Samstarf BRICS-landanna í núverandi mynd á upphaf sitt að rekja til fjárfestingabankans Goldman Sachs og frægrar skýrslu Jim O'Neill frá árinu 2001 þar sem Brasilía, Rússland, Indland og Kína voru álitin eiga það sameiginlegt að geta búist við miklum framtíðarhagvexti, meiri en öll G7-löndin samanlögð, ásamt því að búa yfir nægri stærð - hvað varðar fólksfjölda, landafræði, og auðlindir - til að geta orðið drifkraftur alþjóðahagkerfisins á næstu áratugum. BRIC-löndin sem O'Neill stokkaði saman stóðu svo sannarlega undir væntingum; samanlögð verg landsframleiðsla BRIC-landana sem hlutfall af heimsframleiðslu hefur rokið upp úr rúmum 8% árið 2001 og uppí tæp 22% árið 2015.
Hið vinsæla, en þó umdeilda, hugtak naut gífurlegra vinsælda á fyrsta áratug þessarar aldar en þó að mestu innan fjárfestingaheimsins. Á hliðarlínu allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna árið 2006 varð breyting á því þegar leiðtogar BRIC-ríkjanna sáu sér leik á borði og hófu óformlegar viðræður um samstarf. Þetta ferli fékk aukinn byr í segl í kjölfar heimskreppunnar miklu árið 2008; forsendur samstarfs BRIC-ríkjanna byggðist mikið á því sameiginlega viðhorfi ríkjanna að hið vestræna alþjóðastofnanakerfi sem átti sínar rætur í uppbyggingu eftirstríðsáranna sinnti ekki hagsmunum þróunarríkja nógu vel.
Heimskreppan, sem einnig átti vestrænar rætur, virtist undirstrika að hinn pólitíski raunveruleiki alþjóðasamskipta endurspeglaði ekki hinn breytta efnahagslega raunveruleika þeirra. BRIC-ríkin litu á sig sem leiðtoga þróunarríkja og því væri það þeirra skylda að bregðast við því ójafnvægi sem aðgerðarleysi alþjóðastofnana hafði í för með sér. Fyrsti formlegi leiðtogafundur þeirra var haldin í Yekaterínburg í Rússlandi árið 2009, og ríkin fjögur ákváðu að innlima Suður-Afríku í hópinn árið 2011 - hópurinn gat jú vart talist málsvari þróunarríkja án fulltrúa frá Afríku. BRIC varð þar með að BRICS og ljóst var að hugtakið hefði stökkbreyst úr vinsælu nýyrði í fundarherbergjum Goldman Sachs á Fleet Street í London og tekið á sig heilmikla alþjóðastjórnmálalega þýðingu.
Veröld ný og góð
Meginafrakstur samstarfs BRICS-ríkjanna er mögulega sá að millilandaviðskipti á ríkjanna á milli hafa aukist úr 93 í 244 milljarða bandaríkjadala frá árinu 2006 til ársins 2015, eða 163%. Þá hefur samstarf ríkjanna leitt til stofnunar Nýja Þróunarbankans (New Development Bank) árið 2014; sá hefur höfuðstöðvar sínar í Shanghai í Kína og hefur alls veitt um 900 milljónir Bandaríkjadala í lán til „grænna“ verkefna í aðildarlöndum á þessu ári og stefna lánveitingar í tvær og hálfan milljarð Bandaríkjadali á næsta ári. Þessi „BRICS-banki“ er aðskilin frá hinum nýja Innviðafjárfestingabanka Asíu (AIIB) sem Kínverjar settu á laggirnar, Ísland er stofnaðili að, og sem er viðameiri og vandaðri stofnun.
Samhliða því undirrituðu ríkin árið 2015 samning þess efnis að leggja saman í púkkið í hundrað milljarða Bandaríkjadala gjaldeyrisforðasjóð bundin í aðra gjaldeyri en Bandaríkjadalinn til þess að veita aðildarlöndum fleiri valkosti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, stofnun sem hefur gengið illa að umbæta atkvæðavægi aðildarlanda í takt við tímann. Þau sóttu í sama brunn á leiðtogafundi helgarinnar þegar samþykkt var að stofna matsfyrirtæki vegna áhyggna gagnvart því að aðferðafræði ráðandi alþjóðlegra matsfyrirtækja sé óhagstæð þróunarríkjum.
Þá ber að nefna BRICS-samstarfið einnig haft í för með sér umtalsverða aukningu í samvinnu á milli landanna á sviði öryggis-, heilbrigðis-, landbúnaðar-, og rannsóknamála. Til viðbótar við leiðtogafundinn eiga ýmsir ráðherrafundir, málstofur rannsóknarsetra, og hringborð vísindamanna sér stað árið um kring.
Fílahjörðin í herberginu
Óhætt er þó að segja að aðeins hefur dregið úr þeirri bjartsýni sem réði ríkjum í hagspám BRICS-ríkjanna um miðbik fyrsta áratug þessarar aldar. Brasilía er í efnahagsvanda og stjórnmálakrísu og það sama má segja um Suður-Afríku, og Rússland sætir enn umfangsmiklu viðskiptabanni við vestræn ríki eftir innrás sína á Krímskaga. Þróun þessara landa á síðustu árum hefur kynt undir það viðhorf að Indland og Kína séu einu ríkin sem gefa samstarfinu efnahagslegt vægi en upphafsmaðurinn sjálfur, Jim O'Neill, lét þau orð falla að það styttist í að hann þyrfti að kalla hópinn „IC“.
Þó má segja að BRICS sem samstíg hefðbundin pólitísk blokk hefur aldrei verið mjög sannfærandi. Þó að hinar samþykktu yfirlýsingar leiðtogafundanna fara yfir víðan völl - yfirlýsing fundar helgarinnar er rúm sjö þúsund orð að lengd - hafa þær, fyrir utan stofnun þróunarbankans og öðru fjármálasamstarfi, haft í för með sér lítið pólitískt vægi. Millilandatengsl BRICS sín á milli trompa yfirleitt þýðingarmikið pólitískt samstarf og hefur það sýnst berlega í fundarhöldum helgarinnar; forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, umtalaði nágrannalandið Pakistan sem „móðurskip hryðjuverka“ á meðan Kína umtalar tengsl sín við landið sem „sætari en hunang“ - landið er lykilbandamaður í áformum Kína um að koma á viðskiptaleiðum til hafnarborgarinnar Gwadar við Persaflóa og þannig komast hjá því að reiða sig á siglingarleiðir um Suður-Kínahaf og Malakkasund.
Pólitískar forsendur BRICS-samstarfsins hafa aldrei verið mjög sterkar enda á samstarfið ekki uppruna sinn að rekja til hefðbundinna alþjóðastjórnmála. Þrátt fyrir að sýndarmennska hinna árlegu leiðtogafunda skili yfirleitt fáum bitastæðum stefnum þá er stofnun Nýja Þróunarbankans og önnur samstarfsverkefni á sviði fjármála áþreifanlegur árangur - líklegt er að samstarfið haldi áfram svo lengi sem BRICS-ríkin sjái sér fært að stíga álíka pragmatísk skref.