Hinn framúrskarandi leiðtogi, ungi meistarinn, hinn mikli arftaki, hinn ungi hershöfðingi og hinn afburðarsnjalli félagi. Þetta eru aðeins nokkur af þeim titlum og viðurnefnum sem Kim Jong-un, einræðisherra Norður Kóreu getur prýtt sig af. Í daglegu tali íbúa er hann þó yfirleitt kallaður Jong-un marskálkur. Í dag eru tæplega fimm ár síðan Jong-un tók við völdum. En hver er þessi ungi maður sem heimurinn hlær að taugaóstyrkum hlátri?
Kim-veldið
Það er ekki vitað hvaða ár Kim Jong-un, sonur einræðisherrans Kim Jong-il, er fæddur. Það er þó vitað að hann á afmæli þann 8. janúar, enda er það nú hátíðardagur í Norður Kóreu. Japanskt dagblað fullyrti að hann væri fæddur árið 1982 en aðrir telja líklegra að það sé árið 1983 eða 1984. Hvort sem er þá er Kim Jong-un yngsti þjóðhöfðingi heims því sá næst yngsti, Tamim bin Hamad Al Thani emírinn af Qatar, er 36 ára. Það er ekki að furða að ýmislegt sé á huldu varðandi Kim Jong-un. Allt frá upphafi norður-kóreyska ríkisins hefur ríkt mikil leynd yfir fjölskyldumálum leiðtoga ríkisins en Jong-un er þriðji leiðtoginn í 68 ára sögu þess.
Sá fyrsti var afi hans Kim Il-sung sem ríkti í 46 ár og er ennþá titlaður sem leiðtogi landsins, hinn eilífi leiðtogi. Il-sung barðist með kínverskum kommúnistum gegn Japönum í seinni heimstyrjöldinni og var gerður að leiðtoga kóreyskra kommúnista af Sovétmönnum þegar hið nýja ríki Alþýðulýðveldið Kórea var stofnað árið 1948. Tveimur árum síðar hóf hann stríð við nágrannana á suðurhluta Kóreuskagans og Bandaríkjamenn sem kostaði milljónir manna lífið. Alþýðulýðveldið, sem er í daglegu tali kallað Norður Kórea, naut mikils stuðnings Sovétríkjanna á meðan þau lifðu. Því var efnahagur landsins í sæmilegu horfi mest alla stjórnartíð Kim Il-sung.
Kim Il-sung lést árið 1994 og þá tók sonur hans, Kim Jong-il, við stjórnartaumunum. Stjórnartíð Jong-il hófst mjög erfiðlega þar sem Sovétríkin voru ekki lengur til staðar. Um miðjan tíunda áratuginn reið mikil hungursneyð yfir landið og talið er að a.m.k. nokkur hundruð þúsund manns hafi látist vegna hennar. Jong-il var kallaður hinn kæri leiðtogi sem gæti varla verið meira fjarri sannleikanum. Hann var mun harðari stjórnandi en faðir sinn og hernaðarsinnaðri. Undir hans stjórn varð Norður Kórea kjarnorkuveldi árið 2006.
Jarðvegurinn undirbúinn
Mikil leynd hvíldi yfir fjölskyldumálum Kim Jong-il alla tíð. Það var vitað að hann ætti bæði eiginkonur og hjákonur og eitthvað af börnum en þeim var algerlega haldið utan sviðsljóssins. Þegar Jong-il tók við völdum var strax farið að velta vöngum yfir hugsanlegum arftökum hans og var þá sérstaklega litið til elsta sonar hans Kim Jong-nam. Jong-nam er fæddur árið 1971, sonur einnar hjákonu Jong-il. Þær áætlanir fuku þó út um gluggann árið 2001 þegar hann var handtekinn á flugvelli í Japan. Jong-nam hafði reynt að komast til landsins á fölsuðum skilríkjum og ástæðan var sú að hann ætlaði að heimsækja Disneyland í Tókýó. Þetta þótti mikil niðurlæging fyrir Norður Kóreu og Kim fjölskylduna. Jong-nam hefur búið í sjálfskipaðri útlegð í Macau og Singapúr síðan þá.
