Root

Annus horriblis Sigmundar Davíðs

Ein stærsta alþjóðalega frétt ársins voru Panamaskjölin. Stærsta fréttin í þeim var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Pólitísk dauðaganga þessa einstaka stjórnmálamanns frá því að hann var opinberaður er ekki síður efni í sögubækurnar.

Fátt benti til þess að morgni 15. mars 2016 að íslenskt samfélag væri á leiðinni á hliðina. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði einhvern vegin verið í ólgusjó allt kjörtímabilið þrátt fyrir nánast fordæmalausa efnahagslega uppsveiflu. Evrópumál, veiðigjöld, tilraunir til að breyta skipulagi Seðlabankans, vinnumarkaðsdeilur, svelt heilbrigðiskerfi og endalausar deilur um fjárframlög til RÚV höfðu sett mark sitt á kjörtímabilið.

En ríkisstjórnin hafði lokið sínu stærsta máli, að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir gæfu eftir hluta af eignum sínum, og fram undan átti að vera ár þar sem auknar vinsældir yrðu tryggðar með notkun stöðugleikaframlaga upp á mörg hundruð milljarða króna. Það hefði átt að duga til að hífa fylgi ríkisstjórnarflokkanna upp og skapa aðstæður til áframhaldandi setu.

Þennan dag setti Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, inn stöðuuppfærslu á Facebook. Þar greindi hún frá því að hún ætti erlent félag sem héldi utan um fjölskylduarf hennar. Það héti Wintris. Sigmundur Davíð hefði fyrir misskilning verið tímabundið skráður helmingseigandi félagsins en það hefði nú verið leiðrétt. „Ég veit að í pólitíkinni og umræðunni í kringum hana er allt gert tortryggilegt og í því andrúmslofti sem er í dag er það mjög auðvelt, ekki síst þegar kemur að fjármálum. Þess vegna er bara ágætt að þetta sé allt skýrt. Gefum nú Gróu á leiti smá frí. Er ekki betra að beina orkunni í að tala um eitthvað sem skiptir raunverulega máli? Það er af nógu að taka og hvort sem við erum sammála eða ósammála þá er gott samtal alltaf líklegra til að leiða til einhvers góðs en baknag um samborgarana,“ skrifaði Anna Sigurlaug.

Wintris átti heima á Tortóla og Sigmundur Davíð var kröfuhafi

Eins og eðlilegt er þá vakti stöðuuppfærslan upp mun fleiri spurningar en þau svör sem hún veitti. Kjarninn hafði reynt að fá upplýsingar um erlendar eignir íslenskra ráðamanna í rúmt ár þegar þarna var komið við sögu, en án árangurs. Í því ljósi varð opinberunin enn áhugaverðari.

Næstu daga komst skýrari mynd á málið. Wintris var skráð í skattaskjóli á Bresku Jómfrúareyjunum, inni í félaginu voru að minnsta kosti á annan milljarð króna og Wintris átti kröfur upp á mörg hundruð milljónir króna í bú föllnu bankanna, sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafði unnið að því að semja um.

Þann 17. mars greindi Kjarninn frá ástæðu þess að Anna Sigurlaug hafði ákveðið að gefa „Gróu á leiti smá frí“. Reykja­vík Media ehf., fjöl­miðla­fyr­ir­tæki í eigu Jóhann­es­ar Kr. Krist­jáns­son­ar, ICIJ, alþjóð­leg sam­tök rann­sókn­ar­blaða­manna, þýska dag­blaðið Süddeutsche Zeitung og fleiri erlendir fjöl­miðlar höfðu unnið að fréttaum­fjöllun um eignir Íslend­inga í erlendum skatta­skjólum mánuðum saman og til stóð að fara að birta afrakstur þeirrar vinnu. Jóhannes Kr. staðfesti við Kjarnann að opinberun Önnu Sigurlaugar hefði komið fram eftir að hann hefði sett sig í samband við þáverandi forsætisráðherra vegna umfjöllunarinnar.

