Repúblikanar og móðgaðir tónlistarmenn

Hvað lag er best spila fyrir stuðningsmennina? Ekki gott að segja. En tónlistarmennirnir verða að samþykkja notkunina á laginu. Svo mikið er víst.

Kristinn Haukur Guðnason
Donald Trump
Auglýsing

Á seinni hluta 20. aldarinnar fóru kosningabaráttur í Bandaríkjunum að fara fram í sí auknum mæli á sjónvarpsskjáum landsmanna. Til að lífga upp á boðskapinn gripu framboðsstjórarnir til þess að nota vinsæl dægurlög í auglýsingum, helst með einföldum texta sem fólk þekkir. Einnig hafa útsendingar frá samkomum, framboðsfundum og landsfundum aukist, sérstaklega með tilkomu internetsins. Þar eru einnig notuð vinsæl lög, bæði við innkomu og útgöngu frambjóðenda. Fyrir þetta borga framboðin ákveðna upphæð til ASCAP, samtaka bandarískra lagahöfunda, eða eiga a.m.k. að gera það. Engu að síður hafa margir tónlistarmenn verið ósáttir við hvernig tónlist þeirra er notuð á pólitískan hátt og í langflestum tilfellum þegar um frambjóðendur Repúblíkanaflokksins er að ræða.

Ronald Reagan

Fyrir 1984 vissu fáir hvaða skoðanir rokkarinnBruce Springsteenhefði á þjóðmálunum. Einhverjir hjá Repúblíkanaflokknum töldu þó líklegt að hann væri á þeirra línu og styddi væntanlega forsetann Ronald Reagan til endurkjörs þá um haustið. Reagan notaði því lagið „Born in the USA“ um stund sem innkomulag á samkomum áður en talsmenn Springsteen bönnuðu notkunina og Springsteen sjálfur hæddist að forsetanum á tónleikum. „Born in the USA“ er eitt misskildasta lag sem til er og notkun Reagan á því bendir til þess að fólk hlusti einfaldlega ekki á textann. Textinn fjallar nefnilega um það hversu illa bandaríska ríkisstjórnin kom fram við þá hermenn sem börðust í Víetnam-stríðinu en ekki hversu frábært land Bandaríkin séu. Springsteen varð mun pólitískari eftir þennan atburð og hefur lýst yfir stuðningi og tekið þátt í kosningabaráttu ýmissa Demókrata, s.s. John Kerry, Barack Obama og Bernie Sanders.

Auglýsing

George W. Bush

Bush verður fyrst og fremst minnst fyrir það rask sem hann olli í Miðausturlöndum. En fyrir þann tíma hafði hann raskað friði nokkurra tónlistarmanna, nefnilega Tom Petty og Sting. Margir stjórnmálamenn hafa nýtt sér lag Petty „I Won´t Back Down“, þar á meðal bæði Clinton hjónin og Ron Paul, guðfaðir Teboðshreyfingarinnar. Þegar Bush yngri notaði lagið reiddist Petty og krafðist þess að framboðið myndi hætta að nota það. Á kjördag spilaði Petty lagið á heimili Al Gore, mótframbjóðanda Bush. Sting gerði athugasemdir við notkun Bush á laginu „Brand New Day“, sem Al Gore hafði reyndar einnig notað. Sem Breti sagðist Sting ekki vilja taka þátt í bandarísku stjórnmálakarpi og Bush framboðið hætti því að nota lagið. Sting bað Al Gore hins vegar aldrei um að hætta að nota það.


