Stríð í Framsóknarflokknum
Framsóknarflokkurinn logar stafna á milli. Tvær fylkingar hafa myndast vegna komandi formannsframboðs og ásakanir um óheiðarleika og svikabrigsl ganga á víxl. Allir aðalleikendurnir verða í þinglokki Framsóknar eftir kosningar. Verður hann starfhæfur?
Innanflokksdeilur Framsóknarflokksins voru opinberaðar um helgina. Þótt flestum sem fylgjast náið með stjórnmálum hafi verið það full ljóst í lengri tíma að ekki væri eining innan flokksins um formennsku Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar þá kemur sú mikla harka sem færst hefur í slaginn á milli fylkinga undanfarna daga á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að rúmur mánuður er til kosninga og við blasir að flestir aðalleikararnir í hinu dramatísku uppgjöri munu þurfa að starfa saman í þingflokki Framsóknarflokksins að þeim loknum.
Miðað við skoðanakannanir - Framsókn mælist með um tíu prósent fylgi - þá mun sá þingflokkur verða mun minni en hann er í dag. Flokkurinn hefur nú 19 þingmenn en gæti setið uppi með sjö eða átta þingmenn eftir komandi kosningar taki fylgið ekki við sér. Þeir þingmenn sem eru líklegastir að ná þeim sætum skiptast á milli þeirra fylkingar sem takast nú hatramlega á, og eru kenndar við Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra annars vegar og Sigmund Davíð hins vegar.
Hófst allt með bréfi
Sú atburðarás óeiningar sem mun ná hápunkti um komandi helgi á flokksþingi Framsóknarflokksins virðist hafa hafist í lok júlí, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sendi flokksmönnum bréftil að boða endurkomu sína í stjórnmál eftir sjálfskipaða útlægð í kjölfar Wintris-málsins, sem kostaði hann forsætisráðherrastólinn.
Í bréfinu gagnrýni Sigmundur Davíð harðlega þá ákvörðun að flýta kosningum. Sú ákvörðun var tekin af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, þeim Sigurði Inga og Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Þótt að Sigmundur Davíð hafi einungis nefnt Sjálfstæðisflokkinn sem sökudólg í bréfinu þá tók Sigurður Ingi gagnrýnina einnig til sín. Hann staðfesti það í viðtölum um liðna helgi. Það var líka ljóst að Sigmundur Davíð leit ekki svo á að Wintris-málið hefði valdið honum réttmætum skaða. Þvert á móti telur hann sig hafa verið leiddan í gildru að ósekju og vera fórnarlamb frekar en geranda í málinu.
Þeirri óánægju sem grasseraði innan hluta Framsóknarflokksins með Sigmund Davíð var þó haldið innan flokks. Það tíðkast enda ekki hjá þessum 100 ára gamla flokki að viðra óhreina þvottinn sinn. Átökin voru þó sýnileg að því leyti að sá hópur sem styður Sigmund Davíð reyndi að koma í veg fyrir að boðað yrði til flokksþings í aðdraganda kosninga, þar sem fram myndi fara forystukjör. Hann tapaði þeirri baráttu. Öll kjördæmi utan Norðausturkjördæmis, þar sem Sigmundur Davíð situr, vildu flokksþing.
Sóknin að Sigmundi hefst af alvöru
Þann 10. september hófst síðan sóknin að Sigmundi Davíð af alvöru. Þá var haldinn miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins í Hofi á Akureyri. Þar flutti Sigmundur Davíð rúmlega klukkutíma langa ræðu studdur glærum með sterku myndmáli þar sem hann fór yfir stöðu stjórnmála, árangur sinn og það sem hann telur vera þaulskipulagða aðför að sér. Þátttakendur í þeirri meintu aðför eru stórir leikendur í alþjóðafjármálakerfinu og fjölmiðlar víða um heim. Aðgangur að fundinum var opinn öllum á meðan að ræða Sigmundar Davíðs stóð yfir en síðan var skellt í lás á fundinum og einungis þeir sem áttu fundarseturétt fengu að vera áfram inni.
