Breytingar á lögum um gjaldeyrismál, sem leiða að sér losun á fjármagnshöftum sem hafa verið við lýði á Íslandi frá því í nóvember 2008, voru samþykkt á Alþingi í dag með öllum greiddum atkvæðum. Lögin öðlast þegar gildi. Um er að ræða langstærsta skref Íslands út úr því haftaumhverfi sem slegið var utan um efnahag landsins sem stigið hefur verið frá hruni. Ríkisstjórnin hafði lagt mikla áherslu á að málið yrði samþykkt fyrir kosningar. Íslendingar hafa búið við þær takmarkanir á fjármagnshreyfingum sem fylgja höftum í tæp átta ár.
Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 17. ágúst síðastliðinn. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar og seðlabankastjóri kynntu aðgerðirnar sem það felur í sér á blaðamannafundi daginn áður.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlaði við framlagningu frumvarpsins að beiðnum um undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál muni fækka um 50-65 prósent verði frumvarpið að lögum. Almenningur mun fá að fjárfesta fyrir allt að 100 milljónir króna erlendis í kjölfar þess.
Alls voru sendar úr 52 umsagnabeiðnir og bárust tólf umsagnir. Efnahags- og viðskiptanefnd gerði breytingar á frumvarpinu áður en það var afgreitt sem byggði m.a. á hluta þeirra umsagna.
Tól til inngrips enn til staðar
Þótt að í breytingum á höftunum felist aukið frelsi til fjármagnshreyfingu til og frá landinu þá verða höft ekki afnumin. Enn verða takmarkanir og Seðlabanki Íslands mun áfram hafa ýmis tól til inngrips telji hann þess þurfa.
Strax við gildistöku laganna mun bein erlend fjárfesting innlendra aðila verða ótakmörkuð en áfram háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. Fjárfesting í fjármálagerningum upp að ákveðinni upphæð verður að mestu frjáls og einstaklingar mega kaupa sér eina fasteign á ári erlendis sem má kosta hvað sem er. Þá verður dregið úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri og hún afnumin vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum vegna kaupa á fasteign, faratæki eða fjárfestinga erlendis. Þá munu Íslendingar sem hyggja á ferðalög erlendis ekki lengur þurfa að framvísa flugmiða til að geta keypt gjaldeyri í banka.
Á sama tíma verða heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar auknar. Starfsfólk hans mun því mega safna umfangsmeiri upplýsingum um gjaldeyrisnotkun Íslendinga en áður. Þetta er sagt vera til að hjálpa bankanum við að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika.
Í byrjun næsta árs verður fjárhæðarmörk til fjárfestinga í erlendum fjármálagerningum hækkuð og innstæðuflutningur heimilaður. Það þýðir að hægt verður að leggja inn á bankareikninga á milli landa að nýju án þess flækjustigs sem nú er á slíkri aðgerð. Auk þess stendur til að rýmka heimildir einstaklinga til að kaupa gjaldeyri verulega.
Áætlun kynnt í fyrrasumar
Stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun hafta í fyrrasumar. Aðalatriði þeirrar áætlunar snérust um að ljúka slitum þrotabúa föllnu bankanna og aðgerðir til að taka á hinni svokölluðu aflandskrónusnjóhengju í eigu erlendra aðila sem var föst innan íslenskra hafta. Samið var við kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir gæfu eftir hluta eigna sinna gegn því að fá að fara með aðrar eignir út úr höftum og var gengið frá því samkomulagi á síðasta ári.
Næsta stóra skref var svo aflandskrónuútboð Seðlabanka Íslands, þar sem eigendum slíkra voru boðnir tveir kostir. Annar fólst í því að eigendurnir samþykki að selja krónurnar sínar á genginu 190-220 krónur á hverja evru í útboði sem fór fram 16. júní síðastliðinn. Þeir sem myndu ekki samþykkja að taka þátt í þessu útboði myndi bjóðast að fjárfesta í sérstökum innstæðubréfum útgefnum af Seðlabanka Íslands sem bera 0,5 prósent vexti en vextir á þeim eru endurskoðaðir árlega.
Tvo útboð voru haldin í júní. Fjárhæð samþykktra tilboða í báðum útboðunum var 83 milljarðar króna. Alls voru 188 milljarðar króna boðnir í útboðinu en heildarumfang aflandskrónuvandans var fyrir það um 319 milljarðar króna. Því liggur fyrir að stórir aflandskrónueigendur tóku ekki þátt í útboðunum. Þar er aðallega um að ræða bandaríska fjárfestingasjóði sem hafa boðað málshöfðun gegn íslenska ríkinu vegna málsins.
Þá voru einnig framkvæmdar lagabreytingar sem færðu Seðlabanka Íslands nýtt stjórntæki í tengslum við undirbúning losunar hafta. Um er að ræða reglu um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris sem á að draga úr svokölluðum vaxtamunaviðskiptum.
Allir ofangreindir þættir áttu að marka leiðina að losun hafta á einstaklinga og fyrirtæki á Íslandi. Og nú hefur verið samþykkt frumvarp sem losar um fjármagnshöftin á Íslandi.