John McCain

Fyrrum hermaðurinn og stríðsfanginn John McCain fékk það ómögulega verkefni að reyna að halda forsetaembættinu í höndum Repúblíkanaflokksins eftir valdatíð George W. Bush, í miðju efnahagshruninu haustið 2008. Tónlistarmenn voru einnig missáttir við notkun hans á verkum þeirra í kosningabaráttunni. Meðlimir hljómsveitanna Foo Fighters og ABBA urðu sármóðguð þegar þau komust að því að lögin „My Hero“ og „Take a Chance on Me“ höfðu verið notuð. Þá ákvað country-rokkarinn og Demókratinn Jackson Browne að lögsækja McCain og Repúblíkanaflokkinn fyrir notkun á laginu „Running on Empty“. Browne og McCain sömdu um bætur og sá síðarnefndi baðst opinberlega afsökunar á athæfinu. Notkun McCain á laginu „Right Now“ klauf aftur á móti hljómsveitina Van Halen í tvennt. Hinir hollensku bræður Eddie og Alex Van Halen reiddust en fyrrum söngvarinn Sammy Hagar varð hálf hrærður.


Sarah Palin

Fyrir kosningarnar 2008 fékk Repúblíkanaflokkurinn teboðsdrottninguna Söru Palin sem varaforsetaefni til að lífga upp á framboð John McCain. Það gerði hún svo sannarlega en komst þó aðallega í fréttirnar fyrir misheppuð viðtöl og umdeild ummæli. Palin lenti í deilum við tónlistarfólk vegna notkunar á lögum á framboðsfundum. Má þar nefna country-söngkonuna Gretchen Peters vegna lagsins „Independence Day“ sem fjallar um heimilisofbeldi gegn konum. Peters sagði boðskap lagsins algerlega ósamrýmanlega stefnu Palin í jafnréttismálum. Palin notaði einnig lagið „Who Says You Can´t Go Home“ með rokkhljómsveitinni Bon Jovi. Forsprakkinn Jon Bon Jovi var ekki sáttur þar sem hann studdi og tók virkan þátt í forsetaframboði Barack Obama. Reiðust var samt söngkonan Nancy Wilson úr hljómsveitinni Heart eftir að Palin tók upp á því að nota lag þeirra „Barracuda“ sem innkomulag á samkomum. 

Mér finnst ég algerlega tekin í bólinu. Skoðanir og gildi Söru Palin standa á engan hátt fyrir okkur sem bandarískar konur.


Mitt Romney

Forsetaframboð mormónans Mitt Romney gegn Barack Obama árið 2012 þótti ákaflega litlaust. Hann náði þó að rugga bátnum nokkrum sinnum þegar kom að lagavali fyrir auglýsingar og samkomur.  Soul-tónlistarmaðurinn Al Green sigaði lögfræðingum sínum á frambjóðandann þegar hann notaði lagið „Let´s Stay Together“ í auglýsingu gegn Obama, sem Al Green studdi í kosningunum. Það sama gerði Kanadamaðurinn K´naan þegar lag hans „Wavin´ Flag“ var notað á samkomu hjá Romney. K´naan sagði aftur á móti að Obama mætti nota lagið frítt ef hann kysi að gera það. Undarlegasta lagið sem olli Romney vandræðum í kosningabaráttunni var „Panic Switch“ með rokkhljómsveitinni Silversun Pickups. Texti lagsins virkaði í raun sem satýra á framboð Romney og því íhuguðu meðlimir hljómsveitarinnar að leyfa honum að nota það. Þeir báðu þó um að lagið yrði tekið úr umferð sem var og gert.


Donald Trump

Trump hefur nú slegið öll met hvað varðar andstyggð tónlistarfólks. Hann hefur fengið fleiri hótanir og beiðnir um af láta af spilun en nokkur annar frambjóðandi í sögunni. Hér eru helstu dæmin.