Ekki var gert ráð fyrir því að Sigurður Ingi myndi taka til máls á fundinum, þrátt fyrir að hann væri forsætisráðherra. Hann kvaddi sér því hljóðs undir öðrum lið og hélt ræðu sem vakti mikla athygli. Þar tilkynnti Sigurður Ingi að hann treysti sér ekki til að starfa áfram sem varaformaður flokksins eftir komandi flokksþing vegna samskiptaörðugleika í forystu Framsóknarflokksins. Það duldist engum að þar átti hann við Sigmund Davíð. Innihaldi ræðunnar var síðan skipulega lekið til nær allra fjölmiðla. Ágreiningurinn hafði verið opinberaður.
Þriðjudaginn 13. september birtist svo viðtal við Guðna Ágústsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins og mikinn áhrifamann innan hans í áratugi, á forsíðu Fréttablaðsins. Þar sagði Guðni að hann vildi að Sigmundur Davíð viki og að Sigurður Ingi, sem er úr Suðurkjördæmi Guðna, tæki við. Ljóst var að yfirlýsing Guðna kom stuðningsmönnum Sigmundar Davíð mjög á óvart. Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og Gunnlaugur Sigmundsson, faðir hans, gagnrýndu bæði Guðna í kjölfarið fyrir orð hans um Sigmund Davíð.
Tíu daga svikalogn
Í kjölfarið varð tíu daga svikalogn á undan stormi helgarinnar. Sigmundur Davíð sigraði með yfirburðum í kosningum á kjördæmaþingskosningum í Norðausturkjördæmi þar sem þrír sitjandi þingmenn buðu sig fram á móti honum. Alls fékk formaðurinn 72 prósent greiddra atkvæða. Höskuldur Þórhallsson, helsti innanflokksandstæðingur Sigmundar Davíðs, var niðurlægður í kosningunni og fékk einungis 24 atkvæði, eða um tíu prósent. Þótt Sigmundur Davíð reyndi að mála niðurstöðuna sem mikla stuðningsyfirlýsingu við sig þá blasti við að á bak við sigur hans voru einungis 170 atkvæði hörðustu stuðningsmanna hans í heimakjördæminu. Hún sagði ekkert nema það að Sigmundur Davíð var enn með ágætlega sterka stöðu á meðal þess hóps sem staðið hefur þéttast við bakið á honum frá því að hann varð formaður Framsóknarflokksins árið 2009.
Á fimmtudag, 22. september, fóru fram fyrstu leiðtogaumræður RÚV vegna komandi kosninga. Þar fór Sigmundur Davíð mikinn þegar hann var spurður út í Wintris-málið. Hann gerði athugasemd við það að spyrlar þáttarins gæfu sér að kosningum hefði verið flýtt vegna málsins, hélt því fram að hann hafi aldrei átt hlut í eignum Wintris og Tortóla á Bresku Jómfrúareyjunum væri ekki skattaskjól. Engin þessara fullyrðinga standast nánari skoðun, líkt og Staðreyndavakt Kjarnans sýndi fram á fyrr í dag.
Ljóst var þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem vilja skipta um mann í brúnni sáu sér leik á borði eftir þá frammistöðu. Boðað var til þingflokksfundar með skömmum fyrirvara daginn eftir til að fara yfir málin. Samkvæmt heimildum Kjarnans stóð til að leggja fram bókun á fundinum um að þingflokkurinn styddi Sigurð Inga gegn sitjandi formanni. Slík bókun var ekki samþykkt né lögð fram á endanum en upplifun þingmanna flokksins af honum er svo ólík að það er líkara því að þeir hafi ekki verið að sitja sama fundinn.
Þegar fundinum lauk loks á fimmta tímanum, en hann hafði hafist klukkan klukkan eitt eftir hádegi, sagði Sigmundur Davíð við fjölmiðla að hann mæti stöðu sína góða. Fundurinn hafi ekki verið ætlaður til að kveða upp um forystu, það væri verkefni flokksþings.