Þá var litið til Kim Jong-un, þriðja sonar einræðisherrans, sem var á þeim tíma aðeins táningur. Annar sonurinn, Kim Jong-chul fæddur 1981, þótti of linur og kvenlegur til að stjórna að mati Jong-il. Jong-un, Jong-chul og yngri systir þeirra Kim Yo-jong, sem er líklega fædd árið 1987, höfðu dvalið mest allan tíunda áratuginn í Sviss. Þar stunduðu þau nám í skóla fyrir útlendinga rétt utan við höfuðborgina Bern og bjuggu öll undir dulnefnum. Kim Jong-un gekk undir nafninu Pak-un. Honum gekk illa í námi og tengdist bekkjarsystkinum sínum lítið. Um aldamótin 2000 sneri hann heim og gekk skömmu seinna í Kim Il-sung háskólann í Pyongyang þar sem talið er að hann hafi lært eðlisfræði. Einnig var hann um stund í Kim Il-sung herskólanum. Jong-un lauk námi í kringum 2007 og skömmu seinna er hann kynntur fyrir verðandi eiginkonu sinni, sönkonunni Ri Sol-ju. Talið er að þau hafi verið gefin saman árið 2009.
Árið 2008 fór heilsu Kim Jong-il að hraka verulega og það sama ár fékk hann heilablóðfall. Þá hófst undirbúningur að því að Kim Jong-un tæki við stjórnartaumunum. Það var gert með því að koma honum í alls kyns stöður innan kerfisins og þá sérstaklega hjá mikilvægustu stofnum landsins, hernum. Jong-un var samstundis gerður að hershöfðingja en án nokkurrar teljandi reynslu af hermálum. Einnig fékk hann ýmsar stöður hjá Verkamannaflokki Kóreu (þeim eina sem leyfður er í landinu) og þinginu. Kim Jong-il hafði áhyggjur af því að einhver annar en Jong-un gæti gert atlögu að leiðtogastólnum að honum látnum. Þá hafði hann sérstakar áhyggjur af mági sínum, Jang Sung-taek. Í upphafi árs 2011 voru um 200 manns innan flokksins annað hvort fangelsaðir eða teknir af lífi. Margir af þeim voru tengdir Sung-taek en Jong-il ákvað að freista þess að Sung-taek styddi son sinn. Þann 17. desember sama ár dó Kim Jong-il og í örfáa daga ríkti nokkur óvissa um framhaldið. Andlátið bar brátt að og sumir töldu að Jong-un væri ekki reiðubúinn að taka við völdum. Það reyndist þó alrangt. Á aðfangadag tók Jong-un við stjórn hersins og á næstu dögum og vikum á eftir kepptust allar stofnanir og fjölmiðlar landsins við að sverja honum hollustu. Þessi 27-29 ára gamli maður var þar með orðinn leiðtogi kjarnorkuveldis.
Ímyndin sköpuð
Aðeins skömmu áður en að Kim Jong-il lést fékk norður kóreyskur almenningur að kynnast Kim Jong-un. Það var vitaskuld gert með hjálp áróðursvél ríkisins. Kim Il-sung kom henni á fót á sjötta áratugnum og hefur hún eflst stöðugt síðan þá. Persónudýrkunin er yfirgengileg. Leiðtogar landsins eru málaðir sem hálfguðlegar verur og íbúarnir eru stanslaust minntir á yfirburði þeirra. Eftir rúm 60 ár af heilaþvotti var auðvelt fyrir áróðursvélina að hæna þjóðina að hinum nýja leiðtoga. Kim Jong-un tók áróðurs og ímyndarmálin strax föstum tökum. Hann vissi vel að afi sinn Kim Il-sung var miklu vinsælli heldur en faðir hans hafði verið því á tímum Il-sung svalt fólk ekki í hel. Il-sung var einnig mun jákvæðari, opnari og hlýrri persóna en sonur sinn út á við. Jong-un ákvað því að herma eftir afa sínum í útliti og í fasi. Mikið hefur verið hlegið á Vesturlöndum að hinni sérstöku hárgreiðslu Jong-un. En þetta er nákvæmlega sama klipping og afi hans bar á sínum fyrstu valdaárum. Rétt eins og Il-sung þá er Jong-un nokkuð þybbinn og andlitsdrættirnir þykja sláandi líkir, svo líkir að sumir halda því fram að Jong-un hafi látið lýtalækna breyta andliti sínu. Kim Jong-un eyðir miklum tíma með almenningi og er talið að systir hans Kim Yo-yong aðstoði hann við að nálgast fólkið. Hann talar við fólk, kemur inn á heimili þeirra, lætur mynda sig með því og heldur ræður bæði í sjónvarpi og á opinberum stöðum. Meira að segja kom hann fram haltrandi við staf eftir aðgerð á ökkla árið 2014. Þetta er algjör umturnun frá tíma Jong-il sem var mjög fráhverfur almenningi, stamaði mikið, átti erfitt með að tjá sig og að tengjast fólki. Kim Jong-un passar einnig upp á að brosa mikið, rétt eins og afi sinn sem var oft kallaður sól mannkyns.