Queen

Lagið „We Are the Champions“ er orðin hálfgerð klisja þegar kemur að ýmsum íþróttaviðburðum og meðlimir hljómsveitarinnar Queen hafa ekki amast við því. Lagið hefur einnig verið notað í pólitískum tilgangi í nokkur skipti án þess að mótmælt væri. En þegar að Donald Trump byrjaði að nota lagið steig hinn dagfarsprúði gítarleikari Brian May fram og bað hann að hætta. Trump neitaði og lét spila lagið á landsfundi Repúblíkana í júlí. Eftir það birtu meðlimir Queen tilkynningu um að þeir væru á móti notkuninni en jafnframt að þeir myndu ekki beita lögfræðingum sínum í málinu


Adele

Framboð Trump hefur notað lögin „Skyfall“ og „Rolling in the Deep“ eftir bresku söngkonuna Adele við nokkur tilefni. Adele var ekki par sátt við þetta og ákvað að banna alla notkun tónlistar sinnar á pólitískum vettvangi. Hún gekk þó ekki svo langt að lýsa yfir fyrirlitningu sínu á frambjóðandanum. Það verður þó að teljast líklegt því að hún hefur áður lýst yfir stuðningi við Verkamannaflokkinn í Bretlandi


Neil Young

Trump notaði lagið „Rockin´ in the Free World“ þegar hann kynnti atvinnumálastefnu sína í prófkjöri Repbúlíkana og einnig í nokkur skipti síðan þá. Kanadíski rokkarinn mótmælti notkuninni til að byrja með en dró svo í land og sagði að það væri í lagi svo lengi sem Trump borgaði fyrir leyfið. Young notaði aftur á móti tækifærið til þess að lýsa sinni sýn á þjóðfélagsmálin sem er töluvert öðruvísi en sýn Trump. Þá lýsti Young einnig eindregið yfir stuðningi við Bernie Sanders í prófkjöri Demókrata....sem byrjaði í kjölfarið að nota lagið umrædda


The Rolling Stones

Trump er mikill aðdáandi bresku rokkhljómsveitarinnar og hefur notað mörg af þeirra lögum við ýmis tilefni. Má þar nefna lögin „Sympathy for the Devil“ og „You Can´t Always Get What You Want“. Þá hefur lagið „Start Me Up“ heyrst sérlega oft í framboðinu. Meðlimir hljómsveitarinnar eru aftur á móti ekki jafn miklir aðdáendur Donald Trump og hafa ítrekað beðið hann opinberlega að hætta að nota lögin


Twisted Sister

Lagið „We´re Not Gonna Take It“ var aðal baráttusöngur Donald Trump þegar hann gaf fyrst kost á sér í prófkjöri Repúblíkana sumarið 2015. Dee Snider, söngvari þungarokkshljómsveitarinnar, og Trump voru miklir mátar eftir að þeir tóku saman upp þættina Celebrity Apprentice. En þegar Trump viðraði þá hugmynd að meina öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna og framboð hans fór almennt að anga af útlendingaandúð þá sagði Snider stopp og bað Trump að hætta að nota lagið. Snider sagði: Minn Donald Trump er Demókrati, minn Donald Trump styður réttinn til fóstureyðinga. Hann er það sem þeir kalla norðaustur-Repúblíkana, félagslega frjálslyndann en efnahagslega íhaldssamann.


REM

Trump hefði varla getað valið sér verri hljómsveit til að abbast upp á og bandarísku rokksveitina REM. Meðlimir REM eru ákaflega frjálslyndir og þekktir yfir aktívisma á ýmsum sviðum. Þá hefur Michael Stipe, söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar, ítrekað lýst yfir stuðningi við frambjóðendur Demókrata í forsetakosningum. Trump hefur notað REM lagið „It´s the End of the World as We Know It (And I Feel Fine)“ margsinnis, bæði í auglýsingum og samkomum og þá aðallega í hræðsluáróðri. Stipe vandaði Trump ekki kveðjurnar: Fokkið ykkur allir saman, þið sorglegu, athyglissjúku, valdsjúku litlu karlar. Ekki nota okkar tónlist eða mína rödd í ykkar heimskulegu og farsakenndu herferð.


Aerosmith

Trump reitti Steven Tyler, söngvara bandarísku rokkhljómsveitarinnar Aerosmith, til reiði fyrir notkun á laginu „Dream On“. Tyler lýsti þó ekki vanþóknun sinni á frambjóðandanum eða stefnu hans heldur kvartaði yfir því að Trump væri að stela tónlistinni. Söngvarinn kjaftstóri notaði tækifærið til að flytja erindi í Huffington Post um höfundarrétt og stöðu tónlistarfólks í dag.