Tveimur tímum síðar hófst kvöldfréttatími RÚV. Þar var Sigurður Ingi í beinni útsendingu frá Akureyri, en hann hafði þurft að fara snemma af þingflokksfundinum til að vera viðstaddur ráðstefnu um stjórnarskrármál þar. Í viðtalinu tilkynnti hann um formannsframboð sitt á flokksþinginu í byrjun október. Ákvörðunin væri tekin vegna þeirrar ólgu sem ríkti innan Framsóknarflokksins og í kringum forystu hans.
Átta dögum fyrir flokksþing og tæpum mánuði fyrir kosningar hafði sprengju verið kastað inn í starf Framsóknarflokksins. Í stað þess að stilla saman strengi fyrir kosningabaráttu var flokkurinn klofinn í herðar niður. Og það í beinni útsendingu í sjónvarpi allra landsmanna.
Sápuóperan Framsóknarflokkurinn
Sápuóperan sem fylgdi í kjölfarið hefði slegið öll áhorfendamet ef um leikna þáttaröð hefði verið að ræða. Sigurður Ingi mætti í Vikulokin á Rás 1 snemma morguns á laugardag og sagði að Sigmundi Davíð hefði ekki tekist að endurheimta traust flokksmanna. Eygló Harðardóttir, ritari Framsóknarflokksins og ráðherra í sitjandi ríkisstjórn, opinberaði svo stuðning sinn við Sigurð Inga með því að segja að hún myndi sækjast eftir varaformennsku ef hann yrði formaður.
Sigmundur Davíð mætti síðan í beina útsendingu í kvöldfréttir Stöðvar 2 og sagði Sigurð Inga hafa svikið sig. Hann hafi beðið varaformann sinn um tvennt þegar hann tók við embættinu af honum. Annars vegar að halda sér upplýstum um gang mála og hins vegar að bjóða sig ekki fram gegn honum í formannskjöri í Framsóknarflokknum. Hvorugt hafi gengið eftir.
Sigurður Ingi náði síðan frumkvæðinu á ný í ótrúlegu viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi í gærmorgun. Þar upplýsti hann um að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði verið búinn að ákveða að setja Sigmund Davíð af sem forsætisráðherra á fundi hans 5. apríl síðastliðinn, í kjölfar Wintris-málsins. Ástæðan hafi verið trúnaðarbrestur milli þingflokksins og Sigmundar Davíðs vegna Wintris-málsins og eftirmála þess. Þetta voru nýjar upplýsingar þar sem að opinberlega hefur alltaf verið látið að því liggja að Sigmundur Davíð hafi sjálfur óskað eftir því við þingflokkinn að stíga til hliðar til að liðka fyrir áframhaldandi lífi ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
Sigurður Ingi sagðist hafa viljað gefa formanninum tækifæri til að vinna aftur traust og trúverðugleika og koma í veg fyrir að fylkingar myndu skapast innan flokksins. Þess vegna hafi hann varið formanninn grimmilega út á við. Sigurður Ingi hafnaði því hins vegar að hafa gefið honum nýlegt loforð um að bjóða sig ekki fram gegn honum. Það er þó í andstöðu við það sem Sigurður Ingi sagði á Sprengisandi í byrjun júní. Þar hafnaði hann því að bjóða sig fram til formanns og sagði: „Ég hef sagt að ég muni aldrei bjóða mig fram gegn honum [Sigmundi Davíð].“
Baktjaldarmakk og undirmál
Síðasti sólarhringur hefur farið í að þingmenn og áhrifafólk innan Framsóknarflokksins hefur raðað sér niður á fylkingar. Eygló og þingmennirnir Silja Dögg Gunnarsdóttir og Karl Garðarsson styðja Sigurð Inga opinberlega.