En Jong-un gerir sér fullkomlega grein fyrir því að afi hans var ekki elskaður út á breiða brosið og þybbnu kinnarnar. Aðgerðir þurfa að fylgja til að bæta efnahag landsins og lífskjör almennings. Utan Pyongyang býr stór hluti fólks enn við hungurmörk. Skömmu eftir að Jong-un tók við völdum tilkynnti hann áform um umbætur í efnahags og markaðsmálum þjóðarbúsins, t.a.m. í landbúnaði. Þá leit hann helst til Kína og þeirra umbóta sem Deng Xiaoping kom í gegn þar í landi á níunda áratugnum. Þar til nú hefur grundvöllur Norður Kóreu ríkisins ávallt verið stefna sem nefnd er Juche. Það er eins konar blanda af hefðbundnum kommúnisma og sjálfsþurftarstefnu sem heimamenn segja að sé sér-kóreysk. Kim Jong-un er hins vegar fyrsti leiðtogi landsins til að horfa til út fyrir landssteinana. Hann horfir ekki einungis til Kína heldur hefur hann fengið töluvert af erlendum hagfræðiráðgjöfum til landsins og hleypt mörgum af eigin þegnum úr landi til náms. Jong-un þykir einnig nútímalegri en fyrri leiðtogar. Hann hefur látið byggja skemmtigarða, skíðasvæði og fleiri staði til afþreyingar (einungis fyrir efnað fólk frá Pyonyang samt).
Eiginkona Jong-un fylgir honum iðulega í opinberum heimsóknum og hún er yfirleitt klædd í tískufatnað sem er hvoru tveggja mjög óvenjulegt í Norður Kóreu. Frá barnsaldri hefur Jong-un verið mikill áhugamaður um körfubolta og hann komst í kynni við fyrrum NBA stjörnuna Dennis Rodman. Árið 2013 heimsótti Rodman Norður Kóreu ásamt Kenny Anderson, Vin Baker og fleiri gömlum NBA kempum og spiluðu þeir sýningaleiki þar í landi. Það var Dennis Rodman sem staðfesti þann orðróm að Kim Jong-un og kona hans hefðu eignast dóttur árið 2012. Árið 2015 var svo vestrænni hljómsveit leyft að spila í landinu í fyrsta sinn, þ.e. slóvensku þungarokkshljómsveitinni Laibach. Allt þetta hefði verið óhugsandi á tíma Jong-il. Á vestrænan mælikvarða eru þetta hænuskref en fyrir land sem hefur verið staðnað í meira en hálfa öld eru þetta töluvert mikil umskipti.