Allee Willis

Willis hefur samið mikið af þekktum lögum fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Donald Trump hefur notað eitt af hennar lögum, „You´re the Best“ úr kvikmyndinni The Karate Kid, sem inngöngulag á samkomum. Willis á reyndar ekki réttinn á laginu sem Joe Esposito söng á sínum tíma en hún fullyrðir að Trump sé svo sannarlega ekki „sá besti“. Þá segir hún einnig að Hillary Clinton megi nota lagið kjósi hún að gera það. 


Luciano Pavarotti

Pavarotti lést árið 2007 en ekkja hans, Nicoletta Mantovani, hefur krafist þess að Donald Trump hætti að nota útgáfu hins mikla tenórs af aríunni „Nessun Dorma“ eftir Puccini. Mantovani segir: Við viljum minna á það að þau gildi bræðralags og samstöðu sem einkenndu feril Luciano Pavarotti eru ósamrýmanleg heimssýn Donald Trump.


Bítlarnir

Nánar tiltekið var það fjölskylda Bítilsins George Harrison sem mótmælti notkun framboðs Trump á laginu „Here Comes the Sun“. Harrison, sem lést árið 2001, bæði samdi lagið og söng það. Lagið var notað við innkomu Ivönku Trump, dóttur Donalds, þegar hún kynnti hann til leiks á landsfundi Repbúblíkanaflokksins í júli. Fjölskyldan sagði þó að þau hefðu sennilega leyft notkunina á Harrison laginu „Beware of Darkness“ við þetta tækifæri. Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fékk 82 prósent atkvæða í fyrsta sætið í prófkjörinu, samkvæmt fyrstu tölum.
Bjarni, Jón og Bryndís efst samkvæmt fyrstu tölum
Kjörstöðum hefur nú verið lokað í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson og Bryndís Haraldsdóttir skipa þrjú efstu sætin nú þegar tæpur þriðjungur atkvæða hefur verið talinn.
Kjarninn 12. júní 2021
Kári Árnason
Einkareknar forvarnir
Kjarninn 12. júní 2021
AGS býst ekki við að jafnmargir muni ferðast á næstu árum og á árunum fyrir faraldurinn.
Segir hátt vægi ferðaþjónustu og stífa kjarasamningagerð vera áhyggjuefni
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að aukinn sveigjanleiki á vinnumarkaði, til dæmis með því að láta laun fylgja framleiðniþróun í meira mæli, gæti komið í veg fyrir að faraldurinn valdi langtímaskaða í hagkerfinu.
Kjarninn 12. júní 2021
Jón Gnarr
Hugmyndin um Ísland og menn sem giftast náfrænkum sínum
Kjarninn 12. júní 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Uppfærslur hjá Apple á öllum stýrikerfum
Kjarninn 12. júní 2021
Ekkert komið fram sem kalli á breytingu á stefnu um hágæða Borgarlínu
Framkvæmdastjóri Betri samgangna svaraði á dögunum erindi sem þrýstihópur sem vill ódýrari Borgarlínu sendi á ýmsa aðila í vor. Í umfjöllun Betri samgangna er meðal annars bent á að það væri dýrast fyrir samfélagið að verja langmestu fé í stofnvegi.
Kjarninn 12. júní 2021
Stefán Ólafsson
Lágtekjuvandi lífeyrisþega
Kjarninn 12. júní 2021
Mona Lisa frímerkjaheimsins og frægasta frímerki Bandaríkjanna saman á uppboði
Á dögunum var mesta fágæti frímerkjaheimsins boðið upp, 165 ára gamalt einstakt frímerki frá Bresku Gvæjana sem seldist á milljarð króna. Á uppboðinu mátti einnig finna þekktasta prentgalla bandarískrar frímerkjasögu – flugvélina Jenny á hvolfi.
Kjarninn 12. júní 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None