Ákvörðun Pírata um að boða fjóra flokka til stjórnarmyndunarviðræðna tæpum tveimur vikum fyrir kosningar, sem tilkynnt var um í gær, hefur mælst misvel fyrir. Formenn Vinstri grænna og og Samfylkingarinnar hafa lýst yfir áhuga um að setjast niður með umboðsmönnum Pírata til að ræða málin en forsvarsmenn hinna tveggja flokkanna, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, eru ekki jafn hrifnir af hugmyndinni. Þannig segir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, við Fréttablaðið í dag að um sé að ræða „ákveðin klækjastjórnmál“ sem gerð séu til að stilla fólki upp við vegg fyrirfram. “Þarna er verið að reyna að taka Viðreisn út fyrir sviga og stilla þeim upp sem hækju stjórnvalda. Mér finnst það óþarfi.“
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins sem var ekki boðið til viðræðna við Pírata, segir að útspilið hafi „floppað“ vegna viðbragða Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir við Fréttablaðið að Píratar hafi með þessu „algjörlega kastað grímunni. Ég held að margir hafi litið svo á að hér væri um einhvern óhefðbundinn flokk að ræða en hér er bara um gamaldags vinstriflokk að ræða.“ Málflutningur Guðlaugs Þórs rímar mjög við þann sem haldið er fram í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins, síðast í leiðara dagsins í dag.
Boðuðu fjóra flokka, höfnuðu tveimur
Píratar héldu fréttamannafund í gærþað sem þeir tilkynntu um að flokkurinn sé tilbúinn að hefja strax formlegar stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka út frá fimm megin áherslum Pírata til þess að geta lagt drög að stjórnarsáttmála áður en íslensk þjóð gengur til þingkosninga laugardaginn 29. október næstkomandi.
Flokkurinn segir að hann muni ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með þeim flokkum sem ekki geta skuldbundið sig til ákveðinna verka fyrir kosninga. Flokkarnir sem Píratar vilja hefja viðræður við eru fjórir og formenn þeirra allra hafa fengið sent bréf þess efnis. Þeir eru Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Ræða átti við formennina í komandi viku og í þeirri röð sem þeir eru nefndir hér að ofan. Nú er ljóst að bæði Björt framtíð og Viðreisn hafa ekki áhuga á þeim viðræðum.
Mismunandi lesið í útspilið
Ýmsar bollaleggirnar hafa verið um hver tilgangur Pírata hafa verið með þessu útspili. Fylgi flokksins, sem hefur mælst mjög hátt undanfarin tæp tvö ár, hefur dalað umtalsvert að undanförnu og virðist fyrst og fremst vera að fara til Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, sem hefur óvænt náð sér á strik á lokaspretti kosningabaráttunnar. Ein skýringin sem sett hefur verið fram er sú að með útspilinu sé verið að bregðast við þessari stöðu og reyna að snúa vörn í sókn og gera sig að höfuðmöguleika þeirra sem vilja aðra stjórn en þá sem nú situr.
Opinbera skýringin á því að fara í stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar er sú að þannig sé þetta oftast gert á Norðurlöndunum og kjósendur viti því hvaða áherslur þeir séu að fara að kjósa. Ekki verði svigrúm fyrir að útvatna kosningaloforð í stjórnarmyndunarviðræður að kosningum loknum, líkt og hefð er fyrir hérlendis.
Önnur skýring, sem meðal annars kom fram hjá Bjartri Ólafsdóttur, er að Píratar séu að reyna að stilla Viðreisn upp við vegg. Hugmyndin er þá að með því að hafna samtali til vinstri sé Viðreisn að opinbera sig sem flokkur sem vilji starfa með sitjandi stjórnarflokkum,
Flokkurinn, sem er að minnsta kosti að hluta klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, hefur legið undir ámæli fyrir að ætla sér að verða þriðja hjólið undir vagni núverandi ríkisstjórnar eftir kosningar. Frambjóðendur Viðreisnar hafa verið duglegir að bera þessar ásakanir til baka og margir þeirra sagt að litlir samstarfsfletir séu með stjórnarflokkunum sem ekki vilji neinar kerfisbreytingar.
Pawel Bartoszek, sem situr í öðru sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, sagði til að mynda á Facebook í gær: „Ég hef áður lýst því yfir að ég væri hrifinn af því að mynda stjórn yfir miðju. CAP [Viðreisn, Björt framtíð og Píratar] væri stjórn flokka sem allir væru stofnaðir eftir 2010, en það er eitthvað í meirihlutann þar. CAPS [Viðreisn, Björt framtíð, Píratar og Samfylking] er raunhæfur möguleiki. En það er ljóst að eftir því sem lengra er farið til vinstri þeim mun erfiðara getur reynst erfiðara að ná saman í grundvallarmálum. Þegar kemur að Evrópumálum, landbúnaði, sjávarútvegi, og stóru spurningunni um hlutverk ríkisisn er einfaldlega svolítið langt á milli C [Viðreisnar] og V [Vinstri grænna].“