Hreinsanir og hótanir
Norður Kórea er líkt og svo mörg kommúnistaríki seinustu aldar byggt á tortryggni og jafnvel vænisýki. Reglulega hafa verið gerðar hreinsanir á öllum þeim sem foringjarnir hafa ekki treyst 100% og valdatíð Kim Jong-un er þar engin undantekning. Eftir að hann tók við stjórn hersins hefur hann kerfisbundið komið æðstu herforingjunum frá og sennilega hafa þeir verið teknir af lífi. Í dag eru nánast engir herforingjar eftir sem þjónuðu föður hans. Einn af þessum herforingjum var áðurnefndur Jang Sung-taek, eiginmaður föðursystur hans og næstráðandi í ríkinu. Yfirleitt fara hreinsanir Norður Kóreumanna fram í kyrrþey en Sung-taek var ákærður opinberlega fyrir tilraun til valdaráns. Hann var dæmdur til dauða og leiddur fyrir aftökusveit þann 12. desember árið 2013. Fjöldi skyldmenna Sung-taek sem m.a. gengdu stöðum herforingja og sendiherra voru einnig tekin af lífi um sama leyti. Í stað þeirra sem lent hafa í hreinsununum hefur Jong-un komið fyrir sínum eigin bandamönnum.
Það sem vekur hvað mesta eftirtekt og ugg hjá alþjóðasamfélaginu er hversu herskár hinn ungi leiðtogi er. Hann virðist mun fjandsamlegri og viljugri til hernarðaðgerða gegn óvinaríkjum Norður Kóreu (Suður Kóreu, Japan og Bandaríkjunum) en faðir hans var. Þegar Kóreustríðinu milli norðurs og suðurs lauk árið 1953 var samið um vopnahlé en aldrei frið. Því myndaðist svæði milli ríkjanna sem kallað er óvopnaða svæðið en líklega eru hvergi á jarðkringlunni meiri vopn og einmitt þar. Kim Jong-un heimsækir herstöðvar sínar á svæðinu reglulega. Þaðan er auðveldlega hægt að skjóta á Seoul, höfuðborg Suður Kóreu sem er aðeins nokkrum kílómetrum sunnan við óvopnaða svæðið. Í Seoul og nágrenni búa um 25 milljón manns, fleiri en í allri Norður Kóreu samanlagt. Jong-un hefur haldið fast við stefnu föður síns, herinn fyrst. Heræfingar hafa aukist til muna og vopnin verið endurnýjuð. Í norður kóreyska hernum eru um 1 milljón fastamenn sem gera um 4% af íbúum landsins, bæði karlar og konur. Auk þess eru um 6 milljónir í varaliðinu sem hægt er að kalla til með litlum fyrirvara. Hlutfallslega er Norður Kórea því lang vígvæddasta ríki jarðar. Kim Jong-un hefur ekki aðeins aukið á vígbúnaðinn í hinum veraldlega skilningi. Hin svokallaða Deild 121 innan hersins sinnir tölvuárásum. Hún var stofnuð árið 1998 en hefur eflst til muna undir stjórn Jong-un. Deild 121 hefur á undanförnum árum ítrekað ráðist á suður kóreyskar ríkisstofnanir, banka og fjölmiðlafyrirtæki.
Kjarnorkuváin er aftur á móti það sem umheimurinn hefur langmestar áhyggjur af þegar kemur að norður kóreyskum vígbúnaði. Kim Jong-un hefur haldið kjarnorkuáætlun föður síns áfram þrátt fyrir fordæmingu heimsins. Þann 9. september síðastliðinn sprengdu Norður Kóreumenn sína stærstu tilraunasprengju til þessa, í norðausturhluta landsins. Áhyggjurnar eru ekki einungis bundnar við það að þeir noti vopnin sjálfir, heldur einnig við það að þeir selji vopnin og tæknina til annarra ríkja eða hryðjuverkasamtaka. Sumir hafa þó bent á að hernaðarmáttur og kjarnorkuógn Norður Kóreumanna sé einungis tæki til þess að lifa af og hættan á raunverulegri árás sé minniháttar. Reglulega koma fyrir atburðir þar sem Norður Kóreumenn minna á sig. Þeir vilja ekki láta taka sér sem sjálfsögðum hlut og þeir vilja að heimurinn sé svolítið hræddur við þá eða a.m.k. standi ekki á sama. Ógnin er því hornsteinninn í bæði utanríkis og innanríkisstefnu landsins og þessi ógn hefur viðhaldið Kim veldinu í næstum 70 ár.