Næstu tvær vikur stóð yfir hatrömm varnarbarátta. Opinberað var að Sigmundur Davíð hafði ekki sagt neinum af sínum samstarfsmönnum, hvorki innan flokks né í Sjálfstæðisflokknum, að hann hefði átt milljarða í skattaskjóli né að hann væri kröfuhafi í bú bankanna. Sjálfur hélt hann því stöðugt fram að allir skattar hafi verið greiddir af eignunum en engin gögn hafa verið lögð fram um hverjar eignirnar eru svo hægt sé að staðreyna þá fullyrðingu. Aflandsfélög þurfa nefnilega ekki að skila ársreikningum.

Lykilfólk innan Framsóknarflokksins réðst með ofsa á fjölmiðla fyrir umfjöllun þeirra um aflandsfélagaeign Sigmundar Davíðs. Karl Garðarsson þingmaður skrifaði pistli á Eyjuna þar sem hann ásakaði Ríkisútvarpið um að standa fyrir herferð gegn forsætisráðherra landsins. Kjarnann ásakaði hann um að ganga af göflunum í heilögu stríði. Karl átti síðar eftir að snúast algjörlega í málinu. Þorsteinn Sæmundsson skrifaði grein þar sem hann sagði ófræg­ing­ar­menn ekki þola að ­Sig­mundur Davíð hafi alla kosti sem þá skort­ir. Hann ætti fram­sýni, kjark og dug. Nið­ur­rifið og hæl­bitin efldi hins vegar Sig­mund Davíð í hverri raun.

Viðtalið sem skók heiminn

Í aðdraganda fyrstu helgar aprílmánaðar var greint frá því að sérstakur Kastljósþáttur yrði sýndir á óvenjulegum tíma, sunnudaginn 3. apríl klukkan 18. Þar yrði fjallað um aflandsfélagaeign kjörinna fulltrúa á Íslandi út frá gögnum sem fengin voru úr leka frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sem sérhæfði sig í uppsetningu og utanumhaldi slíkra félaga. Auk þess að uppljóstra um tilvist Wintris og þá myndu gögnin tengja Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Ólöfu Nordal við aflandsfélög. Til viðbótar væru nokkrir sveitarstjórnarmenn í Reykjavík í skjölunum.

Áhorf á þáttinn var nær fordæmalaust. Þorri þjóðarinnar sat stjarfur og fylgdist með því sem fyrir augum bar. Alls voru 92 prósent þeirra sem voru að horfa á sjónvarp þetta sunnudagssíðdegi að horfa á Kastljósþáttinn.

Og í honum opinberaðist af hverju Sigmundur Davíð hafði farið í þá miklu varnarbaráttu sem raun bar vitni. Fjórum dögum áður en að eiginkona hans upplýsti um Wintris á Facebook hafði sænskur sjónvarpsmaður tekið viðtal við forsætisráðherrann og spurt hann út í félagið.

Viðtalið þekkja flestir. Þar laug Sigmundur Davíð þegar hann var spurður út í það hvort hann tengdist aflandsfélagi og þegar hann var nánar spurður út í Wintris sérstaklega. Í þættinum hafði verið opinberað að Sigmundur Davíð hefði sjálfur verið skráður meðeigandi í félaginu en selt hlut sinn til eiginkonu sinnar í árslok 2009, degi áður en svokölluð CFC-reglugerð tók gildi. Þá hafði Wintris þegar lýst kröfum í bú föllnu bankanna.

Sigmundur Davíð reyndi klaufalega að komast hjá því að svara spurningum spyrla þáttarins, neitaði að svara því hvaða eignir væri inni í Wintris og gekk að lokum út úr viðtalinu, sem fór síðan sem eldur um sinu út um allan heim.

Í smástund ríkti dauðaþögn í íslensku samfélagi. Svo varð þjóðin brjáluð.

Fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar

Í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði nokkrum dögum síðar kom fram að 78 prósent allra sem horfðu á umfjöllunina hafi þótt hún fagleg. Sama hlutfall landsmanna var á þeirri skoðun að Sigmundur Davíð ætti að segja af sér embætti, 60 pró­sent vildu að Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, segði einnig af sér emb­ætti og 56 pró­sent vildi að Ólöf Nordal inn­an­rík­is­ráð­herra gerði slíkt hið sama.

