Útgjöld til rannsókna- og þróunarstarfs á Íslandi voru samtals 48,5 milljarðar króna í fyrra og jukust umtalsvert á milli ára. Aukninguna er fyrst og fremst hægt að rekja til þess að fyrirtæki eyði meira fé í rannsóknir og þróun. Á einungis tveimur árum jukust útgjöld íslenskra fyrirtækja sem runnu í rannsóknir og þróun úr 18,7 milljörðum króna í 31,4 milljarða króna, eða um 68 prósent.
Það er ekki einungis krónutalan sem fer í rannsóknir og þróun sem er að hækka. Hlutfall af landsframleiðslu sem eytt er í að finna nýjar leiðir til að auka framleiðni og skapa vöxt hefur einnig aukist. Árið 2013 voru útgjöld fyrirtækja og stofnanna í rannsóknir og þróun 1,76 prósent af landsframleiðslu, árið 2014 2,01 prósent og í fyrra 2,19 prósent.
Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Hagstofa Íslands hefur tekið saman. Í samantektinni voru áður útgefnar tölur fyrir árin 2013 og 2014 endurskoðaðar útfrá nýafstaðinni gagnasöfnun stofnunarinnar.
Lagabreyting í ár stórt framfaraskref
Íslenski tækni- og hugverkageirinn hefur kallað mjög eftir því á undanförnum árum að starfsumhverfi hugverkafyrirtækja með alþjóðlega starfsemi á Íslandi yrði gert skaplegra. Fyrr á þessu ári voru samþykktar breytingar á lögum þess efnis, sem þóttu mikið framfaraskref. Í þeim fólst meðal annars að gerð var sú breyting að skattaívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar voru hækkaðar verulega. Hámark slíks kostnaðar til almennrar viðmiðunar á frádrætti fór úr 100 milljónum króna í 300 milljónir króna og úr 150 í 450 milljónir króna þegar um aðkeypta rannsóknar- og þróunarþjónustu er að ræða frá ótengdu fyrirtæki, háskóla eða rannsóknastofnun. Þá fólst einnig í þeim að erlendir sérfræðingar sem ráðnir verða til starfa hérlendis munu einungis þurfa að greiða skatta af 75 prósent af tekjum sínum í þrjú ár.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, sagði í viðtali við Kjarnann um liðna helgi að þessar breytingar hafi verið mjög mikilvægar. Fyrir þessu hafi hann, og fleiri í geiranum, talað í áratug. „Við fundum að nú var tíminn. Það var ekki þessi barátta að koma þessu í gegnum stjórnmálamennina eins og það hefur verið. Fólk var tilbúið að hlusta og skilja. Þegar það er komið á þann stað þá eru þetta svo mikil skynsemismál. Þau eru ekkert umdeild, eða ættu ekkert að vera það. Það er ekki verið að útdeila takmörkuðum gæðum eða verið að taka úr einu og setja í annað.
Við fundum það núna að orðum myndi fylgja aðgerðir. Það hefur oft vantað upp á það og verið meira um orðagjálfur eða 17. júní ræður. Ég vill hrósa Bjarna Benediktssyni og fjármálaráðuneytinu hástert fyrir að hafa komið þessu í gegn.
Ég myndi samt sem áður vilja að þakið á frádrættinum vegna rannsóknar og þróunar yrði alveg afnumið. Núna rúmast bara lítil fyrirtæki undir því. Það leiðir til óeðlilegrar hegðunar. Það eru engin vísindi á bak við þessar tölur sem voru ákveðnar. Þetta er bara einhver þægindarammi sem er ekki studdur neinu sérstöku.“
Hlutur í landsframleiðslu 9,6 prósent
Hagstofa Íslands hóf nýverið að taka sérstaklega saman, og birta, hagtölur fyrir íslenska tækni- og hugverkaiðnaðinn. Við það kom í ljós að hann er sá iðnaður sem á stærstan hlut í landsframleiðslu á Íslandi. Alls er hlutur iðnaðarins í landsframleiðslunni 9,6 prósent. Áður hafði tækni- og hugverkaiðnaðurinn verið flokkaður í hinu víða mengi „eitthvað annað“.
Í nýlegri úttekt Arion banka á ferðaþjónustu á Íslandi sagði að hlutfall greinarinnar í landsframleiðslu sé átta prósent. Standist þær tölur er meiri framleiðni í tækni- og hugverkaiðnaði en í ferðaþjónustu sem stendur.