Fráfarandi þingmennirnir Vigdís Hauksdóttir og Þorsteinn Sæmundsson styðja bæði Sigmund Davíð. Vigdís hefur enn fremur hafnað því að þingflokkurinn hafi ætlað að setja Sigmund Davíð af sem forsætisráðherra í apríl. Það gera tveir ráðherrar, Gunnar Bragi Sveinsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, líka. Bæði Gunnar Bragi og Vigdís hafa verið harðorð í fjölmiðlum um ákvörðun Sigurðar Inga. Gunnar Bragi sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að það væri alveg ljóst að það hefði verið baktjaldamakk og undirmál í flokknum. „Fyrir mér er alveg ljóst að það er búið að vera að plana þetta lengi og mér sýnist Sigurður Ingi og Eygló vera saman í einhverskonar liði. Svo þegar maður skoðar myndina þá kannski hugsar maður til baka og hugsar hverskonar kjáni maður er búinn að vera að sjá þetta ekki, hvað er búið að vera í pípunum.“
Óljóst er hvar margir hinna þingmanna flokksins standa.
Verður þingflokkurinn starfhæfur?
Staðan innan Framsóknarflokksins er því þannig í dag að heiftúðleg innanflokksátök eru að rífa flokkinn á hol. Að öllu óbreyttu verður kosið á milli Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs um næstu helgi. Niðurstaða þess uppgjörs mun skilja aðra hvora fylkinguna eftir í sárum og erfitt verður að sjá hana vinna náið með hinni þegar hjaðningavígunum lýkur.
Það verður hún þó að gera. Fyrir liggur nefnilega að framboðslistar Framsóknarflokksins eru tilbúnir í öllum kjördæmum og öll kjördæmaþing hafa þegar kosið forystumenn á lista flokksins. Miðað við fylgi Framsóknar í könnunum, sem mælist í kringum tíu prósent, getur flokkurinn ekki átt von á því að fá fleiri en sjö eða átta þingmenn, haldist það óbreytt fram að kosningum. Í þeim hópi verði flestir þeirra sem opinberlega lýst yfir stuðningi við annað hvorn frambjóðandann í formannsslagnum, og auðvitað bæði Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð. Það verður áhugavert að sjá þennan hóp vinna saman í þingflokki, eða jafnvel ríkisstjórn, að kosningum loknum.
Þótt heiftin sé mikil í dag, og ásakanir um svikabrigsl og samsæri fyrirferðamiklar, þá er ekki útilokað að hægt verði að plástra yfir svöðusárin í flokknum og halda áfram. Fyrir því eru fordæmi úr íslenskri pólitík.
Þrettán dögum fyrir kosningarnar 2013 tilkynnti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í þættinum Forystusætið á RÚV að hann væri að íhuga að segja af sér. Fyrr um daginn hafði Viðskiptablaðið birt niðurstöðu skoðanakönnunar sem sýndi að mun fleiri væru reiðubúnir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá varaformaður flokksins, væri formaður í stað Bjarna.
Þegar Bjarni var spurður út í þetta komst hann við og sagðist hann aldrei hafa kveinkað sér undan árásum andstæðinga sinna og að sér hefði aldrei komið til hugar að hætta sem formaður þess vegna. Það væri hins vegar erfiðara að takast á við gagnrýni innan flokksins og eins yrði hann að skoða þá stöðu sem væri komin upp. Hann sagði að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem könnun sem þessi birtist í Viðskiptablaðinu, sem væri í eigu fyrrverandi kosningastjóra Hönnu Birnu og starfsmenn þar sem styddu Hönnu Birnu. Fylgi Sjálfstæðisflokksins var á þessum tíma að mælast rétt rúmlega 20 prósent. Bjarni sagði þó ekki af sér, flokkurinn fékk 26,7 prósent í kosningunum og varð stærsti flokkur landsins. Bjarni setti Hönnu Birnu ekki út í kuldann heldur gerði hana að ráðherra í ríkisstjórn. Hún sagði síðar af sér embætti vegna lekamálsins og er nú að hætta í stjórnmálum. Staða Bjarna sem flokksformanns hefur á hinn bóginn líkast til aldrei verið sterkari.
Hvort Framsókn takist að vinna úr innanmeinum sínum á sambærilegan hátt verður hins vegar að koma í ljós. Og miðað við þá hörku sem er í þeim slag verður að teljast líklegt að örin sem hann muni skilja eftir verði mun dýpri en um var að ræða hjá Sjálfstæðismönnum.