Mánudaginn 4. apríl var lögð fram vantrauststillaga á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og forsætisráðherrann þurfti að svara fyrir mál sín í óundirbúnum fyrirspurnum. Efnislega voru þau svör rýr. Hann ákvað þess í stað að eyða öllum svartíma sínum segja aftur og aftur að allir skattar hefðu verið greiddir af eignum þeirra hjóna. Sigmundur Davíð hélt því einnig fram að Tortóla væri ekki skattaskjól, ekki frekar en Svíþjóð.

Fyrir utan þinghúsið áttu sér stað fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar þar sem afsagna og kosninga var krafist. Könnun sem Félagsvísindastofnun gerði daganna eftir þau sýndi að 26 þúsund manns hefðu tekið þátt í þeim.

Á meðan að þetta allt stóð yfir var Bjarni Benediktsson í Bandaríkjunum. Hann hafði misst af flugi sínu heim eftir páskafrí með fjölskyldu sinni á Flórída og lenti ekki í Keflavík fyrr en snemma á þriðjudagsmorgni. Líklega hefur Bjarni aldrei verið jafn feginn að missa af flugvél og þessari, vegna þess að fjarvera hans hélt kastljósinu algjörlega á Sigmundi Davíð, þótt Bjarni hafi einnig verið í Panamaskjölunum.

Fyrsta verk Bjarna eftir heimkomu, sem hafði þá þegar lýst því yfir opinberlega að staða Sigmundar Davíðs væri þröng, var að funda með forsætisráðherranum. Sá fundur fór ekki vel og í kjölfar hans setti Sigmundur Davíð stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagði að ef þing­menn ­Sjálf­stæð­is­flokks­ins treysti sér ekki til að styðja rík­is­stjórn­ina við að ljúka ­sam­eig­in­legum verk­efnum hennar myndi hann rjúfa þing og boða til kosn­inga hið ­fyrsta. Í kjöl­farið flýtt­i ­for­sæt­is­ráð­herra fundi sínum með Ólafi Ragn­ari Gríms­syni, for­seta Íslands, og hélt á Bessa­staði. Þar óskaði hann eftir því að fá heim­ild til þing­rofs, sem Ólafur Ragnar hafn­aði þar sem Sig­mundi Davíð tókst ekki að sann­færa hann um að ­Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, sam­starfs­flokkur hans, styddi slíka til­lögu.

Á þessum tíma hafði Sigmundur Davíð ekkert rætt við þingflokk Framsóknarflokksins um þá fyrirætlun sína að rjúfa þing. Karl Garðarsson, sem hafði nokkrum dögum áður varið Sigmund Davíð með kjafti og klóm, virkaði nokkuð sleginn þegar hann sagði í viðtali við RÚV að formaður hans hefði „kannski átt að segja þingflokknum frá þessu fyrst.“

Þingflokkurinn búinn að ákveða að setja Sigmund Davíð af

Þingmenn Sjálfstæðisflokks voru þá þegar búnir að ákveða að styðja ekki áframhaldandi setu Sigmundar Davíð sem forsætisráðherra. Síðar greindi Sigurður Ingi Jóhannsson, þá varaformaður flokksins, frá því að það sama hefði verið uppi á teningnum hjá þingflokki Framsóknarflokks.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór til Bessastaða til að óska eftir þingrofsheimild hjá forseta Íslands, án þess að ræða við eigin þingflokk né samstarfsflokkinn í ríkisstjórn.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í útvarpsviðtali þann 25. september sagði Sigurður Ingi frá því að þingflokkurinn hefði verið búinn að taka ákvörðun um að setja Sigmund Davíð af sem forsætisráðherra áður en þáverandi formaður hans kom frá Bessastöðum og á þingflokksfund. Ástæðan væri trúnaðarbrestur vegna Wintris-málsins og eftirmála þess.

