framselur eignir til LSR, það lætur af hendi reiðufé og það eykur beinar skuldir sínar með útgáfu ríkisverðbréfa. Fjármögnun sveitarfélaga felst í skuldayfirlýsingu til langs tíma.
Laun jöfnuð innan áratugar
Samkomulagið sem kynnt var í morgun er tímamótasamkomulag sem skiptir miklu fyrir t.d. uppbyggingu nýs vinnumarkaðslíkans sem notast á við kjarasamningagerð á Íslandi. Með því að samræma lífeyriskerfin er loksins hægt að nálgast kjarasamninga heildrænt og vinna skipulega að því að koma í veg fyrir að höfrungahlaup launahækkanna grafi alltaf undan helsta markmiði þeirra; að bæta kjör íslenskra launamanna.
Nýtt samningslíkan, sem kynnt var fyrir um ári og byggði á vinnu hins svokallaða SALEK-hóps gerði ráð fyrir grundvallarbreytingum á þeim kerfum sem voru til staðar á íslenskum vinnumarkaði, þ.e. að tryggja opinberum starfsmönnum aukna hlutdeild í launaskriði á almenna vinnumarkaðnum og að jafna lífeyrisréttindi. Samkomulagið sem undirritað var í dag á að ná báðum þessum markmiðum.
Með því verður lífeyriskerfi landsmanna fullfjármagnað og sjálfbært. Allt launafólk mun héðan í frá njóta sambærilegra lífeyrisréttinda óháð því hvort það vinnur hjá hinu opinbera á einkamarkaði. Í samkomulaginu var tryggt að réttindi núverandi félaga í A-deildum opinberu sjóðanna verði jafn verðmæt og þau voru fyrir. Þetta er annað lykilatriði samkomulagsins.
Hitt lykilatriðið er að samkvæmt samkomulaginu verður stefnt að því að launakjör fólks á opinberum og almennum vinnumarkaði verði jöfnuð. Þetta markmið á að nást innan áratugar. Settur verður á fót samráðshópur opinberra launagreiðenda og heildarsamtaka opinberra starfsmanna til að ná markmiðinu og á það að nást með útfærslu í kjarasamningum.