Í stað þess að þola þá auknu niðurlægingu að þingflokkurinn setti hann af með atkvæðagreiðslu ákvað Sigmundur Davíð að leggja fram sjálfur sömu tillögu og þingflokkurinn ætlaði að gera. Í henni fólst að Sigmundur Davíð hætti sem forsætisráðherra en stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk héldi áfram og að Sigurður Ingi myndi leiða þá ríkisstjórn.

Í kjölfarið funduðu Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi tveir saman. Sigmundur Davíð segir að varaformaður hans hafi þar lofað að bjóða sig ekki fram gegn honum sem formaður Framsóknarflokksins, en Sigurður Ingi hefur hafnað því.

Daginn eftir, þann 6. apríl, tók enn ein dramatísk atburðarásin við í þinghúsinu, þegar mynda átti nýja ríkisstjórn. Þingflokksfundir stjórnarflokkanna drógust mun lengur en tilkynnt hafði verið og einu fréttirnar sem bárust af þeim voru stöðuuppfærslur á samfélagsmiðlum um hvaða álegg væru á þeim pizzum sem pantaðar voru og hverjir hafi verið að borða þær. Mörgum fannst það sýna hversu lítið skynbragð ráðamennirnir hefðu gagnvart alvarleika stöðunnar.

Fyrir neðan stigann upp á efri hæð þinghússins biðu tugir fréttamanna alls staðar frá úr heiminum eftir að niðurstaða yrði kynnt. Sigmundur Davíð kom loks niður af fundi með sínum félögum, óskaði þjóðinni til hamingju með nýja forsætisráðherrann sinn. Hann sagði þó ekki berum orðum hver það yrði, þótt nokkuð ljóst lægi fyrir að Sigurður Ingi væri að fara að setjast í þann stól. Það gerði hins vegar Höskuldur Þórhallsson eftirminnilega.

Eftir að Höskuldur hafði óvart kynnt nýju stjórnina komu leiðtogar hennar, þeir Sigurður Ingi og Bjarni, niður og ræddu við fréttamenn. Þar tilkynntu þeir um myndun nýrrar stjórnar undir forsæti Sigurðar Inga og að Lilja Alfreðsdóttir myndi koma inn sem utanþingsráðherra. Auk þess greindu þeir frá ákvörðun sinni um að flýta kosningum til hausts.

Öllum var ljóst að þeim leið ekki vel. Þeir komu heldur ekki sérstaklega vel fyrir. Bjarni var reiður og árásargjarn og Sigurður Ingi virkaði ekki öruggur í því hlutverki sem hann var kominn í. Eftir að hafa rætt við innlenda fréttamenn þá snéru þeir sér að þeim fjölmörgu erlendu sem hér voru vegna ástandsins. Þeir lýstu ítrekað yfir furðu sinni á því sem gekk á við kollega sína. Einn hinna erlendu blaðamanna spurði Sigurð Inga hvernig hann myndi bregðast við væntanlegu „no confidence vote“. Sigurður Ingi virtist ekki skilja spurninguna.Viðtal Bjarna við franska fjöl­mið­ils­ins Le Petit Journal vakti líka heimsathygli og sýndi Ísland ekki í sérstaklega góðu ljósi.

En ný ríkisstjórn var komin til valda á Íslandi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var farinn í tímabundna útlegð. Hversu lengi sú ríkisstjórn myndi halda var alls óvíst þessa daga í apríl.

En það ótrúlega gerðist og stjórnin stóð af sér mikinn þrýsting um að slíta þingi strax og boða til kosninga. Sigurður Ingi óx mjög sem stjórnmálamaður og náði að skapa ró sem hafði ekki ríkt í íslenskum stjórnmálum árum saman. Sú ró var sérstaklega óvenjuleg eftir þau stanslausu átök sem einkennt höfðu stjórnartíð Sigmundar Davíðs.

Friðurinn var hins vegar úti í lok júlí. Þá sendi Sigmundur Davíð bréf á flokksmenn og boðaði endurkomu sína í stjórnmál. Hann nyti mikils stuðnings innan og utan flokks að eigin mati og engin ástæða væri til þess að kjósa um haustið, líkt og lofað hefði verið. Ljóst var að Sigmundur Davíð ætlaði sé að halda áfram sem formaður Framsóknarflokksins þrátt fyrir allt sem undan hafði gengið og að hann ætlaði að bjóða sig fram í næstu kosningum, hvenær sem þær yrðu. Þá gerði hann af því skónna að hann myndi koma aftur inn í ríkisstjórnina nú þegar hann væri kominn úr leyfi. Augljóst var að Sigmundur Davíð taldi sig eiga að fullu afturkvæmt í stjórnmál og jafnvel í stól forsætisráðherra.

Flokkurinn hans var ekki sammála.

Hver tapaði slagurinn á fætur öðrum

Þeirri óánægju sem grasseraði innan hluta Framsóknarflokksins með Sigmund Davíð var þó haldið innan flokks. Það tíðkast enda ekki hjá þessum 100 ára gamla flokki að viðra óhreina þvottinn sinn. Átökin voru þó sýnileg að því leyti að sá hópur sem styður Sigmund Davíð reyndi að koma í veg fyrir að boðað yrði til flokksþings í aðdraganda kosninga, þar sem fram myndi fara forystukjör. Hann tapaði þeirri baráttu. Öll kjördæmi utan Norðausturkjördæmis, þar sem Sigmundur Davíð situr, vildu flokksþing.

Þann 10. september hófst síðan sóknin að Sigmundi Davíð af alvöru. Þá var haldinn miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins í Hofi á Akureyri. Þar flutti Sigmundur Davíð rúmlega klukkutíma langa ræðu studdur glærum með sterku myndmáli þar sem hann fór yfir stöðu stjórnmála, árangur sinn og það sem hann telur vera þaulskipulagða aðför að sér. Þátttakendur í þeirri meintu aðför eru stórir leikendur í alþjóðafjármálakerfinu og fjölmiðlar víða um heim. Aðgangur að fundinum var opinn öllum á meðan að ræða Sigmundar Davíðs stóð yfir en síðan var skellt í lás á fundinum og einungis þeir sem áttu fundarseturétt fengu að vera áfram inni.

Það var rafmögnuð stemmning í þinghúsinu þegar Sigurður Ingi og Bjarni kynntu nýja ríkisstjórn sína. Stjórn sem alls ekkert var víst að myndi lifa af vikuna.
Mynd: Birgir Þór Harðarson


Ekki var gert ráð fyrir því að Sigurður Ingi myndi taka til máls á fundinum, þrátt fyrir að hann væri forsætisráðherra. Hann kvaddi sér því hljóðs undir öðrum lið og
hélt ræðu sem vakti mikla athygli. Þar tilkynnti Sigurður Ingi að hann treysti sér ekki til að starfa áfram sem varaformaður flokksins eftir komandi flokksþing vegna samskiptaörðugleika í forystu Framsóknarflokksins. Það duldist engum að þar átti hann við Sigmund Davíð. Innihaldi ræðunnar var síðan skipulega lekið til nær allra fjölmiðla. Ágreiningurinn hafði verið opinberaður.

Atlagan að formanninum hefst af alvöru

Á þessum tíma hafði verið ákveðið að kosningar færu fram 29. október. Flokksþing Framsóknarflokksins átti hins vegar ekki að fara fram fyrr en í byrjun október. Sú sérkennilega staða var því uppi þegar fyrstu leiðtogakappræðurnar fóru fram í aðdraganda kosninga að Sigmundur Davíð kom þar fram sem formaður Framsóknarflokksins, án þess að ljóst væri að hann myndi vera í þeirri stöðu nokkrum dögum síðar.

Þar fór Sigmundur Davíð mikinn þegar hann var spurður út í Wintris-málið. Hann gerði athugasemd við það að spyrlar þáttarins gæfu sér að kosningum hefði verið flýtt vegna málsins, hélt því fram að hann hafi aldrei átt hlut í eignum Wintris og að Tortóla á Bresku Jómfrúareyjunum væri ekki skattaskjól. Engin þessara fullyrðinga standast nánari skoðun, líkt og Staðreyndavakt Kjarnans sýndi fram á.

Frammistaða formannsins var síðasti naglinn í líkistu hans að mati margra innan Framsóknarflokksins. Boðað var til þingflokksfundar daginn eftir þar sem stóð til að leggja fram bókun um að styðja Sigurð Inga gegn sitjandi formanni. Hún var á endanum ekki lögð fram en ljóst var í hvað stefndi.

Sigurður Ingi, sem hafði farið snemma af þingflokksfundinum, var síðan mættur í beina útsendingu í fréttatíma RÚV um kvöldið. Þar tilkynnti hann um formannsframboð sitt og sagði ákvörðunina hafa verið tekna vegna þeirrar ólgu sem ríkti innan flokksins og í kringum forystu hans.

Átta dögum fyrir flokksþing og tæpum mánuði fyrir kosningar hafði sprengju verið kastað inn í starf Framsóknarflokksins. Í stað þess að stilla saman strengi fyrir kosningabaráttu var flokkurinn klofinn í herðar niður. Og það í beinni útsendingu í sjónvarpi allra landsmanna.

Sigurður Ingi sigrar

2. október fór formannskosning fram á flokksþingi Framsóknarflokksins. Spennan var áþreifanleg og ljóst að mjótt yrði á mununum. Sigurður Ingi sigraði á endanum með 370 atkvæðum gegn 329 atkvæðum Sigmundar Davíðs. Á meðan að Sigurður Ingi hélt sigurræðu sína og kallaði eftir því að flokkurinn þjappaði sér saman sat Sigmundur Davíð sem fastast í sæti sínu í Háskólabíói, þar sem flokksþingið fór fram. Þegar á leið stóð hann skyndilega upp og rauk út úr bíóinu með fréttamannahjörð á eftir sér.

Næstu daga kenndi Sigmundur Davíð ýmsum um hvernig hafði farið fyrir honum. Hann sagðist hafa orðið vitni að und­ir­för­li, hann­aðri atburða­r­ás, enda­lausum spuna og algjörum skorti á prinsippum í aðdrag­anda og á flokks­þing­inu sjálfu. Hann hélt því einnig fram að mikill fjöldi fólks hafi komið á flokksþingið til að kjósa Sigurð Inga, sem hefði ekki tekið þátt í flokksstarfinu áður. Þetta fólk hafa komið í rút­um. Þegar honum var greint frá frétta­flutn­ingi þess efnis að einu rút­urnar sem hafi verið á staðnum hafi verið rútur með kín­verskum ferða­mönnum sagði hann: „Þetta var ekki hópur af kín­verskum ferða­mönnum sem ég mætti. Ég held að ég hefði alveg áttað mig á því.“

Versta niðurstaða í 100 ára sögu Framsóknar

Kosningarbarátta Framsóknarflokksins var mjög lituð af þessum innanflokksátökum og reiði Sigmundar Davíðs út í eigin flokksmenn, aðra stjórnmálamenn, innlenda og erlenda fjölmiðla, erlenda vogunarsjóði og hvern þann annan sem gagnrýnt hafði hann fyrir framgöngu sína á árinu 2016.

Baráttan var veikburða, kosningaloforðin ótrúverðug og hraðsoðin og niðurstaðan þegar talið var upp úr kjörkössunum sú að Framsóknarflokkurinn fékk sína verstu niðurstöðu í 100 ára sögu sinni, 11,5 prósent atkvæða. Í Norðausturkjördæmi, þar sem Sigmundur Davíð leiddi, fékk flokkurinn 20 prósent greiddra atkvæða, sem er minnsta fylgi sem hann hefur nokkru sinni fengið í kjördæminu.

Sigmundur Davíð tók því illa þegar hann tapaði formannskosningu gegn Sigurði Inga á flokksþingi í byrjun október. Hann rauk út úr salnum og ásakaði samflokksmenn sína um óheilindi.

Staðan eftir kosningar var flókin. Það var ekki hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn og sjö ólíkir flokkar voru allt í einu komnir inn á þing. Bakgrunnur þingmanna hafði aldrei verið jafn ólíkur og mismunandi stefnur flokkanna sjö endurspegluðu mjög þann fjölbreytileika sem nú er til staðar í íslensku samfélagi. Frá því að kosningum lauk hefur verið reynt að mynda ríkisstjórn. Einn flokkur hefur ekki fengið að koma að því borði með formlegum hætti, Framsóknarflokkurinn. Ástæðan sem flestir þingmenn hinna flokkanna gefa fyrir því er að Framsókn sé óstjórntækur flokkur: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Þeim skilaboðum hefur verið skýrt komið á framfæri við forystu Framsóknarflokksins að hún verði fyrst að leysa eigin innanflokksmál áður en flokkurinn geti tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi á ný. Sigmundur Davíð virðist hins vegar ekkert á þeim buxunum að gefa eftir stöðu sína og ljóst að hann ætlar sér aftur til æðstu metorða.

Endurkoma róttækrar skynsemishyggju?

15. nóvember birtist grein eftir Sigmund Davíð í Morgunblaðinu sem má segja að sé nokkurs konar yfirlýsing yfir þá málefnaleið sem hann ætlar sér að feta í upprisu sinni sem stjórnmálamaður. Þar sagði hann að flokkarnir þurfi að bjóða upp á lausnir um hvernig megi laga gallað fjármálakerfi og að þeir þurfi að þora að ræða stór mál á borð við innflytjendamál. „Flokkar þurfa að geta rætt umdeild mál og vera reiðu­búnir að verja hags­muni ólíkra hópa sam­fé­lags­ins. Þora að ræða bæði kosti og galla stórra breyt­inga á borð við alþjóða­væð­ingu, benda á að henni fylgi miklir kostir en líka gall­ar. Hún eigi t.d. ekki að þýða und­ir­boð á vinnu­mark­aði eða und­ir­boð á vörum eins og mat­vöru (af hverju leyfa menn sér að kalla það sér­hags­muna­gæslu ef reynt er að bæta starfs­að­stæður bænda en ekki ef það sama er gert fyrir háskóla­kenn­ara?).“

Það kemur ekki á óvart að Sigmundur Davíð ætli sér að bjóða upp á róttækar lausnir í flóknum málum. Allur hans stjórnmálaferill hefur byggst upp á því. Vandamálið sem hann stendur nú frammi fyrir er hins vegar það að flokkur hans hefur algjörlega misst þolinmæðina fyrir honum. Sá hópur sem sveif inn á þing – og safnaðist í áhrifastöður innan Framsóknarflokksins – eftir kosningasigur á baki peningagjafaloforðum til verðtryggðra fasteignaeigenda vorið 2013, og fylgdi Sigmundi Davíð nánast í blindni, er að mestu horfinn. Þingflokkurinn virðist mjög sameinaður að baki Sigurði Inga sem formanni og í samtölum við þingmenn kemur skýrt fram aukið óþol gagnvart samsæriskenningum, fjölmiðlaárásum og mætingarleysi Sigmundar Davíðs í þingsal. Sú ákvörðun hans að halda eigin afmælishátíð í stað þess að mæta í 100 ára afmæli Framsóknarflokksins, og ganga síðan út úr enn einu stórfurðulegu viðtalinu þegar fréttakona RÚV spurði hann út í stöðuna innan flokksins og mætingu hans í þingsal síðar sama kvöld, hefur ekkert gert nema að auka það óþol.

Leið Sigmundar Davíðs til metorða á ný innan Framsóknarflokksins virðist torsótt, og með öllu ógreiðfær eins og staðan er í dag. Það er ekki hægt að útiloka að maður eins og hann – einstakur stjórnmálamaður í Íslandssögunni sökum þess hversu umdeildur hann er – ákveði að beina sinni róttæku skynsemishyggju í annan pólitískan farveg og feta nýjar leið í stjórnmálum. Leið þar sem hann er innihaldið og tilgangurinn.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar